Um admin42

Bandalag kvenna í Reykjavík, BKR, var stofnað 30. maí 1917. Í Bandalaginu eru nú 15 aðildarfélög og eru félagsmenn um 1000 talsins. Aðildarfélögin starfa á margvíslegan máta að félags-, líkar- og mannúðarmálum.

Bandalag kvenna í Reykjavík 100 ára 30. maí 2017

Saga Bandalags kvenna í Reykjavík er saga samtakamáttar kvenna. Konur tóku sig saman og virkjuðu samtakamátt sinn í þágu kvenna og barna og ekkert var þeim óviðkomandi til að bæta hag þeirra. Þeir sem ungir eru í dag eiga vafalaust erfitt með að setja sig í spor þeirra sem uppi voru á fyrri hluta síðustu aldar  þegar lífsbaráttan var hörð og óvægin.

Tildrög að stofnun Bandalags kvenna var að Ingibjörg Benediktsdóttir kennari boðaði nokkrar konur á fund í Kvennaskólanum í Reykjavík til að ræða um það hvort reykvískar konur vildu sameinast norðlenskum konum um útgáfu tímarits eða blaðs og var talsmaður þeirra Halldóra Bjarnadóttir formaður Sambands norðlenskra kvenna. Af þessu varð ekki en reykvískar konur samþykktu að kjósa nefnd fimm kvenna frá níu félögum til að athuga málið.  Í desember 1916 kom Hólmfríður Árnadóttir kennari með tillögu að nefndin beitti sér fyrir að koma á sambandi milli allra kvenfélaganna í Reykjavík og auka þannig samvinnu kvenna sem höfðu áhuga á framfaramálum samfélagsins.

Í mars 1917 hittust konurnar aftur og ákváðu að senda öllum kvenfélögum í Reykjavík bréf um að þær athuguðu hvort kvenfélögin væru hlynnt stofnun sameiginlegs félags og fá þau til að kjósa nefnd til að gera uppkast að lögum fyrir félagið. Þann 30. maí 1917 komu konur saman á heimili Hólmfríðar og uppkast laganna var rætt og ákveðið var að stofna Bandalag kvenna og var Steinunn H. Bjarnason fyrsti formaður þess. Steinunn fór strax að tala fyrir samkomuhúsi fyrir Bandalagið og árið 1926 var samþykkt að reisa ætti samkomuhús handa íslenskum konum og árið 1931 var húsið nefnt Hallveigarstaðir í höfuðið á fyrstu landnámskonunni í Reykjavík, Hallveigu Fróðadóttur. Árið 1943 var nafninu breytt í Bandalag kvenna í Reykjavík.

Ný stjórn Bandalags kvenna í Reykjavík

Á ársþingi BKR sem haldið var 11. mars sl. var kosin ný stjórn.

Í stjórn eru eftirtaldar konur:

  • Fanney Úlfljótsdóttir, Thorvaldsensfélaginu, formaður
  • Elísabet G. Þórarinsdóttir, POWERtalk, gjaldkeri
  • Þorbjörn Jóhannsdóttir, Fjallkonunum, ritari
  • Guðrún Barbara Tryggvadóttir, POWERtalk, varaformaður
  • Katrín Magnúsdóttir, Thorvaldsensfélaginu, varagjaldkeri
  • Kristín Hjartar, Hringnum, vararitari
  • Kolbrún Ingólfsdóttir, Félagi háskólakvenna/Kvenstúdenta, meðstjórnandi

Frá vinstri: Guðrún, Fanney, Þorbjörg, Kolbrún, Kristín og Elísabet. á myndina vantar Katrínu.

KVENNAFRÍ 2016 – KJARAJAFNRÉTTI STRAX!

screenshot-2016-10-23-22-53-45

 

Konur eru hvattar til að leggja niður vinnu kl. 14:38 mánudaginn 24. október og fylkja liði á samstöðufund á Austurvelli, kl. 15:15 undir kjörorðinu KJARAJAFNRÉTTI STRAX!

