Viðtal: Líflegt starf í Kvenfélagi Langholtssóknar

Við hittum formann og varaformann Kvenfélags Langholtssóknar, þær Helgu Guðmundsdóttur og Jóhönnu Gísladóttur, yfir góðum kaffibolla og áttum skemmtilegt spjall um starfsemi félagsins fyrir heimasíðu BKR. Mikill kraftur er í félaginu og rík áhersla lögð á að rækta tengsl við nærsamfélagið.

Helga Guðmundsdóttir, formaður Kvenfélags Langholtssóknar, og Jóhanna Gísladóttir, varaformaður

Helga Guðmundsdóttir, formaður Kvenfélags Langholtssóknar, og Jóhanna Gísladóttir, varaformaður.

„Félagið er lifandi félag kvenna innan hverfisins og utan – einstaklega skemmtilegur fræðandi og upplífgandi félagsskapur kvenna. Við leggjum áherslu á að umfjöllunarefnið á fundum sé skemmtilegt og fræðandi og höfði til kvenna á öllum aldri. Hópastarfið okkar er mjög öflugt og síbreytilegt eftir áhugasviði þátttakenda hverju sinni. Sumir klúbbar innan félagsins hafa starfað lengi, á borð við matgæðingaklúbbinn okkar, bókaklúbbinn og gönguhópinn. Svo má líka nefna að við erum mjög opnar fyrir stofnun nýrra hópa og má sem dæmi taka var stofnaður skokkhópur síðasta haust, þannig að þetta er mjög líflegt starf. Félagið byggir á því að í sameiningu geti konurnar í hverfinu framkvæmt hvað sem er, framlag þeirra til uppbyggingar í hverfinu hefur verið og er enn ómetanlegt. Þá er félagið óháð trúarbrögðum, stjórnmálum. Markmið Langholtskirkju og starfseminnar sem þar fer fram er að vera einskonar félagsmiðstöð fyrir hverfið, vettvangur fyrir hverfisbúa til þess að koma saman og er kvenfélagið hluti af því.“

Vilja efla nærsamfélagið og samstöðu kvenna innan hverfisins

„Núverandi markmið félagsins er að efla samstöðu kvenna í hverfinu og koma í veg fyrir félagslega einangrun. Við leggjum áherslu á að styðja við fjölskyldurnar í hverfinu á félagslegum grunni, m.a. með skemmtilegum viðburðum á borð við páskaeggjabingó og laufabrauðsbakstur. Framtíðarsýn félagsins er í sífellt mótun, m.a. hafa breytingar í þjóðfélaginu áhrif á verkefnin og nýjar félagskonur koma inn með breyttar áherslur. Við leggjum mikla áherslu á það í stjórninni að nýjar hugmyndir fái hljómgrunn og við vinnum í nánu samstarfi við almennar félagskonur þegar kemur að mótun félagsstarfsins.“

Mörg spennandi verkefni á döfinni

Aðspurðar um helstu viðburði framundan hjá félaginu brosa stöllurnar og greinilega margt spennandi á döfinni. „Það er af nógu að taka. Fyrst ber að nefnda að Brynja Runólfsdóttir verður með kynningu þar sem hún sýnir matreiðslu úr fersku hráefni, bæði fiski og kjöti, sem tekur uþb. 20-25 mínútur hver réttur.  Áhersla er lögð á hollan og góðan mat, eldaðan frá grunni og gælir við bragðlaukana. Hún sýnir líka hvernig hægt er að búa sér í haginn með eldamennsku nokkra daga fram í tímann. Þessi kynning er hentug fyrir upptekið fólk, t.d. fyrir yngri kynslóðina með börn og einnig eldri borgara sem nenna ekki að elda sér eitthvað frá grunni á hverjum degi.

Svo verður afmælisfundurinn okkar í mars en þar mun m.a. vera erindi frá félagskonu sem segir frá sinni reynslu af störfum sem alþingismaður. Það er áhugavert að vita hvernig alþingi og störfin þar horfa við konum. Við erum duglegar að sækja fræðslu utan félagsins en eigum líka mikið af reynslumiklum konum innan félagsins sem við leitum jafnan til fyrir fræðslu eða skemmtiefni á fundunum okkar.

Yfirleitt er ekki fundur á apríl heldur höfum við farið í ýmsar skoðunarferðir um borgina. Í ár verður farið í Reykjavíkur-göngu með Birnu Þórðardóttur.  Að lokum fáum vð okkur að borða á Jómfrúnni.

