Ársskýrsla 2014

Starfsárið 2014-2015

Störf stjórnarNýtt lógó frá Michael

Á starfsárinu hefur stjórn BKR lagt megin áherslu á kynningarmál fyrir Bandalag kvenna í Reykjavík, upplýsingamiðlun og á árinu stóðum við fyrir tveimur stórum opnum fundum um efni sem tengist áherslumálum bandalagsins eins og þau eru skilgreind í nýrri stefnuskrá BKR sem samþykkt var á síðasta ársþingi.

Formannaráðsfundir voru haldnir dagana 16. október 2014 og 12. febrúar 2015, og jólafundur bandalagsins var haldinn þann 20. nóvember. Alls tilheyra nú 16 aðildarfélög bandalaginu en POWERtalk á Íslandi gekk til liðs við BKR á síðasta ársþingi.

Opinn fundur um börn og nútímasamfélag

Bandalag kvenna í Reykjavík stóð fyrir opnum fundi um börn og nútímasamfélag á Hótel Reykjavík Natura miðvikudaginn 28. maí 2014. Þar var til umræðu hvaða umhverfi við erum að skapa börnunum okkar, viðverutími barna hjá dagforeldrum og í leikskólum og hugmyndir um styttingu vinnudagsins sem lið í samþættingu atvinnu- og fjölskyldulífs.

Dagskrá fundarins var undirbúin í samstarfi við Miðstöð foreldra og barna, Heimili og skóli – landssamtök foreldra, Félag dagforeldra, Félag foreldra leikskólabarna og Félag leikskólakennara.

Fundarstjóri var Margrét Pála Ólafsdóttir, höfundur Hjallastefnunnar, og flutti hún jafnframt opnunarávarp. Aðrir fyrirlesarar voru Sæunn Kjartansdóttir, sálgreinir, Kristín Dýrfjörð, dósent við Háskólann á Akureyri og Gunnar Örn Gunnarsson, framkvæmdastjóri SLFÍ og fulltrúi BSRB í vinnuhópi velferðarráðuneytisins um samræmingu fjölskyldulífs og atvinnu. Í pallborðsumræðum tóku þátt Hrefna Sigurjónsdóttir, framkvæmdastjóri Heimilis og skóla – landssamtaka foreldra, og Sveinn S. Kjartansson, formaður Félags foreldra leikskólabarna, auk fyrirlesaranna.

Opinn fundur um konur og fjölmiðla og rannsóknarstyrkur BKR

BKR í samstarfi við MARK (Miðstöð margbreytileika og kynjarannsókna), HÍ námsbraut í blaða- og fréttamennsku og Félag fjölmiðlakvenna stóð fyrir opnum fundi um hlut kvenna í fjölmiðlum. Fundurinn var haldinn í Háskóla Íslands föstudaginn 12. september. Þar var til umræðu hvaða umhverfi ríkir inni á fjölmiðlunum og starfsumhverfi kvenna sem starfa á því sviði, hvort munur sé á efnistökum fjölmiðlakvenna og karla og vægi frétta eftir kyni. Þá var fjallað um leiðir til þess að efla konur til þess að koma fram sem viðmælendur fjölmiðla, byggt á fjölmiðlaverkefni Félags kvenna í atvinnulífinu og að lokum um birtingarmynd kvenna í fjölmiðlum um skilaboð til ungra kvenna í dag.

Fundarstjóri var Sigríður Dögg Auðunsdóttir, fyrrverandi ritstjóri Fréttatímans og stofnandi Inspiral.ly verkefnisins.

Í upphafi fundar ávarpaði  formaður BKR, fundargesti og fór yfir aðdraganda fundarins og kynnti samstarfsaðilana. BKR styrkti rannsókn á meistarastigi um konur í fjölmiðlum árið 2013 þar sem kannað var m.a. starfsumhverfið á RÚV og 365. Arnhildur Hálfdánardóttur, sem hlaut styrkinn, var með eitt af 3 erindum fundarins og hér má finna finna ritgerð Arnhildar í heild sinni.

