Í tilefni 25 ára afmælis Starfsmenntunarsjóðs ungra kvenna færði Thorvaldsensfélagið sjóðnum gjöf að fjárhæð kr. 1.000.000. Stofnun sjóðsins má rekja til umfjöllunar í þættinum „Samfélagið í nærmynd“ árið 1994 sem Magdalena Ingimundardóttir, félagi í Thorvaldsensfélaginu, var að hlusta á. Þar var m.a. fjallað um könnun Rauða krossins á félagslegum aðstæðum nokkurra hópa í íslensku samfélagi. Leiddi hún í ljós að erfiðust var staðan hjá ungum, atvinnulausum, einstæðum mæðrum. Magdalena, sem þá var stjórnarkona í BKR, fékk þá hugmynd að stofna sjóð til aðstoðar þessum hópi til að afla sér menntunar. Stofnun sjóðsins og skipulagsskrá var samþykkt á ársþingi BKR 18. mars 1995. Fyrsta úthlutun úr sjóðnum var á jólafundi BKR 28. nóvember 1996. Þeir sem vilja styrkja sjóðinn geta lagt inn á bankareikning sjóðsins, 0301-13- 300215, kt. 440169-3099. Thorvaldsensfélagið hefur á þessum 25 árum styrkt sjóðinn reglulega, má þar m.a. nefna að á aldarafmæli BKR 2017 gaf félagið sjóðnum eina milljón króna.
Minnt er á að umsóknarfrestur í Starfsmenntunarsjóð ungra kvenna rennur út 26. júní nk. Umsóknareyðublöð eru á heimasíðu BKR, www.bkr.is.
Á myndinni eru Kristín Fjólmundsdóttir, formaður Thorvaldsensfélagsins og Fanney Úlfljótsdóttir, formaður Bandalags kvenna í Reykjavík.