Greinasafn fyrir flokkinn: Stjórn BKR
Styrkur til ritunar meistararitgerðar – Birtingarmyndir kvenna í íslenskum fjölmiðlum
Bandalag kvenna í Reykjavík í samstarfi við Stjórnmálafræðideild HÍ og námsbraut í blaða- og fréttamennsku auglýsir styrk til ritunar meistararitgerðar um birtingarmyndir kvenna í íslenskum fjölmiðlum. Miðað er við lokaverkefni í meistaranámi, að lágmarki 30 ECTS einingar. Verkefnið þarf að hefjast sem fyrst og er miðað við að því ljúki ekki síðar en vorið 2014.
Verkefnið hentar meistaranema í kynjafræði, stjórnmála- og stjórnsýslufræðum, blaða- og fréttamennsku eða almennum félagsvísindum og skal beita kynjafræðilegu sjónarhorni á verkefnið. Markmið verkefnisins er að m.a. að kanna kynjahlutföll í fjölmiðlum og að hvaða marki mismunandi birtingarmyndir búi að baki mismunandi sýnileika kynjanna. Gert er ráð fyrir að rannsóknin verði gagnagreining, spurningakönnun og/eða viðtalsrannsókn.
Styrkurinn verður veittur nema sem sækir um í samráði við leiðbeinanda sinn. Umsókn skal vera á bilinu 200–500 orð þar sem fram kemur nánar hvernig umsækjandi telur rétt að standa að rannsókninni og hvaða öðrum spurningum sé mikilvægt að svara. Leiðbeinandi getur ekki sótt um fyrir ótiltekinn nemenda.
Styrkurinn er að upphæð kr. 300.000 og verður hann greiddur út í tvennu lagi, 150.000 þegar þriðjungi vinnunnar er lokið að mati leiðbeinanda og 150.000 þegar verkefni er lokið. Styrkveitendur fá kynningu á niðurstöðum auk eintaks af rannsókninni.
Umsóknarfrestur er til og með 15. september 2013.
Umsókn og ferilskrá, ásamt staðfestingu leiðbeinanda, skal senda á skrifstofu Stjórnmálafræðideildar HÍ í Gimli við Sturlugötu, 101 Reykjavík eða á elva@hi.is
Samfélagssjóður Landsbankans styrkir Starfsmenntunarsjóð ungra kvenna
Landsbankinn veitti í gær fimmtán milljónir króna í samfélagsstyrki úr Samfélagssjóði Landsbankans. Starfsmenntunarsjóður ungra kvenna sem rekinn er af Bandalagi kvenna í Reykjavík hlaut styrk að fjárhæð 250 þúsund krónur.
Bandalag kvenna í Reykjavík þakkar kærlega fyrir framlagið.
Meðfylgjandi mynd er frá styrkafhendingunni en Ingibjörg Rafnar Pétursdóttir, formaður BKR, tók við styrknum fyrir hönd félagsins.
Veittir voru 34 styrkir, þrír að upphæð 1 milljón króna hver, sautján að fjárhæð 500 þúsund krónur og fjórtán að fjárhæð 250 þúsund krónur.
Nánari upplýsingar um úthlutun samfélagsstyrkja úr Samfélagssjóði Landsbankans árið 2013 má finna hér.
Umfjöllun Fréttatímans um ársskýrslu BKR fyrir árið 2012
Hér má nálgast umfjöllun Fréttatímans í helgarblaðinu 28-30. júní um ársskýrslu BKR fyrir árið 2012:
Söfnuðu 145 milljónum á síðasta ári
27.06 2013 | Dægurmál
Söfnuðu 145 milljónum á síðasta ári
Aðildarfélög Bandalags kvenna í Reykjavík söfnuðu um 145 milljónum til ýmissa góðgerðarmálefna á síðasta ári, að því er kemur fram í ársskýrslu bandalagsins. Hæstu upphæðinni safnaði Hringurinn eða 135 milljónum. Barnaspítali Hringsins fékk 70 milljónir af þeirri upphæð í tilefni af 10 ára afmæli sínu og 70 ára afmæli Barnaspítalasjóðsins. Hringurinn styrkti einnig ýmsar aðrar heilbrigðisstofnanir svo sem skurðstofu Landspítalans í Fossvogi, Háls- nef og eyrnadeild barna og Meðgöngu og sængurkvennadeild Landspítalans.Önnur aðildarfélög Bandalags kvenna í Reykjavík styrktu ýmis málefni á árinu og má þar nefna sérdeild Fjölbrautaskólans í Breiðholti fyrir fatlaða nemendur sem hlaut spjaldtölvu að gjöf frá kvenfélögum hverfisins. Kvenfélag Hallgrímskirkju veitti ungri stúlku í Kenýa styrk fyrir gervihandlegg auk þess sem Dyngjan, áfangaheimili fyrir konur, og Átröskunarteymi Landspítalans fengu styrki frá Hvítabandinu. Thorvaldsenssjóðurinn styrkti sykursjúk börn og unglinga til sumardvalar og Kvenfélagið Silfur styrkti Líf, styrktarfélag kvennadeildar Landspítalans, svo nokkur dæmi séu nefnd.
