Lög og reglur BKR

I. kafli

1. grein: Nafn og heimilisfang

Bandalag kvenna í Reykjavík (BKR) er félagasamband með heimilisfang og varnarþing í Reykjavík.

 2. grein: Sambandssvið

Aðild að BKR hafa kvenfélög í Reykjavík og félög karla og kvenna sem starfa að markmiðum þess.

3. grein: Markmið

  1. Að efla kynningu og samstarf aðildarfélaganna.
  2. Að stuðla að aukinni menntun kvenna.
  3. Að vinna að velferðar- og fjölskyldumálum.
  4. Að standa fyrir hverskonar menningar- og fræðslustarfsemi.

II. kafli Stjórnun BKR

4. grein: Stjórn BKR

a) Í stjórn BKR eru formaður, gjaldkeri og ritari, sem kosnir eru á ársþingi (sjá kosningar). Auk þess skal skipa fjórar konur frá fjórum aðildarfélögum til þriggja ára. Þær sitja aðeins eitt kjörtímabil í senn, þá verða skipaðar konur frá öðrum aðildarfélögum. Þær skipta með sér verkum (þ.e. varaformaður, varagjaldkeri, vararitari og meðstjórnandi) og mynda alls sjö manna stjórn.

b) Stjórnin fer með æðsta vald BKR milli ársþinga og samþykkir birtingu efnis á vegum BKR í fjölmiðlum.

c) Stjórnarfundir skulu vera minnst tvisvar sinnum á ári og oftar ef þörf krefur. Formaður eða varaformaður boðar til stjórnarfunda og semur dagskrá ásamt stjórn. Óski þrjár stjórnarkonur eftir aukafundi er skylt að boða til hans.

Einfaldur meirihluti atkvæða ræður úrslitum á stjórnarfundum.

d) Á haustfundi BKR skal gera tillögu um hvaða sameiginlegt málefni aðildarfélögin sem heild gætu unnið að ár hvert í samræmi við markmið BKR og skal hún lögð fram á hverju ársþingi.

Stjórn hefur umsjón með undirbúningi ársþings.

e) Formaður eða varaformaður undirritar skjöl BKR ásamt ritara og/eða gjaldkera eftir því sem við á.

f) Ritari eða vararitari bókar það sem gerist á stjórnarfundum, sendir aðilum stjórnar fundargerðir og annast bréfaskriftir BKR. Ritari og vararitari sjá um skjalavörslu, hafa umsjón með útgáfu ársskýrslu hverju sinni og koma samþykktum og ályktunum ársþings á framfæri.

g) Gjaldkeri eða varagjaldkeri sér um innheimtu gjalda og allar greiðslur. Hann leggur fram reikninga BKR á síðasta stjórnarfundi fyrir ársþing, uppsetta og áritaða af skráðum skoðunarmanni félagsins og undirritaða af félagskjörnum skoðunarmönnum. Reikningarnir skulu liggja frammi á ársþingi. Gjaldkerar annast fjárhagsáætlun í samráði við stjórn. Skal hún lögð fram á ársþingi en áður send með fundarboði.

5. grein: Ársþing

a) Ársþingið fer með æðsta ákvörðunarvald BKR. Það skal haldið fyrir lok mars ár hvert. Ársþing skal boða bréflega með mánaðar fyrirvara ásamt dagskrá.

Ársþing telst löglegt ef löglega er til þess boðað.

b) Hvert aðildarfélag hefur heimild til að senda 3 fulltrúa með atkvæðisrétt á þingið, en áheyrnarfulltrúum er heimil seta á ársþingi BKR með málfrelsi og tillögurétti.

c) Þingið kýs fundarstjóra, ritara, kjörbréfanefnd og aðra starfsmenn.

Formaður gefur skýrslu um starfsemi BKR og leggur fram drög að starfsáætlun næsta árs.

Gjaldkeri leggur fram áritaða og endurskoðaða ársreikninga og fjárhagstillögur til samþykktar eða synjunar.

Nefndir og aðildarfélög flytji og skili skýrslu um störf sín.

Tillögur sem liggja fyrir þinginu eru kynntar.

Mál sem óskað er eftir að tekin verði til afgreiðslu á ársþingi þarf að leggja fram skriflega í síðasta lagi í upphafi þingsins.

Ritarar þingsins hverju sinni ganga frá fundargerð og skal hún liggja frammi á fyrsta stjórnarfundi eftir þingið.

d) Kjörbréfanefnd ákveður atkvæðamagn þingsins samkvæmt kjörbréfum og telur atkvæði við atkvæðagreiðslu og kosningu.

