Úr glatkistunni – Málþing fimmtudaginn 29. október

Bandalag kvenna í Reykjavík tekur þátt í hátíðarhöldunum í tilefni af 100 ára afmæli kosningaréttar kvenna á Íslandi og stendur fyrir opnu málþingi um handrit úr sögu kvenna fimmtudaginn 29. október kl. 16-17.30 í Háskólanum í Reykjavík. Viðburðurinn er haldinn í samstarfi við Framkvæmdanefnd um 100 ára afmæli kosningaréttar kvenna.

Málþingið er framlag BKR í viðburðadagskrá í tilefni af 100 ára afmælisárs kosningaréttar kvenna á Íslandi og er sprottið úr þjóðarátaki í söfnun skjala kvenna í tilefni afmælisársins, samvinnuverkefnis Landsbókasafns Íslands – Háskólabókasafns, Þjóðskjalasafns Íslands, Borgarskjalasafns Reykjavíkur og héraðsskjalasafna. Erindi fundarins snúa að öflun og úrvinnslu heimilda en saga kvenna hefur fengið litla athygli í sögubókum og sýningum, m.a. vegna þess að minna hefur varðveist af skjölum þeirra en karla.

Skjalasöfn kvenna eru oft af öðru meiði og persónulegri en skjalasöfn karla, á borð við bréf og dagbækur, og veita innsýn í líf einstaklinga og fjölskyldna. Þau fjalla frekar um fjölskylduna, matarsiði, handavinnu, heilsu og tilfinngar, á meðan skjöl karla innihalda oftar skrif um stjórnmál, veðurfar og atvinnu. Varðveitt skjöl kvenna eru merkilegar heimildir sem fylla upp í heildarmynd um líf og sögu Íslendinga.

Fyrirlesarar málþingsins eru Gunnhildur Hrólfsdóttir með erindið Þær þráðinn spunnu: afrek kvenna í aldanna rás, Erla Hulda Halldórsdóttir sem flytur fyrirlesturinn Ógipt vinnukona á sama bæ: um sögu kvenna og spjöld sögunnar, og Alma Ómarsdóttir með erindið Stúlkurnar á Kleppjárnsreykjum: lauslæti og landráð.

Sjá allar nánari upplýsingar á Facebook-síðu málþingsins. Við hvetjum ykkur til þess að mæta og fagna afmælisárinu með þessum frábæru fyrirlesurum!

Úr glatkistunni: Málþing um handrit úr sögu kvenna

 

Kvenfélag Bústaðasóknar styrkir Starfsmenntunarsjóð ungra kvenna

Formaður Kvenfélags Bústaðasóknar, Hólmfríður Ólafsdóttir, afhenti í dag formanni Bandalags kvenna í Reykjavík, Ingibjörgu Rafnar Pétursdóttur, styrk kvenfélagsins til Starfsmenntunarsjóðs ungra kvenna upp á 100 þúsund krónur.

Bandalag kvenna í Reykjavík færir Kvenfélagi Bústaðasóknar bestu þakkir fyrir styrkinn til sjóðsins sem í ár fagnar 20 ára starfsafmæli. Frá upphafi hefur verið úthlutað úr sjóðnum styrkjum að upphæð tæplega 16 milljóna króna til um 140 ungra kvenna sem ekki eiga annan kost á námslánum.

Hólmfríður Ólafsdóttir, formaður Kvenfélags Bústaðakirkju afhentir Ingibjörgu Rafnar Pétursdóttur, formanni BKR styrk kvenfélagsins til Starfsmenntunarsjóðs ungra kvenna

Hólmfríður Ólafsdóttir, formaður Kvenfélags Bústaðakirkju afhentir Ingibjörgu Rafnar Pétursdóttur, formanni BKR styrk kvenfélagsins til Starfsmenntunarsjóðs ungra kvenna