Ályktanir

99. ÞING BANDALAGS KVENNA Í REYKJAVÍK, 7. MARS 2015

BKR fagnar ákvörðun velferðarráðherra að taka stjórnsýslu á sviði félagsþjónustu og barnaverndar til enduskoðunar í samvinnu við helstu hagsmunaaðila. Nefnd á vegum ráðherra hefur verið skipuð og henni ætlað að skila tillögum á þessu sviði fyrir páska. Þá leggur BKR áherslu á að rætt sé við Félag fósturforeldra, sem býr yfir dýrmætri innsýn hvað varðar stöðu og réttindi barna og ungmenna sem þurfa á skjóli að halda utan heimilis síns vegna erfiðra aðstæðna heimafyrir.

Ályktunin var send velferðarráðherra, starfsmönnum velferðarráðuneytisins, formanni nefndar um stjórnsýslu á sviði félagsþjónustu og barnaverndar og öðrum nefndarmönnum, og starfsmönnum og stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga.


Bandalag kvenna í Reykjavík hvetur stjórnvöld til þess að hlúa vel að því umhverfi sem ungum börnum er skapað, bæði innan dagforeldrakerfisins og í leikskólum. Í leikskólum um land allt er sinnt mjög góðu starfi en víða þarf að búa starfsumhverfinu betri skilyrði, m.a. með auknum fjárveitingum. Þá hvetur BKR einnig til þess að stjórnvöld horfi í auknum mæli til hugmynda tengdum samþættingu fjölskyldu- og atvinnulífs og kanni m.a. möguleika til styttingar vinnudagsins. Atvinnulífið þarf að koma betur til móts við börnin og barnafjölskyldur.


BKR leggur áherslu á mikilvægi þess að foreldrar ræði við börn og unglinga um góðar netvenjur og heilbrigð samskipti á samfélagsmiðlum. Í ljósi umræðu undanfarin ár um gróft neteinelti og hefndarklám er mikilvægt að foreldrar kynni sér vefsíður og samskiptaforrit (öpp) sem börn og unglingar notast við í ntímasamfélagi og ræði við þau um orsakir og afleiðlingar myndbirtinga á netinu sem gefa haft mikil áhrif á líf og framtíð barnanna. Þá hvetur BKR foreldra til þess að skoða ábyrgð sína þegar kemur að myndbirtingu af börnum sínum á samfélagsmiðlum og friðhelgi barnanna.


Ársþing BKR fagnar þingsályktunartillögu um stofnun embættis umboðsmanns aldraðra og hvetur til að hún verði samþykkt. Í takt við aukið hlutfall aldraðra af fóllksfölda eykst mikilvægi þess að hafa málsvara til að standa vörð um réttindi og þar með velferð þegar álitamál koma upp.


BKR gerir athugasemd við frumvarp til laga um afnám laga um orlof húsmæðra í ljósi þess að enn hallar á konur í þjóðfélaginu og þá sérstaklega eldri konur og láglaunakonur á öllum aldri, en þetta eru þeir hópar sem nýta sér orlof húsmæðra í Reykjavík. Þessir tveir hópar eiga langt í land hvað varðar jafnrétti í launum. BKR telur því framlagningu lagafrumvarpsins ótímabæra.

98. ÞING BANDALAGS KVENNA Í REYKJAVÍK, 8. MARS 2014

Aðildarfélög Bandalags kvenna í Reykjavík (BKR) skora á stjórnvöld að standa vörð um menntakerfið og og tryggja samfellu í skólastarfi. BKR hvetur til þess að á tímum niðurskurðar sé menntun sett framarlega í forgangsröð og haldi sínum sessi sem ein af grunnstoðum samfélagsins. Nemendur og kennarar þarfnast þess að vinnan sem fram fer í skólum sé metin að verðleikum.

Til velferðarráðuneytisins, velferðarnefndar Alþingis og formanna stjórnmálaflokka:

Bandalag kvenna í Reykjavík (BKR) mótmælir þeim mikla niðurskurði sem hefur átt sér stað á grunnheilbrigðis-þjónustu. Niðurskurðurinn endurspeglast m.a. í skerðingu á þjónustu í mæðravernd og við fyrirbura, svo og á þjónustu í heilsugæslu , t.d. brjóstaráðgjöf, og slysavörnum barna. Einnig vekur BKR athygli á þeim aðstæðum sem skapast hafa á landsbyggðinni í þjónustu við verðandi mæður og börn.

97. ÞING BANDALAGS KVENNA Í REYKJAVÍK, 9. MARS 2013

Aðildarfélög Bandalags kvenna í Reykjavík harma að enn skuli vera óútskýrður launamunur kynjanna. Samkvæmt upplýsingum frá stéttarfélögum hefur launamunur aukist á liðnum árum. Bandalag kvenna í Reykjavík telur þetta vera óásættanlegt á árinu 2013 og krefst úrbóta.

Samþykkt á þingi Bandalags kvenna í Reykjavík laugardaginn 9. mars 2013.

Ályktun þessi var send til allra fjölmiðla / dagblaða.

Bandalag kvenna í Reykjavík og aðildarfélög þess skora á alla stjórnmálamenn, sem eru á framboðslistum, sama í hvaða flokki þeir standa, að standa vörð um heimili, skóla, velferð barna og heilbrigðismál að loknum kosningum í apríl n.k.

Greinagerð:

Nóg hefur verið skorið niður sl. fjögur ár í þessum málaflokkum, og þjóðin komin að þolmörkum. Sýnum samstöðu og verjum þessa málaflokka sem eru undirstaða í íslensku samfélagi.

Samþykkt á þingi Bandalags kvenna í Reykjavík laugardaginn 9. mars 2013.

Ályktun þessi var send öllum formönnum stjórnmálaflokka, sem fara í framboð vorið 2013.