Konur lifa ekki á þakklætinu!

24. október 1975 lögðu konur niður launuð sem ólaunuð störf til að sýna fram á mikilvægi vinnuframlags kvenna. Í dag, 45 árum síðar, er framlag kvenna til samfélagsins ekki enn að fullu metið að verðleikum.  

Konur eru enn með 25% lægri atvinnutekjur að meðaltali en karlar. Þar með hafa konur unnið fyrir launum sínum eftir sex klukkustundir og eina mínútu miðað við fullan vinnudag frá kl. 9–17. Daglegum vinnuskyldum kvenna er því lokið kl. 15:01. 

Við glímum við mesta heimsfaraldur í heila öld. COVID-19 hefur haft gríðarleg áhrif á efnahag okkar, heilsu og jafnrétti. Konur bera hitann og þungan af baráttunni gegn faraldrinum og verða að sama skapi fyrir mestum skaða af völdum hans, fjárhagslegum, heilsufarslegum og samfélagslegum.   

Konur sinna að stærstum hluta störfum sem skilgreind eru á tímum veirunnar sem nauðsynleg grunnþjónusta, eða framlínustörf. Konur eru 75% af starfsfólki í heilbrigðis- og félagsþjónustu, 73% starfsfólks í fræðslustarfsemi og 57% þeirra sem starfa við þjónustu og verslun.  

Það eru þessar konur sem eru í mestri smithættu og þær vinna oftast undir miklu líkamlegu og andlegu álagi. Þetta eru störf sem verður að vinna á staðnum, bjóða ekki upp á fjarvinnu og sveigjanleika, sem leiðir til þess að erfitt er fyrir konurnar að bregðast við aðstæðum heima fyrir t.d. lokun skóla og leikskóla, veikindum og umönnun fjölskyldumeðlima.  

Faraldurinn hefur einnig haft þær afleiðingar að heimilisofbeldi hefur aukist út um allan heim og er Ísland þar engin undantekning. Í maí á þessu ári höfðu borist um 11% fleiri tilkynningar um heimilisofbeldi til lögreglu en á sama tímabili árin á undan. 

COVID-19 hefur afhjúpað hið grimma vanmat á hefðbundnum kvennastörfum sem er í engu samræmi við mikilvægi þeirra. Störf kvenna eru undirstaða samfélagsins og kjörin þurfa að endurspegla það. Konur í framlínustörfum eiga miklar þakkir skilið fyrir hetjudáð sína og seiglu í krefjandi aðstæðum. En þær lifa ekki á þökkunum einum saman. 

Við krefjumst þess að: 

  • Störf kvenna séu metin að verðleikum og kjör tryggð
  • Kjör starfsfólks í framlínunni í baráttunni við COVID-19 verði tryggð og álagsgreiðslur sanngjarnar
  • Allar aðgerðir stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins vegna COVID-19 fari í jafnréttismat, svo að tryggt sé að þær gagnist öllum kynjum jafnt
  • Grundvallarmannréttindi séu ávallt höfð að leiðarljósi við ákvarðanatöku og viðbrögðum við faraldrinum, svo engin þurfi að líða fyrir kyn sitt, uppruna, kynþátt, kynhneigð, kynvitund, kyneinkenni, kyntjáningu, fötlun, aldur, búsetu, lífsskoðun, félagslega stöðu eða efnahag
  • Öryggi kvenna á vinnustöðum og á heimilum sé tryggt  

Sköpum saman samfélag í kjölfar COVID-19 sem byggir á jafnrétti. Metum störf kvenna að verðleikum. Breytum ekki konum, breytum samfélaginu. Kjarajafnrétti STRAX! 

Alþýðusamband Íslands
Aflið
Bandalag háskólamanna
Bandalag kvenna í Reykjavík
BSRB
Delta Kappa Gamma – Félag kvenna í fræðslustörfum
Dziewuchy Islandia
Femínísk fjármál
Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga
IceFemIn
Kennarasamband Ísland
Knúz.is
Kvenfélagasamband Íslands
Kvennahreyfing ÖBÍ
Kvennaráðgjöfin
Kvenréttindafélag Íslands
Samtök um kvennaathvarf
Stígamót
W.O.M.E.N. in Iceland

Höfðingleg gjöf Thorvaldsensfélagins til Starfsmenntunarsjóðs ungra kvenna.

