Samantekt – Opinn fundur um konur og fjölmiðla

Arnhildur myndFöstudaginn 12. september stóð Bandalag kvenna í Reykjavík (BKR) í samstarfi við MARK (Miðstöð margbreytileika og kynjarannsókna), HÍ námsbraut í blaða- og fréttamennsku og Félag fjölmiðlakvenna fyrir opnum fundi um hlut kvenna í fjölmiðlum. Fundurinn var haldinn í Háskóla Íslands. Þar var til umræðu hvaða starfsumhverfi ríkir inni á fjölmiðlunum, hvort munur sé á efnistökum fjölmiðlakvenna og karla og vægi frétta eftir kyni. Þá var fjallað um leiðir til þess að efla konur til þess að koma fram sem viðmælendur fjölmiðla, byggt á fjölmiðlaverkefni Félags kvenna í atvinnulífinu og að lokum um birtingarmynd kvenna í fjölmiðlum um skilaboð til ungra kvenna í dag.

Fundarstjóri var Sigríður Dögg Auðunsdóttir, fyrrverandi ritstjóri Fréttatímans og stofnandi Inspiral.ly verkefnisins.

Í upphafi fundar ávarpaði Ingibjörg Rafnar Pétursdóttir, formaður BKR, fundargesti og fór yfir aðdraganda fundarins og kynnti samstarfsaðilana. BKR styrkti MA rannsókn um konur í fjölmiðlum árið 2013 og liggja niðurstöður þeirrar rannsóknar nú fyrir en rannsakandinn kemur m.a. inn á starfsumhverfið á RÚV og 365. Arnhildur Hálfdánardóttur var með eitt af 3 erindum fundarins en hér má finna finna ritgerð Arnhildar í heild sinni ásamt fjölmiðlaumfjöllun um niðurstöður hennar.

Arnhildur Hálfdánardóttir var með erindið „Aðengi eða áhugi? Munur á efnistökum og vægi frétta eftir karla og konur“. Markmið rannsóknarinnar var að varpa ljósi á hvort munur væri á efnistökum karla og kvenna og hvort framlag þeirra væri jafn mikils metið. Niðurstöðurnar leiddu í ljós að munur er þar á og að fréttir karla raðast frekar framarlega í fréttatímann en fréttir kvenna. Marktækur munur hafi verið á fjölmiðlinum Stöð 2 og Ríkisútvarpinu. Glærur frá erindi Arnhildar.

Næst tók til máls Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, formaður Félags kvenna í atvinnulífinu, sem kynnti fjölmiðlaverkefni félagsins. Markmið verkefnisins er að auka ásýnd kvenna í fjölmiðlum en niðurstöður mælinga Creditinfo um viðmælendur í fréttum sýna að karlar eru 70% viðmælenda í ljósvakaþáttum og í fréttum á meðan kvenkyns viðmælendur eru 30% á tímabilinu 1. febrúar 2009 til 30. ágúst 2013. Útgangspunktur fjölmiðlaverkefnis FKA er að endurspegla samfélagið og auka ásýnd kvenna í fjölmiðlum, vekja til jákvæðrar vitundar um að konur búa yfir heilmikilli þekkingu og reynslu sem hægt er að nýta í frétta- og þjóðfélagsumræðu. Með fjölbreytni í viðmælendahópi eru fjölmiðlar líklegri til að endurspegla samfélagið. Verkefnið hófst í nóvember 2013 og hefur fengið mjög góð viðbrögð. Því lýkur formlega haustið 2017. Glærur frá erindi Þórdísar Lóu.

Þórdís Lóa

Að lokum fjallaði Hildur Knútsdóttir, rithöfundur, um birtingarmyndir kvenna í fjölmiðlum og þau skilaboð sem hún les sem ung kona. Að hennar mati er efni sem sérstaklega er höfðað til kvenna grundvallað á því að þær eru neytendur og gert er ráð fyrir að þær séu ævinlega að leyta sér að nýjum leiðum til fegrunar og/eða grenningar. Oft sé talað til þeirra í boðhætti og sú mynd sem birtist af „hinni venjulegu íslensku konu“ sé mjög skökk. Mikilvægt sé að fjölmiðlar skoði hvaða birtingarmyndir kvenna þeir sýni og auka þurfi fjölbreytni til þess að endurspegla á réttari máta samfélagið og heilbrigðar fyrirmyndir fyrir bæði ungar konur og menn. Glærur frá erindi Hildar.

Hildur Knúts

PallborðsumræðurAð lokum voru pallborðsumræður þar sem fyrirlesara tóku þátt ásamt Ingibjörgu Dögg Kjartansdóttur, fyrrverandi aðstoðarritstjóra DV frá Félagi fjölmiðlakvenna; Sigríði Hagalín Björnsdóttur, varafréttastjóra RÚV og Hrund Þórsdóttur, fréttamanni á Stöð 2. Í umræðunum kom fram að fjölmiðlar eru ekki með reglubundna úttekt á viðmælendum sínum eftir kyni (þó svo að einstaka þátttastjórnendur hafi tekið það fyrirkomulag upp, t.d. Landinn) og á RÚV eru úttektir gerðar á kynjahlutfalli viðmælenda af og til. Einnig kom fram að ekki var almenn vitund um ákvæði jafnréttislaga um að fjölmiðlum bæri að skila inn skýrslum þess efnis til yfirvalda.

Almenn ánægja var með fundinn og ítrekað mikilvægi þess að halda umræðunni áfram á lofti.

Myndir frá viðburðinum má nálgast á Facebook síðu BKR

Velferðarráðuneytið veitti styrkt fyrir viðburðinum.