Aðildarfélög Bandalags kvenna í Reykjavík eru fimmtán talsins og beita margvíslegum fjáröflunarleiðum, svo sem útimörkuðum, rekstri verslana, eins og Thorvaldsensbasarsins í Austurstræti og verslunar Hvítabandsins í Furugrund. Félögin halda happdrætti og bingó, ásamt því að selja kaffi, kökur og prjónavörur. Kvenfélagið Silfur, sem er yngsta félagið, hefur meðal annars haldið galakvöld og fatasölur í Kolaportinu í sinni fjáröflun.
Dagný Hulda Erlendsdóttir
dagnyhulda@frettatiminn.is
Ársskýrsla BKR 2012
Hér má nálgast ársskýrslu BKR fyrir árið 2012 – njótið vel!
Úr skýrslunni:
Aðildarfélög Bandlags kvenna í Reykjavík árið 2012 voru 14 talsins, en Kvenfélag Seljasóknar gekk til liðs við bandalagið á 97. þingi BKR í mars árið 2013. Aðildarfélögin sinna margvíslegum verkefnum og er heildarupphæð veittra styrkja áætluð í kringum 145 milljónir árið 2012.
Meðal þeirra verkefna sem hlutu styrki eru ýmsar stofnanir innan heilbrigðiskerfisins þar sem börnum er sinnt, sérdeild Fjölbrautaskólans Breiðholts fyrir fatlaða nemendur sem hlaut Ipad að gjöf, ung stúlka í Kenýa hlaut styrk fyrir nýjum handlegg, styrkir til kvenna í framhaldsnámi, Dyngjan áfangaheimil fyrir konur og átröskunarteymi á LSH, Styrktarfélagið LÍF fyrir kaupum á nýju sónartæki, Thorvaldsenssjóðurinn til styrktar sumardvalar fyrir sykursjúk börn og unglinga og rannsókna á málefnum þeim viðkomandi og Hljómafl sem tilheyrir Endurhæfingardeild LR í Víðihlíð og annast ungmenni með alvarlegar geðraskanir.
Stærsti styrkurinn sem veittur var á árinu var frá Kvenfélaginu Hringnum að upphæð 70milljónir í tilefni 70 ára afmælis Barnaspítalasjóðs Hringsins. Alls námu styrkveitingar Hringsins á árinu 2012 um 135 milljónum króna.
Fjáröflunarleiðir aðildarfélaganna eru margvíslegar, þar má nefna útimarkaði, sölu í verslunum (Thorvaldsensfélagið rekur Thorvaldsensbasarinn í Austurstræti og Hvítabandið verslun í Furugrund), kaffi- og kökusölu, sölu á prjónavörum, happdrætti og bingó svo dæmi séu nefnd.
Viðtal við nýjan formann BKR í Fréttatímanum
Fréttatíminn birti í dag viðtal við nýjan formann Bandalags kvenna í Reykjavík um stefnumótun og breyttar áherslur í starfseminni.
Fréttatíminn, 07.06 2013 | Dægurmál
Ný kynslóð nútímavæðir kvenfélögin
„Bandalagið er núna að skoða breyttar áherslur eftir breytingar síðustu ára og við viljum setja kraft í stefnumótun og gera starfsemina aðgengilegri,“ segir Ingibjörg Rafnar Pétursdóttir, nýr formaður Bandalags kvenna í Reykjavík. Að mati Ingibjargar er bandalagið svolítið gleymdur vettvangur fyrir samræður félaga sem starfa að sömu markmiðum, bættri stöðu kvenna, mennta-, velferðar- og fjölskyldumálum. Um 1.200 konur starfa innan þeirra fimmtán félaga sem aðild eiga að Bandalagi kvenna í Reykjavík.
Konur söfnuðu fyrir Landspítalanum
Þessa dagana vinnur stjórn Bandalags kvenna í Reykjavík að stefnuskrá þar sem lögð er áhersla á að efla bandalagið og gera það sýnilegra út á við. Innan bandalagsins hafa starfað kvenfélög í bland við stéttarfélög og styrktarfélög. „Strax í upphafi var þetta mjög framsækin hreyfing og helsti vettvangur umræðna um bætta stöðu kvenna og samfélagslegrar þjónustu. Bandalagið beitti sér til dæmis fyrir því að konur byðu sig fram í opinber embætti og nefndir og færa má rök fyrir því að kvenfélögin hafi að vissu leyti lagt grunninn að heilbrigðiskerfinu eins og það er í dag. Það voru til dæmis konur sem söfnuðu fyrir Landspítalanum,“ segir Ingibjörg og bætir við að bandalagið hafi knúið á um stofnun barnaheimila og sorphirðu á vegum sveitarfélaga á sínum tíma. „Í flestum tilfellum eru þetta grasrótarfélög sem standa fyrir ákveðnum samfélagslegum verkefnum í nærumhverfi sínu og ná þannig einstakri tengingu við íbúana og geta metið hvar þörf er fyrir aðstoð. Þetta eru öflug félög eins og Hringurinn sem leggur áherslu á að bæta aðstöðu veikra barna, Thorvaldsensfélagið og fleiri,“ segir Ingibjörg.
