Kvenfélag Bústaðasóknar styrkir Starfsmenntunarsjóð ungra kvenna

Formaður Kvenfélags Bústaðasóknar, Hólmfríður Ólafsdóttir, afhenti í dag formanni Bandalags kvenna í Reykjavík, Ingibjörgu Rafnar Pétursdóttur, styrk kvenfélagsins til Starfsmenntunarsjóðs ungra kvenna upp á 100 þúsund krónur.

Bandalag kvenna í Reykjavík færir Kvenfélagi Bústaðasóknar bestu þakkir fyrir styrkinn til sjóðsins sem í ár fagnar 20 ára starfsafmæli. Frá upphafi hefur verið úthlutað úr sjóðnum styrkjum að upphæð tæplega 16 milljóna króna til um 140 ungra kvenna sem ekki eiga annan kost á námslánum.

Hólmfríður Ólafsdóttir, formaður Kvenfélags Bústaðakirkju afhentir Ingibjörgu Rafnar Pétursdóttur, formanni BKR styrk kvenfélagsins til Starfsmenntunarsjóðs ungra kvenna

Hólmfríður Ólafsdóttir, formaður Kvenfélags Bústaðakirkju afhentir Ingibjörgu Rafnar Pétursdóttur, formanni BKR styrk kvenfélagsins til Starfsmenntunarsjóðs ungra kvenna

 

Auglýst eftir umsóknum um styrki til Starfsmenntunarsjóðs ungra kvenna, 2014-2015

Bandalag kvenna í Reykjavík auglýsir eftir umsóknum um styrki til Starfsmenntunarsjóðs ungra kvenna fyrir skólaárið 2014-2015.

Tilgangur sjóðsins er að hvetja og styðja við bakið á ungum konum í Reykjavík, sem ekki eiga kost á námslánum, til að afla sér aukinnar menntunar.

Umsóknareyðublað, úthlutunarreglur og allar nánari upplýsingar má nálgast hér.

Einnig má nálgast umsóknareyðublöð í versluninni Thorvaldsensbasarinn, Austurstræti 4, alla virka daga milli kl. 14:00 og 18:00.

Fyrirspurnir og upplýsingar má senda á netfang bandalagsins: bandalagkvennarvk@gmail.com

Umsóknir um styrki skal senda til Bandalags kvenna í Reykjavík, Túngötu 14, 101 Reykjavík, merktar „Námsstyrkir‟. Umsóknarfrestur er til 19. júní næstkomandi.

Námskeið um fundarsköp og fundarstjórn

BKR býður félagskonum aðildarfélaganna að taka þátt í námskeiði um fundarsköp og fundarstjórn fimmtudaginn 30. janúar kl. 19:30-22:00 í sal Hallveigarstaða, Túngötu 14.

Fjallað verður almennt um lykilatriði í fundarstjórn, og þátttakendur gera verklegar æfingar í fundarritun og fundarstjórn. Námskeiðið ætlað öllum þeim sem hafa áhuga á að kynna sér betur og skerpa á grunnatriðum fundarskapa og ekki síður gott fyrir þá sem vilja fá aukið sjálfstraust í þátttöku á fundum þar sem reglurnar gilda.

Ingibjörg Vigfúsdóttir frá Powertalk International er leiðbeinandi námskeiðsins:

Ingibjorg Vigfusdottir_myndIngibjörg Vigfúsdóttir, er fædd 19. maí árið 1956, í Seljatungu, Gauðverjabæjarhreppi – í Árnessýslu.  Þar  ólst hún upp ásamt foreldrum sínum og bræðrum til 16 ára aldurs.  Hún lauk gagnfræðaprófi frá Gagnfræðaskóla Selfoss og síðar útgerðartækni frá Tækniskóla Íslands.  Hún starfaði hjá útgerðarfyrirtækjum , á Eyrarbakka og síðan hjá Granda í Reykjavík í tvo áratugi.  Nú starfar hún hjá Skiptum, móðurfélagi Símans, og sinnir þar skipulagningu ferðalaga starfsmanna.  Ingibjörg er tvígift og á eina dóttur barna.  Hún les mikið, fer gjarnan í leikhús og á tónleika – þykir gaman að borða og elda mat, ekki síst í góðra vina hópi.  Fer í laxveiðar á sumrin með manni sínum og vildi gjarnan geta notað afganginn af árinu til ferðalaga.

