Dagur kvenfélagskonunnar

Til hamingju með daginn kæru landsmenn nær og fjær – í dag fögnum við degi kvenfélagskonunnar! 1. febrúar var formlega gerður að degi kvenfélagskonunnar árið 2010 til að vekja athygli á miklu og óeigingjörnu starfi kvenfélagskvenna í 140 ár. Síðustu þrjú árin hefur BKR gefið út ársskýrslu um starfsemi sína og aðildarfélaganna. Þar kemur fram að á tímabilinu 2012-2014 hafa aðildarfélög BKR gefið í kringum 340 milljónir króna til ýmissa verkefna. Það munar um minna!

Í dag birtum við skemmtilegt viðtal við formann og varaformann Kvenfélags Langholtssóknar. Við vonumst til þess á næstu mánuðum að birta áhugaverð viðtöl við félagskonur úr aðildarfélögum BKR sem upptakt fyrir afmælisárið okkar 2017 þegar við fögnum 100 ára afmæli BKR!

Njótið dagsins!

98. þing BKR, ný stefnuskrá og afhending viðurkenninga

Viðurkenningarhafar 2014 og formaður BKR98. þing Bandalags kvenna í Reykjavík var haldið 8. mars 2014. Á þinginu var farið í gegnum venjuleg aðalfundarstörf. Upplýsingar um breytingar á stjórn og nefndum verða birtar síðar.

Á fundinum var samþykkt ný stefnuskrá fyrir Bandalag kvenna í Reykjavík sem byggir á lögum og reglum BKR, sögu félagsins og þeirri stefnumótun sem hefur verið unnin að undanförnu. Í stefnuskránni er leitast við að skilgreina nánar áherslusvið bandalagsins og sameiginlega framtíðarsýn.

Stefnuskrána má nálgast hér: Stefnuskrá BKR

Nýtt félag,POWERtalk á Íslandi, gekk til liðs við Bandalag kvenna í Reykjavík við mikinn fögnuð og eru aðildarfélög BKR nú sextán talsins. Markmið samtakanna er að gefa einstaklingum hvar sem er í heiminum tækifæri til sjálfsþroska með markvissri þjálfun í tjáskiptum og stjórnun.

Jafnframt afhenti BKR í fyrsta sinn viðurkenningar bandalagsins til aðila sem starfa að áherslusviðum og markmiðum félagsins. BKR telur mikilvægt að vekja athygli á því góða starfi sem unnið er á öllum sviðum samfélagsins.

Viðurkenninguna KONA ÁRSINS 2014 hlaut Herdísi Storgaard fyrir áratuga langa baráttu á sviði slysavarna, og þá sérstaklega barna. Herdís er framkvæmdastjóri Slysavarnahússins og frumkvöðull í slysavörnum barna. Einnig stýrir hún tilraunaverkefni um slysavarnir aldraðra fyrir Reykjavíkurborg.

Kvenfélagið Hringurinn hlaut viðurkenninguna KVENFÉLAG ÁRSINS 2014 fyrir störf í þágu líknar- og mannúðarmála og uppbyggingu Barnaspítala Hringsins. Félagið fagnaði 110 ára afmæli sínu á árinu og veitti af því tilefni Barnaspítala Hringsins 110 milljón króna gjöf sem gerir spítalanum kleift að vera meðal þeirra fremstu í heiminum. Árið 2012 fékk Barnaspítali Hringsins 70 milljón króna gjöf frá kvenfélaginu í tilefni af 70 ára afmæli Barnaspítalasjóðs. Formaður Hringsins, Valgerður Einarsdóttir, tók við viðurkenningunni fyrir hönd kvenfélagsins. Hér má sjá erindi Valgerðar á þinginu: Ávarp Valgerðar Einarsdóttir, formanns Hringsins

HVATNINGARVIÐURKENNINGU BKR 2014 hlaut veftímaritið kritin.is fyrir brautryðjandi starf í umræðu um skólamál. Veftímaritið Krítin var stofnað í maí 2012. Ritstjórar og hugmyndasmiðirnir veftímaritsins eru Edda Kjartansdóttir og Nanna Kristín Christiansen sem tóku við viðurkenningunni á fundinum. Markmið Krítarinnar er að auka faglega umræðu um málefni skóla og auka virðingu fyrir því starfi sem þar fer fram. Hér má sjá ávarp Eddu og Nönnu á þinginu: Ávarp Eddu og Nönnu frá kritin.is

Eftirfarandi ályktanir voru samþykktar á þinginu:

Aðildarfélög Bandalags kvenna í Reykjavík (BKR) skora á stjórnvöld að standa vörð um menntakerfið og og tryggja samfellu í skólastarfi. BKR hvetur til þess að á tímum niðurskurðar sé menntun sett framarlega í forgangsröð og haldi sínum sessi sem ein af grunnstoðum samfélagsins. Nemendur og kennarar þarfnast þess að vinnan sem fram fer í skólum sé metin að verðleikum.

 

Til velferðarráðuneytisins, velferðarnefndar Alþingis og formanna stjórnmálaflokka:

Bandalag kvenna í Reykjavík (BKR) mótmælir þeim mikla niðurskurði sem hefur átt sér stað á grunnheilbrigðisþjónustu. Niðurskurðurinn endurspeglast m.a. í skerðingu á þjónustu í mæðravernd og við fyrirbura, svo og á þjónustu í heilsugæslu , t.d. brjóstaráðgjöf, og slysavörnum barna. Einnig vekur BKR athygli á þeim aðstæðum sem skapast hafa á landsbyggðinni í þjónustu við verðandi mæður og börn.

