Jólafundur BKR og fjáröflun fyrir starfsmenntunarsjóð ungra kvenna

Jólafundur Bandalags kvenna í Reykjavík verður haldinn fimmtudaginn 21. nóvember kl. 19:30 að Hallveigarstöðum, Túngötu 14.

Húsið opnar með léttum veitingum / jólaglöggi kl. 19:00.

Dagskrá fundarins:

  • Ávarp formanns BKR
  • Sigrún Pálsdóttir les upp úr nýútkominn bók sinni, Sigrún og Friðgeir – Ferðasaga
  • Dagmar Sigurðardóttir, formaður Hvítabandsins, afhentir gjöf mætrar Hvítabandskonu, Ragnhildar Einarsdóttur, sem safnaðist í tilefni 80 ára afmælis hennar í haust
  • Happdrætti til styrktar Starfsmenntunarsjóði ungra kvenna

Veitingar: Heitt súkkulaði og meðlæti að hætti “Ásdísar”.

Sigrún Pálsdóttir verður jafnframt með bók sína til sölu á sérstöku tilboðsverði fyrir gesti fundarins.

Við hlökkum til að sjá ykkur á jólafundinum og eiga ánægjulega kvöldstund saman – allir velkomnir!

Stjórn Bandalags kvenna í Reykjavík

Fyrirtæki sem gáfu vinninga fyrir happdrættið til styrktar Starfsmenntunarsjóði ungra kvenna.

Umfjöllun Fréttatímans um ársskýrslu BKR fyrir árið 2012

Hér má nálgast umfjöllun Fréttatímans í helgarblaðinu 28-30. júní um ársskýrslu BKR fyrir árið 2012:

Söfnuðu 145 milljónum á síðasta ári

27.06 2013 | Dægurmál

Söfnuðu 145 milljónum á síðasta ári

Friðrika Hjördís Geirsdóttir og Ingibjörg Birna Kjartansdóttir stjórna Bingói hjá kvenfélaginu Silfri.

Aðildarfélög Bandalags kvenna í Reykjavík söfnuðu um 145 milljónum til ýmissa góðgerðarmálefna á síðasta ári, að því er kemur fram í ársskýrslu bandalagsins. Hæstu upphæðinni safnaði Hringurinn eða 135 milljónum. Barnaspítali Hringsins fékk 70 milljónir af þeirri upphæð í tilefni af 10 ára afmæli sínu og 70 ára afmæli Barnaspítalasjóðsins. Hringurinn styrkti einnig ýmsar aðrar heilbrigðisstofnanir svo sem skurðstofu Landspítalans í Fossvogi, Háls- nef og eyrnadeild barna og Meðgöngu og sængurkvennadeild Landspítalans.

Önnur aðildarfélög Bandalags kvenna í Reykjavík styrktu ýmis málefni á árinu og má þar nefna sérdeild Fjölbrautaskólans í Breiðholti fyrir fatlaða nemendur sem hlaut spjaldtölvu að gjöf frá kvenfélögum hverfisins. Kvenfélag Hallgrímskirkju veitti ungri stúlku í Kenýa styrk fyrir gervihandlegg auk þess sem Dyngjan, áfangaheimili fyrir konur, og Átröskunarteymi Landspítalans fengu styrki frá Hvítabandinu. Thorvaldsenssjóðurinn styrkti sykursjúk börn og unglinga til sumardvalar og Kvenfélagið Silfur styrkti Líf, styrktarfélag kvennadeildar Landspítalans, svo nokkur dæmi séu nefnd.

Aðildarfélög Bandalags kvenna í Reykjavík eru fimmtán talsins og beita margvíslegum fjáröflunarleiðum, svo sem útimörkuðum, rekstri verslana, eins og Thorvaldsensbasarsins í Austurstræti og verslunar Hvítabandsins í Furugrund. Félögin halda happdrætti og bingó, ásamt því að selja kaffi, kökur og prjónavörur. Kvenfélagið Silfur, sem er yngsta félagið, hefur meðal annars haldið galakvöld og fatasölur í Kolaportinu í sinni fjáröflun.

Dagný Hulda Erlendsdóttir
dagnyhulda@frettatiminn.is