BKR auglýsir eftir umsóknum um styrki í Starfsmenntunarsjóð ungra kvenna. Frestur til 19. júní.

Bandalag kvenna í Reykjavík auglýsir eftir umsóknum um styrki til Starfsmenntunarsjóðs ungra kvenna fyrir skólaárið 2017-2018. Tilgangur sjóðsins er að hvetja og styðja við bakið á ungum konum, sem ekki eiga kost á námslánum, til að afla sér aukinnar menntunar.

Umsóknareyðublað, úthlutunarreglur og allar nánari upplýsingar má nálgast á heimasíðu bandalagsins, www.bkr.is.

Umsóknir um styrki skal senda til Bandalags kvenna í Reykjavík, Túngötu 14, 101 Reykjavík, merktar „Námsstyrkir‟ eða í tölvupósti á bandalagkvennarvk@gmail.com.

Umsóknarfrestur er til 19. júní.

Jólafundur BKR í hátíðarbúningi

Jólafundur BKR verður haldinn fimmtudaginn 26. nóvember í sérstökum hátíðarbúningi í tilefni af 100 ára afmæli kosningaréttar kvenna á Íslandi og 20 ára starfsafmæli Starfsmenntunarsjóðs ungra kvenna.

Fundurinn er haldinn á Hallveigarstöðum (Túngötu 14) og hefst kl. 19.30. Húsið opnar kl. 19.

Við fáum til okkar góða gesti, séra Auður Eir Vilhjálmsdóttir, fyrsti kvenpresturinn á Íslandi, flytur erindi og Andrea Björk Andrésdóttir, frá Reconesse Database mun kynna verkefni sitt um konur í sögunni. Katrín Þorsteinsdóttir, formaður fjáröflunarnefndar Starfsmenntunarsjóðs ungra kvenna, mun fjalla um sjóðinn og starfsemi hans í tilefni af 20 ára starfsafmælinu. Þá höfum við boðið Kvenfélagi Laugarnessóknar og Delta Kappa Gamma að taka þátt í hátíðarhöldunum með okkur.

Í lok kvölds verður svo happdrætti til styrktar Starfsmenntunarsjóði ungra kvenna þar sem margir spennandi vinningar eru í boði!

Veitingar kvöldsins verða “að hætti Ásdísar”!

Sjá einnig Facebook-síðu BKR.

Vonumst til þess að sjá ykkur sem flest!

Kvenfélag Bústaðasóknar styrkir Starfsmenntunarsjóð ungra kvenna

Formaður Kvenfélags Bústaðasóknar, Hólmfríður Ólafsdóttir, afhenti í dag formanni Bandalags kvenna í Reykjavík, Ingibjörgu Rafnar Pétursdóttur, styrk kvenfélagsins til Starfsmenntunarsjóðs ungra kvenna upp á 100 þúsund krónur.

Bandalag kvenna í Reykjavík færir Kvenfélagi Bústaðasóknar bestu þakkir fyrir styrkinn til sjóðsins sem í ár fagnar 20 ára starfsafmæli. Frá upphafi hefur verið úthlutað úr sjóðnum styrkjum að upphæð tæplega 16 milljóna króna til um 140 ungra kvenna sem ekki eiga annan kost á námslánum.

Hólmfríður Ólafsdóttir, formaður Kvenfélags Bústaðakirkju afhentir Ingibjörgu Rafnar Pétursdóttur, formanni BKR styrk kvenfélagsins til Starfsmenntunarsjóðs ungra kvenna

Hólmfríður Ólafsdóttir, formaður Kvenfélags Bústaðakirkju afhentir Ingibjörgu Rafnar Pétursdóttur, formanni BKR styrk kvenfélagsins til Starfsmenntunarsjóðs ungra kvenna

 

Jólafundur BKR og happdrætti til styrktar Starfsmenntunarsjóði ungra kvenna

Jólafundur Bandalags kvenna í Reykjavík verður haldinn fimmtudaginn 20. nóvember kl. 19:30 að Hallveigarstöðum, Túngötu 14.

Húsið opnar kl. 19:00.