Fyrst og fremst lofum við skemmtilegu kvöldi í góðum félagsskap!

Skráningarfrestur er til 28. janúar – skráning sendist á netfangið: bandalagkvennarvk@gmail.com 

Við vonumst til þess að sjá ykkur sem flestar!

Viltu prófa eitthvað nýtt, efla tengslanetið og láta gott af þér leiða?

Innan BKR eru 15 aðildarfélög sem starfa starfa á breiðum grunni að félags-, líknar- og mannúðarmálum. Verkefni kvenfélaganna eru fjölbreytt og mótast starfsemi og áherslur þeirra af þeim konum sem taka þátt í starfinu hverju sinni.

Kvenfélögin í Reykjavík starfa flest í tengslum við ákveðna málaflokka og/eða ákveðna borgarhluta og eru þannig í einstöku sambandi við nærumhverfi sitt og samfélag. Þannig þekkja þau vel hvar þörf er fyrir aðstoð hverju sinni og hvað má bæta í samfélagi nútímans.

Taktu þátt í skemmtilegu starfi kvenfélaganna og láttu gott af þér leiða!

Hér getur þú skoðað nánari upplýsingar um aðildarfélög BKR, starfsemi og skipulag.

Viðtal við formann BKR hjá Sirrý á sunnudagsmorgni, Rás 2

Sirrý Arnardóttir fjallaði um jafnréttismál í þætti sínum í dag, 27. október, í tilefni þess að jafnréttisvikan hefst í dag. Af því tilefni bauð hún formanni BKR, Ingibjörgu Rafnar Pétursdóttur, til sín í skemmtilegt spjall um Bandalag kvenna í Reykjavík, starfsemina, verkefnin og framtíðarsýnina.

Viðtalið má nálgast hér: Sirrý á sunnudagsmorgni, 27. október 2013

Umfjöllun Fréttatímans um ársskýrslu BKR fyrir árið 2012

Hér má nálgast umfjöllun Fréttatímans í helgarblaðinu 28-30. júní um ársskýrslu BKR fyrir árið 2012:

Söfnuðu 145 milljónum á síðasta ári

27.06 2013 | Dægurmál

Söfnuðu 145 milljónum á síðasta ári

Friðrika Hjördís Geirsdóttir og Ingibjörg Birna Kjartansdóttir stjórna Bingói hjá kvenfélaginu Silfri.

Aðildarfélög Bandalags kvenna í Reykjavík söfnuðu um 145 milljónum til ýmissa góðgerðarmálefna á síðasta ári, að því er kemur fram í ársskýrslu bandalagsins. Hæstu upphæðinni safnaði Hringurinn eða 135 milljónum. Barnaspítali Hringsins fékk 70 milljónir af þeirri upphæð í tilefni af 10 ára afmæli sínu og 70 ára afmæli Barnaspítalasjóðsins. Hringurinn styrkti einnig ýmsar aðrar heilbrigðisstofnanir svo sem skurðstofu Landspítalans í Fossvogi, Háls- nef og eyrnadeild barna og Meðgöngu og sængurkvennadeild Landspítalans.