Stjórn BKR þakkar fyrir góðan fund og við hlökkum til samstarfsins á nýju starfsári!

 

 

Námskeið um fundarsköp og fundarstjórn

BKR býður félagskonum aðildarfélaganna að taka þátt í námskeiði um fundarsköp og fundarstjórn fimmtudaginn 30. janúar kl. 19:30-22:00 í sal Hallveigarstaða, Túngötu 14.

Fjallað verður almennt um lykilatriði í fundarstjórn, og þátttakendur gera verklegar æfingar í fundarritun og fundarstjórn. Námskeiðið ætlað öllum þeim sem hafa áhuga á að kynna sér betur og skerpa á grunnatriðum fundarskapa og ekki síður gott fyrir þá sem vilja fá aukið sjálfstraust í þátttöku á fundum þar sem reglurnar gilda.

Ingibjörg Vigfúsdóttir frá Powertalk International er leiðbeinandi námskeiðsins:

Ingibjorg Vigfusdottir_myndIngibjörg Vigfúsdóttir, er fædd 19. maí árið 1956, í Seljatungu, Gauðverjabæjarhreppi – í Árnessýslu.  Þar  ólst hún upp ásamt foreldrum sínum og bræðrum til 16 ára aldurs.  Hún lauk gagnfræðaprófi frá Gagnfræðaskóla Selfoss og síðar útgerðartækni frá Tækniskóla Íslands.  Hún starfaði hjá útgerðarfyrirtækjum , á Eyrarbakka og síðan hjá Granda í Reykjavík í tvo áratugi.  Nú starfar hún hjá Skiptum, móðurfélagi Símans, og sinnir þar skipulagningu ferðalaga starfsmanna.  Ingibjörg er tvígift og á eina dóttur barna.  Hún les mikið, fer gjarnan í leikhús og á tónleika – þykir gaman að borða og elda mat, ekki síst í góðra vina hópi.  Fer í laxveiðar á sumrin með manni sínum og vildi gjarnan geta notað afganginn af árinu til ferðalaga.

Fyrst og fremst lofum við skemmtilegu kvöldi í góðum félagsskap!

Skráningarfrestur er til 28. janúar – skráning sendist á netfangið: bandalagkvennarvk@gmail.com 

Við vonumst til þess að sjá ykkur sem flestar!

Umfjöllun Fréttatímans um ársskýrslu BKR fyrir árið 2012

Hér má nálgast umfjöllun Fréttatímans í helgarblaðinu 28-30. júní um ársskýrslu BKR fyrir árið 2012:

Söfnuðu 145 milljónum á síðasta ári

27.06 2013 | Dægurmál

Söfnuðu 145 milljónum á síðasta ári

Friðrika Hjördís Geirsdóttir og Ingibjörg Birna Kjartansdóttir stjórna Bingói hjá kvenfélaginu Silfri.

Aðildarfélög Bandalags kvenna í Reykjavík söfnuðu um 145 milljónum til ýmissa góðgerðarmálefna á síðasta ári, að því er kemur fram í ársskýrslu bandalagsins. Hæstu upphæðinni safnaði Hringurinn eða 135 milljónum. Barnaspítali Hringsins fékk 70 milljónir af þeirri upphæð í tilefni af 10 ára afmæli sínu og 70 ára afmæli Barnaspítalasjóðsins. Hringurinn styrkti einnig ýmsar aðrar heilbrigðisstofnanir svo sem skurðstofu Landspítalans í Fossvogi, Háls- nef og eyrnadeild barna og Meðgöngu og sængurkvennadeild Landspítalans.

Önnur aðildarfélög Bandalags kvenna í Reykjavík styrktu ýmis málefni á árinu og má þar nefna sérdeild Fjölbrautaskólans í Breiðholti fyrir fatlaða nemendur sem hlaut spjaldtölvu að gjöf frá kvenfélögum hverfisins. Kvenfélag Hallgrímskirkju veitti ungri stúlku í Kenýa styrk fyrir gervihandlegg auk þess sem Dyngjan, áfangaheimili fyrir konur, og Átröskunarteymi Landspítalans fengu styrki frá Hvítabandinu. Thorvaldsenssjóðurinn styrkti sykursjúk börn og unglinga til sumardvalar og Kvenfélagið Silfur styrkti Líf, styrktarfélag kvennadeildar Landspítalans, svo nokkur dæmi séu nefnd.

Aðildarfélög Bandalags kvenna í Reykjavík eru fimmtán talsins og beita margvíslegum fjáröflunarleiðum, svo sem útimörkuðum, rekstri verslana, eins og Thorvaldsensbasarsins í Austurstræti og verslunar Hvítabandsins í Furugrund. Félögin halda happdrætti og bingó, ásamt því að selja kaffi, kökur og prjónavörur. Kvenfélagið Silfur, sem er yngsta félagið, hefur meðal annars haldið galakvöld og fatasölur í Kolaportinu í sinni fjáröflun.

Dagný Hulda Erlendsdóttir
dagnyhulda@frettatiminn.is