Ársskýrsla 2013

Störf stjórnar 

Ný stjórn tók við þann 26. mars 2013. Stjórnin hefur lagt megin áherslu á stefnumótun og mörkun nýrrar framtíðarsýnar fyrir Bandalag kvenna í Reykjavík og upplýsingamál.

Formannaráðsfundir voru haldnir dagana 4. júní 2013 og 13. febrúar 2014, haustfundur BKR var 24. október og jólafundur bandalagsins var haldinn þann 21. nóvember.

Stefnumótun

Stjórn BKR hefur lagt mikla vinnu á starfsárinu í stefnumótun og var ný stefnuskrá fyrir Bandalag kvenna í Reykjavík samþykkt á ársþingi BKR 2014. Stefnuskráin byggir á lögum og reglum BKR, sögu bandalagsins og aðildarfélaganna, og stefnumótunarvinnu sem unnin var á haustfundi BKR.

Upplýsinga- og kynningarmál

Stjórnin hefur lagt ríka áherslu á að bæta upplýsingamiðlun um störf bandalagsins og aðildafélaganna og var eitt fyrsta verkefni hennar að setja upp heimasíðu fyrir BKR. Síðan opnaði formlega vorið 2013 og er vefslóð hennar bkr.is. Frá opnun hafa yfir 3000 manns heimsótt síðuna og kynnt sér efni hennar. Einnig hefur stjórnin lagt áherslu á að miðla efni tengdum áherslusviðum bandalagsins og aðildarfélaganna á samfélagsmiðlum. Einnig tók stjórnin upp þá nýjung að senda reglulega fréttabréf af starfsemi BKR sem hefur fengið góðar móttökur.

Jafnframt hefur stjórnin lagt sig fram um að ná til fjölmiðla enda mat stjórnarinnar að mikilvægt sé að gera BKR sýnilegra og færa þannig kvenfélögin nær borgarbúum. Árið 2013 birtist viðtal við formann BKR í Fréttatímanum um starfsemi BKR og kvenfélaganna. Önnur grein um glæsilega styrki aðildarfélaganna til ýmissa málefna árið 2012, byggt á samantekt stjórnar BKR um starfsemi bandalagsins 2012, birtist einnig í Fréttatímanum. Þá birti Morgunblaðið viðtal við formann BKR um úthlutun úr starfsmenntunarsjóði ungra kvenna auk þess sem Sirrý Arnardóttir á RÁS 2 bauð formanni bandalagsins til sín í þáttinn Sirrý á sunnudagsmorgni.

Styrkir til rannsókna á áherslusviðum BKR

Ákveðið var að veita styrk til rannsóknar á birtingarmynd kvenna í fjölmiðlum í samstarfi við Háskóla Íslands. Að þessu sinni hlaut styrkinn ung kona að nafni Arnhildur Hálfdánardóttir, meistaranemi í blaða- og fréttamennsku. Hún mun skila niðurstöðum rannsóknar sinnar á efninu vorið 2014. Einnig mun hún vinna tvo útvarpsþætti um efnið. Bandalag kvenna í Reykjavík mun standa fyrir opnum fundi í tengslum við niðurstöður rannsóknarinnar.

Námskeið

Stjórn BKR stóð fyrir námskeiði um fundarsköp og fundarstjórn. Ingibjörg Vigfúsdóttir frá POWERtalk International sá um námskeiðið í umsjón Hjördísar Jensdóttur við góðan róm. Áform eru um að halda fleiri námskeið fyrir aðildarfélögin með það að markmiði að styðja enn frekar við starfsemi þeirra.

Jafnréttisnefnd BKR

Jafnréttisnefnd Bandlags kvenna í Reykjavík hóf störf að loknu ársþingi 2013 og hefur lagt drög að opnum fundi um kynbundinn launamun.

Starfsmenntunarsjóður ungra kvenna

Alls var úthlutað 20 styrkjum fyrir skólaárið 2013-2014 úr Starfsmenntunarsjóði ungra kvenna að heildarupphæð rúmlega 2,2 milljónir króna. Þetta er 16. úthlutun úr sjóðnum sem stofnaður var árið 1995.

Orlofsnefnd Reykjavíkur

Farnar voru 9 ferðir á árinu. Þrjár innanlandsferðir á Austfirði og dagsferðir í Borgarfjörð og á”Slóðir Vatnsenda Rósu” á Vatnsnesi. Sex utanlandsferðir voru farnar til N-Ítalía , Þýskalands/Austurríkis/Tékklands, Vínarborgar, Frakklands/Strassborgar og jólaferðir til Prag og Koblenz í Þýskalandi. Fullt var í allar ferðir og biðlistar í flestar. Alls ferðuðust á okkar vegum 395 konur á árinu. Gætt hefur verið mikils aðhalds í öllum rekstri svo meira fé væri til niðurgreiðslu á ferðum.

Undanfarin ár hefur nefndin boðið konum í Ljósinu eða á vegum Mæðrastyrksnefndar í ferðir og var sami háttur hafður á árið 2013. Var þá sex konum frá Ljósinu boðið í dagsferðir.

