Um admin42

Bandalag kvenna í Reykjavík, BKR, var stofnað 30. maí 1917. Í Bandalaginu eru nú 15 aðildarfélög og eru félagsmenn um 1000 talsins. Aðildarfélögin starfa á margvíslegan máta að félags-, líkar- og mannúðarmálum.

Opinn fundur um konur og fjölmiðla

Konur og fjölmiðlarFöstudaginn 12. september kl. 15-17 standa Bandalag kvenna í Reykjavík í samstarfi við MARK (Miðstöð margbreytileika og kynjarannsókna), HÍ námsbraut í blaða- og fréttamennsku og Félag fjölmiðlakvenna fyrir opnum fundi um hlut kvenna í fjölmiðlum. Fundurinn verður haldinn í Háskóla Íslands, Odda, stofu 101.

Velferðarráðuneytið styrkir viðburðinn.

BKR styrkti MA rannsókn um konur í fjölmiðlum árið 2013 og liggja niðurstöður þeirrar rannsóknar nú fyrir en rannsakandinn kemur m.a. inn á starfsumhverfið á RÚV og 365. Arnhildur Hálfdánardóttur verður með eitt af 3 erindum fundarins en hér má sjá umfjöllun um niðurstöður rannsóknar hennar: Umfjöllun mbl.is
Og hér má nálgast ritgerðina í heild sinni.

Dagskrá fundarins: 

  • “Aðgengi eða áhugi? Munur á efnistökum og vægi frétta eftir karla og konur.” Kynning á niðurstöðum MA rannsóknar. Arnhildur Hálfdánardóttir, MA í blaða- og fréttamennsku
  • Kynning á fjölmiðlaverkefni Félags kvenna í atvinnulífinu (FKA), Þórdís Lóa, formaður FKA
  • “Batnandi konum er best að lifa”. Upplifunarfrásögn – hvað lesa ungar konur úr skilaboðum fjölmiðla. Hildur Knútsdóttir, rithöfundur

Pallborð: Fyrirlesarar, Ingibjörg Dögg Kjartansdóttir, fyrrverandi aðstoðarritstjóri DV frá Félagi fjölmiðlakvenna, Sigríður Hagalín Björnsdóttir, varafréttastjóri RÚV og Hrund Þórsdóttir, fréttamaður á Stöð 2.

Fundarstjóri: Sigríður Dögg Auðunsdóttir, fyrrv. ritstjóri Fréttatímans og stofnandi Inspiral.ly.

Léttar veitingar í boði að fundi loknum.

Viðburðurinn á Facebook

Hlökkum til þess að sjá ykkur sem flest!

Thorvaldsensfélagið styrkir Starfsmenntunarsjóð ungra kvenna

Anna Birna Jensdóttir, formaður Thorvaldsensfélagsins, afhenti í dag styrk félagsins til Starfsmenntunarsjóðs ungra kvenna að upphæð 500.000 kr. Ingibjörg Rafnar Pétursdóttir, formaður BKR, veitti styrknum viðtöku fyrir hönd stjórnar Starfsmenntunarsjóðsins.

Afhending Thorvaldsens

Anna Birna Jensdóttir, formaður Thorvaldsensfélagsins ásamt formanni BKR, Ingibjörgu Rafnar Pétursdóttur.

BKR stofnaði starfsmenntunarsjóð ungra kvenna þann 18. mars 1995. Tilgangur sjóðsins er að hvetja og styðja við bakið á konum, sem ekki eiga kost á námslánum, til að afla sér aukinnar menntunar og styrkja þannig stöðu sína á atvinnumarkaði. Einkum eru þetta ungar einstæðar konur með börn, sem einhverra hluta vegna hafa þurft að hætta námi á sínum tíma.

Thorvaldsensfélagið var stofnað 19. nóvember árið 1875 og heldur úti öflugri starfsemi. Félagið rekur Thorvaldsensbasarinn í Austurstrætinu og hefur nýlega veitti styrki til þróunar á heilsueflandi snjallsímaforriti (appi) í leikjaformi sem er ætlað að hjálpa ungu fólki að bæta heilsu sína með áherslu á mataræði, hreyfingu og geðrækt, Thorvaldsenskonur færðu hjúkrunarheimilinu Mörk Power laser tæki sem notað verður í sjúkraþjálfun Markar. Þær hafa einnig styrkt rausnarlega starfsemi sumarbúðanna í Reykjadal og færðu hjúkrunarheimilinu Grund æfingabekk fyrir sjúkraþjálfun heimilisins. Nánari upplýsingar um félagið má finna á heimasíðu þeirra, thorvaldsens.is

Viðtal við formann BKR hjá Sirrý á sunnudagsmorgni um börn og nútímasamfélag

Formaður BKR, Ingibjörg Rafnar Pétursdóttir, mætti í viðtal til Sirrýar á Rás 2 þann 1. júní sl. ásamt Kristínu Dýrfjörð, dósend við Háskólann á Akureyri. Umfjöllunarefnið var efni fundarins um börn og nútímasamfélag sem BKR stóð fyrir fundinum í samstarfi við fleiri aðila þann 28. maí 2014.

