Opinn fundur um konur og fjölmiðla

Konur og fjölmiðlarFöstudaginn 12. september kl. 15-17 standa Bandalag kvenna í Reykjavík í samstarfi við MARK (Miðstöð margbreytileika og kynjarannsókna), HÍ námsbraut í blaða- og fréttamennsku og Félag fjölmiðlakvenna fyrir opnum fundi um hlut kvenna í fjölmiðlum. Fundurinn verður haldinn í Háskóla Íslands, Odda, stofu 101.

Velferðarráðuneytið styrkir viðburðinn.

BKR styrkti MA rannsókn um konur í fjölmiðlum árið 2013 og liggja niðurstöður þeirrar rannsóknar nú fyrir en rannsakandinn kemur m.a. inn á starfsumhverfið á RÚV og 365. Arnhildur Hálfdánardóttur verður með eitt af 3 erindum fundarins en hér má sjá umfjöllun um niðurstöður rannsóknar hennar: Umfjöllun mbl.is
Og hér má nálgast ritgerðina í heild sinni.

Dagskrá fundarins: 

  • “Aðgengi eða áhugi? Munur á efnistökum og vægi frétta eftir karla og konur.” Kynning á niðurstöðum MA rannsóknar. Arnhildur Hálfdánardóttir, MA í blaða- og fréttamennsku
  • Kynning á fjölmiðlaverkefni Félags kvenna í atvinnulífinu (FKA), Þórdís Lóa, formaður FKA
  • “Batnandi konum er best að lifa”. Upplifunarfrásögn – hvað lesa ungar konur úr skilaboðum fjölmiðla. Hildur Knútsdóttir, rithöfundur

Pallborð: Fyrirlesarar, Ingibjörg Dögg Kjartansdóttir, fyrrverandi aðstoðarritstjóri DV frá Félagi fjölmiðlakvenna, Sigríður Hagalín Björnsdóttir, varafréttastjóri RÚV og Hrund Þórsdóttir, fréttamaður á Stöð 2.

Fundarstjóri: Sigríður Dögg Auðunsdóttir, fyrrv. ritstjóri Fréttatímans og stofnandi Inspiral.ly.

Léttar veitingar í boði að fundi loknum.

Viðburðurinn á Facebook

Hlökkum til þess að sjá ykkur sem flest!

Samantekt frá fundi um börn og nútímasamfélag

Bandalag kvenna í Reykjavík (BKR) stóð fyrir opnum fundi um börn og nútímasamfélag á Hótel Reykjavík Natura miðvikudaginn 28. maí 2014. Þar var til umræðu hvaða umhverfi við erum að skapa börnunum okkar, viðverutími barna hjá dagforeldrum og í leikskólum og hugmyndir um styttingu vinnudagsins sem lið í samþættingu atvinnu- og fjölskyldulífs.

MP erindiFundarstjóri var Margrét Pála Ólafsdóttir, höfundur Hjallastefnunnar, og flutti hún jafnframt opnunarávarp. Margrét Pála þakkaði BKR fyrir að taka af skarið með þarfa umfjöllun um börn og það samfélag sem við höfum byggt upp.

Að mati Margrétar Pálu hentar núverandi fyrirkomulag börnum ekki sérstaklega vel og samfélagið er ekki nægilega meðvitað um stöðuna. Margt gott er gert, þó taka mætti umræðuna með jákvæðari hætti. Börn þurfa í auknum mæli tíma foreldranna, næði og frið. Nútímasamfélag gerir miklar kröfur til barna og foreldra, ekki síst vegna aukinnar samkeppni á atvinnumarkaði og kröfur um hærra menntunarstig sem leiðir til þess að samhliða fullu starfi eru foreldrar oft í námi. Auk þessa eru kröfur um metnaðarfullan starfsferil, fallegt heimili, frábært félagslíf og lífsgæði sem fela í sér utanlandsferðir og fleira. Margrét Pála spurði hvað þetta þýði fyrir börnin.

Hið nýja gull Vesturlanda sé tíminn – allir keppast um tímann. Börn sem fá allar heimsins gjafir og efnalega velsæld fá oft minnst af þessari gjöf frá fjölskyldunni; tíma, næði og frið.

