Um admin42

Bandalag kvenna í Reykjavík, BKR, var stofnað 30. maí 1917. Í Bandalaginu eru nú 15 aðildarfélög og eru félagsmenn um 1000 talsins. Aðildarfélögin starfa á margvíslegan máta að félags-, líkar- og mannúðarmálum.

Frá ársþingi BKR 5. mars 2022

Laugardaginn 5.mars sl. hélt Bandalagið sitt 106. ársþing á Nauthól. Ánægjulegt var að geta haldið viðburð án takmarkana eftir tveggja ára covid og bar þingið þess sannarlega merki. Glaðbeittar konur héldu uppi líflegum umræðum og hefðbundin dagskrá fór vel fram. Bandalagið tilnefndi Sigurþóru Bergsdóttir frá Berginu sem KONU ÁRSINS 2021 og Hvatningarviðurkenningu ársins 2021 hlaut BAKVARÐASVEIT covid 19 og var það Ragnheiður Ósk Erlendsdóttir hjúkrunarfræðingur sem veitti verðlaununum móttöku. Í lokin var það Ólafur Jón Jónsson sem fræddi þingið um hættur á netinu. Við þökkum öllum þeim sem mættu fyrir samveruna og góðar stundir. Fanney Úlfljótsdóttir formaður kvaddi Bandalagið eftir 5 ára formennsku og við keflinu tók Vilborg Þ.K. Bergman. Fleiri myndir eru á Facebook síðu BKR.

Fanney Úlfljótsdóttir, fyrrverandi formaður og Vilborg Þ.K. Bergman viðtakandi formaður
Vilborg Þ.K. Bergman, Ragnheiður Ósk Erlendsdóttir, Sigurþóra Bergsdóttir og Fanney Úlfljótsdóttir
Viðurkenningarhafar ásamt stjórn BKR

Jólafundi aflýst og boðað til nýársgleði 19. janúar 2022

Stjórn BKR hefur ákveðið að aflýsa jólafundi og boða þess í stað til nýársgleði 19. jan. 2022 með happdrætti til styrktar Starfsmenntunarsjóði ungra kvenna. Fjáröflunarnefndin ásamt formanni er búin að safna glæsilegum vinningum sem  dregnir verða út á nýársgleðinni. Væntanlega verðum við öll komin með örvunarskammtinn á þessum tíma svo við ættum að geta átt glaðan dag saman. Ný auglýsing um nýársgleðina verður birt fjótlega í janúar

Viðurkenningar á 105. ársþingi BKR 26. maí 2021

Alma Möller landlæknir valin kona ársins og Eliza Reid fékk hvatningarviðurkenningu BKR á 105. ársþingi BKR 26. maí 2021.

vil vinstri Alma Möller landlæknir og Eliza Reid forsetafrú

Ölmu Möller landlækni þarf ekki að kynna en henni má segja var kastað í djúpu laugina í byrjun mars í fyrra þegar Covid19 skall á með fullum þunga.

Dag eftir dag birtist hún á skjánum sem hluti þríeykisins og hvatti okkur áfram. Þvo hendur, spritta, ekki fálma í andlitið, svo mætti lengi telja. Með fallegri og látlausri framkomu, samt ákveðin,  vann hún sér inn virðingu þjóðarinnar.

Alma er fyrsta konan sem gegnir stöðu landlæknis og brýtur þannig blað í sögu  embættisins. Hún tók við því starfi 1. apríl 2018. Áður átti hún langan feril sem læknir og er sérsvið hennar svæfingar og gjörgæsla.

Til vinstri María H. Kristinsdóttir, Kristín Hjartar, Aðalheiður Kristjánsdóttir, Alma D. Möller, Eliza Reid, Hafdís Karlsdóttir, Þorbjörg Jóhannsdóttir, Vilborg Bergman og Kolbrún Benjamínsdóttir

Eliza Reid forsetafrú. Fyrirmynd kvenna á íslandi.

Fyrir hönd allra kvenna á Íslandi hlýtur Eliza Reid forsetafrú hvatningarviðurkenningu Bandalags kvenna í Reykjavík fyrir árið 2020. Konur landsins hafa sýnt mikla samstöðu og verið hver annarri hvatning í baráttunni við Covid-19 og þar er Eliza Reid forsetafrú í fararbroddi. Hún er því verðugur viðtakandi viðurkenningar fyrir hönd allra kvenna á Íslandi árið 2020.

Eliza Reid, forsetafrú og Vilborg Bergman á ársþingi BKR 2021

105. ársþing BKR 26. maí 2021

105. ársþing BKR var haldið 26. maí á Nauthól. Þingið var vel sótt af fulltrúm félaga i bandalaginu. Aðalefni þingsins voru lagabreytingar og voru þær samþykktar. Nýr ritari var kosinn í stjórn BKR, Hafdís Karlsdóttir, Kvenfélagi Seljasóknar og fráfarandi ritara, Þorbjörgu Jóhannsdóttur, Fjallkonum, voru þökkuð vel unnin störf. Dögg Hjaltalín, Félagi háskólavenna, var kosin í stjórn Hússtjórnarskólans í Reykjavík.

Til vinstri Kristín Hjartar, Aðalheiður Kristjánsdóttir, Fanney Úlfjótsdóttir, Hafdís Karlsdóttir, María H. Kristinsdóttir, Þorbjörg Jóhannsdóttir, Vilborg Bergman og Kolbrún Benjamínsdóttir

Framkvæmdastýra kvödd

Í lok apríl lauk þriggja ára formennsku BKR í stjórn Hallveigarstaða. Formaður BKR, Fanney Úlfljótsdóttir, lét af störfum sem framkvæmdastýra og Ingveldur Ingólfsdóttir lét af störfum sem formaður stjórnar Hallveigarstaða. Ingveldur situr áfram í stjórn í eitt ár. Við formennsku næstu þrjú árin verður Kvenfélagasamband Íslands.

Á myndinni tekur Fanney við kveðjugjöf úr hendi Ingveldar, fráfarandi formanns,

Kvennasögusafni afhent gögn Hallveigarstaða

Bandalag kvenna í Reykjavík rekur Kvennaheimilið Hallveigarstaðir í samstarfi við önnur samtök kvenna. Húsið var vígt 19. júní 1967 og 26. apríl var Kvennasögusafni Íslands afhent gögn úr sögu hússins til varðveislu.Á mynd frá vinstri: Rakel Adolphsdóttir forstöðumaður Kvennasögusafn Íslands Tatjana Latinovic formaður Kvenréttindafélags Íslands, Fanney Úlfljótsdóttir formaður Bandalag kvenna í Reykjavík, BKR, Dagmar Sigurðardóttir ritari húsnefndar, Ingveldur Ingólfsdóttir formaður húsnefndar, Guðrún Þórðardóttir formaður Kvenfélagasamband Íslands

Ársþing BKR 27. mars 2021

Í lögum BKR segir svo í 5. gr.

5. grein: Ársþing

a) Ársþingið fer með æðsta ákvörðunarvald BKR. Það skal haldið fyrir lok mars ár hvert. Ársþing skal boða bréflega með mánaðar fyrirvara ásamt dagskrá.

Þar sem núgildandi sóttvarnir gilda til 17. febrúar nk. er rétt að boða til ársþings skv. lögum BKR fyrir lok mars, þ.e. laugardaginn 27. mars. Ef ekki verður hægt að halda ársþingið þennan dag vegna fjöldatakmarkana, verður beiðni send út tímanlega um frestun, alla vega fram í maí. Dagskrá þingsins er hefðbundin og verður send út tímanlega fyrir þingið.