Samantekt frá málþingi um börn og nútímasamfélag, mars 2016

Föstudaginn 4. mars 2016 stóð Bandalag kvenna í Reykjavík fyrir opnum fundi  um „Börn og nútímasamfélag“ í samstarfi við Velferðarráðuneytið. Upplegg fundarins miðaði að umhverfi barna í nútímasamfélagi og fjallað var um þær aðstæður sem börnum og fjölskyldum þeirra eru skapaðar á Íslandi. Árið 2014 stóð BKR fyrir fundi sem miðaði að því umhverfi sem börnum og barnafjölskyldum er skapað á leikskólastiginu en nú var áhersla lögð á yngra grunnskólastigið. Hugmyndin að baki fundinum var sú að nálgast efnið á heildrænan máta með umfjöllun um skólakerfið, aðbúnað og líðan barna og mismunandi fjárhagslegan bakgrunn. Þá var fjallað um niðurstöður nýrra rannsókna og tilraunaverkefni tengd samþættingu fjölskyldu- og atvinnulífs. Að fundinum komu ýmis félög og félagasamtök sem starfa á þessu sviði.

Fundarstjóri var Nanna Kristín Christiansen, uppeldis- og menntunarfræðingur og ritstjóri Krítarinnar. Í upphafi fundar þakkaði Nanna Kristín BKR fyrir skipulagningu fundarins en þörf er á opinni umræðu um málefni barna og barnafjölskyldna og aukinni samræðu þeirra sem tengjast skólasamfélögum.

Inga Dóra Sigfúsdóttir, prófessor við Háskólann í Reykjavík og stofnandi rannsóknamiðstöðvarinnar Rannsóknir og greining, fjallaði um rannsóknir sínar á líðan barna og unglinga á Íslandi. Í erindi hennar kom m.a. fram að magn tíma sem foreldrar verja með börnum sínum, stuðningur við börn, eftirlit og tengsl foreldra við aðra foreldra og vini barna sinna, draga úr líkum á vímuefnaneyslu og auka líkur á góðum námsárangri. Niðurstöður rannsókna hennar á þunglyndistíðni meðal unglinga sýna aukna tilhneigingu stúlkna til þunglyndis og hefur bilið milli drengja og stúlkna aukist mikið í þeim efnum á síðustu 5 árum. Þá sýna rannsóknir Ingu Dóru augljóst samhengi milli mikillar notkunar samfélagsmiðla og aukinnar tíðni þunglyndis og kvíða meðal unglinga hér á landi sem m.a. er rakið til þess sem kallað hefur verið „samfélag samanburðar“, þ.e. sífellt er verið að bera sig saman við næsta mann. Börn frá efnaminni heimilum sem ekki eiga þess kost að stunda íþróttir og aðrar tómstundir utan skólatíma verja oft og tíðum meiri tíma á samfélagsmiðlum og eru því í aukinni hættu á að þróa með sér þunglyndis- og kvíðaeinkenni. Ljóst er að taka ber þessar niðurstöður Rannsókna og greiningar til alvarlegrar athugunar. Þær gefa sannarlega tilefni til viðbragða.

Hermundur Sigmundsson, prófessor í lífeðlislegri sálarfræði við Norska tækni- og vísindaháskólann í Þrándheimi og Háskólann í Reykjavík, fjallaði um hugmyndir að breyttu skipulagi skóladagsins með þarfir barnsins í forgrunni. Að hans mati hefur Ísland alla burði til þess að eiga fremstu skóla í heimi, en í dag erum við með hæsta brottfall úr menntaskólum sem þekkist og mikinn fjölda nemenda í sérkennslu. Hugmyndir hans miða m.a. að því að fyrstu 4-5 árin í grunnskóla verði fyrst og fremst miðað að því að byggja upp þá grunnfærni sem nauðsynleg er til að ná tökum á öðrum námsgreinum (lestur, skrift og stærðfræði). Takist vel til eru líkur á að sérkennsluþörf minnki, sem skapar möguleika á sparnaði mikilla fjármuna í skólakerfinu. Þá má nefna að niðurstöður rannsókna Hermundar benda til að líkamleg hreyfing, í upphafi sérhvers kennsludags, hefði góð áhrif á hæfni barna til einbeitingar í námi. Skólakerfið og skipulag kennslu þarfnast stöðugs endurmats og skoðunar. Horfa ber til faglegra rannsókna sérfræðinga í slíkri stefnumótun á hverjum tíma.

Lovísa Arnardóttir, réttindagæslufulltrúi UNICEF, fjallaði um niðurstöður skýrslu UNICEF um börn á Íslandi sem líða efnislegan skort. Í erindi hennar kom fram að hlutfall þeirra barna sem líða skort hér á landi hefur rúmlega tvöfaldast frá árinu 2009, þ.e. frá 4% upp í 9% barna. Þá hefur hlutfall þeirra barna sem líða verulegan skort þrefaldast á sama tíma (nú 2,4%). Skortur hlutfallslega flestra barna snýr að húsnæði. Þá kom fram í erindi Lovísu að Hagstofan mælir árlega skort heimila hér á landi. Þær mælingar ná aftur til ársins 2004 og sýna að síðastliðin ár hafi þróunin verið sú að færri heimili líða skort en áður. Full þörf er á að mæla með sama hætti skort barna sérstaklega, enda sýna niðurstöður rannsóknar UNICEF öfuga þróun við niðurstöður Hagstofunnar á hag heimilanna.

