Höfðingleg gjöf Thorvaldsensfélagins til Starfsmenntunarsjóðs ungra kvenna.

Í tilefni 25 ára afmælis Starfsmenntunarsjóðs ungra kvenna færði Thorvaldsensfélagið sjóðnum  gjöf að fjárhæð  kr. 1.000.000. Stofnun sjóðsins má rekja til umfjöllunar í þættinum „Samfélagið í nærmynd“  árið 1994 sem Magdalena Ingimundardóttir, félagi í Thorvaldsensfélaginu, var að hlusta á. Þar var m.a. fjallað um könnun Rauða krossins á félagslegum aðstæðum nokkurra hópa í íslensku samfélagi.  Leiddi hún í ljós að erfiðust var staðan hjá ungum, atvinnulausum, einstæðum mæðrum. Magdalena, sem þá var stjórnarkona í BKR, fékk þá hugmynd að stofna sjóð til aðstoðar þessum hópi til að afla sér menntunar. Stofnun sjóðsins og skipulagsskrá var samþykkt á ársþingi BKR 18. mars 1995. Fyrsta úthlutun úr sjóðnum var á jólafundi BKR 28. nóvember 1996. Þeir sem vilja styrkja sjóðinn geta lagt inn á bankareikning sjóðsins, 0301-13- 300215, kt. 440169-3099. Thorvaldsensfélagið hefur á þessum 25 árum styrkt sjóðinn reglulega, má þar m.a. nefna að á aldarafmæli BKR 2017 gaf félagið sjóðnum eina milljón króna.

Minnt er á að  umsóknarfrestur í Starfsmenntunarsjóð ungra kvenna rennur út  26. júní nk. Umsóknareyðublöð eru á heimasíðu BKR, www.bkr.is.

Á myndinni eru Kristín Fjólmundsdóttir, formaður Thorvaldsensfélagsins og Fanney Úlfljótsdóttir, formaður Bandalags kvenna í Reykjavík.

Thorvaldsensfélagið styrkir Starfsmenntunarsjóð ungra kvenna

Anna Birna Jensdóttir, formaður Thorvaldsensfélagsins, afhenti í dag styrk félagsins til Starfsmenntunarsjóðs ungra kvenna að upphæð 500.000 kr. Ingibjörg Rafnar Pétursdóttir, formaður BKR, veitti styrknum viðtöku fyrir hönd stjórnar Starfsmenntunarsjóðsins.

Afhending Thorvaldsens

Anna Birna Jensdóttir, formaður Thorvaldsensfélagsins ásamt formanni BKR, Ingibjörgu Rafnar Pétursdóttur.

BKR stofnaði starfsmenntunarsjóð ungra kvenna þann 18. mars 1995. Tilgangur sjóðsins er að hvetja og styðja við bakið á konum, sem ekki eiga kost á námslánum, til að afla sér aukinnar menntunar og styrkja þannig stöðu sína á atvinnumarkaði. Einkum eru þetta ungar einstæðar konur með börn, sem einhverra hluta vegna hafa þurft að hætta námi á sínum tíma.

Thorvaldsensfélagið var stofnað 19. nóvember árið 1875 og heldur úti öflugri starfsemi. Félagið rekur Thorvaldsensbasarinn í Austurstrætinu og hefur nýlega veitti styrki til þróunar á heilsueflandi snjallsímaforriti (appi) í leikjaformi sem er ætlað að hjálpa ungu fólki að bæta heilsu sína með áherslu á mataræði, hreyfingu og geðrækt, Thorvaldsenskonur færðu hjúkrunarheimilinu Mörk Power laser tæki sem notað verður í sjúkraþjálfun Markar. Þær hafa einnig styrkt rausnarlega starfsemi sumarbúðanna í Reykjadal og færðu hjúkrunarheimilinu Grund æfingabekk fyrir sjúkraþjálfun heimilisins. Nánari upplýsingar um félagið má finna á heimasíðu þeirra, thorvaldsens.is