Meðalatvinnutekjur kvenna eru 70,3% af meðalatvinnutekjum karla. Konur eru því með 29,7% lægri tekjur að meðaltali. Samkvæmt því hafa konur unnið fyrir sínum launum eftir 5 klukkustundir og 38 mínútur miðað við fullan vinnudag frá kl. 9–17. Daglegum vinnuskyldum kvenna er því lokið kl. 14:38.

Þann 24. október árið 1975 lögðu konur um allt land niður vinnu til að sýna fram á mikilvægi vinnuframlags kvenna fyrir þjóðfélagið. Árið 2005 héldum við upp á kvennafrídaginn í annað sinn og konur gengu í tugþúsunda talið útaf vinnustað á þeirri mínútu þegar þær hættu að fá borgað fyrir störf sín miðað við karla. Þá gengu konur út klukkan 14:08. Árið 2010 gengu konur út klukkan 14:25. Nú göngum við út klukkan 14:38. Við höfum grætt hálftíma á ellefu árum. Tæplega þrjár mínútur á hverju ári. Með þessu áframhaldi þurfum við að bíða í 52 eftir að hafa sömu laun og sömu kjör og karlar, til ársins 2068! Það er óásættanlegt!

Fylgstu með á www.kvennafri.is og facebook.com/kvennafri. Taktu þátt í samræðunum á Twitter undir myllumerkinu #kvennafrí og #jöfnkjör, og fylgdu okkur á @kvennafri.

Styrkir úr Starfsmenntunarsjóð ungra kvenna afhentir í tuttugasta sinn

Frá stofnun sjóðsins hafa alls 167 styrkir að verðmæti rúmlega 19 miljónun króna verið afhentir.

Styrktarhafa ásamt stjórn sjóðsins.

Styrktarhafa ásamt stjórn sjóðsins.

Þann 24. ágúst sl. voru afhentir 7 styrkir úr Starfsmenntunarsjóði ungra kvenna að heildarupphæð rúmlega einni milljón króna.

Tilgangur sjóðsins hefur frá upphafi verið að hvetja og styðja við bakið á konum, sem ekki eiga kost á námslánum, til þess að afla sér aukinnar menntunar. Aukin samkeppni í atvinnulífinu kallar á auknar menntunarkröfur og hefur Bandalag kvenna í Reykjavík reynt að styðja við bakið á ungum konum sem hafa hug á að skapa sér og fjölskyldu sinni betri framtíð og styrkja stöðu sína á atvinnumarkaði.

Sjóðurinn var stofnaður 1995 og voru fyrstu styrkirnir úthlutaðir 1996 og því komin 20 ár síðan fyrstu styrkjunum var úthlutað. Á þessum 20 starfsárum hefur sjóðurinn alls veitt 167 styrki að verðmæti rúmlega19 miljónun króna.

Hildur Oddsdóttir er ein af þeim sem fékk styrk í ár en hún hefur hlotið styrki frá sjóðnum síðan 2013. Þessi aðstoð hefur verið henni dýrmæt og gert henni kleift að stunda nám en hún mún klára stúdentinn um áramót frá Menntaskólanum í Ármúla og stefnir líka í haust á viðurkennt bókaranám við Endurmenntun Háskóla Íslands.

Starfandi er fjáröflunarnefnd Starfsmenntunarsjóðsins, einnig gefa aðildarfélög BKR til sjóðsins en mestu munar um velvild og styrki fyrirtækja til sjóðsins, m.a. frá Sorpu, Góða Hirðinum og Thorvaldssenfélaginu.

Námsstyrkir fyrir ungar konur

Námsstyrkir fyrir ungar konur

Námsstyrkir fyrir ungar konur fyrir skólaárið 2016-2017

 

Bandalag kvenna í Reykjavík auglýsir eftir umsóknum um styrki til Starfsmenntunarsjóðs ungra kvenna fyrir skólaárið 2016-2017. Tilgangur sjóðsins er að hvetja og styðja við bakið á ungum konum, sem ekki eiga kost á námslánum, til að afla sér aukinnar menntunar.

Umsóknareyðublað, úthlutunarreglur og allar nánari upplýsingar má nálgast hér.

Umsóknir um styrki skal senda til Bandalags kvenna í Reykjavík, Túngötu 14, 101 Reykjavík, merktar „Námsstyrkir‟ eða í tölvupósti á bandalagkvennarvk@gmail.com.

