99. þing Bandalags kvenna í Reykjavík var haldið laugardaginn 7. mars 2015. Á þinginu var farið í gegnum venjuleg aðalfundarstörf.
Á fundinum afhenti BKR í annað sinn viðurkenningar bandalagsins til aðila sem starfa á áherslusviðum félagsins. BKR telur mikilvægt að vekja athygli á því góða starfi sem unnið er á öllum sviðum samfélagsins.
Viðurkenninguna KONA ÁRSINS 2015 hlaut Þórdís Elva Þorvaldsdóttir fyrir ómetanlegt hugsjónastarf á sviði jafnréttis, m.a. gegn kynbundnu ofbeldi og klámvæðingu með áherslu á ungt fólk á mótunarárum. Þórdís Elva hefur meðal annars gefið út bókina „Á mannamáli“ auk þess sem hún er höfundur heimildamyndanna „Fáðu Já“ og „Stattu með þér!“ sem ætlaðar eru ungu fólki og eiga það sameiginlegt að spyrna gegn kynferðisofbeldi og klámvæðingu á lausnamiðaðan máta með sjálfsvirðingu og jákvæðni að vopni. Nú hefur hún tekið höndum saman með Vodafone með fyrirlestraröðina „Ber það sem eftir er: Um sexting, hefndarklám og netið“ sem er hugsuð sem fræðsla fyrir foreldra um öryggi barna í stafrænum samskiptum.
Thorvaldsensfélagið hlaut viðurkenninguna KVENFÉLAG ÁRSINS 2015 fyrir ómetanlegt starf í þágu barna í 140 ár. Félagið er elsta kvenfélagið í Reykjavík og fagnar 140 ára afmæli sínu á árinu 2015. Í áraraðir hefur Thorvaldsensfélagið styrkt barnadeildina sem var á Landakoti og síðar á Landspítalanum í Fossvogi til tækjakaupa og annarra hluta er þörf hefur verið á, en eftir að þær voru lagðar niður stofnaði félagið sérstakan sjóð við Barnaspítala Hringsins til styrktar sykursjúkum börnum og unglingum með 10 milljón króna framlagi. Félagið styrkir einnig fjölskyldur veikra barna, unglingastarf, vímuvarnir,verkefni í þágu aldraðra og margs konar landssafnanir. Á síðustu árum hefur Thorvaldsensfélagið m.a. unnið með Heilsuskóla Barnaspítala Hringsins og styrkti þróun á heilsueflandi snjallsímaforriti (appi) í leikjaformi sem er ætlað til þess að hjálpa ungu fólki að bæta heilsu sína með áherslu á mataræði, hreyfingu og geðrækt.
HVATNINGARVIÐURKENNINGU BKR 2015 hlaut Félag fósturforeldra fyrir starf fósturforeldra um land allt í umönnun barna þegar aðstæður leyfa ekki að börn og unglingar dvelji á heimilum sínum, varanlega eða tímabundið. Starf fósturforeldra er mjög falið enda um viðkvæman málaflokk að ræða og aðilar bundnir trúnaði. Eins og gefur að skilja hefur slík opnun á heimili sínu og einkalífi mikil áhrif á líf viðkomandi og tengjast aðilar tilfinningaböndum sem getur reynst erfitt þegar um tímabundna vistun er að ræða. Margar brotalamir eru í kerfinu þegar kemur að málefnum barna og fósturforeldra, m.a. hvað varðar réttindamál og hefur ný stjórn Félags fósturforeldra nú lagt ríkari áherslu á að tryggja réttindi barnanna og fósturforeldra innan þess.
Á meðfylgjandi mynd eru viðurkenningahafar árið 2015 ásamt formanni BKR:
Eftirfarandi ályktanir voru samþykktar á þinginu:
BKR fagnar ákvörðun velferðarráðherra að taka stjórnsýslu á sviði félagsþjónustu og barnaverndar til enduskoðunar í samvinnu við helstu hagsmunaaðila. Nefnd á vegum ráðherra hefur verið skipuð og henni ætlað að skila tillögum á þessu sviði fyrir páska. Þá leggur BKR áherslu á að rætt sé við Félag fósturforeldra, sem býr yfir dýrmætri innsýn hvað varðar stöðu og réttindi barna og ungmenna sem þurfa á skjóli að halda utan heimilis síns vegna erfiðra aðstæðna heimafyrir.
Ályktunin var send velferðarráðherra, starfsmönnum velferðarráðuneytisins, formanni nefndar um stjórnsýslu á sviði félagsþjónustu og barnaverndar og öðrum nefndarmönnum, og starfsmönnum og stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga.
—
Bandalag kvenna í Reykjavík hvetur stjórnvöld til þess að hlúa vel að því umhverfi sem ungum börnum er skapað, bæði innan dagforeldrakerfisins og í leikskólum. Í leikskólum um land allt er sinnt mjög góðu starfi en víða þarf að búa starfsumhverfinu betri skilyrði, m.a. með auknum fjárveitingum. Þá hvetur BKR einnig til þess að stjórnvöld horfi í auknum mæli til hugmynda tengdum samþættingu fjölskyldu- og atvinnulífs og kanni m.a. möguleika til styttingar vinnudagsins. Atvinnulífið þarf að koma betur til móts við börnin og barnafjölskyldur.—
BKR leggur áherslu á mikilvægi þess að foreldrar ræði við börn og unglinga um góðar netvenjur og heilbrigð samskipti á samfélagsmiðlum. Í ljósi umræðu undanfarin ár um gróft neteinelti og hefndarklám er mikilvægt að foreldrar kynni sér vefsíður og samskiptaforrit (öpp) sem börn og unglingar notast við í ntímasamfélagi og ræði við þau um orsakir og afleiðlingar myndbirtinga á netinu sem gefa haft mikil áhrif á líf og framtíð barnanna. Þá hvetur BKR foreldra til þess að skoða ábyrgð sína þegar kemur að myndbirtingu af börnum sínum á samfélagsmiðlum og friðhelgi barnanna.—
Ársþing BKR fagnar þingsályktunartillögu um stofnun embættis umboðsmanns aldraðra og hvetur til að hún verði samþykkt. Í takt við aukið hlutfall aldraðra af fóllksfölda eykst mikilvægi þess að hafa málsvara til að standa vörð um réttindi og þar með velferð þegar álitamál koma upp.—
BKR gerir athugasemd við frumvarp til laga um afnám laga um orlof húsmæðra í ljósi þess að enn hallar á konur í þjóðfélaginu og þá sérstaklega eldri konur og láglaunakonur á öllum aldri, en þetta eru þeir hópar sem nýta sér orlof húsmæðra í Reykjavík. Þessir tveir hópar eiga langt í land hvað varðar jafnrétti í launum. BKR telur því framlagningu lagafrumvarpsins ótímabæra.
Hér má finna umsögn Orlofsnefndar húsmæðra í Reykjavík (nefnd á vegum BKR) um frumvarp til laga um afnám laga um orlof húsmæðra sem send var Alþingi.