Önnur aðildarfélög Bandalags kvenna í Reykjavík styrktu ýmis málefni á árinu og má þar nefna sérdeild Fjölbrautaskólans í Breiðholti fyrir fatlaða nemendur sem hlaut spjaldtölvu að gjöf frá kvenfélögum hverfisins. Kvenfélag Hallgrímskirkju veitti ungri stúlku í Kenýa styrk fyrir gervihandlegg auk þess sem Dyngjan, áfangaheimili fyrir konur, og Átröskunarteymi Landspítalans fengu styrki frá Hvítabandinu. Thorvaldsenssjóðurinn styrkti sykursjúk börn og unglinga til sumardvalar og Kvenfélagið Silfur styrkti Líf, styrktarfélag kvennadeildar Landspítalans, svo nokkur dæmi séu nefnd.

Aðildarfélög Bandalags kvenna í Reykjavík eru fimmtán talsins og beita margvíslegum fjáröflunarleiðum, svo sem útimörkuðum, rekstri verslana, eins og Thorvaldsensbasarsins í Austurstræti og verslunar Hvítabandsins í Furugrund. Félögin halda happdrætti og bingó, ásamt því að selja kaffi, kökur og prjónavörur. Kvenfélagið Silfur, sem er yngsta félagið, hefur meðal annars haldið galakvöld og fatasölur í Kolaportinu í sinni fjáröflun.

Dagný Hulda Erlendsdóttir
dagnyhulda@frettatiminn.is

Viðtal við nýjan formann BKR í Fréttatímanum

Fréttatíminn birti í dag viðtal við nýjan formann Bandalags kvenna í Reykjavík um stefnumótun og breyttar áherslur í starfseminni.

Viðtal við nýjan formann BKR

Fréttatíminn, 07.06 2013 | Dægurmál

Ný kynslóð nútímavæðir kvenfélögin

Ingibjörg Rafnar Pétursdóttir er rétt rúmlega þrítug og nýkjörin formaður Bandalags kvenna í Reykjavík. Hún segir verkefni kvenfélaga margþæ„Bandalagið er núna að skoða breyttar áherslur eftir breytingar síðustu ára og við viljum setja kraft í stefnumótun og gera starfsemina aðgengilegri,“ segir Ingibjörg Rafnar Pétursdóttir, nýr formaður Bandalags kvenna í Reykjavík. Að mati Ingibjargar er bandalagið svolítið gleymdur vettvangur fyrir samræður félaga sem starfa að sömu markmiðum, bættri stöðu kvenna, mennta-, velferðar- og fjölskyldumálum. Um 1.200 konur starfa innan þeirra fimmtán félaga sem aðild eiga að Bandalagi kvenna í Reykjavík.

Konur söfnuðu fyrir Landspítalanum

Þessa dagana vinnur stjórn Bandalags kvenna í Reykjavík að stefnuskrá þar sem lögð er áhersla á að efla bandalagið og gera það sýnilegra út á við. Innan bandalagsins hafa starfað kvenfélög í bland við stéttarfélög og styrktarfélög. „Strax í upphafi var þetta mjög framsækin hreyfing og helsti vettvangur umræðna um bætta stöðu kvenna og samfélagslegrar þjónustu. Bandalagið beitti sér til dæmis fyrir því að konur byðu sig fram í opinber embætti og nefndir og færa má rök fyrir því að kvenfélögin hafi að vissu leyti lagt grunninn að heilbrigðiskerfinu eins og það er í dag. Það voru til dæmis konur sem söfnuðu fyrir Landspítalanum,“ segir Ingibjörg og bætir við að bandalagið hafi knúið á um stofnun barnaheimila og sorphirðu á vegum sveitarfélaga á sínum tíma. „Í flestum tilfellum eru þetta grasrótarfélög sem standa fyrir ákveðnum samfélagslegum verkefnum í nærumhverfi sínu og ná þannig einstakri tengingu við íbúana og geta metið hvar þörf er fyrir aðstoð. Þetta eru öflug félög eins og Hringurinn sem leggur áherslu á að bæta aðstöðu veikra barna, Thorvaldsensfélagið og fleiri,“ segir Ingibjörg.