Umsóknarfrestur er til 23. júní.

 

100. ársþing BKR og afhending viðurkenninga BKR 2016

100. þingi Bandalags kvenna í Reykjavík var haldið laugardaginn 12. mars 2016 á Grand Hótel Reykjavík. Á dagskrá voru venjubundin aðalfundarstörf.

Á fundinum afhenti BKR í þriðja sinn viðurkenningar bandalagsins til aðila sem starfa á áherslusviðum félagsins. BKR telur mikilvægt að vekja athygli á því góða starfi sem unnið er á öllum sviðum samfélagsins og efla jákvæða samræðu.

KONA ÁRSINS 2016: Inga Dóra Sigfúsdóttir – fyrir brautryðjandi starf á sviði rannsókna á líðan barna og unglinga í nútímasamfélagi. Inga Dóra Sigfúsdóttir er prófessor við Háskólann í Reykjavík og stofnandi rannsóknarsetursins Rannsóknir og greining. Hún hlaut nýverið 300 milljón króna styrk frá Evrópusambandinu til að rannsaka líðan, hegðun og heilsu íslenskra barna. Í rannsókninni eru tengd saman mismunandi fræðasvið og skoðað er allt í senn; áhrifin á andlegu líðanina, á hegðunina, sem og líffræðilegu hliðina. Þannig eru tengdir saman þættir frá mismunandi fræðasviðum.

HVATNINGARVIÐURKENNING BKR 2016: Samstarfsverkefni Reykjavíkurborgar og Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu Saman gegn ofbeldi. Markmið samstarfsins er að auka þekkingarmiðlun og bæta verklag til að taka á þeim heimilisofbeldismálum sem upp koma, í því skyni að tryggja öryggi borgarbúa á heimilum sínum, veita þolendum og gerendum betri þjónustu og bæta stöðu barna sem búa við heimilisofbeldi.

Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri í Reykjavík, og Sigríður Björk Guðjónsdóttir, lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu veittu viðurkenningunni móttöku á fundinum.

Á meðfylgjandi mynd eru viðurkenningarhafar árið 2016 ásamt fráfarandi formanni BKR:

Frá vinstri: Ingibjörg Rafnar Pétursdóttir, fráfarandi formaður BKR; Sigríður Björk Guðjónsdóttir, lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu; Inga Dóra Sigfúsdóttir, prófessor við Háskólann í Reykjavík; og Dagur B. Eggertsson, borgarstjórinn í Reykjavík.

Frá vinstri: Ingibjörg Rafnar Pétursdóttir, fráfarandi formaður BKR; Sigríður Björk Guðjónsdóttir, lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu; Inga Dóra Sigfúsdóttir, prófessor við Háskólann í Reykjavík; og Dagur B. Eggertsson, borgarstjórinn í Reykjavík.

Samantekt frá málþingi um börn og nútímasamfélag, 4. mars 2016

Föstudaginn 4. mars 2016 stóð Bandalag kvenna í Reykjavík fyrir opnum fundi  um „Börn og nútímasamfélag“ í samstarfi við Velferðarráðuneytið. Upplegg fundarins miðaði að umhverfi barna í nútímasamfélagi og fjallað var um þær aðstæður sem börnum og fjölskyldum þeirra eru skapaðar á Íslandi. Árið 2014 stóð BKR fyrir fundi sem miðaði að því umhverfi sem börnum og barnafjölskyldum er skapað á leikskólastiginu en nú var áhersla lögð á yngra grunnskólastigið. Hugmyndin að baki fundinum var sú að nálgast efnið á heildrænan máta með umfjöllun um skólakerfið, aðbúnað og líðan barna og mismunandi fjárhagslegan bakgrunn. Þá var fjallað um niðurstöður nýrra rannsókna og tilraunaverkefni tengd samþættingu fjölskyldu- og atvinnulífs. Að fundinum komu ýmis félög og félagasamtök sem starfa á þessu sviði.

Nánar um efni fundarins og upptökur af erindum.

