Samantekt frá málþinginu “Úr glatkistunni”

Þann 29. október stóð Bandalag kvenna í Reykjavík fyrir opnu málþingi um heimildir í sögu kvenna. Málþingið var framlag BKR í viðburðadagskrá í tilefni af 100 ára afmælisárs kosningaréttar kvenna á Íslandi og var sprottið úr þjóðarátaki í söfnun á skjölum kvenna í tilefni afmælisársins. Erindi fundarins snéru að öflun og úrvinnslu heimilda en saga kvenna hefur fengið litla athygli í sögubókum og sýningum, m.a. vegna þess að minna hefur varðveist af skjölum þeirra en karla.

Skjalasöfn kvenna eru oft af öðru meiði og persónulegri en skjalasöfn karla, heimildir á borð við bréf og dagbækur sem veita innsýn í líf einstaklinga og fjölskyldna. Skjöl kvenna fjalla  jafnan m.a. um fjölskylduna, matarsiði, handavinnu, heilsu og fleira, á meðan skjöl karla kunna að innihalda oftar skrif um stjórnmál, veðurfar og atvinnu. Varðveitt skjöl kvenna eru merkilegar heimildir sem fylla upp í heildarmynd um líf og sögu Íslendinga.

Á málþinginu voru þrjú erindi flutt sem lutu öll að heimildum í kvennasögu. Rithöfundurinn Gunnhildur Hrólfsdóttir sagði frá tilurð nýútkominnar bókar sinnar „Þær þráðinn spunnu – afrek kvenna í aldanna rás“ sem er sýnishorn úr sögu kvenna í Vestmannaeyjum 1835 – 1980. Gunnhildur tók dæmi af konunum sem fluttu víðsvegar um landið eftir gosið í Heimaey, en lítið hefur verið fjallað um.

Erla Hulda Halldórsdóttir, sérfræðingur í kvenna- og kynjasögu við Sagnfræðistofnun HÍ, fjallaði um sögu kvenna og spjöld sögunnar og tók dæmi um stöðu vinnukvenna sem eignuðust börn með húsbændum sínum.

Fréttakonan Alma Ómarsdóttir lokaði málþinginu með erindi um heimildarmynd sína um Stúlkurnar á Kleppjárnsreyjum. Við gerð myndarinnar fékk Alma aðgang að gögnum á Þjóðskjalasafni Íslands, sem eru lokuð almenningi og hafa verið innsigluð í áratugi. Myndin segir frá myrkum kafla í Íslandssögunni, þegar ungar konur voru beittar þvingunum og sviptar frelsi fyrir það eitt að eiga í samskiptum við erlenda setuliðsmenn á tímum seinni heimsstyrjaldarinnar.

Fundarstjóri var Andrea Björk Andrésdóttir, sagnfræðingur og stofnandi Reconesse Database, gagnagrunns um konur í sögunni.

Málþingið var mjög vel sótt og fjörugar umræður spunnust í kjölfar fyrirlestranna meðal fundargesta, sem sammæltust um að full ástæða væri til að veita málefninu nánari athygli.

Í umræðum kom m.a. fram að hlutur kvenna í sögubókum sem kenndar eru í grunnskólum landsins og framhaldsskólum er verulega skertur en konur eru í kringum 1/4 þeirra sem þar er fjallað um. Erla Hulda Halldórsdóttir hefur m.a. fjallað um ástæður þessa og meðal markmiða Reconesse Database er að leiðrétta þennan kynjahalla.

Skjöl karlmanna 67% en skjöl kvenmanna 33% af einkaskjalasöfnum á Borgarskjalasafni Reykjavíkur. BKR hvetur alla til þess að kíkja í geymslur sínar og senda inn til varðveislu skjöl frá ömmum og langömmum, frænkum og öðrum mætum konum sem þar kunna að leynast því þetta eru mikilvægar heimildir sem gefa fyllri mynd af lífi og störfum íslenskra kvenna. Tekið er við skjölum í handritasafni Landsbókasafns Íslands – Háskólabókasafns, Kvennasögusafni Íslands, Þjóðskjalasafni Íslands, Borgarskjalasafni og héraðsskjalasöfnum og eru starfsmenn safnanna boðnir og búnir að veita ráðsgjöf og aðstoð varðandi frágang og skil á gögnunum.