Í tilefni 25 ára afmælis Starfsmenntunarsjóðs ungra kvenna færði Thorvaldsensfélagið sjóðnum  gjöf að fjárhæð  kr. 1.000.000. Stofnun sjóðsins má rekja til umfjöllunar í þættinum „Samfélagið í nærmynd“  árið 1994 sem Magdalena Ingimundardóttir, félagi í Thorvaldsensfélaginu, var að hlusta á. Þar var m.a. fjallað um könnun Rauða krossins á félagslegum aðstæðum nokkurra hópa í íslensku samfélagi.  Leiddi hún í ljós að erfiðust var staðan hjá ungum, atvinnulausum, einstæðum mæðrum. Magdalena, sem þá var stjórnarkona í BKR, fékk þá hugmynd að stofna sjóð til aðstoðar þessum hópi til að afla sér menntunar. Stofnun sjóðsins og skipulagsskrá var samþykkt á ársþingi BKR 18. mars 1995. Fyrsta úthlutun úr sjóðnum var á jólafundi BKR 28. nóvember 1996. Þeir sem vilja styrkja sjóðinn geta lagt inn á bankareikning sjóðsins, 0301-13- 300215, kt. 440169-3099. Thorvaldsensfélagið hefur á þessum 25 árum styrkt sjóðinn reglulega, má þar m.a. nefna að á aldarafmæli BKR 2017 gaf félagið sjóðnum eina milljón króna.

Minnt er á að  umsóknarfrestur í Starfsmenntunarsjóð ungra kvenna rennur út  26. júní nk. Umsóknareyðublöð eru á heimasíðu BKR, www.bkr.is.

Á myndinni eru Kristín Fjólmundsdóttir, formaður Thorvaldsensfélagsins og Fanney Úlfljótsdóttir, formaður Bandalags kvenna í Reykjavík.

Gleðileg jól

Bandalag kvenna í Reykjavík óskar félagsmönnum gleðilegra jóla og farsældar á nýju ári og þakkar samstarfið og samveruna á árinu sem er að líða.

Gleðileg jól og farsælt nýtt ár

Jólafundur BKR 21. nóvember 2019 kl. 19:30

Fimmtudaginn 21. nóvember kl. 19:30 að Hallveigarstöðum

Húsið opnað með ilmandi jólaglöggi og piparkökum

Séra Petrína Mjöll Jóhannesdóttir, prestur í Árbæjarkirkju, flytur hugvekju

Kvennakór undir stjórn Margrétar Pálmadóttur syngur nokkur lög

Veitingar og glæsilegt happdrætti til styrktar

Starfsmenntunarsjóði ungra kvenna.

19. júní á Hallveigarstöðum

Félög kvenna á Hallveigarstöðum bjóða ykkur velkomin á hátíðarfund miðvikudaginn 19. júní kl. 17. Fundurinn er haldinn í samkomusal Hallveigarstaða að Túngötu 14.

Gestur fundarins í ár er Steinunn Valdís Óskarsdóttir, nýskipaður skrifstofustjóri jafnréttismála hjá forsætisráðuneytinu, fyrrverandi borgarstjóri og alþingismaður. Steinunn spjallar við gesti um jafnréttismál á Íslandi.

Léttar kaffiveitingar eru í boði Hallveigarstaða.

Fögnum saman 104 árs afmæli kosningaréttar kvenna, miðvikudaginn 19. júní 2019!

Umsókn um styrk í Starfsmenntunarsjóð ungra kvenna

Bandalag kvenna í Reykjavík auglýsir eftir umsóknum um styrki til Starfsmenntunarsjóðs ungra kvenna fyrir skólaárið 2019-2020. Tilgangur sjóðsins er að hvetja og styðja við bakið á ungum konum, sem ekki eiga kost á námslánum, til að afla sér aukinnar menntunar.

Umsóknareyðublað, úthlutunarreglur og allar nánari upplýsingar má nálgast á heimasíðu bandalagsins, www.bkr.is.

Umsóknir um styrki skal senda til Bandalags kvenna í Reykjavík, Túngötu 14, 101 Reykjavík, merktar „Námsstyrkir‟ eða í tölvupósti á bandalagkvennarvk@gmail.com.

