Opinn fundur um börn og nútímasamfélag 4. mars kl. 8.30-10.30

Born_og_nutumasamfelag_2016BKR stendur fyrir málþinginu „Börn og nútímasamfélag” föstudaginn 4. mars n.k. í samstarfi við velferðarráðuneytið. Fundurinn verður haldinn í Háskólanum í Reykjavík kl. 8.30-10.30, stofu V101.

Upplegg fundarins miðar að umhverfi barna og barnafjölskyldna í nútímasamfélagi. Árið 2014 stóð BKR fyrir fundi sem miðaði að dagforeldra- og leikskólastiginu en nú mun áherslan færast á yngra grunnskólastigið. Á fundinum verður efnið nálgast á heildrænan máta með umfjöllun um aðbúnað og líðan barna, skólakerfið, mismunandi fjárhagslegan bakgrunn barnafjölskyldna, samþættingu fjölskyldu- og atvinnulífs og styttingu vinnudagsins.

DAGSKRÁ:

  1. Líðan barna og unglinga á Íslandi: staða og þróun. Inga Dóra Sigfúsdóttir, prófessor við Háskólann í Reykjavík og stofnandi Rannsókna og greininga.
  2. Nám, grunnleggjandi færni og breytt skipulag skóladagsins. Hermundur Sigmundsson, prófessor í lífeðlislegri sálarfræði við norska tækni og vísindaháskólann í Trándheimi og Háskólann í Reykjavík.
  3. Niðurstöður skýrslu UNICEF um börn á Íslandi sem líða efnislegan skort. Lovísa Arnardóttir, réttindagæslufulltrúi UNICEF og höfundur skýrslunnar.
  4.  „Ég er bara með samviskubit, svo geðveikt gagnvart börnunum” – Um samræmingu fjölskyldu og atvinnu í nútímasamfélagi. Andrea Hjálmsdóttir, lektor við Háskólann á Akureyri  og Marta Einarsdóttir, sérfræðingur við Rannsókna- og þróunarmiðstöð Háskólans á Akureyri.
  5. Styttri vinnuvika í Reykjavík. Sóley Tómasdóttir, forseti borgarstjórnar, um tilraunaverkefni Reykjavíkurborgar.
  6. Atvinnulífið og stytting vinnudagsins. Guðrún Hafsteinsdóttir, formaður Samtaka iðnaðarins.
  7. Pallborðsumræður: Heimili og skóli, Félag skólastjórnenda í RVK, Félag grunnskólakennara, Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands, SAMFOK, Barnaheill, Hrói höttur barnavinafélag, og Helga Arnfríður Haraldsdóttir barnasálfræðingur, ásamt fyrirlesurum.

Fundarstjóri verður Nanna Kristín Christiansen, uppeldis- og menntunarfræðingur og ritstjóri Krítarinnar.

ÓKEYPIS AÐGANGUR OG ALLIR VELKOMNIR!

Viðburðurinn á Facebook

 

100. ársþing BKR haldið laugardaginn 12. mars

100. ársþing BKR verður haldið laugardaginn 12. mars 2015, á Grand hótel Reykjavík, í fundarsalnum Hvammi, kl. 10:00 f.h. Húsið opnar kl. 09:30.

Fundarboðið og dagskrárdrög hafa verið send formönnum aðildarfélaganna og nefnda BKR ásamt kjörbréfum. Samkv. 5. gr. í lögum bandalagsins, lið b), hefur hvert aðildarfélag heimild til að senda 3 fulltrúa með atkvæðisrétt á þingið, en áheyrnarfulltrúum er heimil seta á ársþingi BKR með málfrelsi og tillögurétti.

Skráningu á þingið skal senda á netfangið thorbjorgjo(hjá)kopavogur.is  fyrir 9. mars n.k.

Á þinginu verða afhentar viðurkenningar Bandalags kvenna í Reykjavík: Kona ársins, kvenfélag ársins og hvatningarviðurkenning BKR. 

Að fundi loknum snæðum við hádegisverð saman og flytja þá viðurkenningarhafar erindi um verkefni sín. Sjáumst sem flestar og fögnum góðu samstarfi kvenfélaganna innan BKR sem spannar brátt heila öld en BKR fagnar 100 ára starfsafmæli árið 2017!

Matseðill:

Bakaður léttsaltaður þorskhnakki á kartöflubeði með tómat, ólívum og hvítlauk Súkkulaðikaka með blönduðum ávöxtum og þeyttum rjóma

Í upphafi fundar verður boðið upp á ástríðudrykk með lífrænu grænmeti og ferskum ávöxtum sem veitir okkur gott orkuskot inn í daginn, og að sjálfsögðu kaffi og te.

Verð á mann er 4.960 kr.

BKR auglýsir eftir framboðum í stöðu formanns stjórnar

Stefnumál BKR 2014 BKR auglýsir eftir framboðum í stöðu formanns stjórnar. Mörg skemmtileg verkefni eru á döfinni hjá félaginu, m.a. undirbúningur afmælisársins en BKR fagnar 100 ára starfsafmæli árið 2017. Félagið hefur á síðustu árum gengið í gegnum töluverðar skipulagsbreytingar og samþykkti m.a. nýja stefnuskrá fyrir starfsemi sína árið 2014. Um er að ræða spennandi tækifæri til að öðlast góða stjórnunarreynslu og kynnast skemmtilegum konum.  Áhugasamir sendi póst á formann uppstillingarnefndar, Geirlaugu Þorvaldsdóttur, á netfangið geirlaugth@yahoo.com.
 

Viðtal: Líflegt starf í Kvenfélagi Langholtssóknar

Helga Guðmundsdóttir og Jóhanna GísladóttirVið hittum formann og varaformann Kvenfélags Langholtssóknar, þær Helgu Guðmundsdóttur og Jóhönnu Gísladóttur, yfir góðum kaffibolla og áttum skemmtilegt spjall um starfsemi félagsins fyrir heimasíðu BKR. Mikill kraftur er í félaginu og rík áhersla lögð á að rækta tengsl við nærsamfélagið. Viðtalið má lesa hér.

Viðtalið er upptaktur fyrir afmælisárið okkar 2017 þegar við fögnum 100 ára afmæli BKR!

Dagur kvenfélagskonunnar

Til hamingju með daginn kæru landsmenn nær og fjær – í dag fögnum við degi kvenfélagskonunnar! 1. febrúar var formlega gerður að degi kvenfélagskonunnar árið 2010 til að vekja athygli á miklu og óeigingjörnu starfi kvenfélagskvenna í 140 ár. Síðustu þrjú árin hefur BKR gefið út ársskýrslu um starfsemi sína og aðildarfélaganna. Þar kemur fram að á tímabilinu 2012-2014 hafa aðildarfélög BKR gefið í kringum 340 milljónir króna til ýmissa verkefna. Það munar um minna!

Í dag birtum við skemmtilegt viðtal við formann og varaformann Kvenfélags Langholtssóknar. Við vonumst til þess á næstu mánuðum að birta áhugaverð viðtöl við félagskonur úr aðildarfélögum BKR sem upptakt fyrir afmælisárið okkar 2017 þegar við fögnum 100 ára afmæli BKR!

Njótið dagsins!