Á myndinni eru frá vinstri talið: Erla Hulda Halldórdóttir, Andrea Björk Andrésdóttir (fundarstjóri),  Gunnhildur Hrólfsdóttir, Alma Ómarsdóttir, Fanney Úlfljótsdóttir (stjórnarkona í BKR) og Hjördís Lára Hreinsdóttir (stjórnarkona í BKR)

Á myndinni eru frá vinstri talið: Erla Hulda Halldórdóttir, Andrea Björk Andrésdóttir (fundarstjóri), Gunnhildur Hrólfsdóttir, Alma Ómarsdóttir, Fanney Úlfljótsdóttir (stjórnarkona í BKR) og Hjördís Lára Hreinsdóttir (stjórnarkona í BKR)

BKR gefur framhaldsskólum í Reykjavík eintak af heimildarmyndinni Miss Representation

Fanney Úlfljótsdóttir, gjaldkeri BKR, afhendir Sigurrós Erlingsdóttur, aðstoðarskólastjóra Menntaskólans við Sund, eintak af heimildarmyndinni Miss Representation

Fanney Úlfljótsdóttir, gjaldkeri BKR, afhendir Sigurrós Erlingsdóttur, aðstoðarskólastjóra Menntaskólans við Sund, eintak af heimildarmyndinni Miss Representation.

Í haust stóð BKR fyrir opnum fundi um konur og fjölmiðla og í tengslum við þann viðburð var ákveðið að gefa öllum framhaldsskólum í Reykjavík eintak af heimildarmyndinni Miss Representation sem gefin var út árið 2011. Myndin fjallar um það hvernig konur eru túlkaðar í fjölmiðlum og vakti útgáfa myndarinnar tímabæra umræðu á heimsvísu um fjarveru kvenna frá valdamiklum stöðum og takmarkanir á birtingamyndum kvenna og stúlkna í fjölmiðlum. Þá undirstrikar efni myndarinnar mikilvægi kennslu í fjölmiðlalæsi fyrir sjálfstraust ungra kvenna og valdeflingu þeirra.

Rannsóknir í Bandaríkjunum sýna að ungt fólk í dag fylgist með fjölmiðlum allt að helming dagsins. Meirihluti efnisins sýnir konur sem hlutgerðar eða sem kyntákn. Slíkar birtingarmyndir hafa langtímaáhrif á bæði ungar konur og menn. Þá sýna rannsóknir hér á landi að konur eru aðeins um þriðjungur þeirra sem birtast í fjölmiðlum auk þess sem birtingarmynd þeirra er á annan veg en karla. Ójöfn umfjöllun um kynin í fjölmiðlum eiga sinn þátt í að skapa og viðhalda kynjaskekkjunni í þjóðfélaginu þar sem staðlaðar kynjaímyndir skipa stóran sess.

Við hjá BKR vonumst til þess að eintakið af myndinni nýtist nemendum í útlán á bókasafni og kennurum til kennslu, bæði á sviði fjölmiðlalæsis og birtingarmynda kynjanna sem og ensku. Hugmyndir um hvernig nýta má myndina í kennslu má finna víða á netinu, m.a. á vefnum therepresentationproject.org, en umræðuefnin geta t.d. verið um hvernig fjölmiðlar móta viðhorf og menningu í samfélaginu, hvernig hægt er að bera kennsl á jákvæðar og sterkar konur í fjölmiðlum, og hvernig staðalímyndir kynjanna takmarka bæði stráka og stelpur.

media-lit

Samantekt – Opinn fundur um konur og fjölmiðla

Arnhildur myndFöstudaginn 12. september stóð Bandalag kvenna í Reykjavík (BKR) í samstarfi við MARK (Miðstöð margbreytileika og kynjarannsókna), HÍ námsbraut í blaða- og fréttamennsku og Félag fjölmiðlakvenna fyrir opnum fundi um hlut kvenna í fjölmiðlum. Fundurinn var haldinn í Háskóla Íslands. Þar var til umræðu hvaða starfsumhverfi ríkir inni á fjölmiðlunum, hvort munur sé á efnistökum fjölmiðlakvenna og karla og vægi frétta eftir kyni. Þá var fjallað um leiðir til þess að efla konur til þess að koma fram sem viðmælendur fjölmiðla, byggt á fjölmiðlaverkefni Félags kvenna í atvinnulífinu og að lokum um birtingarmynd kvenna í fjölmiðlum um skilaboð til ungra kvenna í dag.

