103. ársþing Bandalags kvenna í Reykjavík var haldið 9. mars 2019. Á þinginu var valin kona ársins hjá BKR , Bára Tómasdóttir, stofnandi “Ég á bara eitt líf”. Hvatningarviðurkenningu BKR hlutu Píeta samtökin. Hér eru viðurkenningarhafar ásamt formanni BKR, Fanneyju Úlfljótsdóttur og dætrum Báru Tómasdóttur.
Greinasafn fyrir flokkinn: Ársþing BKR
Ný stjórn Bandalags kvenna í Reykjavík
Á ársþingi BKR sem haldið var 11. mars sl. var kosin ný stjórn.
Í stjórn eru eftirtaldar konur:
- Fanney Úlfljótsdóttir, Thorvaldsensfélaginu, formaður
- Elísabet G. Þórarinsdóttir, POWERtalk, gjaldkeri
- Þorbjörn Jóhannsdóttir, Fjallkonunum, ritari
- Guðrún Barbara Tryggvadóttir, POWERtalk, varaformaður
- Katrín Magnúsdóttir, Thorvaldsensfélaginu, varagjaldkeri
- Kristín Hjartar, Hringnum, vararitari
- Kolbrún Ingólfsdóttir, Félagi háskólakvenna/Kvenstúdenta, meðstjórnandi
Frá vinstri: Guðrún, Fanney, Þorbjörg, Kolbrún, Kristín og Elísabet. á myndina vantar Katrínu.
100. ársþing BKR og afhending viðurkenninga BKR 2016
100. þingi Bandalags kvenna í Reykjavík var haldið laugardaginn 12. mars 2016 á Grand Hótel Reykjavík. Á dagskrá voru venjubundin aðalfundarstörf.
Á fundinum afhenti BKR í þriðja sinn viðurkenningar bandalagsins til aðila sem starfa á áherslusviðum félagsins. BKR telur mikilvægt að vekja athygli á því góða starfi sem unnið er á öllum sviðum samfélagsins og efla jákvæða samræðu.
KONA ÁRSINS 2016: Inga Dóra Sigfúsdóttir – fyrir brautryðjandi starf á sviði rannsókna á líðan barna og unglinga í nútímasamfélagi. Inga Dóra Sigfúsdóttir er prófessor við Háskólann í Reykjavík og stofnandi rannsóknarsetursins Rannsóknir og greining. Hún hlaut nýverið 300 milljón króna styrk frá Evrópusambandinu til að rannsaka líðan, hegðun og heilsu íslenskra barna. Í rannsókninni eru tengd saman mismunandi fræðasvið og skoðað er allt í senn; áhrifin á andlegu líðanina, á hegðunina, sem og líffræðilegu hliðina. Þannig eru tengdir saman þættir frá mismunandi fræðasviðum.
HVATNINGARVIÐURKENNING BKR 2016: Samstarfsverkefni Reykjavíkurborgar og Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu Saman gegn ofbeldi. Markmið samstarfsins er að auka þekkingarmiðlun og bæta verklag til að taka á þeim heimilisofbeldismálum sem upp koma, í því skyni að tryggja öryggi borgarbúa á heimilum sínum, veita þolendum og gerendum betri þjónustu og bæta stöðu barna sem búa við heimilisofbeldi.
Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri í Reykjavík, og Sigríður Björk Guðjónsdóttir, lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu veittu viðurkenningunni móttöku á fundinum.
Á meðfylgjandi mynd eru viðurkenningarhafar árið 2016 ásamt fráfarandi formanni BKR:
100. ársþing BKR haldið laugardaginn 12. mars
100. ársþing BKR verður haldið laugardaginn 12. mars 2015, á Grand hótel Reykjavík, í fundarsalnum Hvammi, kl. 10:00 f.h. Húsið opnar kl. 09:30.
Fundarboðið og dagskrárdrög hafa verið send formönnum aðildarfélaganna og nefnda BKR ásamt kjörbréfum. Samkv. 5. gr. í lögum bandalagsins, lið b), hefur hvert aðildarfélag heimild til að senda 3 fulltrúa með atkvæðisrétt á þingið, en áheyrnarfulltrúum er heimil seta á ársþingi BKR með málfrelsi og tillögurétti.
Skráningu á þingið skal senda á netfangið thorbjorgjo(hjá)kopavogur.is fyrir 9. mars n.k.
Á þinginu verða afhentar viðurkenningar Bandalags kvenna í Reykjavík: Kona ársins, kvenfélag ársins og hvatningarviðurkenning BKR.
Að fundi loknum snæðum við hádegisverð saman og flytja þá viðurkenningarhafar erindi um verkefni sín. Sjáumst sem flestar og fögnum góðu samstarfi kvenfélaganna innan BKR sem spannar brátt heila öld en BKR fagnar 100 ára starfsafmæli árið 2017!
Matseðill:
Bakaður léttsaltaður þorskhnakki á kartöflubeði með tómat, ólívum og hvítlauk Súkkulaðikaka með blönduðum ávöxtum og þeyttum rjóma
Í upphafi fundar verður boðið upp á ástríðudrykk með lífrænu grænmeti og ferskum ávöxtum sem veitir okkur gott orkuskot inn í daginn, og að sjálfsögðu kaffi og te.
Verð á mann er 4.960 kr.
98. þing BKR, ný stefnuskrá og afhending viðurkenninga
98. þing Bandalags kvenna í Reykjavík var haldið 8. mars 2014. Á þinginu var farið í gegnum venjuleg aðalfundarstörf. Upplýsingar um breytingar á stjórn og nefndum verða birtar síðar.
Á fundinum var samþykkt ný stefnuskrá fyrir Bandalag kvenna í Reykjavík sem byggir á lögum og reglum BKR, sögu félagsins og þeirri stefnumótun sem hefur verið unnin að undanförnu. Í stefnuskránni er leitast við að skilgreina nánar áherslusvið bandalagsins og sameiginlega framtíðarsýn.
Stefnuskrána má nálgast hér: Stefnuskrá BKR
Nýtt félag,POWERtalk á Íslandi, gekk til liðs við Bandalag kvenna í Reykjavík við mikinn fögnuð og eru aðildarfélög BKR nú sextán talsins. Markmið samtakanna er að gefa einstaklingum hvar sem er í heiminum tækifæri til sjálfsþroska með markvissri þjálfun í tjáskiptum og stjórnun.
Jafnframt afhenti BKR í fyrsta sinn viðurkenningar bandalagsins til aðila sem starfa að áherslusviðum og markmiðum félagsins. BKR telur mikilvægt að vekja athygli á því góða starfi sem unnið er á öllum sviðum samfélagsins.
Viðurkenninguna KONA ÁRSINS 2014 hlaut Herdísi Storgaard fyrir áratuga langa baráttu á sviði slysavarna, og þá sérstaklega barna. Herdís er framkvæmdastjóri Slysavarnahússins og frumkvöðull í slysavörnum barna. Einnig stýrir hún tilraunaverkefni um slysavarnir aldraðra fyrir Reykjavíkurborg.
Kvenfélagið Hringurinn hlaut viðurkenninguna KVENFÉLAG ÁRSINS 2014 fyrir störf í þágu líknar- og mannúðarmála og uppbyggingu Barnaspítala Hringsins. Félagið fagnaði 110 ára afmæli sínu á árinu og veitti af því tilefni Barnaspítala Hringsins 110 milljón króna gjöf sem gerir spítalanum kleift að vera meðal þeirra fremstu í heiminum. Árið 2012 fékk Barnaspítali Hringsins 70 milljón króna gjöf frá kvenfélaginu í tilefni af 70 ára afmæli Barnaspítalasjóðs. Formaður Hringsins, Valgerður Einarsdóttir, tók við viðurkenningunni fyrir hönd kvenfélagsins. Hér má sjá erindi Valgerðar á þinginu: Ávarp Valgerðar Einarsdóttir, formanns Hringsins
HVATNINGARVIÐURKENNINGU BKR 2014 hlaut veftímaritið kritin.is fyrir brautryðjandi starf í umræðu um skólamál. Veftímaritið Krítin var stofnað í maí 2012. Ritstjórar og hugmyndasmiðirnir veftímaritsins eru Edda Kjartansdóttir og Nanna Kristín Christiansen sem tóku við viðurkenningunni á fundinum. Markmið Krítarinnar er að auka faglega umræðu um málefni skóla og auka virðingu fyrir því starfi sem þar fer fram. Hér má sjá ávarp Eddu og Nönnu á þinginu: Ávarp Eddu og Nönnu frá kritin.is
Eftirfarandi ályktanir voru samþykktar á þinginu:
Aðildarfélög Bandalags kvenna í Reykjavík (BKR) skora á stjórnvöld að standa vörð um menntakerfið og og tryggja samfellu í skólastarfi. BKR hvetur til þess að á tímum niðurskurðar sé menntun sett framarlega í forgangsröð og haldi sínum sessi sem ein af grunnstoðum samfélagsins. Nemendur og kennarar þarfnast þess að vinnan sem fram fer í skólum sé metin að verðleikum.
