Bandalag kvenna í Reykjavík í samstarfi við Stjórnmálafræðideild HÍ og námsbraut í blaða- og fréttamennsku auglýsir styrk til ritunar meistararitgerðar um birtingarmyndir kvenna í íslenskum fjölmiðlum. Miðað er við lokaverkefni í meistaranámi, að lágmarki 30 ECTS einingar. Verkefnið þarf að hefjast sem fyrst og er miðað við að því ljúki ekki síðar en vorið 2014.
Verkefnið hentar meistaranema í kynjafræði, stjórnmála- og stjórnsýslufræðum, blaða- og fréttamennsku eða almennum félagsvísindum og skal beita kynjafræðilegu sjónarhorni á verkefnið. Markmið verkefnisins er að m.a. að kanna kynjahlutföll í fjölmiðlum og að hvaða marki mismunandi birtingarmyndir búi að baki mismunandi sýnileika kynjanna. Gert er ráð fyrir að rannsóknin verði gagnagreining, spurningakönnun og/eða viðtalsrannsókn.
Styrkurinn verður veittur nema sem sækir um í samráði við leiðbeinanda sinn. Umsókn skal vera á bilinu 200–500 orð þar sem fram kemur nánar hvernig umsækjandi telur rétt að standa að rannsókninni og hvaða öðrum spurningum sé mikilvægt að svara. Leiðbeinandi getur ekki sótt um fyrir ótiltekinn nemenda.
Styrkurinn er að upphæð kr. 300.000 og verður hann greiddur út í tvennu lagi, 150.000 þegar þriðjungi vinnunnar er lokið að mati leiðbeinanda og 150.000 þegar verkefni er lokið. Styrkveitendur fá kynningu á niðurstöðum auk eintaks af rannsókninni.
Umsóknarfrestur er til og með 15. september 2013.
Umsókn og ferilskrá, ásamt staðfestingu leiðbeinanda, skal senda á skrifstofu Stjórnmálafræðideildar HÍ í Gimli við Sturlugötu, 101 Reykjavík eða á elva@hi.is