Með erindi voru Arnhildur  Hálfdánardóttir, Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, formaður Félags kvenna í atvinnulífinu sem fjallaði um fjölmiðlaverkefni félagsins og Hildur Knútsdóttir, rithöfundur sem ræddi birtingarmyndir kvenna í fjölmiðlum og þau skilaboð sem hún les sem ung kona. Að hennar mati er sú mynd sem birtist af „hinni venjulegu íslensku konu“ í fjölmiðlum mjög skökk. Mikilvægt sé að fjölmiðlar skoði hvaða birtingarmyndir kvenna þeir sýni og auka þurfi fjölbreytni til þess að endurspegla á réttari máta samfélagið og heilbrigðar fyrirmyndir fyrir bæði ungar konur og menn.

Að lokum voru pallborðsumræður þar sem fyrirlesara tóku þátt ásamt Ingibjörgu Dögg Kjartansdóttur, fyrrverandi aðstoðarritstjóra DV frá Félagi fjölmiðlakvenna; Sigríði Hagalín Björnsdóttur, varafréttastjóra RÚV og Hrund Þórsdóttur, fréttamanni á Stöð 2.  Almenn ánægja var með fundinn og ítrekað mikilvægi þess að halda umræðunni áfram á lofti.

Í tengslum við opna fundinn um konur og fjölmiðla gaf BKR öllum framhaldsskólum í Reykjavík eintak af heimildarmyndinni Miss Representation sem gefin var út árið 2011. Myndin fjallar um það hvernig konur eru túlkaðar í fjölmiðlum og vakti útgáfa myndarinnar tímabæra umræðu á heimsvísu um fjarveru kvenna frá valdamiklum stöðum og takmarkanir á birtingamyndum kvenna og stúlkna í fjölmiðlum. Þá undirstrikar efni myndarinnar mikilvægi kennslu í fjölmiðlalæsi fyrir sjálfstraust ungra kvenna og valdeflingu þeirra.

Opin vinnustofa um sjálfboðaliðastarf og tengslanet

Bandalag kvenna í Reykjavík í samstarfi við Dale Carnegie og Festu – samfélagsábyrgð fyrirtækja, stóð fyrir vinnustofu þann 4. apríl 2014 undir yfirskriftinni “Sjálfboðastarf og tengslanet”.

Vinnustofan var mjög vel sótt og góðar umræður sköpuðust um þátttöku einstaklinga í samfélagsverkefnum og ávinning, hvaða tækifæri eru fyrir hendi, hvaða atriði geta hindrað þátttöku og hvernig megi bregðast við þeim þáttum.

Stjórnendur vinnustofunnar voru Halldóra Proppé frá Dale Carnegie og Ketill B. Magnússon frá Festu – samfélagsábyrgð fyrirtækja og fjölluðu þau um þátttöku í sjálfboðaliðastörfum og ávinninginn af þátttöku – t.d. að efla tengslanetið og læra að virkja það, öðlast nýja reynslu, aukin hamingja og að gefa af sér. Einnig var rætt um borgaralega ábyrgð einstaklinga og þátttöku í samfélagsuppbyggingu og samfélagsábyrgð fyrirtækja.

Upplýsinga- og kynningarmál

Stjórnin hefur lagt ríka áherslu á að bæta upplýsingamiðlun um störf bandalagsins og aðildafélaganna. Heimasíða bandalagsins opnaði formlega vorið 2013 og hefur stjórn BKR lagt sig fram um að birta þar efni tengt starfsemi félagsins og aðildarfélaganna. Þá heldur stjórn BKR einnig úti Facebook síðu þar sem áhersla er lögð á að birta efni sem tengist áherslusviðum bandalagsins og aðildarfélaganna. Einnig sendir stjórn BKR reglulega fréttabréf af starfsemi BKR.

BKR hefur fengið mjög jákvæða umfjöllun í fjölmiðlum á árinu, sérstaklega í tengslum við þá opnu fundi sem við stóðum fyrir á árinu. Formaður BKR hefur tekið þátt í fjölmörgum útvarpsviðtölum, m.a. í Síðdegisútvarpi Ríkisútvarpsins, Morgunútvarpi Bylgjunnar, á X-inu 9,77 og hinum vinsæla spjallþætti Sirrý á Sunnudagsmorgnum á RÁS 2. Þá birti Morgunblaðið viðtal við formann BKR um starfsmenntunarsjóð BKR og Fréttablaðið var með áhugaverða umfjöllun um niðurstöður opina fundarins um börn og nútímasamfélag og birti einnig grein um úthlutunina úr Starfsmenntunarsjóðinum. Þá fjallaði Morgunblaðið einnig um vinnustofuna sem BKR og Dale Carnegie stóðu fyrir í apríl á síðasta ári um sjálfboðastarf og áhrif þess á tengslanet og sjálfsmyndina.