Thorvaldsensfélagið styrkir Starfsmenntunarsjóð ungra kvenna

Á félagsfundi Thorvaldsensfélagsins laugardaginn 5. mars afhenti Anna Birna Jensdóttir formaður hálfa milljón króna til Starfsmenntunarsjóðs ungra kvenna sem rekinn er af Bandalagi kvenna í Reykjavík og hálfa milljón króna til Menntunarsjóðs Mæðrastyrksnefndar. Á myndinni frá vinstri  eru Ingjbjörg Rafnar Pétursdóttir, formaður BKR, Anna H. Pétursdóttir, formaður Mæðrastyrksnefndar og Anna Birna Jensdóttir, formaður Thorvaldsensfélagsins.

Bandalag kvenna í Reykjavík færir Thorvaldsensfélaginu bestu þakkir fyrir styrkinn til sjóðsins sem á síðasta ári fagnaði 20 ára starfsafmæli. Frá upphafi hefur verið úthlutað úr sjóðnum styrkjum að upphæð tæplega 16 milljóna króna til um 140 ungra kvenna sem ekki eiga annan kost á námslánum.

 

 

Opinn fundur um börn og nútímasamfélag 4. mars kl. 8.30-10.30

Born_og_nutumasamfelag_2016BKR stendur fyrir málþinginu „Börn og nútímasamfélag” föstudaginn 4. mars n.k. í samstarfi við velferðarráðuneytið. Fundurinn verður haldinn í Háskólanum í Reykjavík kl. 8.30-10.30, stofu V101.

Upplegg fundarins miðar að umhverfi barna og barnafjölskyldna í nútímasamfélagi. Árið 2014 stóð BKR fyrir fundi sem miðaði að dagforeldra- og leikskólastiginu en nú mun áherslan færast á yngra grunnskólastigið. Á fundinum verður efnið nálgast á heildrænan máta með umfjöllun um aðbúnað og líðan barna, skólakerfið, mismunandi fjárhagslegan bakgrunn barnafjölskyldna, samþættingu fjölskyldu- og atvinnulífs og styttingu vinnudagsins.

DAGSKRÁ:

  1. Líðan barna og unglinga á Íslandi: staða og þróun. Inga Dóra Sigfúsdóttir, prófessor við Háskólann í Reykjavík og stofnandi Rannsókna og greininga.
  2. Nám, grunnleggjandi færni og breytt skipulag skóladagsins. Hermundur Sigmundsson, prófessor í lífeðlislegri sálarfræði við norska tækni og vísindaháskólann í Trándheimi og Háskólann í Reykjavík.
  3. Niðurstöður skýrslu UNICEF um börn á Íslandi sem líða efnislegan skort. Lovísa Arnardóttir, réttindagæslufulltrúi UNICEF og höfundur skýrslunnar.
  4.  „Ég er bara með samviskubit, svo geðveikt gagnvart börnunum” – Um samræmingu fjölskyldu og atvinnu í nútímasamfélagi. Andrea Hjálmsdóttir, lektor við Háskólann á Akureyri  og Marta Einarsdóttir, sérfræðingur við Rannsókna- og þróunarmiðstöð Háskólans á Akureyri.
  5. Styttri vinnuvika í Reykjavík. Sóley Tómasdóttir, forseti borgarstjórnar, um tilraunaverkefni Reykjavíkurborgar.
  6. Atvinnulífið og stytting vinnudagsins. Guðrún Hafsteinsdóttir, formaður Samtaka iðnaðarins.
  7. Pallborðsumræður: Heimili og skóli, Félag skólastjórnenda í RVK, Félag grunnskólakennara, Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands, SAMFOK, Barnaheill, Hrói höttur barnavinafélag, og Helga Arnfríður Haraldsdóttir barnasálfræðingur, ásamt fyrirlesurum.

Fundarstjóri verður Nanna Kristín Christiansen, uppeldis- og menntunarfræðingur og ritstjóri Krítarinnar.

ÓKEYPIS AÐGANGUR OG ALLIR VELKOMNIR!

Viðburðurinn á Facebook

 

100. ársþing BKR haldið laugardaginn 12. mars

100. ársþing BKR verður haldið laugardaginn 12. mars 2015, á Grand hótel Reykjavík, í fundarsalnum Hvammi, kl. 10:00 f.h. Húsið opnar kl. 09:30.

