Silfur er nútíma kvenfélag ungra kvenna sem hóf starfsemi sína í byrjun ársins 2009. Tilgangur félagsins er að efla tengslanet kvenna í nútímasamfélagi samhliða því að styrkja málefni sem snúa að konum og börnum. Einnig hefur félagið það markmið að stuðla að upplýstri umræðu og stendur því fyrir reglulegum umræðufundum þar sem ýmis málefni eru tekin fyrir. Silfur er nútíma kvenfélag þar sem konur eru konum bestar.
Árið 2010 var Kvenfélagið Silfur skráð sem félag og sama ár fékk það aðild að Bandalagi kvenna í Reykjavík.
Í Silfri skemmta konur sér konulega með öðrum konum sem og að gefa af sér til samfélagsins. Við stöndum fyrir ýmiskonar söfnun og veljum árlega líknarfélög sem aurarnir renna til. Silfur er ungabarn í heimi kvenfélaga en við viljum byrja nútímalegt og skemmtilegt kvenfélag sem getur lifað lengi og verið fyrirmynd annarra félaga.
Silfur heldur árlegt galakvöld til styrktar málefni sem þarfnast stuðnings hverju sinni. Silfur hefur m.a. styrkt Líf, styrktarfélag kvennadeildar Landspítalans; Neistann, félag hjartveikra barna; Félag kvenna með endómetríósu og Konukot, næturathvarf fyrir heimilislausar konur.
Silfur er því í hnotskurn félag kvenna sem kann að skemmta sér og gefa af sér til samfélagsins á sama tíma.
Silfur er með Facebook síðu þar sem hægt er að finna nánari upplýsingar um félagið.
Hefur þú áhuga á að taka þátt? Hafðu samband við formenn Silfurs, Þórdísi V. Þórhallsdóttur og Hjördísi Láru Hreinsdóttur í gegnum netfangið kvenfelagidsilfur (hjá) gmail.com eða kíktu á fund – allir fundir félagsins eru auglýstir á Facebook síðu félagsins.