Morgunfundur um börn og nútímasamfélag, miðvikudaginn 28. maí

Opinn fundur um börn og nútímasamfélagBKR í samstarfi við velferðarráðuneytið stendur fyrir opnum fundi um börn og nútímasamfélag. Fjallað verður um hvaða umhverfi við erum að skapa börnunum okkar, dagvistunarmál og samþættingu atvinnu- og fjölskyldulífs. Ókeypis aðgangur og allir velkomnir.

Fundurinn er haldinn á Hótel Reykjavík Natura, Þingsal 2 kl. 08.30-10:00. Sjá dagskrá hér fyrir neðan.

Tölur Hagstofunnar sýna að dagvistunartími barna hefur lengst töluvert frá árinu 1998 og hefur fjöldi þeirra barna sem dvelja á leikskólum í 7-10 klst á dag margfaldast frá þeim tíma. Áhugavert er að varpa ljósi á þessa þróun og velta fyrir sér hvaða ástæður liggja að baki, m.a. í samhengi við vinnutíma foreldra og hvaða sveigjanleika fjölskyldum er veitt í atvinnulífinu.

Hefur efnahagshrunið haft áhrif á fjölskyldumynstrið? Nýlegar rannsóknir sýna að ungum konum fannst erfiðara árið 2012 að samræma fjölskyldu- og atvinnulíf í samanburði við árið 2007.

Leikskólar og dagvistun barna tengist nokkrum markmiðum sem þurfa að fara saman, m.a. menntamálum og að auðvelda foreldrum að sinna atvinnu samhliða því að veita börnunum öruggt umhverfi, nálægð og nauðsynlega umönnun. Á Íslandi vinna flestir foreldrar fulla dagvinnu og margir hverjir töluverða yfirvinnu. Spyrja má hvort atvinnulífið veiti foreldrum nauðsynlegt svigrúm til þess að hugsa um fjölskylduna (börn, veika eða aldraða ættingja), þ.e. er lögð fullnægjandi áhersla á samþættingu atvinnu- og fjölskyldulífs í dag? Hvaða hugmyndir eru að baki umræðunni um styttingu vinnudagsins og hverjar voru niðurstöður starfshóps velferðarráðuneytisins um samræmingu fjölskyldulífs og atvinnu sem skilaði greinargerð sinni í apríl 2013?

Dagskrá:

Fundarstjóri: Margrét Pála Ólafsdóttir, höfundur Hjallastefnunnar
08:30Inngangsorð: Börn þurfa betri heim – Margrét Pála Ólafsdóttir, fundarstjóri
08:40 – Kröfur samfélagsins til ungra barna –  Sæunn Kjartansdóttir, sálgreinir, Miðstöð foreldra og barna og höfundur bókarinnar Árin sem enginn man
09:00Áhrif ytra umhverfis leikskólans á veruleika barna innan hans – Kristín Dýrfjörð, dósent við Háskólann á Akureyri
09:20Samræming fjölskyldulífs og atvinnu og stytting vinnudagsins – Gunnar Örn Gunnarsson, framkvæmdastjóri SLFÍ og fulltrúi BSRB í vinnuhópi velferðarráðuneytisins um samræmingu fjölskyldulífs og atvinnu

09:30 – 10:00 – Pallborðsumræður
Í pallborðsumræðunum sitja ásamt fyrirlesurum Hrefna Sigurjónsdóttir, framkvæmdastjóri Heimilis og skóla – Landssamtök foreldra, og Sveinn S. Kjartansson, formaður Félags foreldra leikskólabarna.

Ókeypis aðgangur – kaffi/te og léttar veitingar.

Dagskrá fundarins var undirbúin í samstarfi við Miðstöð foreldra og barna, Heimili og skóli – landssamtök foreldra, Félag dagforeldra, Félag foreldra leikskólabarna og Félag leikskólakennara. Fundurinn er styrktur af velferðarráðuneytinu.

Vonumst til þess að sjá ykkur sem flest!

Viðburðurinn á Facebook