POWERtalk International á Íslandi

Landssamtök POWERtalk International á Íslandi eru þjálfunarsamtök og hluti alheimssamtaka sem leggja áherslu á einstaklingsmiðaða þjálfun í tjáningu sem skilar árangri. Markmið POWERtalk eru sjálfstyrking, uppbygging á eigin persónu og samskipti af virðingu við aðra auk þess að félagarnir verði færari um að tjá sig á formlegan hátt með þátttöku í og stjórnun félagsmála.

Starfsemin byggir á einstaklingsmiðaðri jafningjafræðslu sem hvetur fólk til dáða þar sem tjáskipta- og stjórnunarhæfileikar skipta sköpum til starfsframa og þátttöku á opinberum vettvangi. Félagar njóta einnig góðs af nauðsynlegu uppbyggilegu frammistöðumati reyndari félaga.

Á Íslandi hafa samtökin starfað frá 1975 (Málfreyjur /ITC Þjálfun í samskiptum/POWERtalk International). Innan landssamtaka POWERtalk á Íslandi starfa nú sjö deildir þar sem grunnþjálfunin fer fram. Flestar starfa á höfuðborgarsvæðinu en þrjár utan þess, á Selfossi,  Patreksfirði og Akureyri. Deildirnar halda fundi tvisvar í mánuði og á fundunum fer fram þjálfun í fundarsköpum ásamt flutningi fjölbreyttra verkefna, ýmist óundirbúinna eða undirbúinna. Árlegt landsþing – uppskeruhátíð vetrarstarfsins með stjórnarskiptum – er haldið að vori.

Innan vébanda POWERtalk International (ITC) í fimm heimsálfum starfa á fjórða þúsund manns af báðum kynjum og öllum stéttum, óháð stjórnmálum og trúarbrögðum og þar fer fram fordómalaus umræða. Markmiðin eru allsstaðar þau sömu, sjálfstyrking, uppbygging á eigin persónu og samskipti af virðingu við aðra. Heimsþing er haldið á tveggja ára fresti.

POWERtalk International á Íslandi hefur heimasíðuna www.powertalk.is og Facebook síðu þar sem hægt er að finna nánari upplýsingar um samtökin og auglýsingar um viðburði.

Hefur þú áhuga á að taka þátt? Hafðu þá samband í gegnum netfangið powertalk (hjá) powertalk.is eða Facebook síðuna eða það sem best er, kíktu á fund! Allir fundir eru opnir og vel tekið á móti öllum.