Andrea Hjálmsdóttir, lektor við Háskólann á Akureyri flutti erindið „Ég er bara með samviskubit, svo geðveikt gagnvart börnunum” um  rannsóknir sínar og Mörtu Einarsdóttur um samræmingu fjölskyldu og atvinnu í nútímasamfélagi. Þær hafa í tæpt ár rannsakað „íslensku ofurfjölskylduna“ og skoðað hverjir eru helstu streituvaldar í daglegu lífi fólks og hvað það er sem helst kann að auðvelda þeim lífið. Í samtölum við úrtakshópa kemur fram sterk áhersla á lausnir hvernig auðvelda megi samræmingu atvinnu og fjölskyldu, oft og tíðum verði fólk að setja atvinnu í forgang umfram fjölskylduna þar sem aukin samkeppni á vinnumarkaði kalli á mikla yfirvinnu. Þá hafi vinnan færst í auknum mæli inn á heimilin þar sem flestir eru í tölvupóstsambandi heima við og í stöðugu símasambandi með farsíma frá vinnuveitanda. Flesta dreymir um styttri vinnuviku en fram kemur í rannsókninni að fólk líti á það sem fjarlægan draum þar sem það þarf að vinna mikið til að ná endum saman. Andrea kom einnig inn á mikilvægi þess að fyrirtæki setji sér mörk varðandi vinnutengt áreiti eftir að hefðbundnum vinnudegi er lokið.

Sóley Tómasdóttir, forseti borgarstjórnar, fjallaði um tilraunaverkefni Reykjavíkurborgar um styttingu vinnudagsins sem  hófst 2. mars 2015. Verkefnið fór fram meðal starfsmanna Þjónustumiðstöðvar Árbæjar og Grafarholts og á skrifstofu Barnaverndar sem unnu 35 stundir á viku í stað 40 stunda. Þessir vinnustaðir urðu fyrir valinu því þar er oftar en ekki unnið undir miklu álagi. Því þótti vert að skoða þar hvaða áhrif styttri vinnuvika hafi á starfsfólk hvað varðar heilsu, vellíðan, starfsanda og þjónustu að teknu tilliti til þess að það komi ekki niður á framleiðni, gæðum og hagkvæmni. Verkefnið skilaði mjög góðri reynslu, m.a. betri starfsanda, aukinni starfsánægju og meiri framleiðni. Ennþá er verið að vinna úr niðurstöðum þess og var því verkefnið framlengt um 3 mánuði meðan sú úrvinnsla fer fram. Hér má sjá erindi Sóleyjar.

Guðrún Hafsteinsdóttir, formaður Samtaka iðnaðarins, fjallaði um áherslur atvinnulífsins og styttingu vinnudagsins. Guðrún telur fulla ástæðu til þess að skoða styttingu vinnudagsins í ljósi tæknilegra framfara og breytinga í atvinnulífinu frá því að reglur um 8 tíma vinnudag voru settar. Stytting vinnudagsins gæti aukið framleiðni og bætt lífsgæði launafólks með auknum frítíma. Það er þó mat Samtaka iðnaðarins að ákvörðun um styttingu vinnudagsins skuli tekin  innan vinnustaða og í kjaraviðræðum, en ekki með lagasetningu. Guðrún lýsti í því samhengi farsælli vinnu sem Kjörís tókst á hendur til að ná fram styttingu vinnuvikunnar, með breytingum á rekstrarfyrirkomulagi í samráði við starfsfólk.

Í pallborðsumræðum bættust í hóp fyrirlesara fulltrúar frá Heimili og skóla, Félagi skólastjórnenda í RVK, Félagi grunnskólakennara, Íþrótta- og Ólympíusambandi Íslands, SAMFOK, Barnaheill, Hróa hetti barnavinafélagi, auk Helgu Arnfríðar Haraldsdóttur, barnasálfræðingi sem rannsakað hefur kvíða meðal barna. Mikil ánægja var með efni fundarins og fundarmenn sammála um mikilvægi þess að efla almenna umræðu um málefni skólabarna og barnafjölskyldna. Í því samhengi var vikið að hlutverki fjölmiðla, en erfitt hefur reynst að fá umfjöllun um málefni skólabarna og vísað til vandaðrar umfjöllunar norrænna fjölmiðla um skólamál. Málaflokknum verði að gera hærra undir höfði í opinberri umræðu, enda vanti mikið upp á samfélagslegt samtal um málefni barna og skólanna.

 

BRK þakkar öllum þeim sem komu að fundinum, fyrirlesurum, þátttakendum í pallborði og gestum. Við hlökkum til áframhaldandi samstarfs og vonumst til þess að efni fundarins skili sér inn í aukna samfélagslega umræðu um málefni barna og barnafjölskyldna.

Myndir frá málþinginu: