Styrkir úr Starfsmenntunarsjóði ungra kvenna afhentir

Í dag afhenti Bandalag kvenna í Reykjavík styrki úr Starfsmenntunarsjóði ungra kvenna í 16. sinn frá stofnun sjóðsins árið 1995. Alls var úthlutað 20 styrkjum fyrir skólaárið 2013-2014 úr Starfsmenntunarsjóðnum að heildarupphæð rúmlega 2,2 milljónir króna.

Tilgangur sjóðsins er að hvetja og styðja við bakið á konum, sem ekki eiga kost á námslánum, til að afla sér aukinnar menntunar. Í gegnum tíðina hafa styrkþegar einkum verið ungar einstæðar mæður, sem einhverra hluta vegna hafa þurft að hætta námi á sínum tíma.

Á þessum 17 árum sem sjóðurinn hefur starfað hefur verið úthlutað 119 styrkjum að fjárhæð samtals kr. 13.566.000. Starfandi er fjáröflunarnefnd starfsmenntunarsjóðsins, en sú nefnd hefur unnið mikið starf. Einnig gefa aðildarfélög BKR til sjóðsins auk þess sem sjóðurinn hefur notið velvildar og styrkja ýmissa fyrirtækja og stofnana sem er ómetanlegt, m.a. SORPU / Góða hirðinum, Landsbankanum og Rio Tinto Alcan.

Ástrún Friðbjörnsdóttir sá um söng og Katrín Ósk Adamsdóttir, styrkþegi frá Starfsmenntunarsjóði ungra kvenna 2012, flutti erindi.

Starfsmenntunarsjóður úthlutun 2013

Styrkhafar 2013 ásamt formanni BKR og stjórn Starfsmenntunarsjóðs ungra kvenna.

Styrkur til ritunar meistararitgerðar – Birtingarmyndir kvenna í íslenskum fjölmiðlum

Bandalag kvenna í Reykjavík í samstarfi við Stjórnmálafræðideild HÍ og námsbraut í blaða- og fréttamennsku auglýsir styrk til ritunar meistararitgerðar um birtingarmyndir kvenna í íslenskum fjölmiðlum. Miðað er við lokaverkefni í meistaranámi, að lágmarki 30 ECTS einingar. Verkefnið þarf að hefjast sem fyrst og er miðað við að því ljúki ekki síðar en vorið 2014.

Verkefnið hentar meistaranema í kynjafræði, stjórnmála- og stjórnsýslufræðum, blaða- og fréttamennsku eða almennum félagsvísindum og skal beita kynjafræðilegu sjónarhorni á verkefnið. Markmið verkefnisins er að m.a. að kanna kynjahlutföll í fjölmiðlum og að hvaða marki mismunandi birtingarmyndir búi að baki mismunandi sýnileika kynjanna. Gert er ráð fyrir að rannsóknin verði gagnagreining, spurningakönnun og/eða viðtalsrannsókn.

Styrkurinn verður veittur nema sem sækir um í samráði við leiðbeinanda sinn. Umsókn skal vera á bilinu 200–500 orð þar sem fram kemur nánar hvernig umsækjandi telur rétt að standa að rannsókninni og hvaða öðrum spurningum sé mikilvægt að svara. Leiðbeinandi getur ekki sótt um fyrir ótiltekinn nemenda.

Styrkurinn er að upphæð kr. 300.000 og verður hann greiddur út í tvennu lagi, 150.000 þegar þriðjungi vinnunnar er lokið að mati leiðbeinanda og 150.000 þegar verkefni er lokið. Styrkveitendur fá kynningu á niðurstöðum auk eintaks af rannsókninni.

Umsóknarfrestur er til og með 15. september 2013.

Umsókn og ferilskrá, ásamt staðfestingu leiðbeinanda, skal senda á skrifstofu Stjórnmálafræðideildar HÍ í Gimli við Sturlugötu, 101 Reykjavík eða á elva@hi.is

HÍ lógó

BKR Lógó

Afhending styrkja úr Starfsmenntunarsjóði ungra kvenna

Afhending styrkja úr Starfsmenntunarsjóði ungra kvenna fer fram í hátíðarsal Hallveigarstaða, Túngötu 14, fimmtudaginn 29. ágúst kl. 17:30Í boði verða léttar veitingar.

BKR stofnaði starfsmenntunarsjóð ungra kvenna þann 18. mars 1995. Tilgangur sjóðsins er að hvetja og styðja við bakið á konum, sem ekki eiga kost á námslánum, til að afla sér aukinnar menntunar. Einkum eru þetta ungar einstæðar konur með börn, sem einhverra hluta vegna hafa þurft að hætta námi á sínum tíma.

Nánari upplýsingar um starfsmenntunarsjóð ungra kvenna má finna hér.

Stjórn Starfsmenntunarsjóðs ungra kvenna