„Sparsemi í umönnun ungra barna kann að líta vel út í excel skjali en það er einungis vegna þess að dæmið sé ekki reiknað til enda.“

Að loknu opnunarávarpinu fjallaði Sæunn Kjartansdóttir, sálgreinir og höfundur bókarinnar Árin sem enginn man, um kröfur samfélagsins til ungra barna. Sæunn þakkaði BKR fyrir að opna á mjög svo tímabæra umræðu um börn í nútímasamfélagi en að mati Sæunnar höfum við í langan tíma veigrað okkur við að ræða hlutskipti ungra barna. Ástæður þessa taldi Sæunn vera að við viljum forðast bakslag í jafnréttisbaráttunni, viljum ekki vekja sektarkennd hjá foreldrum og í þriðja lagi viljum við sem minnst vesen. Þetta hefur valdið tregðu til þess að horfa á þarfir barna og að leita nýrra leiða til þess að mæta þeim.

Hún vakti máls á því að samfélagið telji lausnina vera þá að byggja nógu marga leikskóla með sem yngstum börnum, til þess að foreldrarnir geti unnið sem mest og áhyggjulaus sinnt öðrum hugðarefnum.

Sæunn hefur sérstaklega sinnt málefnum yngstu barnanna og fjölskyldum þeirra. Í erindi Sæunnar kom fram að hún hefur efasemdir um ungbarnaleikskóla. Hugmyndin þar að baki sé ekki slæm en við höfum ekki sýnt fram á getu okkar til þess að skapa innan leikskólanna „barnsæmandi“ skilyrði.

Í erindi sínu fjallaði Sæunn um þroska heilans, tilfinningaþroska ungra barna, og mikilvægi tilfinningalegra tengsla og ánægjulegra samskipta við umsjónaraðila. Þá hafi langvarandi aðstæður sem skapa streitu hjá ungum börnum áhrif á ónæmiskerfi þeirra og sé barn í viðvarandi aðstæðum sem veldur hræðslu eða kvíða geti það valdið skorti á einbeitingu og aukinni hættu á streitutengdum sjúkdómum, kvíða og þunglyndi, á seinni aldursskeiðum. Það er streituvaldandi fyrir börn að þeim sé ætlaður meiri þroski en þau standa undir – felur í sér að við gerum til þeirra kröfur sem þau ráða ekki við.

Í samræðum við leikskólakennara undanfarin ár hefur Sæunn orðið vör við þungar áhyggjur þeirra af þróun leikskóla – börnin séu of ung og of mörg, þau dvelja í leikskólunum með of fáu starfsfólki, sem margt hvert vantar fagþekkingu og staldrar stutt við.

Foreldrar og samfélagið þarf að horfast í augu við þá staðreynd að það þarf að sinna börnum og það tekur tíma. Að öllu jöfnu eru foreldrar best til þess fallnir og því mikilvægara að lengja fæðingarorlofið heldur en að fjölga plássum á ungbarnaleikskólum. Einnig þurfa foreldrar að vera meðvitaðir um þarfir barna sinna þegar þau forgangsraða tíma sínum. Það þurfi að gera foreldrum kleift að skoða hvað hentar hverju og einu barni og hvað henti þeim sem fjölskyldu.

„Góðærið fór illa með leikskólann og kreppan gerði það líka“

Kristín Dýrfjörð, dósent við Háskólann á Akureyri, ræddi áhrif ytra umhverfis leikskólans á veruleika barna og hvernig leikskólarnir hafa verið að þróast kerfislega síðustu ár.

Í erindi Kristínar kom fram mat hennar að leikskólar séu góðir fyrir börn ef vel er að honum staðið. M.a. þurfi að huga að fermetrafjölda á barn og fjölda barna á starfsmann. Í umræðum um aðbúnað barna er sjaldan rætt um að láta börnin njóta vafans né séu nauðsynlegar rannsóknir gerðar á umhverfi þeirra og niðurstöður þeirra látnar ráða för.

Kristín benti á að stærsta breytingin inni á leikskólunum á undanförnum árum hafi átt sér stað hjá eins og tveggja ára börnum, en þeim hefur fjölgað mikið og hratt á leikskólum síðastliðin ár. Þá fái leikskólabörn í dag minna pláss í fermetrum talið en fyrir rúmum tveimur áratugum. Húsnæði margra leikskóla hafi ekkert breyst eða stækkað en samt hefur plássunum fjölgað gríðarlega. Eftir að ný lög um leikskóla voru sett árið 2008 er hvorki hámark barnafjölda á starfsmann né lágmarksfjöldi fermetra í gildi á Íslandi. Kristín telur að okkur hefur farið aftur og það á kostnað barnanna. Vinnuaðstæður margra kennara séu í dag óviðunandi og meðal annars hafi dregið úr afleysingum eftir hrun.

