Saga BKR

Bandalag kvenna var stofnað á heimili Hólmfríðar Árnadóttur í Iðnskólanum 30. maí 1917 og voru níu konur kosnar í stjórn úr kvenfélögum í Reykjavík. Markmið bandalagsins var að efla kynningu og samstarf milli aðildarfélaganna, stuðla að aukinni menntun kvenna og vinna að velferðar- og fjölskyldumálum. Bandalagið hefur alla tíð staðið fyrir ýmiskonar menningar- og fræðslustarfsemi.

Fyrsti formaðurinn var Steinunn H. Bjarnason kennari en skörungurinn Bríet Bjarnhéðinsdóttir stýrði fundi. Það voru níu félög sem stóðu að Bandalaginu og þau voru Heimilisiðnaðarfélagið, Hið íslenska kvenfélag, Kvenfélagið Hringurinn, Hvítabandið eldri deild, Hvítabandið yngri deild, Kvenfélag Fríkirkjusafnaðarins, Kvenréttindafélag Íslands, Lestrarfélag kvenna og ThorvaldsensfélagiðStjórn Bandalags kvenna í Reykjavík árið 1917

Tildrögin að Bandalaginu voru að Ingibjörg Benediktsdóttir kennari boðaði nokkrar konur til fundar í Kvennaskólanum í Reykjavík í júní 1916. Tilgangurinn var að kanna hvort konur vildu gefa út blað eða tímarit með samtökum norðlenskra kvenna (SNK). Nefnd var skipuð fimm konum til að kanna málið en af samskiptum reykvískra og norðlenskra kvenna varð þó ekki í bili. En síðar sama ár hélt nefndin fund í lesstofu Lestrarfélagsins og vildu konurnar koma á samstarfi kvenna í Reykjavík.

Teninginum var kastað og tillaga Hólmfríðar Árnadóttur kennara var samþykkt, að koma ætti á sambandi milli allra kvenfélaga í Reykjavík sem voru þá tólf talsins. Fundur var boðaður 9. mars 1917 í húsi KFUM & K og samþykkt að kjósa nefnd og semja drög að lögum fyrir heildarsamtök kvenfélaga. Fyrsti fundur fulltrúa allra sambandsfélaganna komu saman að beiðni KRFÍ þann 15. janúar 1918 í söngsal Barnaskóla Reykjavíkur til að ræða bæjarstjórnarkosningarnar með það í huga að fá konur á framboðslista.

Fyrstu framfaramálin

Á fyrsta aðalfundi Bandalagsins 3.-4. júní 1918 kom fram sú skoðun að konur þyrftu að eiga kvennabyggingu eða aðalstöðvar sem upplýsingamiðstöð, til fundarhalda og til að halda utan um starfsemina. Steinunn H. Bjarnason var frummælandi um húsnæði fyrir Bandalag kvenna og vildi stóran samkomu- og fundarsal og þriggja herbergja bókasafn með aðgangi að góðum orðabókum.

Konur vildu einnig koma upp hjúkrunarheimili, barnahæli og húsmæðraskóla til að auka menntun kvenna. Tillaga kom um skólaeldhús við alla barnaskóla landsins, almenningssjúkrahús og mjólkursölu.

Fyrsta námskeið á vegum Bandalagsins var haldið í húsakynnum Lestrarfélags kvenna í mars árið 1919 og þar var fjallað um hjúkrun. Einnig tók Bandalagið þátt í sýningum eins og blómasýningum og handavinnusýningum. Nefna má gerð Ráðhústeppisins sem var gefið 18. ágúst 1961 á 175. afmælisdegi Reykjavíkurborgar og sýnir komu Hallveigar Fróðadóttur og Ingólfs Arnarsonar til Reykjavíkur. Listakonan Vigdís Kristjánsdóttir óf teppið eftir uppdrætti Jóhanns Briem listmálara og hangir það uppi í fundarsal borgarstjórnar Reykjavíkur. Listiðn íslenskra kvenna var haldin að Kjarvalsstöðum í febrúar 1980 og svo má lengi telja.

Fjársafnanir og erlend þátttaka

Bandalagskonur voru ötular að safna fé til alls konar góðgerðarmála og tóku þátt í söfnun fyrir byggingu Landspítalans til að fagna því að þær fengu kosningarétt 19. júní 1915 og tók spítalinn til starfa árið 1930. Á hornsteini Landspítalans sem lagður var 15. júní 1926 af Alexandríu drottningu stendur:

Hús þetta – LANDSSPÍTALINN- var reistur fyrir fje, sem íslenskar konur höfðu safnað og Alþingi veitt á fjárlögum til þess að: LÍKNA OG LÆKNA.

Fæðingardeild LHS

Myndin er í eign LHS

Á árunum 1974-1976 söfnuðu konur innan Bandalagsins fé til að stækka Fæðingardeild Landspítalans. Bandalagið kom upp starfsmenntunarsjóði ungra kvenna 18. mars 1995 til að styrkja konur til að afla sér aukinnar menntunar og sjálfshjálpar. Þörfin var brýn, aðallega meðal einstæðra mæðra.

