Á fundi stjórnar BKR þann 26. janúar sl. voru samþykktar nýjar starfsreglur stjórnar. Starfsreglurnar má finna hér.
Greinasafn eftir: admin42
Yfirlit BKR fyrir starfsárið 2014-2015 komið á heimasíðuna
Ársskýrsla BKR 2014 er nú aðgengileg á heimasíðu BKR – þar er farið yfir helstu atriði úr starfi stjórnar, nefnda á vegum BKR og stiklað á stóru um starfsemi aðildarfélaganna.
Endilega kíkið á!
Jólafundur BKR í hátíðarbúningi
Jólafundur BKR verður haldinn fimmtudaginn 26. nóvember í sérstökum hátíðarbúningi í tilefni af 100 ára afmæli kosningaréttar kvenna á Íslandi og 20 ára starfsafmæli Starfsmenntunarsjóðs ungra kvenna.
Fundurinn er haldinn á Hallveigarstöðum (Túngötu 14) og hefst kl. 19.30. Húsið opnar kl. 19.
Við fáum til okkar góða gesti, séra Auður Eir Vilhjálmsdóttir, fyrsti kvenpresturinn á Íslandi, flytur erindi og Andrea Björk Andrésdóttir, frá Reconesse Database mun kynna verkefni sitt um konur í sögunni. Katrín Þorsteinsdóttir, formaður fjáröflunarnefndar Starfsmenntunarsjóðs ungra kvenna, mun fjalla um sjóðinn og starfsemi hans í tilefni af 20 ára starfsafmælinu. Þá höfum við boðið Kvenfélagi Laugarnessóknar og Delta Kappa Gamma að taka þátt í hátíðarhöldunum með okkur.
Í lok kvölds verður svo happdrætti til styrktar Starfsmenntunarsjóði ungra kvenna þar sem margir spennandi vinningar eru í boði!
Veitingar kvöldsins verða “að hætti Ásdísar”!
Sjá einnig Facebook-síðu BKR.
Vonumst til þess að sjá ykkur sem flest!
Samantekt frá málþinginu “Úr glatkistunni”
Þann 29. október stóð Bandalag kvenna í Reykjavík fyrir opnu málþingi um heimildir í sögu kvenna. Málþingið var framlag BKR í viðburðadagskrá í tilefni af 100 ára afmælisárs kosningaréttar kvenna á Íslandi og var sprottið úr þjóðarátaki í söfnun á skjölum kvenna í tilefni afmælisársins. Erindi fundarins snéru að öflun og úrvinnslu heimilda en saga kvenna hefur fengið litla athygli í sögubókum og sýningum, m.a. vegna þess að minna hefur varðveist af skjölum þeirra en karla.
Skjalasöfn kvenna eru oft af öðru meiði og persónulegri en skjalasöfn karla, heimildir á borð við bréf og dagbækur sem veita innsýn í líf einstaklinga og fjölskyldna. Skjöl kvenna fjalla jafnan m.a. um fjölskylduna, matarsiði, handavinnu, heilsu og fleira, á meðan skjöl karla kunna að innihalda oftar skrif um stjórnmál, veðurfar og atvinnu. Varðveitt skjöl kvenna eru merkilegar heimildir sem fylla upp í heildarmynd um líf og sögu Íslendinga.
Á málþinginu voru þrjú erindi flutt sem lutu öll að heimildum í kvennasögu. Rithöfundurinn Gunnhildur Hrólfsdóttir sagði frá tilurð nýútkominnar bókar sinnar „Þær þráðinn spunnu – afrek kvenna í aldanna rás“ sem er sýnishorn úr sögu kvenna í Vestmannaeyjum 1835 – 1980. Gunnhildur tók dæmi af konunum sem fluttu víðsvegar um landið eftir gosið í Heimaey, en lítið hefur verið fjallað um.
Erla Hulda Halldórsdóttir, sérfræðingur í kvenna- og kynjasögu við Sagnfræðistofnun HÍ, fjallaði um sögu kvenna og spjöld sögunnar og tók dæmi um stöðu vinnukvenna sem eignuðust börn með húsbændum sínum.
