Samantekt frá málþinginu “Úr glatkistunni”

Þann 29. október stóð Bandalag kvenna í Reykjavík fyrir opnu málþingi um heimildir í sögu kvenna. Málþingið var framlag BKR í viðburðadagskrá í tilefni af 100 ára afmælisárs kosningaréttar kvenna á Íslandi og var sprottið úr þjóðarátaki í söfnun á skjölum kvenna í tilefni afmælisársins. Erindi fundarins snéru að öflun og úrvinnslu heimilda en saga kvenna hefur fengið litla athygli í sögubókum og sýningum, m.a. vegna þess að minna hefur varðveist af skjölum þeirra en karla.

Skjalasöfn kvenna eru oft af öðru meiði og persónulegri en skjalasöfn karla, heimildir á borð við bréf og dagbækur sem veita innsýn í líf einstaklinga og fjölskyldna. Skjöl kvenna fjalla  jafnan m.a. um fjölskylduna, matarsiði, handavinnu, heilsu og fleira, á meðan skjöl karla kunna að innihalda oftar skrif um stjórnmál, veðurfar og atvinnu. Varðveitt skjöl kvenna eru merkilegar heimildir sem fylla upp í heildarmynd um líf og sögu Íslendinga.

Á málþinginu voru þrjú erindi flutt sem lutu öll að heimildum í kvennasögu. Rithöfundurinn Gunnhildur Hrólfsdóttir sagði frá tilurð nýútkominnar bókar sinnar „Þær þráðinn spunnu – afrek kvenna í aldanna rás“ sem er sýnishorn úr sögu kvenna í Vestmannaeyjum 1835 – 1980. Gunnhildur tók dæmi af konunum sem fluttu víðsvegar um landið eftir gosið í Heimaey, en lítið hefur verið fjallað um.

Erla Hulda Halldórsdóttir, sérfræðingur í kvenna- og kynjasögu við Sagnfræðistofnun HÍ, fjallaði um sögu kvenna og spjöld sögunnar og tók dæmi um stöðu vinnukvenna sem eignuðust börn með húsbændum sínum.

Fréttakonan Alma Ómarsdóttir lokaði málþinginu með erindi um heimildarmynd sína um Stúlkurnar á Kleppjárnsreyjum. Við gerð myndarinnar fékk Alma aðgang að gögnum á Þjóðskjalasafni Íslands, sem eru lokuð almenningi og hafa verið innsigluð í áratugi. Myndin segir frá myrkum kafla í Íslandssögunni, þegar ungar konur voru beittar þvingunum og sviptar frelsi fyrir það eitt að eiga í samskiptum við erlenda setuliðsmenn á tímum seinni heimsstyrjaldarinnar.

Fundarstjóri var Andrea Björk Andrésdóttir, sagnfræðingur og stofnandi Reconesse Database, gagnagrunns um konur í sögunni.

Málþingið var mjög vel sótt og fjörugar umræður spunnust í kjölfar fyrirlestranna meðal fundargesta, sem sammæltust um að full ástæða væri til að veita málefninu nánari athygli.

Í umræðum kom m.a. fram að hlutur kvenna í sögubókum sem kenndar eru í grunnskólum landsins og framhaldsskólum er verulega skertur en konur eru í kringum 1/4 þeirra sem þar er fjallað um. Erla Hulda Halldórsdóttir hefur m.a. fjallað um ástæður þessa og meðal markmiða Reconesse Database er að leiðrétta þennan kynjahalla.

Skjöl karlmanna 67% en skjöl kvenmanna 33% af einkaskjalasöfnum á Borgarskjalasafni Reykjavíkur. BKR hvetur alla til þess að kíkja í geymslur sínar og senda inn til varðveislu skjöl frá ömmum og langömmum, frænkum og öðrum mætum konum sem þar kunna að leynast því þetta eru mikilvægar heimildir sem gefa fyllri mynd af lífi og störfum íslenskra kvenna. Tekið er við skjölum í handritasafni Landsbókasafns Íslands – Háskólabókasafns, Kvennasögusafni Íslands, Þjóðskjalasafni Íslands, Borgarskjalasafni og héraðsskjalasöfnum og eru starfsmenn safnanna boðnir og búnir að veita ráðsgjöf og aðstoð varðandi frágang og skil á gögnunum.

Á myndinni eru frá vinstri talið: Erla Hulda Halldórdóttir, Andrea Björk Andrésdóttir (fundarstjóri),  Gunnhildur Hrólfsdóttir, Alma Ómarsdóttir, Fanney Úlfljótsdóttir (stjórnarkona í BKR) og Hjördís Lára Hreinsdóttir (stjórnarkona í BKR)

Á myndinni eru frá vinstri talið: Erla Hulda Halldórdóttir, Andrea Björk Andrésdóttir (fundarstjóri), Gunnhildur Hrólfsdóttir, Alma Ómarsdóttir, Fanney Úlfljótsdóttir (stjórnarkona í BKR) og Hjördís Lára Hreinsdóttir (stjórnarkona í BKR)

Úr glatkistunni – Málþing fimmtudaginn 29. október

Bandalag kvenna í Reykjavík tekur þátt í hátíðarhöldunum í tilefni af 100 ára afmæli kosningaréttar kvenna á Íslandi og stendur fyrir opnu málþingi um handrit úr sögu kvenna fimmtudaginn 29. október kl. 16-17.30 í Háskólanum í Reykjavík. Viðburðurinn er haldinn í samstarfi við Framkvæmdanefnd um 100 ára afmæli kosningaréttar kvenna.

Málþingið er framlag BKR í viðburðadagskrá í tilefni af 100 ára afmælisárs kosningaréttar kvenna á Íslandi og er sprottið úr þjóðarátaki í söfnun skjala kvenna í tilefni afmælisársins, samvinnuverkefnis Landsbókasafns Íslands – Háskólabókasafns, Þjóðskjalasafns Íslands, Borgarskjalasafns Reykjavíkur og héraðsskjalasafna. Erindi fundarins snúa að öflun og úrvinnslu heimilda en saga kvenna hefur fengið litla athygli í sögubókum og sýningum, m.a. vegna þess að minna hefur varðveist af skjölum þeirra en karla.

Skjalasöfn kvenna eru oft af öðru meiði og persónulegri en skjalasöfn karla, á borð við bréf og dagbækur, og veita innsýn í líf einstaklinga og fjölskyldna. Þau fjalla frekar um fjölskylduna, matarsiði, handavinnu, heilsu og tilfinngar, á meðan skjöl karla innihalda oftar skrif um stjórnmál, veðurfar og atvinnu. Varðveitt skjöl kvenna eru merkilegar heimildir sem fylla upp í heildarmynd um líf og sögu Íslendinga.

Fyrirlesarar málþingsins eru Gunnhildur Hrólfsdóttir með erindið Þær þráðinn spunnu: afrek kvenna í aldanna rás, Erla Hulda Halldórsdóttir sem flytur fyrirlesturinn Ógipt vinnukona á sama bæ: um sögu kvenna og spjöld sögunnar, og Alma Ómarsdóttir með erindið Stúlkurnar á Kleppjárnsreykjum: lauslæti og landráð.

Sjá allar nánari upplýsingar á Facebook-síðu málþingsins. Við hvetjum ykkur til þess að mæta og fagna afmælisárinu með þessum frábæru fyrirlesurum!

Úr glatkistunni: Málþing um handrit úr sögu kvenna