Opinn fundur um börn og nútímasamfélag 4. mars kl. 8.30-10.30

Born_og_nutumasamfelag_2016BKR stendur fyrir málþinginu „Börn og nútímasamfélag” föstudaginn 4. mars n.k. í samstarfi við velferðarráðuneytið. Fundurinn verður haldinn í Háskólanum í Reykjavík kl. 8.30-10.30, stofu V101.

Upplegg fundarins miðar að umhverfi barna og barnafjölskyldna í nútímasamfélagi. Árið 2014 stóð BKR fyrir fundi sem miðaði að dagforeldra- og leikskólastiginu en nú mun áherslan færast á yngra grunnskólastigið. Á fundinum verður efnið nálgast á heildrænan máta með umfjöllun um aðbúnað og líðan barna, skólakerfið, mismunandi fjárhagslegan bakgrunn barnafjölskyldna, samþættingu fjölskyldu- og atvinnulífs og styttingu vinnudagsins.

DAGSKRÁ:

  1. Líðan barna og unglinga á Íslandi: staða og þróun. Inga Dóra Sigfúsdóttir, prófessor við Háskólann í Reykjavík og stofnandi Rannsókna og greininga.
  2. Nám, grunnleggjandi færni og breytt skipulag skóladagsins. Hermundur Sigmundsson, prófessor í lífeðlislegri sálarfræði við norska tækni og vísindaháskólann í Trándheimi og Háskólann í Reykjavík.
  3. Niðurstöður skýrslu UNICEF um börn á Íslandi sem líða efnislegan skort. Lovísa Arnardóttir, réttindagæslufulltrúi UNICEF og höfundur skýrslunnar.
  4.  „Ég er bara með samviskubit, svo geðveikt gagnvart börnunum” – Um samræmingu fjölskyldu og atvinnu í nútímasamfélagi. Andrea Hjálmsdóttir, lektor við Háskólann á Akureyri  og Marta Einarsdóttir, sérfræðingur við Rannsókna- og þróunarmiðstöð Háskólans á Akureyri.
  5. Styttri vinnuvika í Reykjavík. Sóley Tómasdóttir, forseti borgarstjórnar, um tilraunaverkefni Reykjavíkurborgar.
  6. Atvinnulífið og stytting vinnudagsins. Guðrún Hafsteinsdóttir, formaður Samtaka iðnaðarins.
  7. Pallborðsumræður: Heimili og skóli, Félag skólastjórnenda í RVK, Félag grunnskólakennara, Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands, SAMFOK, Barnaheill, Hrói höttur barnavinafélag, og Helga Arnfríður Haraldsdóttir barnasálfræðingur, ásamt fyrirlesurum.

Fundarstjóri verður Nanna Kristín Christiansen, uppeldis- og menntunarfræðingur og ritstjóri Krítarinnar.

ÓKEYPIS AÐGANGUR OG ALLIR VELKOMNIR!

Viðburðurinn á Facebook

 

Samantekt frá fundi um börn og nútímasamfélag

Bandalag kvenna í Reykjavík (BKR) stóð fyrir opnum fundi um börn og nútímasamfélag á Hótel Reykjavík Natura miðvikudaginn 28. maí 2014. Þar var til umræðu hvaða umhverfi við erum að skapa börnunum okkar, viðverutími barna hjá dagforeldrum og í leikskólum og hugmyndir um styttingu vinnudagsins sem lið í samþættingu atvinnu- og fjölskyldulífs.

MP erindiFundarstjóri var Margrét Pála Ólafsdóttir, höfundur Hjallastefnunnar, og flutti hún jafnframt opnunarávarp. Margrét Pála þakkaði BKR fyrir að taka af skarið með þarfa umfjöllun um börn og það samfélag sem við höfum byggt upp.

Að mati Margrétar Pálu hentar núverandi fyrirkomulag börnum ekki sérstaklega vel og samfélagið er ekki nægilega meðvitað um stöðuna. Margt gott er gert, þó taka mætti umræðuna með jákvæðari hætti. Börn þurfa í auknum mæli tíma foreldranna, næði og frið. Nútímasamfélag gerir miklar kröfur til barna og foreldra, ekki síst vegna aukinnar samkeppni á atvinnumarkaði og kröfur um hærra menntunarstig sem leiðir til þess að samhliða fullu starfi eru foreldrar oft í námi. Auk þessa eru kröfur um metnaðarfullan starfsferil, fallegt heimili, frábært félagslíf og lífsgæði sem fela í sér utanlandsferðir og fleira. Margrét Pála spurði hvað þetta þýði fyrir börnin.

