Ársskýrsla 2012

Störf stjórnar

Fjórtán aðildarfélög störfuðu innan BKR árið 2012. Eitt af markmiðum bandlagsins er að efla kynningu og samstarf félaganna. Borist hafa beiðnir um að fara á BKR headerfundi og kynna starfsemi bandalagsins sem stjórnin hefur orðið við og haft gaman af. Facebook síða Bandalags kvenna í Reykjavík var stofnuð í maí 2012 til þess að auðvelda upplýsingamiðlun og aðgengi að upplýsingum, sem og efla kynningu á starfsemi BKR.

Þann 30. maí 2012 var haldið upp á 95 ára afmæli BKR að Hallveigarstöðum. Félagið fékk sagnfræðing til þess að skrifa úrdrátt úr sögu bandalagsins, sem nú er aðgengilegur á heimasíðu BKR, og á sjálfan afmælisdaginn birtist í Morgunblaðinu ítarlegt viðtal við Hervöru Jónasdóttur, varaformann BKR.

Á formannaráðsfundi bandalagsins þann 24. október 2012 var samþykkt ályktun um óútskýrðan launamun kynjanna. Jafnframt var rætt um jafnréttismál og launamál kvenna og samþykkt að koma upp jafnréttisnefnd innan BKR. Á haustfundinum var rætt um mikilvægi regnhlífasamtaka í nútíma samfélagi og fundargestum skipt í umræðuhópa.

Jólafundur félagsins var haldinn fimmtudaginn 15. nóvember að Hallveigarstöðum. Gestur fundarins var Gerður Kristný, rithöfundur, og hélt stjórn Starfsmenntunarsjóðs ungra kvenna sitt árlega jólahappdrætti til styrktar sjóðnum. Þátttaka var mjög góð.

Bandalag kvenna í Reykjavík lauk formennsku sinni í hússtjórn Hallveigarstaða í lok mars 2012, eftir að hafa gengt því starfi í 3 ár. Kvenfélagasamband Íslands hefur nú tekið við formennskunni og mun gegna því hlutverki næstu 3 árin. Eigendur Hallveigarstaða eru BKR, Kvenfélagasamband Íslands (KÍ) og Kvenréttindafélag Íslands (KRFÍ).

KRFÍ hafði forgöngu um að opna Hallveigarstaði á árinu fyrir starf grasrótarsamtaka og annarra félagasamtaka sem starfa að jafnréttismálum. Markmið Kvennaheimilisins er að ýta undir menningu og starfsemi kvenna og á þessu ári var unnið að því að húsið stæði undir nafni. Bandalag kvenna í Reykjavík styður heilshugar markmið KRFÍ um að efla starfsemi Hallveigarstaða og framtíðar stefnumörkun fyrir húsið.

Grundvallarbreyting varð á starfsemi BKR á árinu þegar bandalagið sagði sig úr Kvenfélagasambandi Íslands. Bandalag kvenna í Reykjavík átti forgöngu um stofnun Kvenfélagasambands Íslands á sínum tíma og hefur í gegnum tíðina átt farsælt og gott samstarf við KÍ og aðildarfélög þess. Aðildarfélög BKR ákváðu úrsögnina á 96. þingi bandalagsins 2012. Bandalag kvenna í Reykjavík stefnir á áframhaldandi gott samstarf við KÍ. 

Á síðustu árum hafa aðildarfélög BKR nýtt vettvang bandalagsins til þess að ljá áherslumálum sínum aukinn þunga í gegnum samtakamátt sinn. Innan BKR starfa ólík félög – kvennahreyfingar stjórnmálaflokka; grasrótarfélög sem standa að ákveðnum samfélagslegum verkefnum í nærumhverfi sínu, m.a. kvenfélög sem starfa í tengslum við kirkjur borgarinnar og ná þannig einstakri tenginu við íbúana í hverfinu; öflug félög á borð við Hringinn og Thorvaldsensfélagið, kvenstúdentafélagið, Hvítabandið og Silfur, eitt af nýrri félögum BKR sem hefur það að markmiði að styrkja málefni sem snúa að konum og börnum þar sem þörfin er mest hverju sinni.

Þannig eru aðildarfélög og nefndir BKR (Starfsmenntunarsjóður ungra kvenna, Orlofsnefnd Reykjavíkur, nefnd um málefni eldri borgara) í einstöku sambandi við nærumhverfi sitt og þekkja vel hvar þörf er fyrir aðstoð og hvað megi bæta í samfélagi nútímans – þessi einstaka tenging er dýrmæt og skilar sér inn í uppbyggingu betra samfélags.

Starfsmenntunarsjóður ungra kvenna

Úthlutað var tíu styrkjum þann 30. ágúst 2012 úr Starfsmenntunarsjóði ungra kvenna að fjárhæð 1.305 m.kr. Frá stofnun sjóðsins árið 1995 hefur verið úthlutað 119 styrkjum að fjárhæð 113.566 m.kr. BKR stendur allan straum af rekstri sjóðsins, t.d. auglýsingum. Anna K. Ólafsdóttir, nemi á viðskipta- og hagfræðibraut við Menntaskólann í Kópavogi, styrkþegi ársins 2011, þakkaði fyrir styrkinn og greindi frá því hvað hann hafi verið henni mikil lyftistöng í náminu.