Dagskrá fundarins:

  • Ávarp formanns BKR
  • Jólahugvekja – Hjördís Jensdóttir, stjórnarkona BKR og félagi í Kvenfélagi Hallgrímskirkju
  • Kórinn Domus Vox syngur nokkur lög undir stjórn Margrétar Pálmadóttur
  • Happdrætti til styrktar Starfsmenntunarsjóði ungra kvenna

Veitingar: Heitt súkkulaði og meðlæti að hætti stjórnar BKR

Veglegir vinningar eru í boði í happdrættinu til styrktar Starfsmenntunarsjóði ungra kvenna, m.a. 2 miðar á jólatónleika Björgvins Halldórssonar og ýmislegt fleira!

1 miði á 1000 kr., 3 miðar á 2000. Borgar þarf með reiðufé, ekki er posi á staðnum.

Hlökkum til þess að sjá ykkur sem flest!

11 styrkir afhentir úr Starfsmenntunarsjóði ungra kvenna

Þann 28. ágúst sl. voru afhentir 11 styrkir úr Starfsmenntunarsjóði ungra kvenna að heildarupphæð rúmlega 1,2 milljónir króna.

Tilgangur sjóðsins hefur frá upphafi verið að hvetja og styðja við bakið á konum, sem ekki eiga kost á námslánum, til þess að afla sér aukinnar menntunar. Aukin samkeppni í atvinnulífinu kallar á auknar menntunarkröfur og hefur Bandalag kvenna í Reykjavík reynt að styðja við bakið á ungum konum sem hafa hug á að skapa sér og fjölskyldu sinni betri framtíð og styrkja stöðu sína á atvinnumarkaði.

Á sautján starfsárum hefur sjóðurinn úthlutað 130 styrkjum að fjárhæð samtals 14,7 milljónir króna. Starfandi er fjáröflunarnefnd Starfsmenntunarsjóðsins, einnig gefa aðildarfélög BKR til sjóðsins en mestu munar um velvild og styrki fyrirtækja til sjóðsins, m.a. frá Sorpu og Góða hirðinum.

Stjórn Starfsmenntunarsjóðs ungra kvenna ásamt viðurkenningarhöfum.

Stjórn Starfsmenntunarsjóðs ungra kvenna ásamt viðurkenningarhöfum 2014.

 

Thorvaldsensfélagið styrkir Starfsmenntunarsjóð ungra kvenna

Anna Birna Jensdóttir, formaður Thorvaldsensfélagsins, afhenti í dag styrk félagsins til Starfsmenntunarsjóðs ungra kvenna að upphæð 500.000 kr. Ingibjörg Rafnar Pétursdóttir, formaður BKR, veitti styrknum viðtöku fyrir hönd stjórnar Starfsmenntunarsjóðsins.

Afhending Thorvaldsens

Anna Birna Jensdóttir, formaður Thorvaldsensfélagsins ásamt formanni BKR, Ingibjörgu Rafnar Pétursdóttur.

BKR stofnaði starfsmenntunarsjóð ungra kvenna þann 18. mars 1995. Tilgangur sjóðsins er að hvetja og styðja við bakið á konum, sem ekki eiga kost á námslánum, til að afla sér aukinnar menntunar og styrkja þannig stöðu sína á atvinnumarkaði. Einkum eru þetta ungar einstæðar konur með börn, sem einhverra hluta vegna hafa þurft að hætta námi á sínum tíma.

Thorvaldsensfélagið var stofnað 19. nóvember árið 1875 og heldur úti öflugri starfsemi. Félagið rekur Thorvaldsensbasarinn í Austurstrætinu og hefur nýlega veitti styrki til þróunar á heilsueflandi snjallsímaforriti (appi) í leikjaformi sem er ætlað að hjálpa ungu fólki að bæta heilsu sína með áherslu á mataræði, hreyfingu og geðrækt, Thorvaldsenskonur færðu hjúkrunarheimilinu Mörk Power laser tæki sem notað verður í sjúkraþjálfun Markar. Þær hafa einnig styrkt rausnarlega starfsemi sumarbúðanna í Reykjadal og færðu hjúkrunarheimilinu Grund æfingabekk fyrir sjúkraþjálfun heimilisins. Nánari upplýsingar um félagið má finna á heimasíðu þeirra, thorvaldsens.is

Afhending styrkja úr Starfsmenntunarsjóði ungra kvenna

Afhending styrkja úr Starfsmenntunarsjóði ungra kvenna fer fram í hátíðarsal Hallveigarstaða, Túngötu 14, fimmtudaginn 28. ágúst kl. 17:30.