Síðast en ekki síst ber svo að nefna vorhátíðina okkar í maí sem er stærsta verkefnið sem félagið stendur fyrir á hverju ári og helsta fjáröflunin. Vorhátíðinni fylgja mörg verkefni, stór og smá, og allar konurnar tilbúnar til þess að leggja hönd á plóg. Hátíðin er samstarfsverkefni kvenfélagsins og sóknarnefndar Langholtskirkju þar sem við sameinumst um að enda vetrarstarfið, barnastarfið (í kirkjunni fer fram öflugt tónlistar- og kórstarf) og starf  kvenfélagsins í kirkjunni. Dagskráin hefst á messu á léttu nótunum og kvenfélagið stendur fyrir markaði. Einnig erum við með veitingasölu, pyslusölu og hoppukastala fyrir börnin auk skemmtiatriða. Fyrir markaðinn fáum við allt milli himins og jarðar frá fólkinu í hverfinu: Frá títuprjónum og allt upp í flott antik-húsgöng, listmuni og skartgripi. Samt aldrei fengið bíl!  Það sem ekki selst á basarnum fer til Hjálparstarfs kirkjunnar og stundum seljum við dýrari munina til fjáröflunar á netinu, þ.e. það sem ekki selst á markaðnum. Ágóðinn fer síðan til ýmissa líknarfélaga og til endurnýjunar á safnaðarheimilis kirkjunnar.”

Skemmtilegast að kynnast nýjum konum og vinna að nýjum verkefnum

Verkefni félagsins eru mjög fjölbreytt, en hvað finnst þeim skemmtilegast í starfinu? Helga: „Mér finnst skemmtilegast að hitta allar þessar konur og kynnast nýjum félagskonum – eiga glaðan dag með þeim. Gríðarleg hugmyndaauðgi er innan hópsins og hér eiga konur á öllum aldri góða samverustund. Þó oft sé rætt um að það vanti yngri konur inn í félögin þá eru eldri konurnar mikilvægur grunnur félagsins, eiginlegur stofn þess. Meðal þeirra er gríðarleg reynsla sem nýtist í öllum verkefnum félagsins og starfi þess. Við virðum hvora aðra og vinnum vel saman.“

Jóhanna: „Það er ofboðslega gaman að vinna með konum á öllum aldri og sífellt að vera að vinna að nýjum verkefnum og nýjum hugmyndum. Mér finnst fræðslan mjög skemmtileg, nýlega fengum við fulltrúa frá W.O.M.E.N. – Félag kvenna af erlendum uppruna, til þess að segja frá sínu starfi.  Erindi þeirra var mjög áhugavert og það kom virkilega á óvart að heyra hversu stórt og öflugt félag þeirra er. Við leitumst eftir að fá fræðslu frá félögum og einstaklingum sem hafa sig ekki mikið frammi, t.d. í fjölmiðlum, og við kannski vitum ekki mikið um fyrirfram.“

„Óvart“ komnar inn í félagið

Okkur lék forvitni á að vita hvers vegna þær völdu að taka þátt í starfi kvenfélagsins. Svörin komu skemmtilega á óvart.

Jóhanna: „Ég var forvitin um starfsemi félagsins og byrjaði á því að aðstoða með auglýsingar og kynningarmál. Svo leiddi eitt af öðru og svo allt í einu var ég bara gengin í félagið! Mér finnst ég hafa grætt rosalega mikið á veru minni í félaginu og verunni í stjórninni – fræðst, lært og hitt svo mikið af konum sem hafa áralanga reynslu af verkefnum sem snúa að félagsstörfum og réttindum kvenna.“

Helga: „Ég er nú búin að vera í kvennastússi í 35 ár! Upphafið var að það kom nýr prestur til okkar í sókninni þar sem ég bjó áður og hann óskaði eftir því að við hjónin kæmum inn í safnaðarstarfið. Hann var örlagavaldur í lífi mínu og ég hef verið í þessu síðan! Ég hef haft alveg ótrúlega gaman af þessu og upplifað svo margt í starfinu.“

Bara koma og vera með!

Helga og Jóhanna hvetja allar konur til þess að kynna sér starfsemi kvenfélaganna. „Kvenfélögin eru öll ólík félög og ættu allar konur að finna eitthvað sem höfðar til sín. Í okkar félagi reynum við að bjóða upp á sem fjölbreyttasta dagskrá til þess að reyna að ná til sem flestra. Hjá okkur eru engar kvaðir við þátttöku, t.d. ýtum við ekki á neinn sem ekki hefur gaman af því að baka í undirbúning fyrir kökubasar eða önnur verkefni. Ekki ætlast til neins af þátttakendum annað en að koma og vera með!“

Nánari upplýsingar um Kvenfélag Langholtssóknar hér auk þess sem félagið er með Facebook-síðu þar sem fundir og aðrir viðburðir á vegum félagsins eru auglýstir.

Viðtalið er hluti nýs kynningarverkefnis fyrir aðildarfélög BKR og á næstu mánuðum munum við birta á heimasíðu okkar áhugaverð viðtöl við félagskonur úr aðildarfélögum BKR sem upptakt fyrir afmælisárið okkar 2017 þegar við fögnum 100 ára afmæli BKR!