Orlofsnefnd Reykjavíkur

Orlofsnefnd Reykjavíkur skipulagði sjö ferðir á árinu, tvær innanlands um Suðurlandið og til Vestmannaeyja og fimm erlendis – Eystrasaltssiglingu, Týról, Portórós, Strassborgar og Munchen. Tveimur skjólstæðingum Mæðrastyrksnefndar var boðið í Suðurlandsferðina. Samtals fóru 282 konur í ferðir á vegum Orlofsnefndarinnar á árinu 2012.

Samkvæmt lögum um orlof húsmæðra, sem sett voru á Alþingi 9. júní 1960, á sérhver kona, sem veitir eða hefur veitt heimili forstöðu, án launagreiðslu fyrir það starf, rétt á að sækja um orlof. Þegar valið er úr umsóknum, hafa orlofsnefndir til hliðsjónar barnafjölda, aldur barna og aðrar félagslegar aðstæður umsækjenda.

Hússtjórnarskóli Reykjavíkur

24 nemendur stunduðu nám í Hússtjórnarskóla Reykjavíkur haustið 2012. Námið er ein önn, sem hefst að vori eða hausti. Nýnemar þurfa að hafa lokið grunnskólaprófi og vera orðnir 16 ára. Skólinn tekur við 24 nemendum, þar af geta 15 búið á heimavist. Árið 1998 var skólinn gerður að sjálfseignarstofnun sem rekin er með framlagi frá ríkissjóði. Mikil og góð námsaðsókn er við skólann. Hér má finna skemmtilega umfjöllun Ríkisútvarpsins um starfsemi skólans frá 26. apríl 2013.

Nefnd um málefni eldri borgara – Gleðigjafarnir

Markmið nefndarinnar er að heimsækja dvalar- og hjúkrunarheimili aldraðra í Reykjavík. Gleðigjafarnir heimsækja reglulega 10 heimili: Dalbraut 21-27, Fell í Skipholti, Fríðuhús, Foldabæ, Furugerði 1, Grund, Hrafnistu, Norðurbrún 1, Seljahlíð og Skjól. Boðið er upp á upplestur, stuttar sögur og gamanmál, svo er fjöldasöngur með gítarundirleik. Harmonikkuleikarar koma einnig á flesta staðina og er þá stiginn dans, ef einhver heimilismanna vill dansa. Heimsóknir eru ávallt skemmilegar og veita gestum og heimilisfólki mikla ánægju og gleði.

Störf aðildarfélaga

Aðildarfélög Bandlags kvenna í Reykjavík árið 2012 voru 14 talsins, en Kvenfélag Seljasóknar gekk til liðs við bandalagið á 97. þingi BKR í mars árið 2013. Aðildarfélögin sinna margvíslegum verkefnum og er heildarupphæð veittra styrkja áætluð í kringum 145 milljónir árið 2012.

Meðal þeirra verkefna sem hlutu styrki eru ýmsar stofnanir innan heilbrigðiskerfisins þar sem börnum er sinnt, sérdeild Fjölbrautaskólans Breiðholts fyrir fatlaða nemendur sem hlaut Ipad að gjöf, ung stúlka í Kenýa hlaut styrk fyrir nýjum handlegg, styrkir til kvenna í framhaldsnámi, Dyngjan áfangaheimil fyrir konur og átröskunarteymi á LSH, Styrktarfélagið LÍF fyrir kaupum á nýju sónartæki, Thorvaldsenssjóðurinn til styrktar sumardvalar fyrir sykursjúk börn og unglinga og rannsókna á málefnum þeim viðkomandi og Hljómafl sem tilheyrir Endurhæfingardeild LR í Víðihlíð og annast ungmenni með alvarlegar geðraskanir.

Stærsti styrkurinn sem veittur var á árinu var frá Kvenfélaginu Hringnum að upphæð 70 milljónir í tilefni 70 ára afmælis Barnaspítalasjóðs Hringsins og 10 ára afmæli Barnaspítalans. Alls námu styrkveitingar Hringsins á árinu 2012 um 135 milljónum króna.

Fjáröflunarleiðir aðildarfélaganna eru margvíslegar, þar má nefna útimarkaði, sölu í verslunum (Thorvaldsensfélagið rekur Thorvaldsensbasarinn í Austurstræti og Hvítabandið verslun í Furugrund), kaffi- og kökusölu, sölu á prjónavörum, happdrætti og bingó svo dæmi séu nefnd.

Aðildarfélög BKR árið 2012 í stafrófsröð: Félag Framsóknarkvenna, Hringurinn, Hvítabandið, Hvöt, Kvenfélag Árbæjarsóknar, Kvenfélag Breiðholts, Kvenfélag Bústaðarsóknar, Kvenfélagið Fjallkonurnar, Kvenfélag Fríkirkjunnar í Reykjavík, Kvenfélag Hallgrímskirkju, Kvenfélag Langholtssóknar, Kvenstúdentafélag Íslands – Félag háskólakvenna, Silfur – Nútíma kvenfélag, Thorvaldsensfélagið.