Umfjöllunin hefst á 129 mínútu.

Sirrý á sunnudagsmorgni

Afhending styrkja úr Starfsmenntunarsjóði ungra kvenna

Afhending styrkja úr Starfsmenntunarsjóði ungra kvenna fer fram í hátíðarsal Hallveigarstaða, Túngötu 14, fimmtudaginn 28. ágúst kl. 17:30.

BKR stofnaði starfsmenntunarsjóð ungra kvenna þann 18. mars 1995. Tilgangur sjóðsins er að hvetja og styðja við bakið á konum, sem ekki eiga kost á námslánum, til að afla sér aukinnar menntunar. Einkum eru þetta ungar einstæðar konur með börn, sem einhverra hluta vegna hafa þurft að hætta námi á sínum tíma.

Nánari upplýsingar um starfsmenntunarsjóð ungra kvenna má finna hér.

Stjórn Starfsmenntunarsjóðs ungra kvenna

Samantekt frá fundi um börn og nútímasamfélag

Bandalag kvenna í Reykjavík (BKR) stóð fyrir opnum fundi um börn og nútímasamfélag á Hótel Reykjavík Natura miðvikudaginn 28. maí 2014. Þar var til umræðu hvaða umhverfi við erum að skapa börnunum okkar, viðverutími barna hjá dagforeldrum og í leikskólum og hugmyndir um styttingu vinnudagsins sem lið í samþættingu atvinnu- og fjölskyldulífs.

MP erindiFundarstjóri var Margrét Pála Ólafsdóttir, höfundur Hjallastefnunnar, og flutti hún jafnframt opnunarávarp. Margrét Pála þakkaði BKR fyrir að taka af skarið með þarfa umfjöllun um börn og það samfélag sem við höfum byggt upp.

Að mati Margrétar Pálu hentar núverandi fyrirkomulag börnum ekki sérstaklega vel og samfélagið er ekki nægilega meðvitað um stöðuna. Margt gott er gert, þó taka mætti umræðuna með jákvæðari hætti. Börn þurfa í auknum mæli tíma foreldranna, næði og frið. Nútímasamfélag gerir miklar kröfur til barna og foreldra, ekki síst vegna aukinnar samkeppni á atvinnumarkaði og kröfur um hærra menntunarstig sem leiðir til þess að samhliða fullu starfi eru foreldrar oft í námi. Auk þessa eru kröfur um metnaðarfullan starfsferil, fallegt heimili, frábært félagslíf og lífsgæði sem fela í sér utanlandsferðir og fleira. Margrét Pála spurði hvað þetta þýði fyrir börnin.

Hið nýja gull Vesturlanda sé tíminn – allir keppast um tímann. Börn sem fá allar heimsins gjafir og efnalega velsæld fá oft minnst af þessari gjöf frá fjölskyldunni; tíma, næði og frið.

„Sparsemi í umönnun ungra barna kann að líta vel út í excel skjali en það er einungis vegna þess að dæmið sé ekki reiknað til enda.“

Að loknu opnunarávarpinu fjallaði Sæunn Kjartansdóttir, sálgreinir og höfundur bókarinnar Árin sem enginn man, um kröfur samfélagsins til ungra barna. Sæunn þakkaði BKR fyrir að opna á mjög svo tímabæra umræðu um börn í nútímasamfélagi en að mati Sæunnar höfum við í langan tíma veigrað okkur við að ræða hlutskipti ungra barna. Ástæður þessa taldi Sæunn vera að við viljum forðast bakslag í jafnréttisbaráttunni, viljum ekki vekja sektarkennd hjá foreldrum og í þriðja lagi viljum við sem minnst vesen. Þetta hefur valdið tregðu til þess að horfa á þarfir barna og að leita nýrra leiða til þess að mæta þeim.

Hún vakti máls á því að samfélagið telji lausnina vera þá að byggja nógu marga leikskóla með sem yngstum börnum, til þess að foreldrarnir geti unnið sem mest og áhyggjulaus sinnt öðrum hugðarefnum.