BKR stofnaði starfsmenntunarsjóð ungra kvenna þann 18. mars 1995. Tilgangur sjóðsins er að hvetja og styðja við bakið á konum, sem ekki eiga kost á námslánum, til að afla sér aukinnar menntunar. Einkum eru þetta ungar einstæðar konur með börn, sem einhverra hluta vegna hafa þurft að hætta námi á sínum tíma.

Nánari upplýsingar um starfsmenntunarsjóð ungra kvenna má finna hér.

Stjórn Starfsmenntunarsjóðs ungra kvenna

Auglýst eftir umsóknum um styrki til Starfsmenntunarsjóðs ungra kvenna, 2014-2015

Bandalag kvenna í Reykjavík auglýsir eftir umsóknum um styrki til Starfsmenntunarsjóðs ungra kvenna fyrir skólaárið 2014-2015.

Tilgangur sjóðsins er að hvetja og styðja við bakið á ungum konum í Reykjavík, sem ekki eiga kost á námslánum, til að afla sér aukinnar menntunar.

Umsóknareyðublað, úthlutunarreglur og allar nánari upplýsingar má nálgast hér.

Einnig má nálgast umsóknareyðublöð í versluninni Thorvaldsensbasarinn, Austurstræti 4, alla virka daga milli kl. 14:00 og 18:00.

Fyrirspurnir og upplýsingar má senda á netfang bandalagsins: bandalagkvennarvk@gmail.com

Umsóknir um styrki skal senda til Bandalags kvenna í Reykjavík, Túngötu 14, 101 Reykjavík, merktar „Námsstyrkir‟. Umsóknarfrestur er til 19. júní næstkomandi.

Jólafundur BKR og fjáröflun fyrir starfsmenntunarsjóð ungra kvenna

Jólafundur Bandalags kvenna í Reykjavík verður haldinn fimmtudaginn 21. nóvember kl. 19:30 að Hallveigarstöðum, Túngötu 14.

Húsið opnar með léttum veitingum / jólaglöggi kl. 19:00.

Dagskrá fundarins:

  • Ávarp formanns BKR
  • Sigrún Pálsdóttir les upp úr nýútkominn bók sinni, Sigrún og Friðgeir – Ferðasaga
  • Dagmar Sigurðardóttir, formaður Hvítabandsins, afhentir gjöf mætrar Hvítabandskonu, Ragnhildar Einarsdóttur, sem safnaðist í tilefni 80 ára afmælis hennar í haust
  • Happdrætti til styrktar Starfsmenntunarsjóði ungra kvenna

Veitingar: Heitt súkkulaði og meðlæti að hætti “Ásdísar”.

Sigrún Pálsdóttir verður jafnframt með bók sína til sölu á sérstöku tilboðsverði fyrir gesti fundarins.

Við hlökkum til að sjá ykkur á jólafundinum og eiga ánægjulega kvöldstund saman – allir velkomnir!

Stjórn Bandalags kvenna í Reykjavík

Fyrirtæki sem gáfu vinninga fyrir happdrættið til styrktar Starfsmenntunarsjóði ungra kvenna.

Styrkir úr Starfsmenntunarsjóði ungra kvenna afhentir

Í dag afhenti Bandalag kvenna í Reykjavík styrki úr Starfsmenntunarsjóði ungra kvenna í 16. sinn frá stofnun sjóðsins árið 1995. Alls var úthlutað 20 styrkjum fyrir skólaárið 2013-2014 úr Starfsmenntunarsjóðnum að heildarupphæð rúmlega 2,2 milljónir króna.

Tilgangur sjóðsins er að hvetja og styðja við bakið á konum, sem ekki eiga kost á námslánum, til að afla sér aukinnar menntunar. Í gegnum tíðina hafa styrkþegar einkum verið ungar einstæðar mæður, sem einhverra hluta vegna hafa þurft að hætta námi á sínum tíma.

Á þessum 17 árum sem sjóðurinn hefur starfað hefur verið úthlutað 119 styrkjum að fjárhæð samtals kr. 13.566.000. Starfandi er fjáröflunarnefnd starfsmenntunarsjóðsins, en sú nefnd hefur unnið mikið starf. Einnig gefa aðildarfélög BKR til sjóðsins auk þess sem sjóðurinn hefur notið velvildar og styrkja ýmissa fyrirtækja og stofnana sem er ómetanlegt, m.a. SORPU / Góða hirðinum, Landsbankanum og Rio Tinto Alcan.

Ástrún Friðbjörnsdóttir sá um söng og Katrín Ósk Adamsdóttir, styrkþegi frá Starfsmenntunarsjóði ungra kvenna 2012, flutti erindi.