Kristín fjallaði um að í dag greiði foreldrar að jafnaði 20% raunkostnaðar og hefur hún talað fyrir hugmyndum um að fyrstu 6 tímar barns í leikskóla séu gerðir gjaldfrjálsir en foreldrar greiði fyrir tímana sem þeir þurfi aukreitis, þe. 7., 8. og 9. tímann.

Ágreiningur um áherslur og leiðir

Gunnar Örn Gunnarsson, framkvæmdastjóri SLFÍ og fulltrúi BSRB í vinnuhópi velferðarráðuneytisins um samræmingu fjölskyldulífs og atvinnu, fjallaði um niðurstöður vinnuhópsins sem skilað var fyrri hluta árs 2013.

Vinnuhópurinn taldi að könnun á hagkvæmni þess að stytta vinnuvikuna félli ekki vel að öðrum verkefnum hópsins. Vinnuhópurinn taldi málið þarfnast sérstakrar rannsóknar og dýpri umræðu á öðrum vettvangi, m.a. vegna þess að stytting vinnuvikunnar tengist kjarasamningum á almennum og opinberum vinnumarkaði. Lagt var til að skipuð yrði sérstök nefnd sem eingöngu hefði það verkefni að fjalla um styttingu vinnuvikunnar. Þessi nefnd hefur ekki enn verið skipuð.

Vaktavinnustéttir, t.d. innan BSRB, lögðu í nýlegum kjarasamningum áherslu á styttingu vinnudagsins en sú hugmynd fékk ekki hljómgrunn. Að loknum samningnum er sú hugmynd hvergi á blaði. Kennarar fárra stétta hafa haft sveigjanlegan vinnutíma, en hafa verið að semja þau réttindi af sér jafnt og þétt.

Gunnar nefndi nokkrar mögulegar leiðir til bóta til að auðvelda samþættingu atvinnu og fjölskyldulífs, þ.á.m. styttingu vinnuvikunnar, sveigjanlegan vinnutíma, breytt viðhorf gagnvart löngum viðverutíma á vinnustað, og mannsæmandi laun fyrir dagvinnu.

Af hverju eiga börnin og leikskólarnir alltaf að koma til móts við atvinnulífið – er ekki kominn tími til að atvinnulífið komi til móts við þarfir barnanna og barnafjölskyldna?

Að loknum voru pallborðsumræður þar sem Hrefna Sigurjónsdóttir, framkvæmdastjóri Heimilis og skóla – landssamtaka foreldra, og Sveinn S. Kjartansson, formaður Félags foreldra leikskólabarna, tóku þátt. Áhersla var lögð á að efla þurfi umræðuna um velferð ungra barna og þann raunveruleika sem ríkir innan leikskólanna.

Áhyggjur voru af lengdum viðverutími barna í leikskólum og fjölgun barna sem eru upp í 9 tíma í leikskóla á dag. Breyta þurfi viðhorfinu að leikskólinn eigi ávallt að koma til móts við þarfir foreldranna og atvinnulífið og að tími sé kominn til þess að atvinnulífið komi til móts við þarfir barna og barnafjölskyldna.

Myndir frá viðburðinum má nálgast á Facebook síðu BKR.

Jólafundur BKR og fjáröflun fyrir starfsmenntunarsjóð ungra kvenna

Jólafundur Bandalags kvenna í Reykjavík verður haldinn fimmtudaginn 21. nóvember kl. 19:30 að Hallveigarstöðum, Túngötu 14.

Húsið opnar með léttum veitingum / jólaglöggi kl. 19:00.

Dagskrá fundarins:

  • Ávarp formanns BKR
  • Sigrún Pálsdóttir les upp úr nýútkominn bók sinni, Sigrún og Friðgeir – Ferðasaga
  • Dagmar Sigurðardóttir, formaður Hvítabandsins, afhentir gjöf mætrar Hvítabandskonu, Ragnhildar Einarsdóttur, sem safnaðist í tilefni 80 ára afmælis hennar í haust
  • Happdrætti til styrktar Starfsmenntunarsjóði ungra kvenna

Veitingar: Heitt súkkulaði og meðlæti að hætti “Ásdísar”.

Sigrún Pálsdóttir verður jafnframt með bók sína til sölu á sérstöku tilboðsverði fyrir gesti fundarins.

Við hlökkum til að sjá ykkur á jólafundinum og eiga ánægjulega kvöldstund saman – allir velkomnir!

