Framkvæmdastýra kvödd

Í lok apríl lauk þriggja ára formennsku BKR í stjórn Hallveigarstaða. Formaður BKR, Fanney Úlfljótsdóttir, lét af störfum sem framkvæmdastýra og Ingveldur Ingólfsdóttir lét af störfum sem formaður stjórnar Hallveigarstaða. Ingveldur situr áfram í stjórn í eitt ár. Við formennsku næstu þrjú árin verður Kvenfélagasamband Íslands.

Á myndinni tekur Fanney við kveðjugjöf úr hendi Ingveldar, fráfarandi formanns,

Kvennasögusafni afhent gögn Hallveigarstaða

Bandalag kvenna í Reykjavík rekur Kvennaheimilið Hallveigarstaðir í samstarfi við önnur samtök kvenna. Húsið var vígt 19. júní 1967 og 26. apríl var Kvennasögusafni Íslands afhent gögn úr sögu hússins til varðveislu.Á mynd frá vinstri: Rakel Adolphsdóttir forstöðumaður Kvennasögusafn Íslands Tatjana Latinovic formaður Kvenréttindafélags Íslands, Fanney Úlfljótsdóttir formaður Bandalag kvenna í Reykjavík, BKR, Dagmar Sigurðardóttir ritari húsnefndar, Ingveldur Ingólfsdóttir formaður húsnefndar, Guðrún Þórðardóttir formaður Kvenfélagasamband Íslands

Ársþing BKR 27. mars 2021

Í lögum BKR segir svo í 5. gr.

5. grein: Ársþing

a) Ársþingið fer með æðsta ákvörðunarvald BKR. Það skal haldið fyrir lok mars ár hvert. Ársþing skal boða bréflega með mánaðar fyrirvara ásamt dagskrá.

Þar sem núgildandi sóttvarnir gilda til 17. febrúar nk. er rétt að boða til ársþings skv. lögum BKR fyrir lok mars, þ.e. laugardaginn 27. mars. Ef ekki verður hægt að halda ársþingið þennan dag vegna fjöldatakmarkana, verður beiðni send út tímanlega um frestun, alla vega fram í maí. Dagskrá þingsins er hefðbundin og verður send út tímanlega fyrir þingið.

Konur lifa ekki á þakklætinu!

24. október 1975 lögðu konur niður launuð sem ólaunuð störf til að sýna fram á mikilvægi vinnuframlags kvenna. Í dag, 45 árum síðar, er framlag kvenna til samfélagsins ekki enn að fullu metið að verðleikum.  

Konur eru enn með 25% lægri atvinnutekjur að meðaltali en karlar. Þar með hafa konur unnið fyrir launum sínum eftir sex klukkustundir og eina mínútu miðað við fullan vinnudag frá kl. 9–17. Daglegum vinnuskyldum kvenna er því lokið kl. 15:01. 

Við glímum við mesta heimsfaraldur í heila öld. COVID-19 hefur haft gríðarleg áhrif á efnahag okkar, heilsu og jafnrétti. Konur bera hitann og þungan af baráttunni gegn faraldrinum og verða að sama skapi fyrir mestum skaða af völdum hans, fjárhagslegum, heilsufarslegum og samfélagslegum.   

Konur sinna að stærstum hluta störfum sem skilgreind eru á tímum veirunnar sem nauðsynleg grunnþjónusta, eða framlínustörf. Konur eru 75% af starfsfólki í heilbrigðis- og félagsþjónustu, 73% starfsfólks í fræðslustarfsemi og 57% þeirra sem starfa við þjónustu og verslun.  

Það eru þessar konur sem eru í mestri smithættu og þær vinna oftast undir miklu líkamlegu og andlegu álagi. Þetta eru störf sem verður að vinna á staðnum, bjóða ekki upp á fjarvinnu og sveigjanleika, sem leiðir til þess að erfitt er fyrir konurnar að bregðast við aðstæðum heima fyrir t.d. lokun skóla og leikskóla, veikindum og umönnun fjölskyldumeðlima.  

Faraldurinn hefur einnig haft þær afleiðingar að heimilisofbeldi hefur aukist út um allan heim og er Ísland þar engin undantekning. Í maí á þessu ári höfðu borist um 11% fleiri tilkynningar um heimilisofbeldi til lögreglu en á sama tímabili árin á undan. 

COVID-19 hefur afhjúpað hið grimma vanmat á hefðbundnum kvennastörfum sem er í engu samræmi við mikilvægi þeirra. Störf kvenna eru undirstaða samfélagsins og kjörin þurfa að endurspegla það. Konur í framlínustörfum eiga miklar þakkir skilið fyrir hetjudáð sína og seiglu í krefjandi aðstæðum. En þær lifa ekki á þökkunum einum saman. 

Við krefjumst þess að: 

  • Störf kvenna séu metin að verðleikum og kjör tryggð
  • Kjör starfsfólks í framlínunni í baráttunni við COVID-19 verði tryggð og álagsgreiðslur sanngjarnar
  • Allar aðgerðir stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins vegna COVID-19 fari í jafnréttismat, svo að tryggt sé að þær gagnist öllum kynjum jafnt
  • Grundvallarmannréttindi séu ávallt höfð að leiðarljósi við ákvarðanatöku og viðbrögðum við faraldrinum, svo engin þurfi að líða fyrir kyn sitt, uppruna, kynþátt, kynhneigð, kynvitund, kyneinkenni, kyntjáningu, fötlun, aldur, búsetu, lífsskoðun, félagslega stöðu eða efnahag
  • Öryggi kvenna á vinnustöðum og á heimilum sé tryggt  

Sköpum saman samfélag í kjölfar COVID-19 sem byggir á jafnrétti. Metum störf kvenna að verðleikum. Breytum ekki konum, breytum samfélaginu. Kjarajafnrétti STRAX! 