Fundarstjóri var Sigríður Dögg Auðunsdóttir, fyrrverandi ritstjóri Fréttatímans og stofnandi Inspiral.ly verkefnisins.

Í upphafi fundar ávarpaði Ingibjörg Rafnar Pétursdóttir, formaður BKR, fundargesti og fór yfir aðdraganda fundarins og kynnti samstarfsaðilana. BKR styrkti MA rannsókn um konur í fjölmiðlum árið 2013 og liggja niðurstöður þeirrar rannsóknar nú fyrir en rannsakandinn kemur m.a. inn á starfsumhverfið á RÚV og 365. Arnhildur Hálfdánardóttur var með eitt af 3 erindum fundarins en hér má finna finna ritgerð Arnhildar í heild sinni ásamt fjölmiðlaumfjöllun um niðurstöður hennar.

Arnhildur Hálfdánardóttir var með erindið „Aðengi eða áhugi? Munur á efnistökum og vægi frétta eftir karla og konur“. Markmið rannsóknarinnar var að varpa ljósi á hvort munur væri á efnistökum karla og kvenna og hvort framlag þeirra væri jafn mikils metið. Niðurstöðurnar leiddu í ljós að munur er þar á og að fréttir karla raðast frekar framarlega í fréttatímann en fréttir kvenna. Marktækur munur hafi verið á fjölmiðlinum Stöð 2 og Ríkisútvarpinu. Glærur frá erindi Arnhildar.

Næst tók til máls Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, formaður Félags kvenna í atvinnulífinu, sem kynnti fjölmiðlaverkefni félagsins. Markmið verkefnisins er að auka ásýnd kvenna í fjölmiðlum en niðurstöður mælinga Creditinfo um viðmælendur í fréttum sýna að karlar eru 70% viðmælenda í ljósvakaþáttum og í fréttum á meðan kvenkyns viðmælendur eru 30% á tímabilinu 1. febrúar 2009 til 30. ágúst 2013. Útgangspunktur fjölmiðlaverkefnis FKA er að endurspegla samfélagið og auka ásýnd kvenna í fjölmiðlum, vekja til jákvæðrar vitundar um að konur búa yfir heilmikilli þekkingu og reynslu sem hægt er að nýta í frétta- og þjóðfélagsumræðu. Með fjölbreytni í viðmælendahópi eru fjölmiðlar líklegri til að endurspegla samfélagið. Verkefnið hófst í nóvember 2013 og hefur fengið mjög góð viðbrögð. Því lýkur formlega haustið 2017. Glærur frá erindi Þórdísar Lóu.

Þórdís Lóa

Að lokum fjallaði Hildur Knútsdóttir, rithöfundur, um birtingarmyndir kvenna í fjölmiðlum og þau skilaboð sem hún les sem ung kona. Að hennar mati er efni sem sérstaklega er höfðað til kvenna grundvallað á því að þær eru neytendur og gert er ráð fyrir að þær séu ævinlega að leyta sér að nýjum leiðum til fegrunar og/eða grenningar. Oft sé talað til þeirra í boðhætti og sú mynd sem birtist af „hinni venjulegu íslensku konu“ sé mjög skökk. Mikilvægt sé að fjölmiðlar skoði hvaða birtingarmyndir kvenna þeir sýni og auka þurfi fjölbreytni til þess að endurspegla á réttari máta samfélagið og heilbrigðar fyrirmyndir fyrir bæði ungar konur og menn. Glærur frá erindi Hildar.

Hildur Knúts

PallborðsumræðurAð lokum voru pallborðsumræður þar sem fyrirlesara tóku þátt ásamt Ingibjörgu Dögg Kjartansdóttur, fyrrverandi aðstoðarritstjóra DV frá Félagi fjölmiðlakvenna; Sigríði Hagalín Björnsdóttur, varafréttastjóra RÚV og Hrund Þórsdóttur, fréttamanni á Stöð 2. Í umræðunum kom fram að fjölmiðlar eru ekki með reglubundna úttekt á viðmælendum sínum eftir kyni (þó svo að einstaka þátttastjórnendur hafi tekið það fyrirkomulag upp, t.d. Landinn) og á RÚV eru úttektir gerðar á kynjahlutfalli viðmælenda af og til. Einnig kom fram að ekki var almenn vitund um ákvæði jafnréttislaga um að fjölmiðlum bæri að skila inn skýrslum þess efnis til yfirvalda.