Fundarboðið og dagskrárdrög hafa verið send formönnum aðildarfélaganna og nefnda BKR ásamt kjörbréfum. Samkv. 5. gr. í lögum bandalagsins, lið b), hefur hvert aðildarfélag heimild til að senda 3 fulltrúa með atkvæðisrétt á þingið, en áheyrnarfulltrúum er heimil seta á ársþingi BKR með málfrelsi og tillögurétti.

Skráningu á þingið skal senda á netfangið thorbjorgjo(hjá)kopavogur.is  fyrir 9. mars n.k.

Á þinginu verða afhentar viðurkenningar Bandalags kvenna í Reykjavík: Kona ársins, kvenfélag ársins og hvatningarviðurkenning BKR. 

Að fundi loknum snæðum við hádegisverð saman og flytja þá viðurkenningarhafar erindi um verkefni sín. Sjáumst sem flestar og fögnum góðu samstarfi kvenfélaganna innan BKR sem spannar brátt heila öld en BKR fagnar 100 ára starfsafmæli árið 2017!

Matseðill:

Bakaður léttsaltaður þorskhnakki á kartöflubeði með tómat, ólívum og hvítlauk Súkkulaðikaka með blönduðum ávöxtum og þeyttum rjóma

Í upphafi fundar verður boðið upp á ástríðudrykk með lífrænu grænmeti og ferskum ávöxtum sem veitir okkur gott orkuskot inn í daginn, og að sjálfsögðu kaffi og te.

Verð á mann er 4.960 kr.

BKR auglýsir eftir framboðum í stöðu formanns stjórnar

Stefnumál BKR 2014 BKR auglýsir eftir framboðum í stöðu formanns stjórnar. Mörg skemmtileg verkefni eru á döfinni hjá félaginu, m.a. undirbúningur afmælisársins en BKR fagnar 100 ára starfsafmæli árið 2017. Félagið hefur á síðustu árum gengið í gegnum töluverðar skipulagsbreytingar og samþykkti m.a. nýja stefnuskrá fyrir starfsemi sína árið 2014. Um er að ræða spennandi tækifæri til að öðlast góða stjórnunarreynslu og kynnast skemmtilegum konum.  Áhugasamir sendi póst á formann uppstillingarnefndar, Geirlaugu Þorvaldsdóttur, á netfangið geirlaugth@yahoo.com.
 

Viðtal: Líflegt starf í Kvenfélagi Langholtssóknar

Helga Guðmundsdóttir og Jóhanna GísladóttirVið hittum formann og varaformann Kvenfélags Langholtssóknar, þær Helgu Guðmundsdóttur og Jóhönnu Gísladóttur, yfir góðum kaffibolla og áttum skemmtilegt spjall um starfsemi félagsins fyrir heimasíðu BKR. Mikill kraftur er í félaginu og rík áhersla lögð á að rækta tengsl við nærsamfélagið. Viðtalið má lesa hér.

Viðtalið er upptaktur fyrir afmælisárið okkar 2017 þegar við fögnum 100 ára afmæli BKR!

Dagur kvenfélagskonunnar

Til hamingju með daginn kæru landsmenn nær og fjær – í dag fögnum við degi kvenfélagskonunnar! 1. febrúar var formlega gerður að degi kvenfélagskonunnar árið 2010 til að vekja athygli á miklu og óeigingjörnu starfi kvenfélagskvenna í 140 ár. Síðustu þrjú árin hefur BKR gefið út ársskýrslu um starfsemi sína og aðildarfélaganna. Þar kemur fram að á tímabilinu 2012-2014 hafa aðildarfélög BKR gefið í kringum 340 milljónir króna til ýmissa verkefna. Það munar um minna!

Í dag birtum við skemmtilegt viðtal við formann og varaformann Kvenfélags Langholtssóknar. Við vonumst til þess á næstu mánuðum að birta áhugaverð viðtöl við félagskonur úr aðildarfélögum BKR sem upptakt fyrir afmælisárið okkar 2017 þegar við fögnum 100 ára afmæli BKR!

Njótið dagsins!