Á ársþingi ræður meirihluti atkvæða úrslitum mála. Ef atkvæði eru jöfn er mál fallið. Þingið ákveður lagabreytingar og þarf 2/3 hluta greiddra atkvæða til að lögin öðlist gildi.

e) Ársþingið ákveður aðildarfélagsgjöld í BKR. Árgjald yfirstandandi árs skal greitt fyrir setningu þingsins.

f) Minnst tveimur mánuðum fyrir ársþing skal stjórn skipa uppstillingarnefnd sem tilnefnir konur í embætti og fastanefndir BKR. Framboð í stjórn eða nefndir á vegum BKR skulu berast uppstillingarnefnd eða stjórn bandalagsins ekki seinna en viku fyrir ársþing. Tillögur uppstillingarnefndar skulu berast stjórn BKR og formönnum aðildarfélaganna tveimur vikum fyrir ársþing.

6. grein: Kosning

a) Ársþing BKR kýs formann, gjaldkera og ritara til þriggja ára í senn. Eitt árið skal kjósa formann, annað árið ritara og þriðja árið gjaldkera. Stjórnarkonur eru kjörgengar til formanns, gjaldkera og ritara án tillits til þess hve lengi þær hafa starfað í stjórn, eða frá hvaða aðildarfélagi þær koma.

Kosning skal vera bundin og leynileg ef um er að ræða fleiri konur til sama sætis, annars skoðast þær sjálfkjörnar. Falli atkvæði að jöfnu skal kjósa að nýju milli þeirra tveggja sem flest atkvæði fengu. Endurkjósa má í þessi embætti einu sinni.

b) Kjósa skal í fastanefndir á ársþingi. (ath. frávik sbr. III. kafla 7. gr. c), d) og e).

c) Tveir félagskjörnir skoðunarmenn eru kosnir árlega á þingi BKR til eins árs í senn.

III. kafli Starfsemi

7. grein: Fastanefndir

a) Fastanefndir BKR eru:

  • Orlofsnefnd húsmæðra
  • Stjórn starfsmenntunarsjóðs
  • Fjáröflunarnefnd starfsmenntunarsjóðs
  • Skólanefnd Hússtjórnarskóla Reykjavíkur
  • Stjórn og húsnefnd Kvennaheimilisins Hallveigarstaða.

b) Í fastanefndum skulu vera 3-7 konur, kosnar á ársþingi til þriggja ára í senn. Kosning skal vera bundin og leynileg ef um er að ræða fleiri konur til sama sætis, annars skoðast þær sjálfkjörnar.

c) Í stjórn starfsmenntunarsjóðs ungra kvenna skulu sitja formaður eða varaformaður BKR ásamt formanni fjáröflunarnefndar og einum meðstjórnanda sem kosinn er á ársþingi til þriggja ára í senn (sbr. kosningu í fastanefndir).

d) Í fjáröflunarnefnd skulu sitja gjaldkeri BKR og 3-7 konur kosnar á ársþingi og kjósa þær sér formann.

e) Formaður, gjaldkeri og ritari BKR eru sjálfkjörnir í stjórn Kvennaheimilisins Hallveigarstaða. Stjórn kýs þrjá varamenn úr sínum hópi (sbr. reglugerð Kvennaheimilisins Hallveigarstaða).

f) Heimilt er stjórn BKR að kjósa nefndir til þess að starfa með stjórninni að tilteknum málaflokkum og stefnumálum þess. Skulu þær starfa í ákveðinn tíma eða þar til þær hafa lokið ætlunarverki sínu. Slíkar nefndir skulu gera grein fyrir störfum sínum, tillögum og/eða ályktunum við stjórn BKR áður en til framkvæmda kemur.

g) Stjórn boðar til fyrsta fundar nýskipaðra nefnda. Á fyrsta fundi skipta nefndir með sér verkum og kjósa sér formann, ritara og aðra starfsmenn eftir þörfum.

8. grein: Ný aðildarfélög

Æski félag inngöngu í BKR skal skrifleg umsókn ásamt lögum félagsins send stjórn BKR.

Úrsögn úr BKR verður að hafa borist skriflega til stjórnar fyrir ársþing BKR.

9. grein: Lagabreytingar

Tillögur til breytinga á lögum BKR skulu vera komnar til stjórnar tveim mánuðum fyrir ársþing og kynnir formaður þær á stjórnarfundi. Tillögurnar skulu sendar aðildarfélögunum með dagskrá þingsins eigi síðar en mánuði fyrir ársþing.

Síðan skulu þær ræddar og bornar undir atkvæði á þinginu og öðlast þær þegar gildi fái þær 2/3 hluta greiddra atkvæða.

10. grein: Endurskoðun laga

Lög þessi skal endurskoða eigi sjaldnar en á þriggja ára fresti.

Lög þessi voru samþykkt á ársþingi BKR 20. mars 2010.

Breytt á ársþingi BKR 7. mars 2015.

Breytt á ársþingi BKR 12. mars 2016.

Breytt á ársþingi BKR 9. mars 2019