Hússtjórnarskólinn í RVK

Bandalag kvenna í Reykjavík er bakhjarl Hússtjórnarskólans í Reykjavík og skipar 5 manna stjórn skólans á árlegu þingi BKR. Bandalag kvenna í Reykjavík stóð fyrir fjársöfnun til kaupa á húsnæði fyrir skólann og ýmsir aðilar og félagasamtök gáfu húsgögn og styrktu skólann með fé til kaupa á öðrum nauðsynjum.

Ljósmyndasafn Reykjavíkur GRO-002-132-2-2. Ljósmyndari Gunnar Rúnar Ólafsson.

Ljósmyndasafn Reykjavíkur GRO-002-132-2-2. Ljósmyndari Gunnar Rúnar Ólafsson.

Hússtjórnarskólinn í Reykjavík, Sólvallagötu 12, hóf starfsemi sína 7. febrúar 1942 og hefur starfað óslitið síðan. Árið 1998 var skólinn gerður að sjálfseignarstofnun sem rekin er með framlagi frá ríkissjóði. Mikil og góð námsaðsókn er við skólann.

Námið er ein önn, sem hefst að vori eða hausti. Nýnemar þurfa að hafa lokið grunnskólaprófi og vera orðnir 16 ára. Skólinn tekur við 24 nemendum, þar af geta 15 búið á heimavist.

Kennd er matreiðsla, ýmis konar handavinna svo sem, prjón, hekl og vefnaður og útsaumur, svo og saumaskapur, þarna læra nemar einnig að þrífa, þvo og strauja.

Skólastjóri er Margrét Sigfúsdóttir.

Nánari upplýsingar um starfsemi Hússtjórnarskólans má finna á heimasíðu skólans, www.husstjornarskolinn.is og einnig er Hússtjórnarskólinn á Facebook.

Hér má finna skemmtilega umfjöllun Ríkisútvarpsins um starfsemi skólans frá 26. apríl 2013. Hlusta hér á Flakk Lísu Pálsdóttur um Hússtjórnarskólann 27. apríl 2013.

Árið 1940 var kosin nefnd af Bandalagi kvenna í Reykjavík til að hafa forystu um stofnun húsmæðraskóla í Reykjavík og árið 1941 voru sett lög um stofnun húsmæðraskóla í borginni. Forystukonur kvenfélaganna vildu fá húsmóðurstarfið viðurkennt sem starf sem krefðist menntunar og því var eitt helsta baráttumál þeirra að komið yrði á skipulagðri húsmæðrafræðslu.