Fréttakonan Alma Ómarsdóttir lokaði málþinginu með erindi um heimildarmynd sína um Stúlkurnar á Kleppjárnsreyjum. Við gerð myndarinnar fékk Alma aðgang að gögnum á Þjóðskjalasafni Íslands, sem eru lokuð almenningi og hafa verið innsigluð í áratugi. Myndin segir frá myrkum kafla í Íslandssögunni, þegar ungar konur voru beittar þvingunum og sviptar frelsi fyrir það eitt að eiga í samskiptum við erlenda setuliðsmenn á tímum seinni heimsstyrjaldarinnar.
Fundarstjóri var Andrea Björk Andrésdóttir, sagnfræðingur og stofnandi Reconesse Database, gagnagrunns um konur í sögunni.
Málþingið var mjög vel sótt og fjörugar umræður spunnust í kjölfar fyrirlestranna meðal fundargesta, sem sammæltust um að full ástæða væri til að veita málefninu nánari athygli.
Í umræðum kom m.a. fram að hlutur kvenna í sögubókum sem kenndar eru í grunnskólum landsins og framhaldsskólum er verulega skertur en konur eru í kringum 1/4 þeirra sem þar er fjallað um. Erla Hulda Halldórsdóttir hefur m.a. fjallað um ástæður þessa og meðal markmiða Reconesse Database er að leiðrétta þennan kynjahalla.
Skjöl karlmanna 67% en skjöl kvenmanna 33% af einkaskjalasöfnum á Borgarskjalasafni Reykjavíkur. BKR hvetur alla til þess að kíkja í geymslur sínar og senda inn til varðveislu skjöl frá ömmum og langömmum, frænkum og öðrum mætum konum sem þar kunna að leynast því þetta eru mikilvægar heimildir sem gefa fyllri mynd af lífi og störfum íslenskra kvenna. Tekið er við skjölum í handritasafni Landsbókasafns Íslands – Háskólabókasafns, Kvennasögusafni Íslands, Þjóðskjalasafni Íslands, Borgarskjalasafni og héraðsskjalasöfnum og eru starfsmenn safnanna boðnir og búnir að veita ráðsgjöf og aðstoð varðandi frágang og skil á gögnunum.
Úr glatkistunni – Málþing fimmtudaginn 29. október
Bandalag kvenna í Reykjavík tekur þátt í hátíðarhöldunum í tilefni af 100 ára afmæli kosningaréttar kvenna á Íslandi og stendur fyrir opnu málþingi um handrit úr sögu kvenna fimmtudaginn 29. október kl. 16-17.30 í Háskólanum í Reykjavík. Viðburðurinn er haldinn í samstarfi við Framkvæmdanefnd um 100 ára afmæli kosningaréttar kvenna.
Málþingið er framlag BKR í viðburðadagskrá í tilefni af 100 ára afmælisárs kosningaréttar kvenna á Íslandi og er sprottið úr þjóðarátaki í söfnun skjala kvenna í tilefni afmælisársins, samvinnuverkefnis Landsbókasafns Íslands – Háskólabókasafns, Þjóðskjalasafns Íslands, Borgarskjalasafns Reykjavíkur og héraðsskjalasafna. Erindi fundarins snúa að öflun og úrvinnslu heimilda en saga kvenna hefur fengið litla athygli í sögubókum og sýningum, m.a. vegna þess að minna hefur varðveist af skjölum þeirra en karla.
Skjalasöfn kvenna eru oft af öðru meiði og persónulegri en skjalasöfn karla, á borð við bréf og dagbækur, og veita innsýn í líf einstaklinga og fjölskyldna. Þau fjalla frekar um fjölskylduna, matarsiði, handavinnu, heilsu og tilfinngar, á meðan skjöl karla innihalda oftar skrif um stjórnmál, veðurfar og atvinnu. Varðveitt skjöl kvenna eru merkilegar heimildir sem fylla upp í heildarmynd um líf og sögu Íslendinga.
Fyrirlesarar málþingsins eru Gunnhildur Hrólfsdóttir með erindið Þær þráðinn spunnu: afrek kvenna í aldanna rás, Erla Hulda Halldórsdóttir sem flytur fyrirlesturinn Ógipt vinnukona á sama bæ: um sögu kvenna og spjöld sögunnar, og Alma Ómarsdóttir með erindið Stúlkurnar á Kleppjárnsreykjum: lauslæti og landráð.
Sjá allar nánari upplýsingar á Facebook-síðu málþingsins. Við hvetjum ykkur til þess að mæta og fagna afmælisárinu með þessum frábæru fyrirlesurum!
