98. þing BKR, ný stefnuskrá og afhending viðurkenninga

Viðurkenningarhafar 2014 og formaður BKR98. þing Bandalags kvenna í Reykjavík var haldið 8. mars 2014. Á þinginu var farið í gegnum venjuleg aðalfundarstörf. Upplýsingar um breytingar á stjórn og nefndum verða birtar síðar.

Á fundinum var samþykkt ný stefnuskrá fyrir Bandalag kvenna í Reykjavík sem byggir á lögum og reglum BKR, sögu félagsins og þeirri stefnumótun sem hefur verið unnin að undanförnu. Í stefnuskránni er leitast við að skilgreina nánar áherslusvið bandalagsins og sameiginlega framtíðarsýn.

Stefnuskrána má nálgast hér: Stefnuskrá BKR

Nýtt félag,POWERtalk á Íslandi, gekk til liðs við Bandalag kvenna í Reykjavík við mikinn fögnuð og eru aðildarfélög BKR nú sextán talsins. Markmið samtakanna er að gefa einstaklingum hvar sem er í heiminum tækifæri til sjálfsþroska með markvissri þjálfun í tjáskiptum og stjórnun.

Jafnframt afhenti BKR í fyrsta sinn viðurkenningar bandalagsins til aðila sem starfa að áherslusviðum og markmiðum félagsins. BKR telur mikilvægt að vekja athygli á því góða starfi sem unnið er á öllum sviðum samfélagsins.

Viðurkenninguna KONA ÁRSINS 2014 hlaut Herdísi Storgaard fyrir áratuga langa baráttu á sviði slysavarna, og þá sérstaklega barna. Herdís er framkvæmdastjóri Slysavarnahússins og frumkvöðull í slysavörnum barna. Einnig stýrir hún tilraunaverkefni um slysavarnir aldraðra fyrir Reykjavíkurborg.

Kvenfélagið Hringurinn hlaut viðurkenninguna KVENFÉLAG ÁRSINS 2014 fyrir störf í þágu líknar- og mannúðarmála og uppbyggingu Barnaspítala Hringsins. Félagið fagnaði 110 ára afmæli sínu á árinu og veitti af því tilefni Barnaspítala Hringsins 110 milljón króna gjöf sem gerir spítalanum kleift að vera meðal þeirra fremstu í heiminum. Árið 2012 fékk Barnaspítali Hringsins 70 milljón króna gjöf frá kvenfélaginu í tilefni af 70 ára afmæli Barnaspítalasjóðs. Formaður Hringsins, Valgerður Einarsdóttir, tók við viðurkenningunni fyrir hönd kvenfélagsins. Hér má sjá erindi Valgerðar á þinginu: Ávarp Valgerðar Einarsdóttir, formanns Hringsins

HVATNINGARVIÐURKENNINGU BKR 2014 hlaut veftímaritið kritin.is fyrir brautryðjandi starf í umræðu um skólamál. Veftímaritið Krítin var stofnað í maí 2012. Ritstjórar og hugmyndasmiðirnir veftímaritsins eru Edda Kjartansdóttir og Nanna Kristín Christiansen sem tóku við viðurkenningunni á fundinum. Markmið Krítarinnar er að auka faglega umræðu um málefni skóla og auka virðingu fyrir því starfi sem þar fer fram. Hér má sjá ávarp Eddu og Nönnu á þinginu: Ávarp Eddu og Nönnu frá kritin.is

Eftirfarandi ályktanir voru samþykktar á þinginu:

Aðildarfélög Bandalags kvenna í Reykjavík (BKR) skora á stjórnvöld að standa vörð um menntakerfið og og tryggja samfellu í skólastarfi. BKR hvetur til þess að á tímum niðurskurðar sé menntun sett framarlega í forgangsröð og haldi sínum sessi sem ein af grunnstoðum samfélagsins. Nemendur og kennarar þarfnast þess að vinnan sem fram fer í skólum sé metin að verðleikum.

 

Til velferðarráðuneytisins, velferðarnefndar Alþingis og formanna stjórnmálaflokka:

Bandalag kvenna í Reykjavík (BKR) mótmælir þeim mikla niðurskurði sem hefur átt sér stað á grunnheilbrigðisþjónustu. Niðurskurðurinn endurspeglast m.a. í skerðingu á þjónustu í mæðravernd og við fyrirbura, svo og á þjónustu í heilsugæslu , t.d. brjóstaráðgjöf, og slysavörnum barna. Einnig vekur BKR athygli á þeim aðstæðum sem skapast hafa á landsbyggðinni í þjónustu við verðandi mæður og börn.

Stjórn BKR þakkar fyrir góðan fund og við hlökkum til samstarfsins á nýju starfsári!

 

 

Ályktanir 97. þings BKR

Aðildarfélög Bandalags kvenna í Reykjavík harma að enn skuli vera óútskýrður launamunur kynjanna. Samkvæmt upplýsingum frá stéttarfélögum hefur launamunur aukist á liðnum árum. Bandalag kvenna í Reykjavík telur þetta vera óásættanlegt á árinu 2013 og krefst úrbóta.

Samþykkt á þingi Bandalags kvenna í Reykjavík laugardaginn 9. mars 2013.

Ályktun þessi var send til allra fjölmiðla / dagblaða.

Bandalag kvenna í Reykjavík og aðildarfélög þess skora á alla stjórnmálamenn, sem eru á framboðslistum, sama í hvaða flokki þeir standa, að standa vörð um heimili, skóla, velferð barna og heilbrigðismál að loknum kosningum í apríl n.k.

Greinagerð:

Nóg hefur verið skorið niður sl. fjögur ár í þessum málaflokkum, og þjóðin komin að þolmörkum. Sýnum samstöðu og verjum þessa málaflokka sem eru undirstaða í íslensku samfélagi.

Samþykkt á þingi Bandalags kvenna í Reykjavík laugardaginn 9. mars 2013.

Ályktun þessi var  send öllum formönnum stjórnmálaflokka, sem fara í framboð vorið 2013.