Starfsmenntunarsjóður úthlutun 2013

Styrkhafar 2013 ásamt formanni BKR og stjórn Starfsmenntunarsjóðs ungra kvenna.

Afhending styrkja úr Starfsmenntunarsjóði ungra kvenna

Afhending styrkja úr Starfsmenntunarsjóði ungra kvenna fer fram í hátíðarsal Hallveigarstaða, Túngötu 14, fimmtudaginn 29. ágúst kl. 17:30Í boði verða léttar veitingar.

BKR stofnaði starfsmenntunarsjóð ungra kvenna þann 18. mars 1995. Tilgangur sjóðsins er að hvetja og styðja við bakið á konum, sem ekki eiga kost á námslánum, til að afla sér aukinnar menntunar. Einkum eru þetta ungar einstæðar konur með börn, sem einhverra hluta vegna hafa þurft að hætta námi á sínum tíma.

Nánari upplýsingar um starfsmenntunarsjóð ungra kvenna má finna hér.

Stjórn Starfsmenntunarsjóðs ungra kvenna

Samfélagssjóður Landsbankans styrkir Starfsmenntunarsjóð ungra kvenna

Landsbankinn veitti í gær fimmtán milljónir króna í samfélagsstyrki úr Samfélagssjóði Landsbankans. Starfsmenntunarsjóður ungra kvenna sem rekinn er af Bandalagi kvenna í Reykjavík hlaut styrk að fjárhæð 250 þúsund krónur.

Bandalag kvenna í Reykjavík þakkar kærlega fyrir framlagið.

Meðfylgjandi mynd er frá styrkafhendingunni en Ingibjörg Rafnar Pétursdóttir, formaður BKR, tók við styrknum fyrir hönd félagsins.

Frá afhendingu styrkja Samfélagssjóðs landsbankans

Veittir voru 34 styrkir, þrír að upphæð 1 milljón króna hver, sautján að fjárhæð 500 þúsund krónur og fjórtán að fjárhæð 250 þúsund krónur. 

Nánari upplýsingar um úthlutun samfélagsstyrkja úr Samfélagssjóði Landsbankans árið 2013 má finna hér.

Viðtal við nýjan formann BKR í Fréttatímanum

Fréttatíminn birti í dag viðtal við nýjan formann Bandalags kvenna í Reykjavík um stefnumótun og breyttar áherslur í starfseminni.

Viðtal við nýjan formann BKR

Fréttatíminn, 07.06 2013 | Dægurmál

Ný kynslóð nútímavæðir kvenfélögin

Ingibjörg Rafnar Pétursdóttir er rétt rúmlega þrítug og nýkjörin formaður Bandalags kvenna í Reykjavík. Hún segir verkefni kvenfélaga margþæ„Bandalagið er núna að skoða breyttar áherslur eftir breytingar síðustu ára og við viljum setja kraft í stefnumótun og gera starfsemina aðgengilegri,“ segir Ingibjörg Rafnar Pétursdóttir, nýr formaður Bandalags kvenna í Reykjavík. Að mati Ingibjargar er bandalagið svolítið gleymdur vettvangur fyrir samræður félaga sem starfa að sömu markmiðum, bættri stöðu kvenna, mennta-, velferðar- og fjölskyldumálum. Um 1.200 konur starfa innan þeirra fimmtán félaga sem aðild eiga að Bandalagi kvenna í Reykjavík.

Konur söfnuðu fyrir Landspítalanum

Þessa dagana vinnur stjórn Bandalags kvenna í Reykjavík að stefnuskrá þar sem lögð er áhersla á að efla bandalagið og gera það sýnilegra út á við. Innan bandalagsins hafa starfað kvenfélög í bland við stéttarfélög og styrktarfélög. „Strax í upphafi var þetta mjög framsækin hreyfing og helsti vettvangur umræðna um bætta stöðu kvenna og samfélagslegrar þjónustu. Bandalagið beitti sér til dæmis fyrir því að konur byðu sig fram í opinber embætti og nefndir og færa má rök fyrir því að kvenfélögin hafi að vissu leyti lagt grunninn að heilbrigðiskerfinu eins og það er í dag. Það voru til dæmis konur sem söfnuðu fyrir Landspítalanum,“ segir Ingibjörg og bætir við að bandalagið hafi knúið á um stofnun barnaheimila og sorphirðu á vegum sveitarfélaga á sínum tíma. „Í flestum tilfellum eru þetta grasrótarfélög sem standa fyrir ákveðnum samfélagslegum verkefnum í nærumhverfi sínu og ná þannig einstakri tengingu við íbúana og geta metið hvar þörf er fyrir aðstoð. Þetta eru öflug félög eins og Hringurinn sem leggur áherslu á að bæta aðstöðu veikra barna, Thorvaldsensfélagið og fleiri,“ segir Ingibjörg.

