Úr glatkistunni – Málþing fimmtudaginn 29. október

Bandalag kvenna í Reykjavík tekur þátt í hátíðarhöldunum í tilefni af 100 ára afmæli kosningaréttar kvenna á Íslandi og stendur fyrir opnu málþingi um handrit úr sögu kvenna fimmtudaginn 29. október kl. 16-17.30 í Háskólanum í Reykjavík. Viðburðurinn er haldinn í samstarfi við Framkvæmdanefnd um 100 ára afmæli kosningaréttar kvenna.

Málþingið er framlag BKR í viðburðadagskrá í tilefni af 100 ára afmælisárs kosningaréttar kvenna á Íslandi og er sprottið úr þjóðarátaki í söfnun skjala kvenna í tilefni afmælisársins, samvinnuverkefnis Landsbókasafns Íslands – Háskólabókasafns, Þjóðskjalasafns Íslands, Borgarskjalasafns Reykjavíkur og héraðsskjalasafna. Erindi fundarins snúa að öflun og úrvinnslu heimilda en saga kvenna hefur fengið litla athygli í sögubókum og sýningum, m.a. vegna þess að minna hefur varðveist af skjölum þeirra en karla.

Skjalasöfn kvenna eru oft af öðru meiði og persónulegri en skjalasöfn karla, á borð við bréf og dagbækur, og veita innsýn í líf einstaklinga og fjölskyldna. Þau fjalla frekar um fjölskylduna, matarsiði, handavinnu, heilsu og tilfinngar, á meðan skjöl karla innihalda oftar skrif um stjórnmál, veðurfar og atvinnu. Varðveitt skjöl kvenna eru merkilegar heimildir sem fylla upp í heildarmynd um líf og sögu Íslendinga.

Fyrirlesarar málþingsins eru Gunnhildur Hrólfsdóttir með erindið Þær þráðinn spunnu: afrek kvenna í aldanna rás, Erla Hulda Halldórsdóttir sem flytur fyrirlesturinn Ógipt vinnukona á sama bæ: um sögu kvenna og spjöld sögunnar, og Alma Ómarsdóttir með erindið Stúlkurnar á Kleppjárnsreykjum: lauslæti og landráð.

Sjá allar nánari upplýsingar á Facebook-síðu málþingsins. Við hvetjum ykkur til þess að mæta og fagna afmælisárinu með þessum frábæru fyrirlesurum!

Úr glatkistunni: Málþing um handrit úr sögu kvenna