Jafnframt hefur stjórnin lagt sig fram um að ná til fjölmiðla enda mat stjórnarinnar að mikilvægt sé að gera BKR sýnilegra og færa þannig kvenfélögin nær borgarbúum. Árið 2013 birtist viðtal við formann BKR í Fréttatímanum um starfsemi BKR og kvenfélaganna. Önnur grein um glæsilega styrki aðildarfélaganna til ýmissa málefna árið 2012, byggt á samantekt stjórnar BKR um starfsemi bandalagsins 2012, birtist einnig í Fréttatímanum. Þá birti Morgunblaðið viðtal við formann BKR um úthlutun úr starfsmenntunarsjóði ungra kvenna auk þess sem Sirrý Arnardóttir á RÁS 2 bauð formanni bandalagsins til sín í þáttinn Sirrý á sunnudagsmorgni. Þá fjallaði Morgunblaðið, Ríkisútvarpið og fleiri fjölmiðlar um niðurstöður meistararitgerðar Arnhildar Hálfdánardóttur sem BKR styrkti og opna fundinn um konur og fjölmiðla.

Námskeið og sameiginleg verkefni aðildafélaganna

Stjórn BKR stóð fyrir námskeiðinu Örugg tjáning – flottir talsmenn sem Sirrý Arnardóttir, fjölmiðlakona, sá um þar sem fjallað var undirbúning fyrir það að koma fram. Áform eru um að halda fleiri námskeið fyrir aðildarfélögin með það að markmiði að styðja enn frekar við starfsemi þeirra.

Stjórn BKR, í kjölfar fjölda áskorana um sameiginlegt verkefni aðildarfélaga bandalagsins, lagði drög að dömuboði, fjáröflunarviðburði með sólarívafi til styrktar Líf og kvennadeild Landspítalans þann 7. júní – tengt afmæli BKR í lok maí. Silja Ástþórsdóttir, formaður félags um endómetríósu, hafði verið fengin til þess að flytja erindið Marylin Monroe og ég og Brynja Valdís, leikkona, hafði tekið að sér veislustjórn. Vegna lítillar þátttöku var viðburðinum aflýst.

Viðurkenningar BKR

Á ársþinginu í fyrra afhenti BKR í fyrsta sinn viðurkenningar bandalagsins til aðila sem starfa að áherslusviðum og markmiðum félagsins. BKR telur mikilvægt að vekja athygli á því góða starfi sem unnið er á öllum sviðum samfélagsins. Árið 2014 hlaut Herdís Storgaard viðurkenninguna Kona ársins fyrir brautryðjandi starf á sviði slysavarna barna, Kvenfélagið Hringurinn var valið kvenfélag ársins fyrir störf í þágu líknar- og mannúðarmála og uppbyggingu Barnaspítala Hringsins en félagið fagnaði 110 ára afmæli á starfsárinu og hvatningarviðurkenninguna hlaut veftímaritið krítin.is fyrir brautryðjandi umræðu um skólamál.

Starf nefnda

Starfsmenntunarsjóður ungra kvenna

Í ár eru 20 ár síðan sjóðurinn var stofnaður en hann var formlega stofnaður á aðalfundi BKR 18.mars 1995.

Úthlutað var 11 styrkjum fyrir skólaárið 2014-2015 úr Starfsmenntunarsjóði ungra kvenna að heildarupphæð rúmlega 1,2 milljónir króna. Alls hefur verið úthlutað 138 styrkjum  úr sjóðum á þessum árum. Samtals að fjárhæð 15,5 mkr., eða að meðaltali kr. 113.400  á hvern styrkþega. Ekki var úthlutað úr sjóðnum á árunum 1998 og 1999, þar sem ekki var til  nægilegt fé í sjóðnum.

Nefndin útbjóð ný umsóknareyðublöð sem tekin voru í notkun vegna úthlutunar fyrir starfsárið 2014.

Auglýst var eftir styrkjum úr sjóðnum í maí sl og alls bárust   22 umsóknir. Stjórn sjóðsins ákvað að úthluta 11 styrkjum  að fjárhæð kr. 1.230.000.