Hið nýja gull Vesturlanda sé tíminn – allir keppast um tímann. Börn sem fá allar heimsins gjafir og efnalega velsæld fá oft minnst af þessari gjöf frá fjölskyldunni; tíma, næði og frið.

„Sparsemi í umönnun ungra barna kann að líta vel út í excel skjali en það er einungis vegna þess að dæmið sé ekki reiknað til enda.“

Að loknu opnunarávarpinu fjallaði Sæunn Kjartansdóttir, sálgreinir og höfundur bókarinnar Árin sem enginn man, um kröfur samfélagsins til ungra barna. Sæunn þakkaði BKR fyrir að opna á mjög svo tímabæra umræðu um börn í nútímasamfélagi en að mati Sæunnar höfum við í langan tíma veigrað okkur við að ræða hlutskipti ungra barna. Ástæður þessa taldi Sæunn vera að við viljum forðast bakslag í jafnréttisbaráttunni, viljum ekki vekja sektarkennd hjá foreldrum og í þriðja lagi viljum við sem minnst vesen. Þetta hefur valdið tregðu til þess að horfa á þarfir barna og að leita nýrra leiða til þess að mæta þeim.

Hún vakti máls á því að samfélagið telji lausnina vera þá að byggja nógu marga leikskóla með sem yngstum börnum, til þess að foreldrarnir geti unnið sem mest og áhyggjulaus sinnt öðrum hugðarefnum.

Sæunn hefur sérstaklega sinnt málefnum yngstu barnanna og fjölskyldum þeirra. Í erindi Sæunnar kom fram að hún hefur efasemdir um ungbarnaleikskóla. Hugmyndin þar að baki sé ekki slæm en við höfum ekki sýnt fram á getu okkar til þess að skapa innan leikskólanna „barnsæmandi“ skilyrði.

Í erindi sínu fjallaði Sæunn um þroska heilans, tilfinningaþroska ungra barna, og mikilvægi tilfinningalegra tengsla og ánægjulegra samskipta við umsjónaraðila. Þá hafi langvarandi aðstæður sem skapa streitu hjá ungum börnum áhrif á ónæmiskerfi þeirra og sé barn í viðvarandi aðstæðum sem veldur hræðslu eða kvíða geti það valdið skorti á einbeitingu og aukinni hættu á streitutengdum sjúkdómum, kvíða og þunglyndi, á seinni aldursskeiðum. Það er streituvaldandi fyrir börn að þeim sé ætlaður meiri þroski en þau standa undir – felur í sér að við gerum til þeirra kröfur sem þau ráða ekki við.

Í samræðum við leikskólakennara undanfarin ár hefur Sæunn orðið vör við þungar áhyggjur þeirra af þróun leikskóla – börnin séu of ung og of mörg, þau dvelja í leikskólunum með of fáu starfsfólki, sem margt hvert vantar fagþekkingu og staldrar stutt við.

Foreldrar og samfélagið þarf að horfast í augu við þá staðreynd að það þarf að sinna börnum og það tekur tíma. Að öllu jöfnu eru foreldrar best til þess fallnir og því mikilvægara að lengja fæðingarorlofið heldur en að fjölga plássum á ungbarnaleikskólum. Einnig þurfa foreldrar að vera meðvitaðir um þarfir barna sinna þegar þau forgangsraða tíma sínum. Það þurfi að gera foreldrum kleift að skoða hvað hentar hverju og einu barni og hvað henti þeim sem fjölskyldu.

„Góðærið fór illa með leikskólann og kreppan gerði það líka“

Kristín Dýrfjörð, dósent við Háskólann á Akureyri, ræddi áhrif ytra umhverfis leikskólans á veruleika barna og hvernig leikskólarnir hafa verið að þróast kerfislega síðustu ár.