Kvenfélög á tímamótum

Að mati Ingibjargar standa kvenfélögin nú á tímamótum. „Kvenfélögin hafa ávallt sinnt svokölluðu „frumkvæðishlutverki“ – það er að koma auga á málefni sem þarfnast athugunar og finna ný úrræði til að leysa ýmsan vanda. Í gegnum árin hafa ríkið og Reykjavíkurborg tekið yfir rekstur og umsjón með mörgum þeim málaflokkum og verkefnum sem aðildarfélög bandalagsins höfðu frumkvæði að. Hinsvegar hafa aðildarfélögin og bandalagið vakað yfir þeim málaflokkum sem þeim eru nærri hjarta. Sem dæmi má nefna að konur innan Bandalagsins söfnuðu fyrir stækkun fæðingardeildar Landspítalans á sínum tíma,“ segir Ingibjörg.

Vantar fleiri ungar konur

Að sögn Ingibjargar eru uppi áhyggjur hjá sumum kvenfélaganna um nýliðun þó staðan sé misjöfn. „Kvenfélögin hafa verið lítið fyrir að flagga starfsemi sinni og ákveðinn misskilningur virðist þess vegna ríkja um verkefnin. Margir virðast halda að kökubakstur og prjónaskapur sé helsta áhersla þeirra en verkefnin eru mun margþættari en svo þó konurnar nýti vissulega hæfileika sína í bakstri og hannyrðum til að safna fyrir góðum málefnum,“ segir Ingibjörg. Nýjasta kvenfélagið heitir Silfur og eru flestar konurnar þar á milli þrítugs og fertugs. „Svo má ekki gleyma því að í Hringnum eru konur á öllum aldri. Innan okkar vébanda eru líka nokkrar kvennahreyfingar stjórnmálaflokka, eins og félög framsóknar- og sjálfstæðiskvenna.“

Styrkja ungar konur til náms

Þessa dagana tekur Bandalag kvenna í Reykjavík á móti umsóknum um styrki frá Styrktarsjóði ungra kvenna í Reykjavík. Sjóðurinn veitir styrki til ungra kvenna sem hætt hafa námi og vilja halda áfram en stendur ekki til boða að taka lán hjá Lánasjóði íslenskra námsmanna. „Sjóðurinn var settur á stofn árið 1995 eftir að rannsóknir á vegum Rauða krossins sýndu að það væru einstæðar, lítið menntaðar konur sem ættu hvað erfiðast uppdráttar í samfélaginu. Bandalag kvenna í Reykjavík ákvað að mæta þessum vanda og veitir konum styrki, til dæmis vegna bókakaupa og greiðslu skólagjalda,“ segir Ingibjörg. Umsóknarfrestur rennur út 19. júní næstkomandi.

Rannsóknir á stöðu kvenna í dag

Í haust úthlutar Bandalag kvenna í Reykjavík styrk, í samstarfi við Háskóla Íslands, til lokaverkefnis í meistaranámi þar sem birtingarmynd kvenna í fjölmiðlum er skoðuð. „Þessi styrkur er hluti af nýjum áherslum hjá Bandalaginu. Það er mikilvægt að skoða hvaða skilaboð ungar konur fá varðandi staðalímyndir í fjölmiðlum. Ég geri ráð fyrir því að í framhaldinu verði fastur liður hjá okkur að styrkja rannsóknir sem snúa að áherslumálum Bandalags kvenna í Reykjavík, stöðu kvenna í nútíma samfélagi, mennta-, velferðar- og fjölskyldumálum,“ segir Ingibjörg. Þema ársins 2013 hjá Bandalaginu er launajafnrétti og stendur til að halda fyrirlestraröð um kynbundinn launamun næsta haust. ,,Þessi verkefni eru öll hluti af okkar nýju áherslum og því markmiði að gera starfsemina nútímalegri, segir Ingibjörg.“

Dagný Hulda Erlendsdóttir

dagnyhulda@frettatiminn.is