Móttaka í tilefni afhendingar styrkjanna fór svo fram 28. ágúst 2014 á Hallveigarstöðum og mættu þar styrkþegar ásamt fjölskyldum, fulltrúar stjórnar og formenn aðildarfélaga BKR, ásamt eldri styrkþegum og stuðningsaðilum. Þetta er 17. úthlutun úr sjóðnum.

Thorvaldsensfélagið veitti starfsmenntunarsjóðnum rausnarlegan styrk á árinu að upphæð 500 þús. kr.

Orlofsnefnd Reykjavíkur 2015

Á árinu 2014-2015 voru haldnir 10 stjórnarfundir hjá Orlofsnefnd Reykjavíkur

Nefndin bauð til fundar stjórnum orlofsnefnda annarra sveitarfélaga. Var vel mætt og komu fulltrúar Kópavogs, Gullbringu- og Kjósasýslu og Hafnarfjarðar.

Nú liggur fyrir Alþingi frumvarp til laga um afnám orlof húsmæðra nr. 53/1972 sem var lagt fram af fjórum þingmönnum í október sl. þar sem lögin séu í andstöðu við jafnréttissjónarmið. Hér má finna umsögn Orlofsnefndar Reykjavíkur um frumvarpið.

Árlegur kynningarfundur nefndarinnar var haldinn 3. mars 2014.

Skipulagðar voru 9 ferðir á árinu. Þrjár innanlandsferðir á Suðurland, Vestfirði og dagsferð um slóðir Sigríðar í Brattholti, en fella varð niður ferðina á Suðurland vegna ónógrar þátttöku.

Sex utanlandsferðir voru farnar til Ítalíu/Toskana,  Þýskaland/Bodensee, Eystrasalt, Prag og jólaferðir til til Brussel og um Rínardalinn. Alls ferðuðust með okkur um 300 konur á Gætt hefur verið mikils aðhalds í öllum rekstri svo meira fé væri til niðurgreiðslu á ferðum.

Undanfarin ár hefur nefndin boðið konum í Ljósinu eða á vegum Mæðrastyrksnefndar í ferðir og var það eins á árið 2104. Fjórar konur frá Ljósinu fóru með okkur í dagsferð.

Aðalstarf nefndarinnar er að skipuleggja orlofsferðir, leita tilboða, skrá í ferðir og vera síðan til aðstoðar í þeim ferðum sem farnar eru. Skrifstofan er opin þrjá daga í viku frá 16.30 til 18.00 frá byrjun mars til maí loka. Nefndarkonur skipta vöktunum á milli sín. Reikningar eru gerðir upp af endurskoðanda og síðan sendir til Velferðarsviðs Reykjavíkurborgar. Bæklingar og allar upplýsingar um ferðir eru aðgengilegar á heimasíðu orlofsnefndarinnar.

Skólanefnd Hússtjórnarskólans

Gengið hefur verið frá samningi milli Hússtjórnarskólans og menntamálaráðuneytisins, en skólinn hefur í raun verið samningslaus síðan árið 1998. Þá var skólinn gerður að sjálfseignarstofnun.

Mikil aðsókn er að skólanum og alltaf fleiri sem sækja um en hægt er að taka við. Nemendur eru 24 á önn, þeir eru yfirleitt um og yfir tvítugt og flestir hafa lokið námi í framhaldsskóla.

Nánari upplýsingar um skólann má finna á heimasíðu hans.

 Nefnd um Hallveigarstaði

BKR er einn af þremur eigendum Hallveigarstaða, ásamt Kvenfélagasambandi Íslands (KÍ) og Kvenréttindafélaginu (KRFÍ). KÍ er að ljúka sínu síðasta ári af þrem sem formenn hússjórnar, við tekur  KRFÍ  næstu þrjú árin.  Stjórnina skipa  þrír aðilar frá hverju félagi.  Síðan starfar þriggja manna húsnefnd á milli aðalfunda til þess að framkvæma það sem samþ. var á aðalfundi, hverju sinni. Húsið er rekið sem sjálfseignastofnun, og er BKR með 1/3 hluta.  BKR ásamt KRFÍ sáu um að koma húsi þessu á legg, hugmyndin kom fyrst fram í nóvember 1919 og fer því að styttast í að eitt hundrað ár séu liðin frá því að hugmyndin kom  fyrst fram. Húsið var vígt 1967, en framkvæmdir hófust 1962.