Í erindi Kristínar kom fram mat hennar að leikskólar séu góðir fyrir börn ef vel er að honum staðið. M.a. þurfi að huga að fermetrafjölda á barn og fjölda barna á starfsmann. Í umræðum um aðbúnað barna er sjaldan rætt um að láta börnin njóta vafans né séu nauðsynlegar rannsóknir gerðar á umhverfi þeirra og niðurstöður þeirra látnar ráða för.

Kristín benti á að stærsta breytingin inni á leikskólunum á undanförnum árum hafi átt sér stað hjá eins og tveggja ára börnum, en þeim hefur fjölgað mikið og hratt á leikskólum síðastliðin ár. Þá fái leikskólabörn í dag minna pláss í fermetrum talið en fyrir rúmum tveimur áratugum. Húsnæði margra leikskóla hafi ekkert breyst eða stækkað en samt hefur plássunum fjölgað gríðarlega. Eftir að ný lög um leikskóla voru sett árið 2008 er hvorki hámark barnafjölda á starfsmann né lágmarksfjöldi fermetra í gildi á Íslandi. Kristín telur að okkur hefur farið aftur og það á kostnað barnanna. Vinnuaðstæður margra kennara séu í dag óviðunandi og meðal annars hafi dregið úr afleysingum eftir hrun.

Kristín fjallaði um að í dag greiði foreldrar að jafnaði 20% raunkostnaðar og hefur hún talað fyrir hugmyndum um að fyrstu 6 tímar barns í leikskóla séu gerðir gjaldfrjálsir en foreldrar greiði fyrir tímana sem þeir þurfi aukreitis, þe. 7., 8. og 9. tímann.

Ágreiningur um áherslur og leiðir

Gunnar Örn Gunnarsson, framkvæmdastjóri SLFÍ og fulltrúi BSRB í vinnuhópi velferðarráðuneytisins um samræmingu fjölskyldulífs og atvinnu, fjallaði um niðurstöður vinnuhópsins sem skilað var fyrri hluta árs 2013.

Vinnuhópurinn taldi að könnun á hagkvæmni þess að stytta vinnuvikuna félli ekki vel að öðrum verkefnum hópsins. Vinnuhópurinn taldi málið þarfnast sérstakrar rannsóknar og dýpri umræðu á öðrum vettvangi, m.a. vegna þess að stytting vinnuvikunnar tengist kjarasamningum á almennum og opinberum vinnumarkaði. Lagt var til að skipuð yrði sérstök nefnd sem eingöngu hefði það verkefni að fjalla um styttingu vinnuvikunnar. Þessi nefnd hefur ekki enn verið skipuð.

Vaktavinnustéttir, t.d. innan BSRB, lögðu í nýlegum kjarasamningum áherslu á styttingu vinnudagsins en sú hugmynd fékk ekki hljómgrunn. Að loknum samningnum er sú hugmynd hvergi á blaði. Kennarar fárra stétta hafa haft sveigjanlegan vinnutíma, en hafa verið að semja þau réttindi af sér jafnt og þétt.

Gunnar nefndi nokkrar mögulegar leiðir til bóta til að auðvelda samþættingu atvinnu og fjölskyldulífs, þ.á.m. styttingu vinnuvikunnar, sveigjanlegan vinnutíma, breytt viðhorf gagnvart löngum viðverutíma á vinnustað, og mannsæmandi laun fyrir dagvinnu.

Af hverju eiga börnin og leikskólarnir alltaf að koma til móts við atvinnulífið – er ekki kominn tími til að atvinnulífið komi til móts við þarfir barnanna og barnafjölskyldna?

Að loknum voru pallborðsumræður þar sem Hrefna Sigurjónsdóttir, framkvæmdastjóri Heimilis og skóla – landssamtaka foreldra, og Sveinn S. Kjartansson, formaður Félags foreldra leikskólabarna, tóku þátt. Áhersla var lögð á að efla þurfi umræðuna um velferð ungra barna og þann raunveruleika sem ríkir innan leikskólanna.

Áhyggjur voru af lengdum viðverutími barna í leikskólum og fjölgun barna sem eru upp í 9 tíma í leikskóla á dag. Breyta þurfi viðhorfinu að leikskólinn eigi ávallt að koma til móts við þarfir foreldranna og atvinnulífið og að tími sé kominn til þess að atvinnulífið komi til móts við þarfir barna og barnafjölskyldna.

