Árið 2024 var ánægjulegt og gleðiríkt fyrir Bandalag kvenna í Reykjavík. Stjórnin fundaði með reglubundnum hætti ásamt því að haldnir voru tveir formannaráðsfundir á árinu. Húsfundir með öðrum eigendum Hallveigarstaða voru einnig á sínum stað.
Ársþingið var haldið í kvennaheimilinu Hallveigarstöðum sem við erum mjög stoltar af. Þingið var vel sótt. Þóranna Þórarinsdóttir ritari BKR hélt fyrirlestur um jákvæða sálfræði og ung söngkona Emma Dís Tómasdóttir kom og söng fyrir okkur. Ásdís húsmóðir Hallveigarstaða töfraði svo fram veitingarnar eins og henni einni er lagið.
Árið 2024 var Ásdís valin kona ársins hjá BKR fyrir störf í þágu kvenfélaganna og Marta María skólameistari Hússtjórnarskólans fékk hvatningarverðlaun BKR fyrir störf í þágu skólans.
Á árinu var tekið viðtal við formann BKR í Morgunblaðinu. Einnig lánaði BKR leikmuni í þáttunum um Frú Vigdísi.
Afmælis fundurinn okkar var á sínum stað með veitingum frá Ásdísi. Vilborg Þ.K.Bergman formaður fór yfir sögu BKR og Rannveig Jóhannsdóttir kom og sagði okkur frá því hvernig var að vera kvenstjórnandi á Indlandi.
Fulltrúar úr stjórn BKR þáðu boð Færeysku sendiskrifstofunnar á Kjarvalsstaði í tilefni Fánadags Færeyinga. Bandalag kvenna í Reykjavík tók þátt í minningarathöfn um Ólafíu Jóhannsdóttur þar sem Vilborg formaður hélt m.a. tölu um Ólafíu.
17. júní var svo opið hús í Hússtjórnarskólanum þar sem fulltrúar BKR aðstoðuðu á viðburðinum. Formanni BKR ásamt stjórnarkonum Hússtjórnarskólans var boðið á ýmsa viðburði skólans. En við í BKR erum mjög stoltar af því starfi sem unnið er í skólanum og frábærum skólameistara skólans.
Við hjá BKR tókum svo þátt í viðburði á Kynjaþingi ásamt Kvenréttindafélaginu og Kvenfélagasambandi Íslands. Bandalag kvenna í Reykjavík var aðili að kvennafrídeginum 2024 líkt og árið 2023 og er einnig aðili að Kvennaárinu 2025. Formaður BKR er í stjórn og framkvæmdastjórn fyrir hönd BKR. Við hjá BKR hvetjum öll okkar aðildarfélög til að tileinka árið konum og halda viðburði tengda Kvennaárinu 2025.
Í nóvember var svo fræðslufundur haldinn í formi Pub quiz og voru spurningarnar úr sögu kvennabaráttunnar.
Jólafundurinn okkar var svo í desember með hefðbundnu sniði. Ásdís sá um veitingar, Dagbjört Teodórsdóttir flutti hugvekju, Þóranna Þórarinsdóttir las jólasögu og Birta Birgisdóttir sögn nokkur lög. Happdrætti starfsmenntunarsjóðs ungra kvenna var á sínum stað. Mörg flott fyrirtæki sáu sér fært að styrkja okkur að þessu sinni og kunnum við þeim kærar þakkir fyrir. Í ár úthlutuðum við styrkjum í Starfsmenntunarsjóði ungra kvenna líkt og við höfum gert undanfarin ár.
Við í stjórn BKR horfum stoltar til starfa okkar á árinu 2024 og hlökkum til þess sem framundan er á árinu 2025. En þess má geta að stjórnarstarfið er allt unnið í sjálfboðavinnu.
Kær kveðja
Vilborg Þ.K.Bergman formaður BKR