Nefndin hefur haldið fjóra  fundi á árinu 2014 og einn á þessu ári. Miklar framkvæmdir hafa staðið í húsinu á sl árum. Allar þessar framkvæmir bæta ásýnd hússins. Settur hefur verið upp skjávarpi ásamt hljóðkerfi í sal. Sökull og  gluggar á jarðhæðinni voru máluð, jafnfram var skipt um nokkra glugga. Verið er að setja upp salerni fyrir fatlaða inn á ganginum við fundarsalinn. Rétt er byrjað að setja upp lyftu fyrir fatlaða til að auðvelda aðgengi að fundarsalnum á jarðhæðinni. Lyftan verður sett upp í stiganum sem gengur frá anddyrinu á 1. hæð niður á jarðhæðina.  Búið er að skipta um alla  gluggum, á allri  vesturhlið hússins, þ.e.a.s. þeirri sem snýr út að Túngötu.

Árið 2017 verður því samhliða 100 ára afmæli BKR fagnað 50 ára afmæli Hallveigarstaða og munu félögin þrjú sem standa að baki byggingunni skipuleggja hátíðardagskrá.

Nefnd um málefni eldri borgara – Gleðigjafarnir

Markmið nefndarinnar er að heimsækja dvalar- og hjúkrunarheimili aldraðra í Reykjavík. Gleðigjafarnir heimsækja reglulega 10 heimili: Dalbraut 21-27, Fell í Skipholti, Fríðuhús, Foldabæ, Furugerði 1, Grund, Hrafnistu, Norðurbrún 1, Seljahlíð og Skjól. Boðið er upp á upplestur, stuttar sögur og gamanmál, svo er fjöldasöngur með gítarundirleik.

 

Starf aðildarfélaga BKR

Aðildarfélög Bandlags kvenna í Reykjavík árið 2014 voru 16 talsins, en PoWERtalk International á Íslandi gekk til liðs við bandalagið á 98. þingi BKR í mars árið 2014. Aðildarfélögin sinna margvíslegum verkefnum og er heildarupphæð veittra styrkja áætluð rúmlega 40 milljónir árið 2014. 110 milljóna króna gjöf í tilefni af 110 ára afmæli Hringsins sem var afhent 26. janúar 2014 var samþykkt á árinu 2013 og kemur því fram í reikningum þess árs.

Meðal þeirra verkefna sem hlutu styrki eru ýmsar stofnanir innan heilbrigðiskerfisins þar sem börnum er sinnt (m.a. Barnaspítali Hringsins og BUGL), Dyngjan áfangaheimili fyrir konur og átröskunarteymi á LSH, Konukot, Thorvaldsenssjóðurinn til styrktar sumardvalar fyrir sykursjúk börn og unglinga og rannsókna á málefnum þeim viðkomandi, starfsemi Styrktarfélags lamaðra og fatlaðra í Reykjadal, söfnun fyrir línuhraðal, barnastarf í kirkjum, Rannsóknarstofa í krabbameinsfræðum, uppbygging félagsmiðstöðvar við Austurbæjarskóla og fleira.

Fjáröflunarleiðir aðildarfélaganna eru margvíslegar, þar má nefna útimarkaði, sölu í verslunum (Thorvaldsensfélagið rekur Thorvaldsensbasarinn í Austurstræti og Hvítabandið verslun í Furugrund), kaffi- og kökusölu, sölu á prjónavörum, happdrætti og bingó svo dæmi séu nefnd.

Aðildarfélög BKR árið 2014 í stafrófsröð: Félag Framsóknarkvenna, Hringurinn, Hvítabandið, Hvöt, Kvenfélag Árbæjarsóknar, Kvenfélag Breiðholts, Kvenfélag Bústaðarsóknar, Kvenfélagið Fjallkonurnar, Kvenfélag Fríkirkjunnar í Reykjavík, Kvenfélag Hallgrímskirkju, Kvenfélag Langholtssóknar, Kvenfélag Seljasóknar, Kvenstúdentafélag Íslands – Félag háskólakvenna, POWERtalk á Íslandi, Silfur – Nútíma kvenfélag, Thorvaldsensfélagið.