Sæunn hefur sérstaklega sinnt málefnum yngstu barnanna og fjölskyldum þeirra. Í erindi Sæunnar kom fram að hún hefur efasemdir um ungbarnaleikskóla. Hugmyndin þar að baki sé ekki slæm en við höfum ekki sýnt fram á getu okkar til þess að skapa innan leikskólanna „barnsæmandi“ skilyrði.

Í erindi sínu fjallaði Sæunn um þroska heilans, tilfinningaþroska ungra barna, og mikilvægi tilfinningalegra tengsla og ánægjulegra samskipta við umsjónaraðila. Þá hafi langvarandi aðstæður sem skapa streitu hjá ungum börnum áhrif á ónæmiskerfi þeirra og sé barn í viðvarandi aðstæðum sem veldur hræðslu eða kvíða geti það valdið skorti á einbeitingu og aukinni hættu á streitutengdum sjúkdómum, kvíða og þunglyndi, á seinni aldursskeiðum. Það er streituvaldandi fyrir börn að þeim sé ætlaður meiri þroski en þau standa undir – felur í sér að við gerum til þeirra kröfur sem þau ráða ekki við.

Í samræðum við leikskólakennara undanfarin ár hefur Sæunn orðið vör við þungar áhyggjur þeirra af þróun leikskóla – börnin séu of ung og of mörg, þau dvelja í leikskólunum með of fáu starfsfólki, sem margt hvert vantar fagþekkingu og staldrar stutt við.

Foreldrar og samfélagið þarf að horfast í augu við þá staðreynd að það þarf að sinna börnum og það tekur tíma. Að öllu jöfnu eru foreldrar best til þess fallnir og því mikilvægara að lengja fæðingarorlofið heldur en að fjölga plássum á ungbarnaleikskólum. Einnig þurfa foreldrar að vera meðvitaðir um þarfir barna sinna þegar þau forgangsraða tíma sínum. Það þurfi að gera foreldrum kleift að skoða hvað hentar hverju og einu barni og hvað henti þeim sem fjölskyldu.

„Góðærið fór illa með leikskólann og kreppan gerði það líka“

Kristín Dýrfjörð, dósent við Háskólann á Akureyri, ræddi áhrif ytra umhverfis leikskólans á veruleika barna og hvernig leikskólarnir hafa verið að þróast kerfislega síðustu ár.

Í erindi Kristínar kom fram mat hennar að leikskólar séu góðir fyrir börn ef vel er að honum staðið. M.a. þurfi að huga að fermetrafjölda á barn og fjölda barna á starfsmann. Í umræðum um aðbúnað barna er sjaldan rætt um að láta börnin njóta vafans né séu nauðsynlegar rannsóknir gerðar á umhverfi þeirra og niðurstöður þeirra látnar ráða för.

Kristín benti á að stærsta breytingin inni á leikskólunum á undanförnum árum hafi átt sér stað hjá eins og tveggja ára börnum, en þeim hefur fjölgað mikið og hratt á leikskólum síðastliðin ár. Þá fái leikskólabörn í dag minna pláss í fermetrum talið en fyrir rúmum tveimur áratugum. Húsnæði margra leikskóla hafi ekkert breyst eða stækkað en samt hefur plássunum fjölgað gríðarlega. Eftir að ný lög um leikskóla voru sett árið 2008 er hvorki hámark barnafjölda á starfsmann né lágmarksfjöldi fermetra í gildi á Íslandi. Kristín telur að okkur hefur farið aftur og það á kostnað barnanna. Vinnuaðstæður margra kennara séu í dag óviðunandi og meðal annars hafi dregið úr afleysingum eftir hrun.

Kristín fjallaði um að í dag greiði foreldrar að jafnaði 20% raunkostnaðar og hefur hún talað fyrir hugmyndum um að fyrstu 6 tímar barns í leikskóla séu gerðir gjaldfrjálsir en foreldrar greiði fyrir tímana sem þeir þurfi aukreitis, þe. 7., 8. og 9. tímann.

Ágreiningur um áherslur og leiðir

Gunnar Örn Gunnarsson, framkvæmdastjóri SLFÍ og fulltrúi BSRB í vinnuhópi velferðarráðuneytisins um samræmingu fjölskyldulífs og atvinnu, fjallaði um niðurstöður vinnuhópsins sem skilað var fyrri hluta árs 2013.