Almenn ánægja var með fundinn og ítrekað mikilvægi þess að halda umræðunni áfram á lofti.

Myndir frá viðburðinum má nálgast á Facebook síðu BKR

Velferðarráðuneytið veitti styrkt fyrir viðburðinum.

 

Opinn fundur um konur og fjölmiðla

Konur og fjölmiðlarFöstudaginn 12. september kl. 15-17 standa Bandalag kvenna í Reykjavík í samstarfi við MARK (Miðstöð margbreytileika og kynjarannsókna), HÍ námsbraut í blaða- og fréttamennsku og Félag fjölmiðlakvenna fyrir opnum fundi um hlut kvenna í fjölmiðlum. Fundurinn verður haldinn í Háskóla Íslands, Odda, stofu 101.

Velferðarráðuneytið styrkir viðburðinn.

BKR styrkti MA rannsókn um konur í fjölmiðlum árið 2013 og liggja niðurstöður þeirrar rannsóknar nú fyrir en rannsakandinn kemur m.a. inn á starfsumhverfið á RÚV og 365. Arnhildur Hálfdánardóttur verður með eitt af 3 erindum fundarins en hér má sjá umfjöllun um niðurstöður rannsóknar hennar: Umfjöllun mbl.is
Og hér má nálgast ritgerðina í heild sinni.

Dagskrá fundarins: 

  • “Aðgengi eða áhugi? Munur á efnistökum og vægi frétta eftir karla og konur.” Kynning á niðurstöðum MA rannsóknar. Arnhildur Hálfdánardóttir, MA í blaða- og fréttamennsku
  • Kynning á fjölmiðlaverkefni Félags kvenna í atvinnulífinu (FKA), Þórdís Lóa, formaður FKA
  • “Batnandi konum er best að lifa”. Upplifunarfrásögn – hvað lesa ungar konur úr skilaboðum fjölmiðla. Hildur Knútsdóttir, rithöfundur

Pallborð: Fyrirlesarar, Ingibjörg Dögg Kjartansdóttir, fyrrverandi aðstoðarritstjóri DV frá Félagi fjölmiðlakvenna, Sigríður Hagalín Björnsdóttir, varafréttastjóri RÚV og Hrund Þórsdóttir, fréttamaður á Stöð 2.

Fundarstjóri: Sigríður Dögg Auðunsdóttir, fyrrv. ritstjóri Fréttatímans og stofnandi Inspiral.ly.

Léttar veitingar í boði að fundi loknum.

Viðburðurinn á Facebook

Hlökkum til þess að sjá ykkur sem flest!

Styrkur til ritunar meistararitgerðar – Birtingarmyndir kvenna í íslenskum fjölmiðlum

Bandalag kvenna í Reykjavík í samstarfi við Stjórnmálafræðideild HÍ og námsbraut í blaða- og fréttamennsku auglýsir styrk til ritunar meistararitgerðar um birtingarmyndir kvenna í íslenskum fjölmiðlum. Miðað er við lokaverkefni í meistaranámi, að lágmarki 30 ECTS einingar. Verkefnið þarf að hefjast sem fyrst og er miðað við að því ljúki ekki síðar en vorið 2014.

Verkefnið hentar meistaranema í kynjafræði, stjórnmála- og stjórnsýslufræðum, blaða- og fréttamennsku eða almennum félagsvísindum og skal beita kynjafræðilegu sjónarhorni á verkefnið. Markmið verkefnisins er að m.a. að kanna kynjahlutföll í fjölmiðlum og að hvaða marki mismunandi birtingarmyndir búi að baki mismunandi sýnileika kynjanna. Gert er ráð fyrir að rannsóknin verði gagnagreining, spurningakönnun og/eða viðtalsrannsókn.