Stjórn Bandalags kvenna í Reykjavík

Fyrirtæki sem gáfu vinninga fyrir happdrættið til styrktar Starfsmenntunarsjóði ungra kvenna.

Styrkur til ritunar meistararitgerðar – Birtingarmyndir kvenna í íslenskum fjölmiðlum

Bandalag kvenna í Reykjavík í samstarfi við Stjórnmálafræðideild HÍ og námsbraut í blaða- og fréttamennsku auglýsir styrk til ritunar meistararitgerðar um birtingarmyndir kvenna í íslenskum fjölmiðlum. Miðað er við lokaverkefni í meistaranámi, að lágmarki 30 ECTS einingar. Verkefnið þarf að hefjast sem fyrst og er miðað við að því ljúki ekki síðar en vorið 2014.

Verkefnið hentar meistaranema í kynjafræði, stjórnmála- og stjórnsýslufræðum, blaða- og fréttamennsku eða almennum félagsvísindum og skal beita kynjafræðilegu sjónarhorni á verkefnið. Markmið verkefnisins er að m.a. að kanna kynjahlutföll í fjölmiðlum og að hvaða marki mismunandi birtingarmyndir búi að baki mismunandi sýnileika kynjanna. Gert er ráð fyrir að rannsóknin verði gagnagreining, spurningakönnun og/eða viðtalsrannsókn.

Styrkurinn verður veittur nema sem sækir um í samráði við leiðbeinanda sinn. Umsókn skal vera á bilinu 200–500 orð þar sem fram kemur nánar hvernig umsækjandi telur rétt að standa að rannsókninni og hvaða öðrum spurningum sé mikilvægt að svara. Leiðbeinandi getur ekki sótt um fyrir ótiltekinn nemenda.

Styrkurinn er að upphæð kr. 300.000 og verður hann greiddur út í tvennu lagi, 150.000 þegar þriðjungi vinnunnar er lokið að mati leiðbeinanda og 150.000 þegar verkefni er lokið. Styrkveitendur fá kynningu á niðurstöðum auk eintaks af rannsókninni.

Umsóknarfrestur er til og með 15. september 2013.

Umsókn og ferilskrá, ásamt staðfestingu leiðbeinanda, skal senda á skrifstofu Stjórnmálafræðideildar HÍ í Gimli við Sturlugötu, 101 Reykjavík eða á elva@hi.is

HÍ lógó

BKR Lógó

Viðtal við nýjan formann BKR í Fréttatímanum

Fréttatíminn birti í dag viðtal við nýjan formann Bandalags kvenna í Reykjavík um stefnumótun og breyttar áherslur í starfseminni.

Viðtal við nýjan formann BKR

Fréttatíminn, 07.06 2013 | Dægurmál

Ný kynslóð nútímavæðir kvenfélögin

Ingibjörg Rafnar Pétursdóttir er rétt rúmlega þrítug og nýkjörin formaður Bandalags kvenna í Reykjavík. Hún segir verkefni kvenfélaga margþæ„Bandalagið er núna að skoða breyttar áherslur eftir breytingar síðustu ára og við viljum setja kraft í stefnumótun og gera starfsemina aðgengilegri,“ segir Ingibjörg Rafnar Pétursdóttir, nýr formaður Bandalags kvenna í Reykjavík. Að mati Ingibjargar er bandalagið svolítið gleymdur vettvangur fyrir samræður félaga sem starfa að sömu markmiðum, bættri stöðu kvenna, mennta-, velferðar- og fjölskyldumálum. Um 1.200 konur starfa innan þeirra fimmtán félaga sem aðild eiga að Bandalagi kvenna í Reykjavík.

Konur söfnuðu fyrir Landspítalanum

Þessa dagana vinnur stjórn Bandalags kvenna í Reykjavík að stefnuskrá þar sem lögð er áhersla á að efla bandalagið og gera það sýnilegra út á við. Innan bandalagsins hafa starfað kvenfélög í bland við stéttarfélög og styrktarfélög. „Strax í upphafi var þetta mjög framsækin hreyfing og helsti vettvangur umræðna um bætta stöðu kvenna og samfélagslegrar þjónustu. Bandalagið beitti sér til dæmis fyrir því að konur byðu sig fram í opinber embætti og nefndir og færa má rök fyrir því að kvenfélögin hafi að vissu leyti lagt grunninn að heilbrigðiskerfinu eins og það er í dag. Það voru til dæmis konur sem söfnuðu fyrir Landspítalanum,“ segir Ingibjörg og bætir við að bandalagið hafi knúið á um stofnun barnaheimila og sorphirðu á vegum sveitarfélaga á sínum tíma. „Í flestum tilfellum eru þetta grasrótarfélög sem standa fyrir ákveðnum samfélagslegum verkefnum í nærumhverfi sínu og ná þannig einstakri tengingu við íbúana og geta metið hvar þörf er fyrir aðstoð. Þetta eru öflug félög eins og Hringurinn sem leggur áherslu á að bæta aðstöðu veikra barna, Thorvaldsensfélagið og fleiri,“ segir Ingibjörg.