Myndir frá viðburðinum má nálgast á Facebook síðu BKR.

Morgunfundur um börn og nútímasamfélag, miðvikudaginn 28. maí

Opinn fundur um börn og nútímasamfélagBKR í samstarfi við velferðarráðuneytið stendur fyrir opnum fundi um börn og nútímasamfélag. Fjallað verður um hvaða umhverfi við erum að skapa börnunum okkar, dagvistunarmál og samþættingu atvinnu- og fjölskyldulífs. Ókeypis aðgangur og allir velkomnir.

Fundurinn er haldinn á Hótel Reykjavík Natura, Þingsal 2 kl. 08.30-10:00. Sjá dagskrá hér fyrir neðan.

Tölur Hagstofunnar sýna að dagvistunartími barna hefur lengst töluvert frá árinu 1998 og hefur fjöldi þeirra barna sem dvelja á leikskólum í 7-10 klst á dag margfaldast frá þeim tíma. Áhugavert er að varpa ljósi á þessa þróun og velta fyrir sér hvaða ástæður liggja að baki, m.a. í samhengi við vinnutíma foreldra og hvaða sveigjanleika fjölskyldum er veitt í atvinnulífinu.

Hefur efnahagshrunið haft áhrif á fjölskyldumynstrið? Nýlegar rannsóknir sýna að ungum konum fannst erfiðara árið 2012 að samræma fjölskyldu- og atvinnulíf í samanburði við árið 2007.

Leikskólar og dagvistun barna tengist nokkrum markmiðum sem þurfa að fara saman, m.a. menntamálum og að auðvelda foreldrum að sinna atvinnu samhliða því að veita börnunum öruggt umhverfi, nálægð og nauðsynlega umönnun. Á Íslandi vinna flestir foreldrar fulla dagvinnu og margir hverjir töluverða yfirvinnu. Spyrja má hvort atvinnulífið veiti foreldrum nauðsynlegt svigrúm til þess að hugsa um fjölskylduna (börn, veika eða aldraða ættingja), þ.e. er lögð fullnægjandi áhersla á samþættingu atvinnu- og fjölskyldulífs í dag? Hvaða hugmyndir eru að baki umræðunni um styttingu vinnudagsins og hverjar voru niðurstöður starfshóps velferðarráðuneytisins um samræmingu fjölskyldulífs og atvinnu sem skilaði greinargerð sinni í apríl 2013?

Dagskrá:

Fundarstjóri: Margrét Pála Ólafsdóttir, höfundur Hjallastefnunnar
08:30Inngangsorð: Börn þurfa betri heim – Margrét Pála Ólafsdóttir, fundarstjóri
08:40 – Kröfur samfélagsins til ungra barna –  Sæunn Kjartansdóttir, sálgreinir, Miðstöð foreldra og barna og höfundur bókarinnar Árin sem enginn man
09:00Áhrif ytra umhverfis leikskólans á veruleika barna innan hans – Kristín Dýrfjörð, dósent við Háskólann á Akureyri
09:20Samræming fjölskyldulífs og atvinnu og stytting vinnudagsins – Gunnar Örn Gunnarsson, framkvæmdastjóri SLFÍ og fulltrúi BSRB í vinnuhópi velferðarráðuneytisins um samræmingu fjölskyldulífs og atvinnu

09:30 – 10:00 – Pallborðsumræður
Í pallborðsumræðunum sitja ásamt fyrirlesurum Hrefna Sigurjónsdóttir, framkvæmdastjóri Heimilis og skóla – Landssamtök foreldra, og Sveinn S. Kjartansson, formaður Félags foreldra leikskólabarna.

Ókeypis aðgangur – kaffi/te og léttar veitingar.

Dagskrá fundarins var undirbúin í samstarfi við Miðstöð foreldra og barna, Heimili og skóli – landssamtök foreldra, Félag dagforeldra, Félag foreldra leikskólabarna og Félag leikskólakennara. Fundurinn er styrktur af velferðarráðuneytinu.

Vonumst til þess að sjá ykkur sem flest!

Viðburðurinn á Facebook