Styrkurinn verður veittur nema sem sækir um í samráði við leiðbeinanda sinn. Umsókn skal vera á bilinu 200–500 orð þar sem fram kemur nánar hvernig umsækjandi telur rétt að standa að rannsókninni og hvaða öðrum spurningum sé mikilvægt að svara. Leiðbeinandi getur ekki sótt um fyrir ótiltekinn nemenda.

Styrkurinn er að upphæð kr. 300.000 og verður hann greiddur út í tvennu lagi, 150.000 þegar þriðjungi vinnunnar er lokið að mati leiðbeinanda og 150.000 þegar verkefni er lokið. Styrkveitendur fá kynningu á niðurstöðum auk eintaks af rannsókninni.

Umsóknarfrestur er til og með 15. september 2013.

Umsókn og ferilskrá, ásamt staðfestingu leiðbeinanda, skal senda á skrifstofu Stjórnmálafræðideildar HÍ í Gimli við Sturlugötu, 101 Reykjavík eða á elva@hi.is

HÍ lógó

BKR Lógó

Viðtal við nýjan formann BKR í Fréttatímanum

Fréttatíminn birti í dag viðtal við nýjan formann Bandalags kvenna í Reykjavík um stefnumótun og breyttar áherslur í starfseminni.

Viðtal við nýjan formann BKR

Fréttatíminn, 07.06 2013 | Dægurmál

Ný kynslóð nútímavæðir kvenfélögin

Ingibjörg Rafnar Pétursdóttir er rétt rúmlega þrítug og nýkjörin formaður Bandalags kvenna í Reykjavík. Hún segir verkefni kvenfélaga margþæ„Bandalagið er núna að skoða breyttar áherslur eftir breytingar síðustu ára og við viljum setja kraft í stefnumótun og gera starfsemina aðgengilegri,“ segir Ingibjörg Rafnar Pétursdóttir, nýr formaður Bandalags kvenna í Reykjavík. Að mati Ingibjargar er bandalagið svolítið gleymdur vettvangur fyrir samræður félaga sem starfa að sömu markmiðum, bættri stöðu kvenna, mennta-, velferðar- og fjölskyldumálum. Um 1.200 konur starfa innan þeirra fimmtán félaga sem aðild eiga að Bandalagi kvenna í Reykjavík.

Konur söfnuðu fyrir Landspítalanum

Þessa dagana vinnur stjórn Bandalags kvenna í Reykjavík að stefnuskrá þar sem lögð er áhersla á að efla bandalagið og gera það sýnilegra út á við. Innan bandalagsins hafa starfað kvenfélög í bland við stéttarfélög og styrktarfélög. „Strax í upphafi var þetta mjög framsækin hreyfing og helsti vettvangur umræðna um bætta stöðu kvenna og samfélagslegrar þjónustu. Bandalagið beitti sér til dæmis fyrir því að konur byðu sig fram í opinber embætti og nefndir og færa má rök fyrir því að kvenfélögin hafi að vissu leyti lagt grunninn að heilbrigðiskerfinu eins og það er í dag. Það voru til dæmis konur sem söfnuðu fyrir Landspítalanum,“ segir Ingibjörg og bætir við að bandalagið hafi knúið á um stofnun barnaheimila og sorphirðu á vegum sveitarfélaga á sínum tíma. „Í flestum tilfellum eru þetta grasrótarfélög sem standa fyrir ákveðnum samfélagslegum verkefnum í nærumhverfi sínu og ná þannig einstakri tengingu við íbúana og geta metið hvar þörf er fyrir aðstoð. Þetta eru öflug félög eins og Hringurinn sem leggur áherslu á að bæta aðstöðu veikra barna, Thorvaldsensfélagið og fleiri,“ segir Ingibjörg.

Kvenfélög á tímamótum

Að mati Ingibjargar standa kvenfélögin nú á tímamótum. „Kvenfélögin hafa ávallt sinnt svokölluðu „frumkvæðishlutverki“ – það er að koma auga á málefni sem þarfnast athugunar og finna ný úrræði til að leysa ýmsan vanda. Í gegnum árin hafa ríkið og Reykjavíkurborg tekið yfir rekstur og umsjón með mörgum þeim málaflokkum og verkefnum sem aðildarfélög bandalagsins höfðu frumkvæði að. Hinsvegar hafa aðildarfélögin og bandalagið vakað yfir þeim málaflokkum sem þeim eru nærri hjarta. Sem dæmi má nefna að konur innan Bandalagsins söfnuðu fyrir stækkun fæðingardeildar Landspítalans á sínum tíma,“ segir Ingibjörg.