Kvenfélög á tímamótum

Að mati Ingibjargar standa kvenfélögin nú á tímamótum. „Kvenfélögin hafa ávallt sinnt svokölluðu „frumkvæðishlutverki“ – það er að koma auga á málefni sem þarfnast athugunar og finna ný úrræði til að leysa ýmsan vanda. Í gegnum árin hafa ríkið og Reykjavíkurborg tekið yfir rekstur og umsjón með mörgum þeim málaflokkum og verkefnum sem aðildarfélög bandalagsins höfðu frumkvæði að. Hinsvegar hafa aðildarfélögin og bandalagið vakað yfir þeim málaflokkum sem þeim eru nærri hjarta. Sem dæmi má nefna að konur innan Bandalagsins söfnuðu fyrir stækkun fæðingardeildar Landspítalans á sínum tíma,“ segir Ingibjörg.

Vantar fleiri ungar konur

Að sögn Ingibjargar eru uppi áhyggjur hjá sumum kvenfélaganna um nýliðun þó staðan sé misjöfn. „Kvenfélögin hafa verið lítið fyrir að flagga starfsemi sinni og ákveðinn misskilningur virðist þess vegna ríkja um verkefnin. Margir virðast halda að kökubakstur og prjónaskapur sé helsta áhersla þeirra en verkefnin eru mun margþættari en svo þó konurnar nýti vissulega hæfileika sína í bakstri og hannyrðum til að safna fyrir góðum málefnum,“ segir Ingibjörg. Nýjasta kvenfélagið heitir Silfur og eru flestar konurnar þar á milli þrítugs og fertugs. „Svo má ekki gleyma því að í Hringnum eru konur á öllum aldri. Innan okkar vébanda eru líka nokkrar kvennahreyfingar stjórnmálaflokka, eins og félög framsóknar- og sjálfstæðiskvenna.“

Styrkja ungar konur til náms

Þessa dagana tekur Bandalag kvenna í Reykjavík á móti umsóknum um styrki frá Styrktarsjóði ungra kvenna í Reykjavík. Sjóðurinn veitir styrki til ungra kvenna sem hætt hafa námi og vilja halda áfram en stendur ekki til boða að taka lán hjá Lánasjóði íslenskra námsmanna. „Sjóðurinn var settur á stofn árið 1995 eftir að rannsóknir á vegum Rauða krossins sýndu að það væru einstæðar, lítið menntaðar konur sem ættu hvað erfiðast uppdráttar í samfélaginu. Bandalag kvenna í Reykjavík ákvað að mæta þessum vanda og veitir konum styrki, til dæmis vegna bókakaupa og greiðslu skólagjalda,“ segir Ingibjörg. Umsóknarfrestur rennur út 19. júní næstkomandi.

Rannsóknir á stöðu kvenna í dag

Í haust úthlutar Bandalag kvenna í Reykjavík styrk, í samstarfi við Háskóla Íslands, til lokaverkefnis í meistaranámi þar sem birtingarmynd kvenna í fjölmiðlum er skoðuð. „Þessi styrkur er hluti af nýjum áherslum hjá Bandalaginu. Það er mikilvægt að skoða hvaða skilaboð ungar konur fá varðandi staðalímyndir í fjölmiðlum. Ég geri ráð fyrir því að í framhaldinu verði fastur liður hjá okkur að styrkja rannsóknir sem snúa að áherslumálum Bandalags kvenna í Reykjavík, stöðu kvenna í nútíma samfélagi, mennta-, velferðar- og fjölskyldumálum,“ segir Ingibjörg. Þema ársins 2013 hjá Bandalaginu er launajafnrétti og stendur til að halda fyrirlestraröð um kynbundinn launamun næsta haust. ,,Þessi verkefni eru öll hluti af okkar nýju áherslum og því markmiði að gera starfsemina nútímalegri, segir Ingibjörg.“

Dagný Hulda Erlendsdóttir

dagnyhulda@frettatiminn.is