Umsóknarfrestur er til 19. júní.

Jólafundur BKR 15. nóvember 2018

 Jólafundur BKR 2018

Fimmtudaginn 15. nóvember kl. 19:30 að Hallveigarstöðum

 Húsið opnað með ilmandi jólaglöggi og piparkökum

Séra Elínborg Sturludóttir, prestur í Dómkrikjunni  flytur hugvekju

Kvennakórinn Seljur syngur nokkur lög

Veitingar og glæsilegt happdrætti til styrktar

Starfsmenntunarsjóði ungra kvenna.

 

 

 

 

Hver hugar að þinni heilsu kona góð?

Bandalag kvenna í Reykjavík, BKR í samvinnu við Heilsuborg og SidekickHealth stendur fyrir ráðstefnu um heilsu kvenna, laugardaginn 20. október 2018 kl. 9-13 í Bratta, sal HÍ við Stakkahlíð.

Skráning er á facebook: sjá hér

Á ráðstefnunni verður athyglinni beint að heilsu kvenna og er markmið hennar að hvetja konur á öllum aldri að huga vel að eigin heilsu, bæði andlegri og líkamlegri. Fjallað verður m.a. um hvernig hægt er að viðhalda góðri heilsu og fyrirbyggja heilsubrest en einnig hvernig hægt er að snúa við óheillavænlegri þróun með lífsstílsbreytingum.

Aðalfyrirlesari er Erla Gerður Sveinsdóttir læknir, lýðheilsufræðingur og einn eiganda Heilsuborgar. Hún fjallar um hvernig hægt er að flétta heilsueflingu inn í dagsins önn þar sem allir hornsteinar góðrar heilsu, hreyfing, næring, svefn og hugarró fá sitt vægi. Hverju þarf að huga að til að viðhalda góðri heilsu og hvaða skref eru heillavænleg ef lífsstílsbreytinga er þörf?

Hreyfing – áhrifaríkari en lyf?
Tryggvi Þorgeirsson læknir, lýðheilsufræðingur og framkvæmdastjóri Sidekick Health, fjallar um hreyfingu sem mikilvægan þátt í heilsueflingu. Hefur það t.d. önnur áhrif að hreyfa sig úti í náttúrunni en inni í tækjasal? Getur hreyfing verið áhrifaríkari en lyfjameðferð við langvinnum kvillum? Hvaða áhrif hefur það ef við njótum hreyfingarinnar? Getum við haft áhrif á venjur annarra í okkar nærumhverfi, svo sem fjölskyldu og vina?

Streita – vinur í raun?
Kristín Sigurðardóttir, slysa- og bráðalæknir fjallar um áhrif streitu á líf okkar, bæði jákvæð og neikvæð. Margvísleg heilsufarsvandamál, bæði andleg og líkamleg, eru vel þekktar afleiðingar langvarandi streitu en hins vegar er margt sem við getum sjálf gert til að takast betur á við áskoranir lífsins og þar með þolað álagið betur og náð jafnvægi í lífsstíl. Við viljum stjórna streitunni en ekki leyfa henni að stjórna okkur.

Maturinn í innkaupakerrunni – ástarfæði?
Geir Gunnar Markússon, næringarfræðingur á Heilsustofnun NLlFÍ í Hveragerði fjallar um mikilvægi góðrar næringar til að fyrirbyggja sjúkdóma og efla heilsu.

Að njóta lífsins þrátt fyrir erfiða fortíð.
Sigríður Björnsdóttir, sálfræðingur og framkvæmdastjóri Blátt áfram, fjallar um afleiðingar áfalla í æsku. Hún ræðir bæði andlega og líkamlega heilsu kvenna vegna sálrænna áfalla. Einnig hvaða leiðir konur hafa til að njóta lífsins, þrátt fyrir erfiða fortíð.

Þori, get og vil!
Sólveig Sigurðardóttir lífsstílsbloggari, sem heldur úti hinni vinsælu fésbókarsíðu Lífsstíll Sólveigar, deilir eigin reynslu en líf hennar tók algjörum stakkaskiptum er hún breytti um lífsstíl fyrir 6 árum síðan.