Vantar fleiri ungar konur

Að sögn Ingibjargar eru uppi áhyggjur hjá sumum kvenfélaganna um nýliðun þó staðan sé misjöfn. „Kvenfélögin hafa verið lítið fyrir að flagga starfsemi sinni og ákveðinn misskilningur virðist þess vegna ríkja um verkefnin. Margir virðast halda að kökubakstur og prjónaskapur sé helsta áhersla þeirra en verkefnin eru mun margþættari en svo þó konurnar nýti vissulega hæfileika sína í bakstri og hannyrðum til að safna fyrir góðum málefnum,“ segir Ingibjörg. Nýjasta kvenfélagið heitir Silfur og eru flestar konurnar þar á milli þrítugs og fertugs. „Svo má ekki gleyma því að í Hringnum eru konur á öllum aldri. Innan okkar vébanda eru líka nokkrar kvennahreyfingar stjórnmálaflokka, eins og félög framsóknar- og sjálfstæðiskvenna.“

Styrkja ungar konur til náms

Þessa dagana tekur Bandalag kvenna í Reykjavík á móti umsóknum um styrki frá Styrktarsjóði ungra kvenna í Reykjavík. Sjóðurinn veitir styrki til ungra kvenna sem hætt hafa námi og vilja halda áfram en stendur ekki til boða að taka lán hjá Lánasjóði íslenskra námsmanna. „Sjóðurinn var settur á stofn árið 1995 eftir að rannsóknir á vegum Rauða krossins sýndu að það væru einstæðar, lítið menntaðar konur sem ættu hvað erfiðast uppdráttar í samfélaginu. Bandalag kvenna í Reykjavík ákvað að mæta þessum vanda og veitir konum styrki, til dæmis vegna bókakaupa og greiðslu skólagjalda,“ segir Ingibjörg. Umsóknarfrestur rennur út 19. júní næstkomandi.

Rannsóknir á stöðu kvenna í dag

Í haust úthlutar Bandalag kvenna í Reykjavík styrk, í samstarfi við Háskóla Íslands, til lokaverkefnis í meistaranámi þar sem birtingarmynd kvenna í fjölmiðlum er skoðuð. „Þessi styrkur er hluti af nýjum áherslum hjá Bandalaginu. Það er mikilvægt að skoða hvaða skilaboð ungar konur fá varðandi staðalímyndir í fjölmiðlum. Ég geri ráð fyrir því að í framhaldinu verði fastur liður hjá okkur að styrkja rannsóknir sem snúa að áherslumálum Bandalags kvenna í Reykjavík, stöðu kvenna í nútíma samfélagi, mennta-, velferðar- og fjölskyldumálum,“ segir Ingibjörg. Þema ársins 2013 hjá Bandalaginu er launajafnrétti og stendur til að halda fyrirlestraröð um kynbundinn launamun næsta haust. ,,Þessi verkefni eru öll hluti af okkar nýju áherslum og því markmiði að gera starfsemina nútímalegri, segir Ingibjörg.“

Dagný Hulda Erlendsdóttir

dagnyhulda@frettatiminn.is

Jafnréttisnefnd BKR stofnuð

Á 97. þingi Bandalags kvenna í Reykjavík þann 9. mars sl. var jafnréttisnefnd BKR stofnuð.

Í jafnréttisnefnd sitja:

  • Alda M. Magnúsdóttir, Kvenfélagi Árbæjarsóknar
  • Helga Einarsdóttir, Kvenstúdentafélaginu
  • Ingibjörg Rafnar Pétursdóttir, Kvenfélaginu Silfur, formaður BKR
  • Kristjana Sif Bjarnadóttir, Kvenfélagi Langholtssóknar
  • Sigríður Hallgrímsdóttir, Hvöt, formaður jafnréttisnefndar

Á þinginu var jafnframt ákveðið að þema árisins 2013 væri “launajafnrétti”. Jafnréttisnefnd vinnur nú að skipulagningu fundarraðar fyrir haustið 2013 þar sem fjallað verður um kynbundinn launamun. Nánar auglýst síðar.