Kvenfélag Bústaðasóknar styrkir Starfsmenntunarsjóð ungra kvenna
Formaður Kvenfélags Bústaðasóknar, Hólmfríður Ólafsdóttir, afhenti í dag formanni Bandalags kvenna í Reykjavík, Ingibjörgu Rafnar Pétursdóttur, styrk kvenfélagsins til Starfsmenntunarsjóðs ungra kvenna upp á 100 þúsund krónur.
Bandalag kvenna í Reykjavík færir Kvenfélagi Bústaðasóknar bestu þakkir fyrir styrkinn til sjóðsins sem í ár fagnar 20 ára starfsafmæli. Frá upphafi hefur verið úthlutað úr sjóðnum styrkjum að upphæð tæplega 16 milljóna króna til um 140 ungra kvenna sem ekki eiga annan kost á námslánum.
Átta styrkir afhentir úr Starfsmenntunarsjóði unga kvenna
Þann 27. ágúst voru afhentir átta styrkir úr Starfsmenntunarsjóði ungra kvenna að heildarupphæð 785.000 kr.
Á tuttugu starfsárum hefur sjóðurinn úthlutað 138 styrkjum að fjárhæð samtals að andvirði 15,5 m.kr. Starfandi er fjáröflunarnefnd Starfsmenntunarsjóðsins, einnig gefa aðildarfélög BKR til sjóðsins en mestu munar um velvild og styrki fyrirtækja til sjóðsins, m.a. frá Sorpu og Góða hirðinum.
Nánar um Starfsmenntunarsjóð ungra kvenna hér.
99. ársþing BKR og afhending viðurkenninga BKR 2015
99. þing Bandalags kvenna í Reykjavík var haldið laugardaginn 7. mars 2015. Á þinginu var farið í gegnum venjuleg aðalfundarstörf.
Á fundinum afhenti BKR í annað sinn viðurkenningar bandalagsins til aðila sem starfa á áherslusviðum félagsins. BKR telur mikilvægt að vekja athygli á því góða starfi sem unnið er á öllum sviðum samfélagsins.
Viðurkenninguna KONA ÁRSINS 2015 hlaut Þórdís Elva Þorvaldsdóttir fyrir ómetanlegt hugsjónastarf á sviði jafnréttis, m.a. gegn kynbundnu ofbeldi og klámvæðingu með áherslu á ungt fólk á mótunarárum. Þórdís Elva hefur meðal annars gefið út bókina „Á mannamáli“ auk þess sem hún er höfundur heimildamyndanna „Fáðu Já“ og „Stattu með þér!“ sem ætlaðar eru ungu fólki og eiga það sameiginlegt að spyrna gegn kynferðisofbeldi og klámvæðingu á lausnamiðaðan máta með sjálfsvirðingu og jákvæðni að vopni. Nú hefur hún tekið höndum saman með Vodafone með fyrirlestraröðina „Ber það sem eftir er: Um sexting, hefndarklám og netið“ sem er hugsuð sem fræðsla fyrir foreldra um öryggi barna í stafrænum samskiptum.
Thorvaldsensfélagið hlaut viðurkenninguna KVENFÉLAG ÁRSINS 2015 fyrir ómetanlegt starf í þágu barna í 140 ár. Félagið er elsta kvenfélagið í Reykjavík og fagnar 140 ára afmæli sínu á árinu 2015. Í áraraðir hefur Thorvaldsensfélagið styrkt barnadeildina sem var á Landakoti og síðar á Landspítalanum í Fossvogi til tækjakaupa og annarra hluta er þörf hefur verið á, en eftir að þær voru lagðar niður stofnaði félagið sérstakan sjóð við Barnaspítala Hringsins til styrktar sykursjúkum börnum og unglingum með 10 milljón króna framlagi. Félagið styrkir einnig fjölskyldur veikra barna, unglingastarf, vímuvarnir,verkefni í þágu aldraðra og margs konar landssafnanir. Á síðustu árum hefur Thorvaldsensfélagið m.a. unnið með Heilsuskóla Barnaspítala Hringsins og styrkti þróun á heilsueflandi snjallsímaforriti (appi) í leikjaformi sem er ætlað til þess að hjálpa ungu fólki að bæta heilsu sína með áherslu á mataræði, hreyfingu og geðrækt.
