BKR gefur framhaldsskólum í Reykjavík eintak af heimildarmyndinni Miss Representation

Fanney Úlfljótsdóttir, gjaldkeri BKR, afhendir Sigurrós Erlingsdóttur, aðstoðarskólastjóra Menntaskólans við Sund, eintak af heimildarmyndinni Miss Representation

Fanney Úlfljótsdóttir, gjaldkeri BKR, afhendir Sigurrós Erlingsdóttur, aðstoðarskólastjóra Menntaskólans við Sund, eintak af heimildarmyndinni Miss Representation.

Í haust stóð BKR fyrir opnum fundi um konur og fjölmiðla og í tengslum við þann viðburð var ákveðið að gefa öllum framhaldsskólum í Reykjavík eintak af heimildarmyndinni Miss Representation sem gefin var út árið 2011. Myndin fjallar um það hvernig konur eru túlkaðar í fjölmiðlum og vakti útgáfa myndarinnar tímabæra umræðu á heimsvísu um fjarveru kvenna frá valdamiklum stöðum og takmarkanir á birtingamyndum kvenna og stúlkna í fjölmiðlum. Þá undirstrikar efni myndarinnar mikilvægi kennslu í fjölmiðlalæsi fyrir sjálfstraust ungra kvenna og valdeflingu þeirra.

Rannsóknir í Bandaríkjunum sýna að ungt fólk í dag fylgist með fjölmiðlum allt að helming dagsins. Meirihluti efnisins sýnir konur sem hlutgerðar eða sem kyntákn. Slíkar birtingarmyndir hafa langtímaáhrif á bæði ungar konur og menn. Þá sýna rannsóknir hér á landi að konur eru aðeins um þriðjungur þeirra sem birtast í fjölmiðlum auk þess sem birtingarmynd þeirra er á annan veg en karla. Ójöfn umfjöllun um kynin í fjölmiðlum eiga sinn þátt í að skapa og viðhalda kynjaskekkjunni í þjóðfélaginu þar sem staðlaðar kynjaímyndir skipa stóran sess.

Við hjá BKR vonumst til þess að eintakið af myndinni nýtist nemendum í útlán á bókasafni og kennurum til kennslu, bæði á sviði fjölmiðlalæsis og birtingarmynda kynjanna sem og ensku. Hugmyndir um hvernig nýta má myndina í kennslu má finna víða á netinu, m.a. á vefnum therepresentationproject.org, en umræðuefnin geta t.d. verið um hvernig fjölmiðlar móta viðhorf og menningu í samfélaginu, hvernig hægt er að bera kennsl á jákvæðar og sterkar konur í fjölmiðlum, og hvernig staðalímyndir kynjanna takmarka bæði stráka og stelpur.

media-lit