Vinnuhópurinn taldi að könnun á hagkvæmni þess að stytta vinnuvikuna félli ekki vel að öðrum verkefnum hópsins. Vinnuhópurinn taldi málið þarfnast sérstakrar rannsóknar og dýpri umræðu á öðrum vettvangi, m.a. vegna þess að stytting vinnuvikunnar tengist kjarasamningum á almennum og opinberum vinnumarkaði. Lagt var til að skipuð yrði sérstök nefnd sem eingöngu hefði það verkefni að fjalla um styttingu vinnuvikunnar. Þessi nefnd hefur ekki enn verið skipuð.

Vaktavinnustéttir, t.d. innan BSRB, lögðu í nýlegum kjarasamningum áherslu á styttingu vinnudagsins en sú hugmynd fékk ekki hljómgrunn. Að loknum samningnum er sú hugmynd hvergi á blaði. Kennarar fárra stétta hafa haft sveigjanlegan vinnutíma, en hafa verið að semja þau réttindi af sér jafnt og þétt.

Gunnar nefndi nokkrar mögulegar leiðir til bóta til að auðvelda samþættingu atvinnu og fjölskyldulífs, þ.á.m. styttingu vinnuvikunnar, sveigjanlegan vinnutíma, breytt viðhorf gagnvart löngum viðverutíma á vinnustað, og mannsæmandi laun fyrir dagvinnu.

Af hverju eiga börnin og leikskólarnir alltaf að koma til móts við atvinnulífið – er ekki kominn tími til að atvinnulífið komi til móts við þarfir barnanna og barnafjölskyldna?

Að loknum voru pallborðsumræður þar sem Hrefna Sigurjónsdóttir, framkvæmdastjóri Heimilis og skóla – landssamtaka foreldra, og Sveinn S. Kjartansson, formaður Félags foreldra leikskólabarna, tóku þátt. Áhersla var lögð á að efla þurfi umræðuna um velferð ungra barna og þann raunveruleika sem ríkir innan leikskólanna.

Áhyggjur voru af lengdum viðverutími barna í leikskólum og fjölgun barna sem eru upp í 9 tíma í leikskóla á dag. Breyta þurfi viðhorfinu að leikskólinn eigi ávallt að koma til móts við þarfir foreldranna og atvinnulífið og að tími sé kominn til þess að atvinnulífið komi til móts við þarfir barna og barnafjölskyldna.

Myndir frá viðburðinum má nálgast á Facebook síðu BKR.

Auglýst eftir umsóknum um styrki til Starfsmenntunarsjóðs ungra kvenna, 2014-2015

Bandalag kvenna í Reykjavík auglýsir eftir umsóknum um styrki til Starfsmenntunarsjóðs ungra kvenna fyrir skólaárið 2014-2015.

Tilgangur sjóðsins er að hvetja og styðja við bakið á ungum konum í Reykjavík, sem ekki eiga kost á námslánum, til að afla sér aukinnar menntunar.

Umsóknareyðublað, úthlutunarreglur og allar nánari upplýsingar má nálgast hér.

Einnig má nálgast umsóknareyðublöð í versluninni Thorvaldsensbasarinn, Austurstræti 4, alla virka daga milli kl. 14:00 og 18:00.

Fyrirspurnir og upplýsingar má senda á netfang bandalagsins: bandalagkvennarvk@gmail.com

Umsóknir um styrki skal senda til Bandalags kvenna í Reykjavík, Túngötu 14, 101 Reykjavík, merktar „Námsstyrkir‟. Umsóknarfrestur er til 19. júní næstkomandi.

Morgunfundur um börn og nútímasamfélag, miðvikudaginn 28. maí

Opinn fundur um börn og nútímasamfélagBKR í samstarfi við velferðarráðuneytið stendur fyrir opnum fundi um börn og nútímasamfélag. Fjallað verður um hvaða umhverfi við erum að skapa börnunum okkar, dagvistunarmál og samþættingu atvinnu- og fjölskyldulífs. Ókeypis aðgangur og allir velkomnir.

Fundurinn er haldinn á Hótel Reykjavík Natura, Þingsal 2 kl. 08.30-10:00. Sjá dagskrá hér fyrir neðan.

Tölur Hagstofunnar sýna að dagvistunartími barna hefur lengst töluvert frá árinu 1998 og hefur fjöldi þeirra barna sem dvelja á leikskólum í 7-10 klst á dag margfaldast frá þeim tíma. Áhugavert er að varpa ljósi á þessa þróun og velta fyrir sér hvaða ástæður liggja að baki, m.a. í samhengi við vinnutíma foreldra og hvaða sveigjanleika fjölskyldum er veitt í atvinnulífinu.