Þá bauð orlofsnefnd Reykjavíkur til fundar stjórnum orlofsnefnda annarra sveitarfélaga. Mættu fulltrúar Gullbringu- og Kjósasýslu og Hafnarfjarðar. Þetta eru gagnlegir fundir og er gott að reyna að samrýma ýmislegt í verklagi nefndanna.

Samkvæmt lögum um orlof húsmæðra, sem sett voru á Alþingi 9. júní 1960, á sérhver kona, sem veitir eða hefur veitt heimili forstöðu, án launagreiðslu fyrir það starf, rétt á að sækja um orlof. Þegar valið er úr umsóknum, hafa orlofsnefndir til hliðsjónar barnafjölda, aldur barna og aðrar félagslegar aðstæður umsækjenda.

Hússtjórnarskóli Reykjavíkur

Vorönn 2013 lauk 17. maí og útskrifuðust 24 nemendur. Skólasetning haustannar var 26. ágúst 2013. 24 nemendur hófu nám, 14 nemendur voru á heimavist og þar af einn strákur.

Námið er ein önn, sem hefst að vori eða hausti. Nýnemar þurfa að hafa lokið grunnskólaprófi og vera orðnir 16 ára. Skólinn tekur við 24 nemendum, þar af geta 15 búið á heimavist. Árið 1998 var skólinn gerður að sjálfseignarstofnun sem rekin er með framlagi frá ríkissjóði. Mikil og góð námsaðsókn er við skólann. Þann 26. apríl var skemmtilega umfjöllun um starfsemi skólans í Ríkisútvarpinu.

Nefnd um málefni eldri borgara – Gleðigjafarnir

Markmið nefndarinnar er að heimsækja dvalar- og hjúkrunarheimili aldraðra í Reykjavík. Gleðigjafarnir heimsækja reglulega 10 heimili: Dalbraut 21-27, Fell í Skipholti, Fríðuhús, Foldabæ, Furugerði 1, Grund, Hrafnistu, Norðurbrún 1, Seljahlíð og Skjól. Boðið er upp á upplestur, stuttar sögur og gamanmál, svo er fjöldasöngur með gítarundirleik. Harmonikkuleikarar koma einnig á flesta staðina og er þá stiginn dans, ef einhver heimilismanna vill dansa. Heimsóknir eru ávallt skemmilegar og veita gestum og heimilisfólki mikla ánægju og gleði.

Störf aðildarfélaga

Aðildarfélög Bandlags kvenna í Reykjavík árið 2012 voru 15 talsins, en PoWERtalk International á Íslandi gekk til liðs við bandalagið á 98. þingi BKR í mars árið 2014. Aðildarfélögin sinna margvíslegum verkefnum og er heildarupphæð veittra styrkja áætluð í kringum 154 milljónir árið 2013.

Meðal þeirra verkefna sem hlutu styrki eru ýmsar stofnanir innan heilbrigðiskerfisins þar sem börnum er sinnt (m.a. Barnaspítali Hringsins og BUGL), Dyngjan áfangaheimili fyrir konur og átröskunarteymi á LSH, Konukot, Barnauppeldissjóður Thorvaldsensfélagsins fyrir þróun og prófanir á snjallsímaforriti (appi) í leikjaformi sem er ætlað að hjálpa ungu fólki að bæta heilsu sína með áherslu á mataræði, hreyfingu og geðrækt í samstarfi við Heilsuskólann, Thorvaldsenssjóðurinn til styrktar sumardvalar fyrir sykursjúk börn og unglinga og rannsókna á málefnum þeim viðkomandi, starfsemi Styrktarfélags lamaðra og fatlaðra í Reykjadal, söfnun fyrir línuhraðal, barnastarf í kirkjum, Rannsóknarstofa í krabbameinsfræðum, uppbygging félagsmiðstöðvar við Austurbæjarskóla og fleira.

Stærsti Hringurinnstyrkurinn sem veittur var á árinu var frá Kvenfélaginu Hringnum að upphæð 110 milljónir í tilefni 110 ára afmælis Hringsins. Alls námu styrkveitingar Hringsins á árinu 2013 um 148 milljónum króna.

Fjáröflunarleiðir aðildarfélaganna eru margvíslegar, þar má nefna útimarkaði, sölu í verslunum (Thorvaldsensfélagið rekur Thorvaldsensbasarinn í Austurstræti og Hvítabandið verslun í Furugrund), kaffi- og kökusölu, sölu á prjónavörum, happdrætti og bingó svo dæmi séu nefnd.

Aðildarfélög BKR árið 2013 í stafrófsröð: Félag Framsóknarkvenna, Hringurinn, Hvítabandið, Hvöt, Kvenfélag Árbæjarsóknar, Kvenfélag Breiðholts, Kvenfélag Bústaðarsóknar, Kvenfélagið Fjallkonurnar, Kvenfélag Fríkirkjunnar í Reykjavík, Kvenfélag Hallgrímskirkju, Kvenfélag Langholtssóknar, Kvenfélag Seljasóknar, Kvenstúdentafélag Íslands – Félag háskólakvenna, Silfur – Nútíma kvenfélag, Thorvaldsensfélagið.

Thorvaldsensfélagið_Heilsuskólinn