Umsókn um styrk í Starfsmenntunarsjóð ungra kvenna

Bandalag kvenna í Reykjavík auglýsir eftir umsóknum um styrki til Starfsmenntunarsjóðs ungra kvenna fyrir skólaárið 2018-2019. Tilgangur sjóðsins er að hvetja og styðja við bakið á ungum konum, sem ekki eiga kost á námslánum, til að afla sér aukinnar menntunar.

Umsóknareyðublað, úthlutunarreglur og allar nánari upplýsingar má nálgast á heimasíðu bandalagsins, www.bkr.is.

Umsóknir um styrki skal senda til Bandalags kvenna í Reykjavík, Túngötu 14, 101 Reykjavík, merktar „Námsstyrkir‟ eða í tölvupósti á bandalagkvennarvk@gmail.com.

Umsóknarfrestur er til 19. júní.

Kona ársins 2018

Það þarf hugrekki að stíga fram og segja frá kynferðisofbeldi og áreitni, kerfisbundnu misrétti og óréttlæti á vinnumarkaði. Margar þora ekki að segja frá af ótta við álit annarra og ótta við að missa störf eða að það muni skaða eðlilega starfsþróun. #metoo

Opinn fræðslufundur í tilefni af aldarafmæli Bandalags kvenna í Reykjavík

Konur og heilbrigði

laugardaginn, 14. október, kl. 14:00 – 15:30 í fyrirlestrasal Íslenskrar erfðagreiningar, Sturlugötu 8.

Erindi flytja:

Erla Dóris Halldórsdóttir, hjúkrunar- og sagnfræðingur                                         Fæðingarhjálp og heilbrigði kvenna

 Unnur Anna Valdimarsdóttir, prófessor                                                             Ögurstundir heilsufars

Þórunn Rafnar, erfðafræðingur                                                                                        Erfðir brjóstakrabbameins

Kári Stefánsson, læknir og erfðafræðingur                                                                        Aldur móður og auðna barna

Bandalag kvenna í Reykjavík 100 ára 30. maí 2017

Saga Bandalags kvenna í Reykjavík er saga samtakamáttar kvenna. Konur tóku sig saman og virkjuðu samtakamátt sinn í þágu kvenna og barna og ekkert var þeim óviðkomandi til að bæta hag þeirra. Þeir sem ungir eru í dag eiga vafalaust erfitt með að setja sig í spor þeirra sem uppi voru á fyrri hluta síðustu aldar  þegar lífsbaráttan var hörð og óvægin.

Tildrög að stofnun Bandalags kvenna var að Ingibjörg Benediktsdóttir kennari boðaði nokkrar konur á fund í Kvennaskólanum í Reykjavík til að ræða um það hvort reykvískar konur vildu sameinast norðlenskum konum um útgáfu tímarits eða blaðs og var talsmaður þeirra Halldóra Bjarnadóttir formaður Sambands norðlenskra kvenna. Af þessu varð ekki en reykvískar konur samþykktu að kjósa nefnd fimm kvenna frá níu félögum til að athuga málið.  Í desember 1916 kom Hólmfríður Árnadóttir kennari með tillögu að nefndin beitti sér fyrir að koma á sambandi milli allra kvenfélaganna í Reykjavík og auka þannig samvinnu kvenna sem höfðu áhuga á framfaramálum samfélagsins.

Í mars 1917 hittust konurnar aftur og ákváðu að senda öllum kvenfélögum í Reykjavík bréf um að þær athuguðu hvort kvenfélögin væru hlynnt stofnun sameiginlegs félags og fá þau til að kjósa nefnd til að gera uppkast að lögum fyrir félagið. Þann 30. maí 1917 komu konur saman á heimili Hólmfríðar og uppkast laganna var rætt og ákveðið var að stofna Bandalag kvenna og var Steinunn H. Bjarnason fyrsti formaður þess. Steinunn fór strax að tala fyrir samkomuhúsi fyrir Bandalagið og árið 1926 var samþykkt að reisa ætti samkomuhús handa íslenskum konum og árið 1931 var húsið nefnt Hallveigarstaðir í höfuðið á fyrstu landnámskonunni í Reykjavík, Hallveigu Fróðadóttur. Árið 1943 var nafninu breytt í Bandalag kvenna í Reykjavík.