HVATNINGARVIÐURKENNINGU BKR 2015 hlaut Félag fósturforeldra fyrir starf fósturforeldra um land allt í umönnun barna þegar aðstæður leyfa ekki að börn og unglingar dvelji á heimilum sínum, varanlega eða tímabundið. Starf fósturforeldra er mjög falið enda um viðkvæman málaflokk að ræða og aðilar bundnir trúnaði. Eins og gefur að skilja hefur slík opnun á heimili sínu og einkalífi mikil áhrif á líf viðkomandi og tengjast aðilar tilfinningaböndum sem getur reynst erfitt þegar um tímabundna vistun er að ræða. Margar brotalamir eru í kerfinu þegar kemur að málefnum barna og fósturforeldra, m.a. hvað varðar réttindamál og hefur ný stjórn Félags fósturforeldra nú lagt ríkari áherslu á að tryggja réttindi barnanna og fósturforeldra innan þess.
Á meðfylgjandi mynd eru viðurkenningahafar árið 2015 ásamt formanni BKR:
Eftirfarandi ályktanir voru samþykktar á þinginu:
BKR fagnar ákvörðun velferðarráðherra að taka stjórnsýslu á sviði félagsþjónustu og barnaverndar til enduskoðunar í samvinnu við helstu hagsmunaaðila. Nefnd á vegum ráðherra hefur verið skipuð og henni ætlað að skila tillögum á þessu sviði fyrir páska. Þá leggur BKR áherslu á að rætt sé við Félag fósturforeldra, sem býr yfir dýrmætri innsýn hvað varðar stöðu og réttindi barna og ungmenna sem þurfa á skjóli að halda utan heimilis síns vegna erfiðra aðstæðna heimafyrir.
Ályktunin var send velferðarráðherra, starfsmönnum velferðarráðuneytisins, formanni nefndar um stjórnsýslu á sviði félagsþjónustu og barnaverndar og öðrum nefndarmönnum, og starfsmönnum og stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga.
—
Bandalag kvenna í Reykjavík hvetur stjórnvöld til þess að hlúa vel að því umhverfi sem ungum börnum er skapað, bæði innan dagforeldrakerfisins og í leikskólum. Í leikskólum um land allt er sinnt mjög góðu starfi en víða þarf að búa starfsumhverfinu betri skilyrði, m.a. með auknum fjárveitingum. Þá hvetur BKR einnig til þess að stjórnvöld horfi í auknum mæli til hugmynda tengdum samþættingu fjölskyldu- og atvinnulífs og kanni m.a. möguleika til styttingar vinnudagsins. Atvinnulífið þarf að koma betur til móts við börnin og barnafjölskyldur.—
BKR leggur áherslu á mikilvægi þess að foreldrar ræði við börn og unglinga um góðar netvenjur og heilbrigð samskipti á samfélagsmiðlum. Í ljósi umræðu undanfarin ár um gróft neteinelti og hefndarklám er mikilvægt að foreldrar kynni sér vefsíður og samskiptaforrit (öpp) sem börn og unglingar notast við í ntímasamfélagi og ræði við þau um orsakir og afleiðlingar myndbirtinga á netinu sem gefa haft mikil áhrif á líf og framtíð barnanna. Þá hvetur BKR foreldra til þess að skoða ábyrgð sína þegar kemur að myndbirtingu af börnum sínum á samfélagsmiðlum og friðhelgi barnanna.—
Ársþing BKR fagnar þingsályktunartillögu um stofnun embættis umboðsmanns aldraðra og hvetur til að hún verði samþykkt. Í takt við aukið hlutfall aldraðra af fóllksfölda eykst mikilvægi þess að hafa málsvara til að standa vörð um réttindi og þar með velferð þegar álitamál koma upp.—
BKR gerir athugasemd við frumvarp til laga um afnám laga um orlof húsmæðra í ljósi þess að enn hallar á konur í þjóðfélaginu og þá sérstaklega eldri konur og láglaunakonur á öllum aldri, en þetta eru þeir hópar sem nýta sér orlof húsmæðra í Reykjavík. Þessir tveir hópar eiga langt í land hvað varðar jafnrétti í launum. BKR telur því framlagningu lagafrumvarpsins ótímabæra.
Hér má finna umsögn Orlofsnefndar húsmæðra í Reykjavík (nefnd á vegum BKR) um frumvarp til laga um afnám laga um orlof húsmæðra sem send var Alþingi.