Alþýðusamband Íslands
Aflið
Bandalag háskólamanna
Bandalag kvenna í Reykjavík
BSRB
Delta Kappa Gamma – Félag kvenna í fræðslustörfum
Dziewuchy Islandia
Femínísk fjármál
Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga
IceFemIn
Kennarasamband Ísland
Knúz.is
Kvenfélagasamband Íslands
Kvennahreyfing ÖBÍ
Kvennaráðgjöfin
Kvenréttindafélag Íslands
Samtök um kvennaathvarf
Stígamót
W.O.M.E.N. in Iceland

Höfðingleg gjöf Thorvaldsensfélagins til Starfsmenntunarsjóðs ungra kvenna.

Í tilefni 25 ára afmælis Starfsmenntunarsjóðs ungra kvenna færði Thorvaldsensfélagið sjóðnum  gjöf að fjárhæð  kr. 1.000.000. Stofnun sjóðsins má rekja til umfjöllunar í þættinum „Samfélagið í nærmynd“  árið 1994 sem Magdalena Ingimundardóttir, félagi í Thorvaldsensfélaginu, var að hlusta á. Þar var m.a. fjallað um könnun Rauða krossins á félagslegum aðstæðum nokkurra hópa í íslensku samfélagi.  Leiddi hún í ljós að erfiðust var staðan hjá ungum, atvinnulausum, einstæðum mæðrum. Magdalena, sem þá var stjórnarkona í BKR, fékk þá hugmynd að stofna sjóð til aðstoðar þessum hópi til að afla sér menntunar. Stofnun sjóðsins og skipulagsskrá var samþykkt á ársþingi BKR 18. mars 1995. Fyrsta úthlutun úr sjóðnum var á jólafundi BKR 28. nóvember 1996. Þeir sem vilja styrkja sjóðinn geta lagt inn á bankareikning sjóðsins, 0301-13- 300215, kt. 440169-3099. Thorvaldsensfélagið hefur á þessum 25 árum styrkt sjóðinn reglulega, má þar m.a. nefna að á aldarafmæli BKR 2017 gaf félagið sjóðnum eina milljón króna.

Minnt er á að  umsóknarfrestur í Starfsmenntunarsjóð ungra kvenna rennur út  26. júní nk. Umsóknareyðublöð eru á heimasíðu BKR, www.bkr.is.

Á myndinni eru Kristín Fjólmundsdóttir, formaður Thorvaldsensfélagsins og Fanney Úlfljótsdóttir, formaður Bandalags kvenna í Reykjavík.

Gleðileg jól

Bandalag kvenna í Reykjavík óskar félagsmönnum gleðilegra jóla og farsældar á nýju ári og þakkar samstarfið og samveruna á árinu sem er að líða.

Gleðileg jól og farsælt nýtt ár

Jólafundur BKR 21. nóvember 2019 kl. 19:30

Fimmtudaginn 21. nóvember kl. 19:30 að Hallveigarstöðum

Húsið opnað með ilmandi jólaglöggi og piparkökum

Séra Petrína Mjöll Jóhannesdóttir, prestur í Árbæjarkirkju, flytur hugvekju

Kvennakór undir stjórn Margrétar Pálmadóttur syngur nokkur lög

Veitingar og glæsilegt happdrætti til styrktar

Starfsmenntunarsjóði ungra kvenna.

19. júní á Hallveigarstöðum

Félög kvenna á Hallveigarstöðum bjóða ykkur velkomin á hátíðarfund miðvikudaginn 19. júní kl. 17. Fundurinn er haldinn í samkomusal Hallveigarstaða að Túngötu 14.

Gestur fundarins í ár er Steinunn Valdís Óskarsdóttir, nýskipaður skrifstofustjóri jafnréttismála hjá forsætisráðuneytinu, fyrrverandi borgarstjóri og alþingismaður. Steinunn spjallar við gesti um jafnréttismál á Íslandi.

Léttar kaffiveitingar eru í boði Hallveigarstaða.

Fögnum saman 104 árs afmæli kosningaréttar kvenna, miðvikudaginn 19. júní 2019!

Umsókn um styrk í Starfsmenntunarsjóð ungra kvenna

Bandalag kvenna í Reykjavík auglýsir eftir umsóknum um styrki til Starfsmenntunarsjóðs ungra kvenna fyrir skólaárið 2019-2020. Tilgangur sjóðsins er að hvetja og styðja við bakið á ungum konum, sem ekki eiga kost á námslánum, til að afla sér aukinnar menntunar.

Umsóknareyðublað, úthlutunarreglur og allar nánari upplýsingar má nálgast á heimasíðu bandalagsins, www.bkr.is.

Umsóknir um styrki skal senda til Bandalags kvenna í Reykjavík, Túngötu 14, 101 Reykjavík, merktar „Námsstyrkir‟ eða í tölvupósti á bandalagkvennarvk@gmail.com.

Umsóknarfrestur er til 19. júní.

103. árþsing BKR 9. mars 2019

103. ársþing Bandalags kvenna í Reykjavík var haldið 9. mars 2019. Á þinginu var valin kona ársins hjá BKR , Bára Tómasdóttir, stofnandi “Ég á bara eitt líf”. Hvatningarviðurkenningu BKR hlutu Píeta samtökin. Hér eru viðurkenningarhafar ásamt formanni BKR, Fanneyju Úlfljótsdóttur og dætrum Báru Tómasdóttur.