Bandalag kvenna gekk í Alþjóðasamband kvenna (International Council of Women) árið 1919 til að rækta samband við erlend kvenfélög og sóttu fundi þeirra til ársins 1932 en þá gekk Bandalagið úr Alþjóðasamtökunum. Konurnar vildu heldur eyða fjármunum sínum meðal innlendra kvenfélaga.

Árið 1920 kom Bandalagið fram með Barnadaginn og seldi merki á aðfangadag og Þorláksmessu sama ár. Konurnar ákváðu síðan að sumardagurinn fyrsti skyldi vera fjáröflunardagur með skemmtunum og merkjasölu á næsta ári til að bæta og auka leikvelli barna og hafa þar umsjónarmann. Þetta var til þess að stofnað var Barnavinafélagið Sumargjöf 11. apríl 1924 sem gekk í Bandalagið 13. nóvember 1925. Dagvistunarmál urðu því í höndum Sumargjafar og síðan Félagsmálastofnunar Reykjavíkurborgar en Bandalagið hefur alla tíð stutt við uppbyggingu dagvistunar barna og studdi einnig tillöguna um skólaskyldu sex ára barna sem hófst árið 1970.

Hallveigarstaðir og heildarsamtök

Árið 1925 var stofnfundur Kvennaheimilisins hf haldinn og þar kom fram eindregin ósk um að í húsinu yrði gististaða fyrir konur utan af landi en af því varð ekki. Svo kom hugmynd um húsnæði fyrir kvennfélög eingöngu.

Árið 1943 ritaði Soffía Ingvarsdóttir í Alþýðublaðið um kvennaheimilið Hallveigarstaði og það var eindregin ósk hennar um að húsið yrði notað eins og það var í uppruna gert ráð fyrir, gististaða fyrir konur utan af landi.

Árið 1925 var stofnfundur Kvennaheimilisins hf haldinn og þar kom fram eindregin ósk um
 að í húsinu yrði gististaða fyrir konur utan af landi en af því varð ekki. Bygging húsins hófst árið 1962 sem var skírt í höfuðið á Hallveigu Fróðadóttur, fyrstu landnámskonunni í Reykjavík. Hallveigarstaðir var vígt á kvenréttindadaginn 19. júní 1967 eða fimmtíu og tveimur árum eftir að íslenskar konur fengu kosningarétt. Bandalagið hafði haft aðstöðu hjá Thorvaldsensfélaginu í Austurstræti en leigði loks sal í kjallara Hallveigarstaða árið 1977 eftir að hafa verið í sextíu ár á hrakhólum. Eigendur Hallveigarstaða í dag eru Bandalag kvenna í Reykjavík, Kvenfélagasamband Íslands, og Kvenréttindafélag Íslands.

Árið 1954 lagði Ragnheiður Möller fram tillögu um orlof húsmæðra á Norðurlöndum fyrir landsþing Kvenfélagasambands Íslands. Orlofsnefnd húsmæðra í Reykjavík starfar á vegum Bandalagsins og voru lög um orlof húsmæðra sett á Alþingi 9. júní 1960.

Hússtjórnarfræðsla og framtíðin

Konurnar töldu að húsmæðrafræðsla væri nauðsynleg þó einhver kennsla færi fram í

Ljósmyndasafn Reykjavíkur GRO-002-132-2-2. Ljósmyndari Gunnar Rúnar Ólafsson.

 hússtjórnardeild Kvennaskólans í Reykjavík. Guðrún Lárusdóttir þingkona lagði fram frumvarp árið 1936 að breyta Kvennaskólanum í húsmæðraskóla en Ragnhildur Pétursdóttir, sem var formaður Bandalagsins 1931-1944, var á móti því að leggja niður eina kvennaskólann. Áhuginn var vakinn og keypt var hús að Sólvallagötu 12 undir Húsmæðraskóla Reykjavíkur sem tók til starfa 7. febrúar 1942 og var Hulda Á. Stefánsdóttir fyrsti skólastjórinn. Skólinn var rekinn af ríki og borg til ársins 1975 þegar kennsluháttum var breytt og nú er boðið upp á námskeið og samfellda námið stytt og ríkið tók yfir reksturinn. Árið 1998 varð skólinn að Hússtjórnarskólanum í Reykjavík.

Bandalagið hefur látið mörg þjóðþrifamál til sín taka eins og málefni fatlaðra, byggingu leiguíbúða, heilbrigðis- og tryggingarmál, hreinlæti í matvælaiðnaði, mæðraheimili, siðferðismál, útivist barna, skóla- og fræðslumál og kristnidómsfræðslu svo fátt eitt sé nefnt.

Sá veldur miklu er upphafinu veldur og konur eru enn driffjaðrir flestra framfara þegar kemur að hagsmunum kvenna, barna og aldraðra. Konur í Bandalagi kvenna í Reykjavík halda merki formæðra sinna á lofti og láta ekki deigan síga þegar reisa þarf landið úr rústum efnahagshruns og vonandi verður svo um ókomna tíð.