99. ársþing BKR, laugardaginn 7. mars
99. ársþing BKR verður haldið laugardaginn 7. mars 2015, að Kaffi Nauthól, Nauthólsvegi 106, kl. 10:00 f.h. Húsið opnar kl. 09:30.
Fundarboðið og dagskrárdrög hafa verið send formönnum aðildarfélaganna og nefnda BKR ásamt kjörbréfum sem félögin þurfa að fylla út og senda til skrifstofu BKR fyrir 2. mars n.k. Samkv. 5. gr. í lögum bandalagsins, lið b), hefur hvert aðildarfélag heimild til að senda 3 fulltrúa með atkvæðisrétt á þingið, en áheyrnarfulltrúum er heimil seta á ársþingi BKR með málfrelsi og tillögurétti.
Á þinginu verða afhentar viðurkenningar Bandalags kvenna í Reykjavík: Kona ársins, kvenfélag ársins og hvatningarviðurkenning BKR.
Að fundi loknum snæðum við hádegisverð saman til heiðurs viðurkenningarhöfum og fögnum starfsárunum 99!
Hádegisverður:
Blandað úrvals-smurbrauð
Eplakaka með þreyttum rjóma
Stjórn BKR
BKR gefur framhaldsskólum í Reykjavík eintak af heimildarmyndinni Miss Representation
Í haust stóð BKR fyrir opnum fundi um konur og fjölmiðla og í tengslum við þann viðburð var ákveðið að gefa öllum framhaldsskólum í Reykjavík eintak af heimildarmyndinni Miss Representation sem gefin var út árið 2011. Myndin fjallar um það hvernig konur eru túlkaðar í fjölmiðlum og vakti útgáfa myndarinnar tímabæra umræðu á heimsvísu um fjarveru kvenna frá valdamiklum stöðum og takmarkanir á birtingamyndum kvenna og stúlkna í fjölmiðlum. Þá undirstrikar efni myndarinnar mikilvægi kennslu í fjölmiðlalæsi fyrir sjálfstraust ungra kvenna og valdeflingu þeirra.
Rannsóknir í Bandaríkjunum sýna að ungt fólk í dag fylgist með fjölmiðlum allt að helming dagsins. Meirihluti efnisins sýnir konur sem hlutgerðar eða sem kyntákn. Slíkar birtingarmyndir hafa langtímaáhrif á bæði ungar konur og menn. Þá sýna rannsóknir hér á landi að konur eru aðeins um þriðjungur þeirra sem birtast í fjölmiðlum auk þess sem birtingarmynd þeirra er á annan veg en karla. Ójöfn umfjöllun um kynin í fjölmiðlum eiga sinn þátt í að skapa og viðhalda kynjaskekkjunni í þjóðfélaginu þar sem staðlaðar kynjaímyndir skipa stóran sess.
Við hjá BKR vonumst til þess að eintakið af myndinni nýtist nemendum í útlán á bókasafni og kennurum til kennslu, bæði á sviði fjölmiðlalæsis og birtingarmynda kynjanna sem og ensku. Hugmyndir um hvernig nýta má myndina í kennslu má finna víða á netinu, m.a. á vefnum therepresentationproject.org, en umræðuefnin geta t.d. verið um hvernig fjölmiðlar móta viðhorf og menningu í samfélaginu, hvernig hægt er að bera kennsl á jákvæðar og sterkar konur í fjölmiðlum, og hvernig staðalímyndir kynjanna takmarka bæði stráka og stelpur.
Jólafundur BKR og happdrætti til styrktar Starfsmenntunarsjóði ungra kvenna
Jólafundur Bandalags kvenna í Reykjavík verður haldinn fimmtudaginn 20. nóvember kl. 19:30 að Hallveigarstöðum, Túngötu 14.
Húsið opnar kl. 19:00.
Dagskrá fundarins:
- Ávarp formanns BKR
- Jólahugvekja – Hjördís Jensdóttir, stjórnarkona BKR og félagi í Kvenfélagi Hallgrímskirkju
- Kórinn Domus Vox syngur nokkur lög undir stjórn Margrétar Pálmadóttur
- Happdrætti til styrktar Starfsmenntunarsjóði ungra kvenna
Veitingar: Heitt súkkulaði og meðlæti að hætti stjórnar BKR
Veglegir vinningar eru í boði í happdrættinu til styrktar Starfsmenntunarsjóði ungra kvenna, m.a. 2 miðar á jólatónleika Björgvins Halldórssonar og ýmislegt fleira!