Kvenfélög á tímamótum
Að mati Ingibjargar standa kvenfélögin nú á tímamótum. „Kvenfélögin hafa ávallt sinnt svokölluðu „frumkvæðishlutverki“ – það er að koma auga á málefni sem þarfnast athugunar og finna ný úrræði til að leysa ýmsan vanda. Í gegnum árin hafa ríkið og Reykjavíkurborg tekið yfir rekstur og umsjón með mörgum þeim málaflokkum og verkefnum sem aðildarfélög bandalagsins höfðu frumkvæði að. Hinsvegar hafa aðildarfélögin og bandalagið vakað yfir þeim málaflokkum sem þeim eru nærri hjarta. Sem dæmi má nefna að konur innan Bandalagsins söfnuðu fyrir stækkun fæðingardeildar Landspítalans á sínum tíma,“ segir Ingibjörg.
Vantar fleiri ungar konur
Að sögn Ingibjargar eru uppi áhyggjur hjá sumum kvenfélaganna um nýliðun þó staðan sé misjöfn. „Kvenfélögin hafa verið lítið fyrir að flagga starfsemi sinni og ákveðinn misskilningur virðist þess vegna ríkja um verkefnin. Margir virðast halda að kökubakstur og prjónaskapur sé helsta áhersla þeirra en verkefnin eru mun margþættari en svo þó konurnar nýti vissulega hæfileika sína í bakstri og hannyrðum til að safna fyrir góðum málefnum,“ segir Ingibjörg. Nýjasta kvenfélagið heitir Silfur og eru flestar konurnar þar á milli þrítugs og fertugs. „Svo má ekki gleyma því að í Hringnum eru konur á öllum aldri. Innan okkar vébanda eru líka nokkrar kvennahreyfingar stjórnmálaflokka, eins og félög framsóknar- og sjálfstæðiskvenna.“
Styrkja ungar konur til náms
Þessa dagana tekur Bandalag kvenna í Reykjavík á móti umsóknum um styrki frá Styrktarsjóði ungra kvenna í Reykjavík. Sjóðurinn veitir styrki til ungra kvenna sem hætt hafa námi og vilja halda áfram en stendur ekki til boða að taka lán hjá Lánasjóði íslenskra námsmanna. „Sjóðurinn var settur á stofn árið 1995 eftir að rannsóknir á vegum Rauða krossins sýndu að það væru einstæðar, lítið menntaðar konur sem ættu hvað erfiðast uppdráttar í samfélaginu. Bandalag kvenna í Reykjavík ákvað að mæta þessum vanda og veitir konum styrki, til dæmis vegna bókakaupa og greiðslu skólagjalda,“ segir Ingibjörg. Umsóknarfrestur rennur út 19. júní næstkomandi.
Rannsóknir á stöðu kvenna í dag
Í haust úthlutar Bandalag kvenna í Reykjavík styrk, í samstarfi við Háskóla Íslands, til lokaverkefnis í meistaranámi þar sem birtingarmynd kvenna í fjölmiðlum er skoðuð. „Þessi styrkur er hluti af nýjum áherslum hjá Bandalaginu. Það er mikilvægt að skoða hvaða skilaboð ungar konur fá varðandi staðalímyndir í fjölmiðlum. Ég geri ráð fyrir því að í framhaldinu verði fastur liður hjá okkur að styrkja rannsóknir sem snúa að áherslumálum Bandalags kvenna í Reykjavík, stöðu kvenna í nútíma samfélagi, mennta-, velferðar- og fjölskyldumálum,“ segir Ingibjörg. Þema ársins 2013 hjá Bandalaginu er launajafnrétti og stendur til að halda fyrirlestraröð um kynbundinn launamun næsta haust. ,,Þessi verkefni eru öll hluti af okkar nýju áherslum og því markmiði að gera starfsemina nútímalegri, segir Ingibjörg.“
Dagný Hulda Erlendsdóttir
dagnyhulda@frettatiminn.is
Ný stjórn BKR hefur tekið til starfa
Ný stjórn hefur formlega tekið til starfa en stjórnarskipti voru á fundi fráfarandi stjórnar og núverandi þriðjudaginn 26. mars sl.
Nýja stjórn skipa:
- Ingibjörg Rafnar Pétursdóttir, formaður BKR, Kvenfélaginu Silfur og Kvenstúdentafélaginu (kosin 2013 til 3 ára),
- Hulda Ólafsdóttir, ritari, Kvenstúdentafélaginu (kosin 2012 til 3 ára),
- Guðlaug Jónína Aðalsteinsdóttir, gjaldkeri, Thorvaldsensfélaginu (kosin 2011 til 3 ára),
- Alda Magnúsdóttir, Kvenfélagi Árbæjarsóknar,
- Hjördís Hreinsdótir, Kvenfélaginu Silfur,
- Hjördís Jensdóttir, Kvenfélagi Hallgrímskirkju,
- Sigríður Hjálmarsdóttir, Thorvaldsensfélaginu.
Fráfarandi stjórn er þakkað vel unnin störf síðustu árin.