Starfsreglur stjórnar BKR

1. Tilgangur

1.1. Í lögum og reglum BKR er mælt fyrir um skipun stjórnar BKR, hlutverk hennar og ýmis verkefni. Starfsreglur þessum er ætlað að vera til fyllingar ákvæðum laganna og mæla nánar fyrir um störf stjórnarinnar, einkum varðandi boðun og framkvæmd stjórnarfunda.

2. Markmið

2.1. Stjórn Bandalags kvenna í Reykjavík mótar stefnu félagsins í samræmi við markmið eins þau eru í lögum og reglum BKR:

„ 1. Að efla kynningu og samstarf aðildarfélaganna. 2. Að stuðla að aukinni menntun kvenna. 3. Að vinna að velferðar- og fjölskyldumálum. 4. Að standa fyrir hverskonar menningar- og fræðslustarfsemi.”

2.2.  Stjórn félagsins fer með yfirstjórn allra málefna þess,  veitir gjaldkera prókúru og setur vinnureglur samkvæmt samþykktum félagsins.

2.3. Stjórn Bandalags kvenna í Reykjavík hefur sett sér eftirfarandi starfsreglur sem byggja á samþykktum félagsins.

3. Fundir stjórnar

3.1. Stjórnarfundir skulu vera minnst tvisvar sinnum á ári og oftar ef þörf krefur og boðaðir með dagskrá. Formaður eða varaformaður boðar til stjórnarfunda.

3.2. Formaður stjórnar BKR eða staðgengill stjórnar fundum og annast undirritun fundargerða.

3.3. Stjórn BKR greiðir ein atkvæði á stjórnarfundum og telst tillaga samþykkt með einföldum meirihluta stjórnarmanna.

3.4. Stjórnarfundir eru ályktunarbærir ef meirihluti stjórnarmanna er mættur eða tekur þátt í fundinum í gegnum síma eða annars konar fjarfundabúnað.

3.5. Ef brýna nauðsyn ber til er heimilt að afgreiða mál utan funda á skriflegan hátt (þ.m.t. með tölvupósti). Til þess að slíkt sé heimilt þá þarf annars vegar að liggja fyrir að enginn stjórnarmaður mótmæli slíkum afgreiðslumáta og krefjist stjórnarfundar um viðkomandi málefni. Hins vegar þarf skriflegt samþykki meirihluta stjórnarmanna eftir hefðbundnum reglum. Bókað skal um skriflega ákvörðun stjórnar á milli stjórnarfunda í fundargerð næsta stjórnarfundar.

4. Réttindi og skyldur stjórnarmanna

4.1. Óski þrjár stjórnarkonur eftir aukafundi er skylt að boða til hans og skal hann haldinn svo fljótt sem auðið er eftir að skrifleg beiðni berst (beiðnin getur verið á rafrænu formi/tölvupóstur).

4.2. Stjórnarmenn hafa rétt til upplýsinga um starfsemi félagsins og nefnda á vegum þess og til að leggja fram beiðnir um skýrslur og athuganir.

4.3. Stjórnarmenn og allir sem sitja fundi stjórnar hafa þagnarskyldu um umræður á hverjum tíma umfram það sem skráð er í fundargerð

5. Um  stjórn

5.1. Stjórn BKR mótar stefnu og framtíðarsýn félagsins.

5.2. Stjórn BKR skal á fundi sínum í febrúar ár hvert taka til afgreiðslu tillögur um rekstraráætlun næsta starfsárs ásamt framkvæmdaáætlun.

5.3. Stjórn BKR gerir framkvæmdaáætlun til tveggja ára í senn í samræmi við stefnu  bandalagsins. Þessi framkvæmdaáætlun skal endurskoðuð árlega.

5.4. Ritari eða vararitari bókar það sem gerist á stjórnarfundum, sendir aðilum stjórnar fundargerðir og annast bréfaskriftir BKR. Ritari og vararitari sjá um skjalavörslu, hafa umsjón með útgáfu ársskýrslu hverju sinni og koma samþykktum og ályktunum ársþings á framfæri.

5.5. Gjaldkeri eða varagjaldkeri sér um innheimtu gjalda og allar greiðslur. Hann leggur fram reikninga BKR á síðasta stjórnarfundi fyrir ársþing, uppsetta og áritaða af skráðum skoðunarmanni félagsins og undirritaða af félagskjörnum skoðunarmönnum. Reikningarnir skulu liggja frammi á ársþingi. Gjaldkerar annast fjárhagsáætlun í samráði við stjórn. Skal hún lögð fram á ársþingi en áður send með fundarboði.

5.6. Allar beiðnir um styrkveitingar eru teknar til umræðu á stjórnarfundum til ákvörðunar stjórnar.

6. Upplýsingar

6.1. Fundargerðum stjórnarfunda skal að jafnaði dreift til fundarmanna innan viku frá fundi og síðan undirrituð af stjórnarmönnum á næsta fundi.

6.2. Fundargerðir skulu varðveittar á skrifstofu BKR.

6.3. Ársskýrsla félagsins skal gefin út í tengslum við aðalfund Bandalags kvenna í Reykjavík ár hvert.

7. Staðfesting og gildistaka

7.1. Reglur þessar eru settar með samþykki tilskilins meirihluta stjórnar samkvæmt lögum og reglum um BKR og taka gildi frá og með samþykki þeirra. Reglunar skulu birtar á vef BKR.

7.2. Allir stjórnarmenn skulu fá eintak af starfsreglunum og formaður skal gæta þess að nýr stjórnarmaður fái afhent eintak reglnanna ásamt lögum og reglum BKR í upphafi fyrsta fundar síns. Ef meirihluti stjórnarmanna er nýr skulu reglurnar ræddar á fyrsta fundi til breytinga eða staðfestingar.

Að öðru leyti vísast í samþykktir fyrir Bandalag kvenna í Reykjavík.

 

Þannig samþykkt af stjórn BKR þann 26. janúar 2016.