Til velferðarráðuneytisins, velferðarnefndar Alþingis og formanna stjórnmálaflokka:
Bandalag kvenna í Reykjavík (BKR) mótmælir þeim mikla niðurskurði sem hefur átt sér stað á grunnheilbrigðisþjónustu. Niðurskurðurinn endurspeglast m.a. í skerðingu á þjónustu í mæðravernd og við fyrirbura, svo og á þjónustu í heilsugæslu , t.d. brjóstaráðgjöf, og slysavörnum barna. Einnig vekur BKR athygli á þeim aðstæðum sem skapast hafa á landsbyggðinni í þjónustu við verðandi mæður og börn.
Stjórn BKR þakkar fyrir góðan fund og við hlökkum til samstarfsins á nýju starfsári!
Jafnréttisnefnd BKR stofnuð
Á 97. þingi Bandalags kvenna í Reykjavík þann 9. mars sl. var jafnréttisnefnd BKR stofnuð.
Í jafnréttisnefnd sitja:
- Alda M. Magnúsdóttir, Kvenfélagi Árbæjarsóknar
- Helga Einarsdóttir, Kvenstúdentafélaginu
- Ingibjörg Rafnar Pétursdóttir, Kvenfélaginu Silfur, formaður BKR
- Kristjana Sif Bjarnadóttir, Kvenfélagi Langholtssóknar
- Sigríður Hallgrímsdóttir, Hvöt, formaður jafnréttisnefndar
Á þinginu var jafnframt ákveðið að þema árisins 2013 væri “launajafnrétti”. Jafnréttisnefnd vinnur nú að skipulagningu fundarraðar fyrir haustið 2013 þar sem fjallað verður um kynbundinn launamun. Nánar auglýst síðar.
Ný stjórn BKR hefur tekið til starfa
Ný stjórn hefur formlega tekið til starfa en stjórnarskipti voru á fundi fráfarandi stjórnar og núverandi þriðjudaginn 26. mars sl.
Nýja stjórn skipa:
- Ingibjörg Rafnar Pétursdóttir, formaður BKR, Kvenfélaginu Silfur og Kvenstúdentafélaginu (kosin 2013 til 3 ára),
- Hulda Ólafsdóttir, ritari, Kvenstúdentafélaginu (kosin 2012 til 3 ára),
- Guðlaug Jónína Aðalsteinsdóttir, gjaldkeri, Thorvaldsensfélaginu (kosin 2011 til 3 ára),
- Alda Magnúsdóttir, Kvenfélagi Árbæjarsóknar,
- Hjördís Hreinsdótir, Kvenfélaginu Silfur,
- Hjördís Jensdóttir, Kvenfélagi Hallgrímskirkju,
- Sigríður Hjálmarsdóttir, Thorvaldsensfélaginu.
Fráfarandi stjórn er þakkað vel unnin störf síðustu árin.
Ályktanir 97. þings BKR
Aðildarfélög Bandalags kvenna í Reykjavík harma að enn skuli vera óútskýrður launamunur kynjanna. Samkvæmt upplýsingum frá stéttarfélögum hefur launamunur aukist á liðnum árum. Bandalag kvenna í Reykjavík telur þetta vera óásættanlegt á árinu 2013 og krefst úrbóta.
Samþykkt á þingi Bandalags kvenna í Reykjavík laugardaginn 9. mars 2013.
Ályktun þessi var send til allra fjölmiðla / dagblaða.
Bandalag kvenna í Reykjavík og aðildarfélög þess skora á alla stjórnmálamenn, sem eru á framboðslistum, sama í hvaða flokki þeir standa, að standa vörð um heimili, skóla, velferð barna og heilbrigðismál að loknum kosningum í apríl n.k.
Greinagerð:
Nóg hefur verið skorið niður sl. fjögur ár í þessum málaflokkum, og þjóðin komin að þolmörkum. Sýnum samstöðu og verjum þessa málaflokka sem eru undirstaða í íslensku samfélagi.
Samþykkt á þingi Bandalags kvenna í Reykjavík laugardaginn 9. mars 2013.
Ályktun þessi var send öllum formönnum stjórnmálaflokka, sem fara í framboð vorið 2013.