Kvenfélag Langholtssóknar

Kvenfélag Langholtssóknar var stofnað 12. mars 1953. Það hefur starfað óslitið síðan. Fundir eru haldnir einu sinni í mánuði yfir vetrartímann í safnaðarheimili kirkjunnar.

Tilgangur kvenfélagsins er að skapa traust og fagurt kirkjulíf og vinna að hvers konar öðrum menningarmálum og líknarmálum í sókninni og auka félagslíf kvenna í félaginu.   Við gerum margt skemmtilegt saman, eins og Laufabrauðsbakstur fyrir jólin og Páskabíngó en þessir viðburðir eru orðnir fastir liðir þar sem heilu fjölskyldurnar koma saman og skemmta sér.

Auk þess eru árlega haustbasar, jólafundur og vorhátíð.

Við höfum staðið fyrir vorhátíð undanfarin ár með vinsælum basar, boðið hefur verið uppá skemmtatriði og afþreyingu fyrir börnin. Ágóða basarsins hefur verið varið til líknarmála og í endurbætur á safnaðarsal kirkjunnar en við höfum haft aðstöðu þar án endurgjalds frá upphafi og er salurinn nú hinn glæsilegasti.

Félagsfundir eru fyrsta mánudag í mánuði. Þar er boðið upp á fyrirlestra og skemmtun af ýmsu tagi.

Einnig er boðið upp hópastarf svo sem prjónakaffi,(tvisvar í mánuði) gönguhópa, (vikulega) listahóp og matgæðingahóp. (5 – 6 sinnum á ári).

Hefur þú áhuga á að taka þátt? Hafðu samband við Ásu Steinunni Atladóttur, formann kvenfélagsins, netfang: asasteinunn56 (hjá) gmail.com, sími 845-7290 eða komdu á fund – allir fundir auglýstir á Facebook-síðu kvenfélagsins “Konur í Langholti” þar sem hægt er að nálgast frekari upplýsingar.

Viðtal við formann og varaformann félagsins um félagsstarfið og áherslur.

______________________________________________________________________

Í tilefni 60 ára afmælis Kvenfélags Langholtssóknar birtist meðfylgjandi grein í Morgunblaðinu, 6. mars 2013:

Safnaðarheimili sem félagsmiðstöð: Jón Stefánsson heiðraður á 60 ára afmæli Kvenfélags Langholtssóknar

Kvenfélag Langholtssóknar verður 60 ára 12. mars nk. og af því tilefni var boðið til hátíðar í fyrrakvöld þar sem Jón Stefánsson, organisti og stjórnandi Gradualekórs Langholtskirkju, var heiðraður fyrir störf í þágu félagsins.

„Það er mikill kraftur í kvenfélaginu og í því eru konur á öllum aldri,“ segir Anna Birgis, formaður félagsins. Hún býr í nágrenninu og segir að kirkjan hafi togað í sig. „Fljótlega eftir að ég gekk í félagið var vormarkaður og ég sagði konu nokkurri frá starfinu,“ rifjar Anna upp. „Já, þetta virðist vera mjög kröftugt félag,“ sagði þá konan og það eru orð að sönnu. Mér finnst sérstaklega gaman að sjá hvað áhuginn hjá konunum er mikill, en þátttaka í félaginu er ekki bundin við íbúa í Langholtssókn og konur koma einnig annars staðar frá.“

Kvenfélagið heldur árlega vorhátíð og jólabasar til að afla fjár. Á fundum er skipulögð dagskrá, þar sem boðið er upp á tónlist, upplestur rithöfunda og sýnikennslu í matargerð, svo dæmi séu tekin. Anna bætir við að auk hefðbundins starfs hafi verið tekin upp sú nýbreytni á liðnu hausti að bjóða upp á sérstaka fundi með fyrirlestrum um málefni í sviðsljósinu. Stefnt sé að því að halda slíka opna fundi fyrir alla tvisvar til þrisvar á ári enda hafi átakið mælst vel fyrir.

Mikil reynsla

Hjónin Anna Birgis og Hjálmar W. Hannesson sendiherra hafa búið víða erlendis og Anna hefur víðtæka reynslu af starfi í kvenfélögum, þar sem þau hafa verið hverju sinni. Hún tók til dæmis þátt í stofnun Friðarfélags kvenna hjá Sameinuðu þjóðunum (e. UN Women for Peace) með öðrum eiginkonum sendiherra hjá Sameinuðu þjóðunum í New York 2008 og var fyrsti formaður þess. Hún segir að starfið í félögunum erlendis hafi einkum falist í því að kynna viðkomandi land og lönd félagsmanna. Friðarfélagið í New York hafi reyndar verið af öðrum meiði og það sé enn mjög virkt í baráttu fyrir réttindum kvenna. Í því sambandi nefnir hún að alþjóðlegi kvennadagurinn er 8. mars og þann dag skipuleggi félagið ásamt UN Women mikla göngu í New York til þess, í krafti fjöldans, að krefjast þess að ofbeldi gegn konum og stúlkum verði tafarlaust stöðvað.

„Starfið í Kvenfélagi Langholtssóknar er meira félagsstarf en ég á að venjast erlendis,“ segir Anna. „Safnaðarheimilið er að mörgu leyti eins og félagsmiðstöð.“

Hún segir að séra Guðbjörg Jóhannesdóttir sóknarprestur sé mjög áhugasöm um starfsemi kvenfélagsins og Jón Stefánsson sé alltaf boðinn og búinn að aðstoða kvenfélagið. „Með gjöfinni vildum við sýna honum þakklæti fyrir aðstoðina.“

Fjölbreytt starfsemi

Um 80 konur eru í Kvenfélagi Langholtssóknar. Fundir eru haldnir fyrsta mánudag í hverjum mánuði auk þess sem ýmsir hópar, eins og til dæmis mömmuhópur, gönguhópur, lestrarhópur og hópur matgæðinga, hittast reglulega. Í fyrra styrkti félagið barnastarfið í kirkjunni, kvennaráðgjöf og langveik börn en áhersla er lögð á að styrkja góðgerðarmál og félagsstarf kvenna í sókninni. Það hefur fjármagnað ýmsar viðgerðir í kirkjunni og safnaðarheimilinu með það að markmiði að láta gott af sér leiða.