1 miði á 1000 kr., 3 miðar á 2000. Borgar þarf með reiðufé, ekki er posi á staðnum.
Hlökkum til þess að sjá ykkur sem flest!
Samantekt – Opinn fundur um konur og fjölmiðla
Föstudaginn 12. september stóð Bandalag kvenna í Reykjavík (BKR) í samstarfi við MARK (Miðstöð margbreytileika og kynjarannsókna), HÍ námsbraut í blaða- og fréttamennsku og Félag fjölmiðlakvenna fyrir opnum fundi um hlut kvenna í fjölmiðlum. Fundurinn var haldinn í Háskóla Íslands. Þar var til umræðu hvaða starfsumhverfi ríkir inni á fjölmiðlunum, hvort munur sé á efnistökum fjölmiðlakvenna og karla og vægi frétta eftir kyni. Þá var fjallað um leiðir til þess að efla konur til þess að koma fram sem viðmælendur fjölmiðla, byggt á fjölmiðlaverkefni Félags kvenna í atvinnulífinu og að lokum um birtingarmynd kvenna í fjölmiðlum um skilaboð til ungra kvenna í dag.
Fundarstjóri var Sigríður Dögg Auðunsdóttir, fyrrverandi ritstjóri Fréttatímans og stofnandi Inspiral.ly verkefnisins.
Í upphafi fundar ávarpaði Ingibjörg Rafnar Pétursdóttir, formaður BKR, fundargesti og fór yfir aðdraganda fundarins og kynnti samstarfsaðilana. BKR styrkti MA rannsókn um konur í fjölmiðlum árið 2013 og liggja niðurstöður þeirrar rannsóknar nú fyrir en rannsakandinn kemur m.a. inn á starfsumhverfið á RÚV og 365. Arnhildur Hálfdánardóttur var með eitt af 3 erindum fundarins en hér má finna finna ritgerð Arnhildar í heild sinni ásamt fjölmiðlaumfjöllun um niðurstöður hennar.
Arnhildur Hálfdánardóttir var með erindið „Aðengi eða áhugi? Munur á efnistökum og vægi frétta eftir karla og konur“. Markmið rannsóknarinnar var að varpa ljósi á hvort munur væri á efnistökum karla og kvenna og hvort framlag þeirra væri jafn mikils metið. Niðurstöðurnar leiddu í ljós að munur er þar á og að fréttir karla raðast frekar framarlega í fréttatímann en fréttir kvenna. Marktækur munur hafi verið á fjölmiðlinum Stöð 2 og Ríkisútvarpinu. Glærur frá erindi Arnhildar.
Næst tók til máls Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, formaður Félags kvenna í atvinnulífinu, sem kynnti fjölmiðlaverkefni félagsins. Markmið verkefnisins er að auka ásýnd kvenna í fjölmiðlum en niðurstöður mælinga Creditinfo um viðmælendur í fréttum sýna að karlar eru 70% viðmælenda í ljósvakaþáttum og í fréttum á meðan kvenkyns viðmælendur eru 30% á tímabilinu 1. febrúar 2009 til 30. ágúst 2013. Útgangspunktur fjölmiðlaverkefnis FKA er að endurspegla samfélagið og auka ásýnd kvenna í fjölmiðlum, vekja til jákvæðrar vitundar um að konur búa yfir heilmikilli þekkingu og reynslu sem hægt er að nýta í frétta- og þjóðfélagsumræðu. Með fjölbreytni í viðmælendahópi eru fjölmiðlar líklegri til að endurspegla samfélagið. Verkefnið hófst í nóvember 2013 og hefur fengið mjög góð viðbrögð. Því lýkur formlega haustið 2017. Glærur frá erindi Þórdísar Lóu.
Að lokum fjallaði Hildur Knútsdóttir, rithöfundur, um birtingarmyndir kvenna í fjölmiðlum og þau skilaboð sem hún les sem ung kona. Að hennar mati er efni sem sérstaklega er höfðað til kvenna grundvallað á því að þær eru neytendur og gert er ráð fyrir að þær séu ævinlega að leyta sér að nýjum leiðum til fegrunar og/eða grenningar. Oft sé talað til þeirra í boðhætti og sú mynd sem birtist af „hinni venjulegu íslensku konu“ sé mjög skökk. Mikilvægt sé að fjölmiðlar skoði hvaða birtingarmyndir kvenna þeir sýni og auka þurfi fjölbreytni til þess að endurspegla á réttari máta samfélagið og heilbrigðar fyrirmyndir fyrir bæði ungar konur og menn. Glærur frá erindi Hildar.
