Þann 28. ágúst sl. voru afhentir 11 styrkir úr Starfsmenntunarsjóði ungra kvenna að heildarupphæð rúmlega 1,2 milljónir króna.
Tilgangur sjóðsins hefur frá upphafi verið að hvetja og styðja við bakið á konum, sem ekki eiga kost á námslánum, til þess að afla sér aukinnar menntunar. Aukin samkeppni í atvinnulífinu kallar á auknar menntunarkröfur og hefur Bandalag kvenna í Reykjavík reynt að styðja við bakið á ungum konum sem hafa hug á að skapa sér og fjölskyldu sinni betri framtíð og styrkja stöðu sína á atvinnumarkaði.
Á sautján starfsárum hefur sjóðurinn úthlutað 130 styrkjum að fjárhæð samtals 14,7 milljónir króna. Starfandi er fjáröflunarnefnd Starfsmenntunarsjóðsins, einnig gefa aðildarfélög BKR til sjóðsins en mestu munar um velvild og styrki fyrirtækja til sjóðsins, m.a. frá Sorpu og Góða hirðinum.