Saga Bandalags kvenna í Reykjavík er saga samtakamáttar kvenna. Konur tóku sig saman og virkjuðu samtakamátt sinn í þágu kvenna og barna og ekkert var þeim óviðkomandi til að bæta hag þeirra. Þeir sem ungir eru í dag eiga vafalaust erfitt með að setja sig í spor þeirra sem uppi voru á fyrri hluta síðustu aldar þegar lífsbaráttan var hörð og óvægin.
Tildrög að stofnun Bandalags kvenna var að Ingibjörg Benediktsdóttir kennari boðaði nokkrar konur á fund í Kvennaskólanum í Reykjavík til að ræða um það hvort reykvískar konur vildu sameinast norðlenskum konum um útgáfu tímarits eða blaðs og var talsmaður þeirra Halldóra Bjarnadóttir formaður Sambands norðlenskra kvenna. Af þessu varð ekki en reykvískar konur samþykktu að kjósa nefnd fimm kvenna frá níu félögum til að athuga málið. Í desember 1916 kom Hólmfríður Árnadóttir kennari með tillögu að nefndin beitti sér fyrir að koma á sambandi milli allra kvenfélaganna í Reykjavík og auka þannig samvinnu kvenna sem höfðu áhuga á framfaramálum samfélagsins.
Í mars 1917 hittust konurnar aftur og ákváðu að senda öllum kvenfélögum í Reykjavík bréf um að þær athuguðu hvort kvenfélögin væru hlynnt stofnun sameiginlegs félags og fá þau til að kjósa nefnd til að gera uppkast að lögum fyrir félagið. Þann 30. maí 1917 komu konur saman á heimili Hólmfríðar og uppkast laganna var rætt og ákveðið var að stofna Bandalag kvenna og var Steinunn H. Bjarnason fyrsti formaður þess. Steinunn fór strax að tala fyrir samkomuhúsi fyrir Bandalagið og árið 1926 var samþykkt að reisa ætti samkomuhús handa íslenskum konum og árið 1931 var húsið nefnt Hallveigarstaðir í höfuðið á fyrstu landnámskonunni í Reykjavík, Hallveigu Fróðadóttur. Árið 1943 var nafninu breytt í Bandalag kvenna í Reykjavík.