Thorvaldsensfélagið

Thorvaldsensfélagið Thorvaldsensfélagið var stofnað 19. nóvember 1875. Miklar breytingar hafa orðið í þjóðfélaginu síðan Thorvaldsensfélagið var stofnað. Samt er full þörf fyrir góðgerðar- og líknarfélag þar sem sjálfboðaliðar leggja öðrum lið með starfi sínu. Thorvaldsensfélagið hefur átt því láni að fagna að margar góðar konur hafa komið til liðs við félagið. Þrátt fyrir aldur sinn er félagið mjög virkt og lifandi með tæplega 80 félagskonur. Thorvaldsensfélagið hefur alla tíð haft mörg járn í eldinum við fjáröflun, svo sem rekstur Thorvaldsensbazars, útgáfu og sölu jólamerkja, jólakorta, gjafakorta og minningarkorta. Einnig hefur félagið útgáfu- og dreifingarrétt á bókinni Karíus og Baktus, eftir Torbjörn Egner, á Íslandi.

Engin félagskona fær greitt fyrir vinnu sína, en ef hægt er að meta ánægju af samstarfi og vináttu til launa, þá eru þau ríkuleg. Það er gæfa Thorvaldsensfélagsins að stjórnendur fjölmargra fyrirtækja og stofnana, sem og samborgararnir veita félaginu ómetanlegan stuðning með viðskiptum sínum og hafa með því hjálpað til við að létta undir með þeim er minna mega sín í þjóðfélaginu. Thorvaldsensfélagið hefur alla tíð borið hag barna fyrir brjósti, lét meðal annars byggja vöggustofu árið 1963 og dagheimili 1968 sem félagið gaf til borgarinnar.

Í áraraðir hefur Thorvaldsensfélagið styrkt barnadeildina sem var á Landakoti og síðar á Landspítalanum í Fossvogi til tækjakaupa og annarra hluta er þörf hefur verið á, en eftir að þær voru lagðar niður stofnaði félagið sérstakan sjóð við Barnaspítala Hringsins til styrktar sykursjúkum börnum og unglingum með 10 milljón króna framlagi. Félagið styrkir einnig fjölskyldur veikra barna, unglingastarf, vímuvarnir,verkefni í þágu aldraðra og margs konar landssafnanir.

Innan félagsins eru ráð, nefndir og stjórnir sem skipuleggja og sjá um hina ýmsu þætti starfseminnar. Aðalstjórn félagsins er skipuð sjö konum sem sjá um félagsmál, fundi, rekstur hússins Aðalstræti 4 og almenn stjórnarstörf. Barnauppeldissjóður hefur sérstaka stjórn, formann og fjóra meðstjórnendur. Þeirra verksvið er að sjá um útgáfu jólamerkja og halda utan um sölu þeirra, hafa umsjón með minningarkortum og dreifingu og sölu á bókinni Karíus og Baktus. Í kortanefnd eru fimm konur, þær sjá um útgáfu, pökkun og dreifingu jólakorta og gjafakorta og halda utan um sölu þeirra. Bazarráð er skipað fimm konum sem skipta með sér að fá konur til starfa í versluninni og eru verslunarstjóranum innan handar. Á hverju ári er tilnefnt í ferðanefnd, sem sér um sumarferðalagið, en það er eins dags ferð í júnímánuði. Einnig er tilnefnt í afmælisnefnd og sér hún um afmælishátíð þann 19. nóvember ár hvert. Nýjasta nefndin er menningarnefndin. Í hana eru tvær konur tilnefndar tvisvar til þrisvar á ári og þær sjá um svokallaða menningardaga, en þá er farið á tónleika eða á sýningar.

Af þessu má sjá að konur í Thorvaldsensfélaginu eru mjög virkar í félagsstarfinu, en þó situr engin kona lengur en sex ár samfellt í stjórn. Thorvaldsensfélagið er eitt af stofnfélögum Bandalags kvenna í Reykjavík og á þar yfirleitt fulltrúa í stjórn og nefndum. Þá er félagið í Kvenfélagasambandi Íslands og hefur í fjölmörg ár átt fulltrúa í Mæðrastyrksnefnd. Í þessum félögum eru haldnir fundir og námskeið sem konur Thorvaldsensfélagsins sækja. Það er gaman að vera í Thorvaldsensfélaginu og félagskonur halda vel saman og skemmta sér og ferðast saman innanlands og utan.

Hefur þú áhuga á að taka þátt? Hafðu samband við Önnu Birnu Jensdóttur, formann Thorvaldsensfélagsins, netfang: annabirna (hjá) thorvaldsens.is eða kíktu á heimasíðu félagsins, www.thorvaldsens.is