Að lokum voru pallborðsumræður þar sem fyrirlesara tóku þátt ásamt Ingibjörgu Dögg Kjartansdóttur, fyrrverandi aðstoðarritstjóra DV frá Félagi fjölmiðlakvenna; Sigríði Hagalín Björnsdóttur, varafréttastjóra RÚV og Hrund Þórsdóttur, fréttamanni á Stöð 2. Í umræðunum kom fram að fjölmiðlar eru ekki með reglubundna úttekt á viðmælendum sínum eftir kyni (þó svo að einstaka þátttastjórnendur hafi tekið það fyrirkomulag upp, t.d. Landinn) og á RÚV eru úttektir gerðar á kynjahlutfalli viðmælenda af og til. Einnig kom fram að ekki var almenn vitund um ákvæði jafnréttislaga um að fjölmiðlum bæri að skila inn skýrslum þess efnis til yfirvalda.
Almenn ánægja var með fundinn og ítrekað mikilvægi þess að halda umræðunni áfram á lofti.
Myndir frá viðburðinum má nálgast á Facebook síðu BKR
Velferðarráðuneytið veitti styrkt fyrir viðburðinum.
Upplýsingasíða fyrir nýjasta aðildarfélag BKR
Vekjum athygli á nýrri upplýsingasíðu hér á bkr.is um nýjasta aðildarfélag Bandalags kvenna í Reykjavík, POWERtalk International á Íslandi sem gekk til liðs við BKR fyrr á þessu ári.
Sjá nánar um þetta öfluga félag hér.
Verkefnastyrkir vegna 100 ára afmælis kosningaréttar kvenna
Nefnd um 100 ára afmæli kosningaréttar kvenna 2015 auglýsir styrki til verkefna árið 2015. Opnað verður fyrir umsóknir á þessu ári 24. október n.k.
Verkefnin þurfa að tengjast megintilgangi nefndar um 100 ára afmæli kosningaréttar kvenna:
· að minnast afmælisins
· að auka jafnréttis- og lýðræðisvitund þjóðarinnar
· að blása til nýrrar sóknar í jafnréttis- og mannréttindamálum
Við það skal miðað að styrkir úr sjóðnum verði ekki til þess að lækka önnur opinber framlög við verkefnið eða draga úr stuðningi annarra við þau. Úthlutanir verða í tvennu lagi.
Opnað verður fyrir umsóknir á þessu ári 24. október n.k. og þurfa þær að hafa borist fyrir 15. nóvember til að hljóta afgreiðslu. Umsóknir um styrki á næsta ári verða auglýstar síðar og sérstaklega.
Umsóknareyðublöð verða rafræn á vefsíðu afmælis-nefndarinnar, www.kosningarettur100ara.is. Vefsíðan verður opnuð 24. október.
Frekari upplýsingar veitir Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir, framkvæmdastjóri nefndar um 100 ára afmæli kosningaréttar kvenna, sími: 5630100, póstfang: arj@kosningarettur100ara.is
11 styrkir afhentir úr Starfsmenntunarsjóði ungra kvenna
Þann 28. ágúst sl. voru afhentir 11 styrkir úr Starfsmenntunarsjóði ungra kvenna að heildarupphæð rúmlega 1,2 milljónir króna.
Tilgangur sjóðsins hefur frá upphafi verið að hvetja og styðja við bakið á konum, sem ekki eiga kost á námslánum, til þess að afla sér aukinnar menntunar. Aukin samkeppni í atvinnulífinu kallar á auknar menntunarkröfur og hefur Bandalag kvenna í Reykjavík reynt að styðja við bakið á ungum konum sem hafa hug á að skapa sér og fjölskyldu sinni betri framtíð og styrkja stöðu sína á atvinnumarkaði.
Á sautján starfsárum hefur sjóðurinn úthlutað 130 styrkjum að fjárhæð samtals 14,7 milljónir króna. Starfandi er fjáröflunarnefnd Starfsmenntunarsjóðsins, einnig gefa aðildarfélög BKR til sjóðsins en mestu munar um velvild og styrki fyrirtækja til sjóðsins, m.a. frá Sorpu og Góða hirðinum.