Arnhildur Hálfdánardóttir, meistaranemi í blaða- og fréttamennsku, hlaut á dögunum styrk að upphæð kr. 300.000 til að skrifa meistararitgerð sína um birtingarmyndir kvenna í íslenskum fjölmiðlum.
Styrkinn veitir Bandalag kvenna í Reykjavík í samstarfi við Stjórnmálafræðideild og námsbraut í blaða- og fréttamennsku við Félags- og mannvísindadeild HÍ.
Í ritgerðinni hyggst Arnhildur beina sjónum sínum að þeim fréttum sem fyrstar eru í fréttatímum ljósvakamiðla eða á forsíðum dagblaða og eru jafnan taldar mikilvægastar. Valið á þessum fréttum er þó ekki algerlega hlutlægt. Á bak við það eru flókin ferli sem ýmsir þættir geta haft áhrif á og mun Arnhildur leitast við að varpa ljósi á hvaða áhrif kyngervi og staða kynjanna í fjölmiðlaheiminum hefur á þetta ferli.
Leiðbeinandi Arnhildar er Margrét Gyða Pétursdóttir, lektor í kynjafræði við Stjórnmálafræðideild.