Kvenfélög á tímamótum

Að mati Ingibjargar standa kvenfélögin nú á tímamótum. „Kvenfélögin hafa ávallt sinnt svokölluðu „frumkvæðishlutverki“ – það er að koma auga á málefni sem þarfnast athugunar og finna ný úrræði til að leysa ýmsan vanda. Í gegnum árin hafa ríkið og Reykjavíkurborg tekið yfir rekstur og umsjón með mörgum þeim málaflokkum og verkefnum sem aðildarfélög bandalagsins höfðu frumkvæði að. Hinsvegar hafa aðildarfélögin og bandalagið vakað yfir þeim málaflokkum sem þeim eru nærri hjarta. Sem dæmi má nefna að konur innan Bandalagsins söfnuðu fyrir stækkun fæðingardeildar Landspítalans á sínum tíma,“ segir Ingibjörg.

Vantar fleiri ungar konur

Að sögn Ingibjargar eru uppi áhyggjur hjá sumum kvenfélaganna um nýliðun þó staðan sé misjöfn. „Kvenfélögin hafa verið lítið fyrir að flagga starfsemi sinni og ákveðinn misskilningur virðist þess vegna ríkja um verkefnin. Margir virðast halda að kökubakstur og prjónaskapur sé helsta áhersla þeirra en verkefnin eru mun margþættari en svo þó konurnar nýti vissulega hæfileika sína í bakstri og hannyrðum til að safna fyrir góðum málefnum,“ segir Ingibjörg. Nýjasta kvenfélagið heitir Silfur og eru flestar konurnar þar á milli þrítugs og fertugs. „Svo má ekki gleyma því að í Hringnum eru konur á öllum aldri. Innan okkar vébanda eru líka nokkrar kvennahreyfingar stjórnmálaflokka, eins og félög framsóknar- og sjálfstæðiskvenna.“

Styrkja ungar konur til náms

Þessa dagana tekur Bandalag kvenna í Reykjavík á móti umsóknum um styrki frá Styrktarsjóði ungra kvenna í Reykjavík. Sjóðurinn veitir styrki til ungra kvenna sem hætt hafa námi og vilja halda áfram en stendur ekki til boða að taka lán hjá Lánasjóði íslenskra námsmanna. „Sjóðurinn var settur á stofn árið 1995 eftir að rannsóknir á vegum Rauða krossins sýndu að það væru einstæðar, lítið menntaðar konur sem ættu hvað erfiðast uppdráttar í samfélaginu. Bandalag kvenna í Reykjavík ákvað að mæta þessum vanda og veitir konum styrki, til dæmis vegna bókakaupa og greiðslu skólagjalda,“ segir Ingibjörg. Umsóknarfrestur rennur út 19. júní næstkomandi.

Rannsóknir á stöðu kvenna í dag

Í haust úthlutar Bandalag kvenna í Reykjavík styrk, í samstarfi við Háskóla Íslands, til lokaverkefnis í meistaranámi þar sem birtingarmynd kvenna í fjölmiðlum er skoðuð. „Þessi styrkur er hluti af nýjum áherslum hjá Bandalaginu. Það er mikilvægt að skoða hvaða skilaboð ungar konur fá varðandi staðalímyndir í fjölmiðlum. Ég geri ráð fyrir því að í framhaldinu verði fastur liður hjá okkur að styrkja rannsóknir sem snúa að áherslumálum Bandalags kvenna í Reykjavík, stöðu kvenna í nútíma samfélagi, mennta-, velferðar- og fjölskyldumálum,“ segir Ingibjörg. Þema ársins 2013 hjá Bandalaginu er launajafnrétti og stendur til að halda fyrirlestraröð um kynbundinn launamun næsta haust. ,,Þessi verkefni eru öll hluti af okkar nýju áherslum og því markmiði að gera starfsemina nútímalegri, segir Ingibjörg.“

Dagný Hulda Erlendsdóttir

dagnyhulda@frettatiminn.is