Hefur efnahagshrunið haft áhrif á fjölskyldumynstrið? Nýlegar rannsóknir sýna að ungum konum fannst erfiðara árið 2012 að samræma fjölskyldu- og atvinnulíf í samanburði við árið 2007.

Leikskólar og dagvistun barna tengist nokkrum markmiðum sem þurfa að fara saman, m.a. menntamálum og að auðvelda foreldrum að sinna atvinnu samhliða því að veita börnunum öruggt umhverfi, nálægð og nauðsynlega umönnun. Á Íslandi vinna flestir foreldrar fulla dagvinnu og margir hverjir töluverða yfirvinnu. Spyrja má hvort atvinnulífið veiti foreldrum nauðsynlegt svigrúm til þess að hugsa um fjölskylduna (börn, veika eða aldraða ættingja), þ.e. er lögð fullnægjandi áhersla á samþættingu atvinnu- og fjölskyldulífs í dag? Hvaða hugmyndir eru að baki umræðunni um styttingu vinnudagsins og hverjar voru niðurstöður starfshóps velferðarráðuneytisins um samræmingu fjölskyldulífs og atvinnu sem skilaði greinargerð sinni í apríl 2013?

Dagskrá:

Fundarstjóri: Margrét Pála Ólafsdóttir, höfundur Hjallastefnunnar
08:30Inngangsorð: Börn þurfa betri heim – Margrét Pála Ólafsdóttir, fundarstjóri
08:40 – Kröfur samfélagsins til ungra barna –  Sæunn Kjartansdóttir, sálgreinir, Miðstöð foreldra og barna og höfundur bókarinnar Árin sem enginn man
09:00Áhrif ytra umhverfis leikskólans á veruleika barna innan hans – Kristín Dýrfjörð, dósent við Háskólann á Akureyri
09:20Samræming fjölskyldulífs og atvinnu og stytting vinnudagsins – Gunnar Örn Gunnarsson, framkvæmdastjóri SLFÍ og fulltrúi BSRB í vinnuhópi velferðarráðuneytisins um samræmingu fjölskyldulífs og atvinnu

09:30 – 10:00 – Pallborðsumræður
Í pallborðsumræðunum sitja ásamt fyrirlesurum Hrefna Sigurjónsdóttir, framkvæmdastjóri Heimilis og skóla – Landssamtök foreldra, og Sveinn S. Kjartansson, formaður Félags foreldra leikskólabarna.

Ókeypis aðgangur – kaffi/te og léttar veitingar.

Dagskrá fundarins var undirbúin í samstarfi við Miðstöð foreldra og barna, Heimili og skóli – landssamtök foreldra, Félag dagforeldra, Félag foreldra leikskólabarna og Félag leikskólakennara. Fundurinn er styrktur af velferðarráðuneytinu.

Vonumst til þess að sjá ykkur sem flest!

Viðburðurinn á Facebook

Stjórn BKR

Fimmtudaginn 10. apríl voru fráfarandi stjórnarkonur kvaddar og nýjar stjórnarkonur boðnar velkomnar. Við þetta tækifæri voru að sjálfsögðu teknar myndir af þessum glæsilegu og kröftugu konum sem taka þátt í stjórn bandalagsins.

Stjórn BKR 2014-2015:

Helga Einarsdóttir, Fanney Úlfljótsdóttir, Hjördís Jensdóttir, Hjördís Hreinsdóttir, Hulda Ólafsdóttir, Oddný Björgvinsdóttir, Ingibjörg Rafnar Pétursdóttir

Helga Einarsdóttir, Fanney Úlfljótsdóttir, Hjördís Jensdóttir, Hjördís Hreinsdóttir, Hulda Ólafsdóttir, Oddný Björgvinsdóttir, Ingibjörg Rafnar Pétursdóttir

Stjórn BKR 2013-2014:

Hjördís Jensdóttir, Guðlaug Jónína Aðalsteinsdóttir, Hulda Ólafsdóttir, Hjördís Hreinsdóttir og Ingibjörg Rafnar Pétursdóttir. Á myndina vantar Sigríði Hjálmarsdóttur og Öldu Magnúsdóttur.

Hjördís Jensdóttir, Guðlaug Jónína Aðalsteinsdóttir, Hulda Ólafsdóttir, Hjördís Hreinsdóttir og Ingibjörg Rafnar Pétursdóttir. Á myndina vantar Sigríði Hjálmarsdóttur og Öldu Magnúsdóttur.

 

Vinnustofa um sjálfboðastarf og tengslanet

Vinnustofa um sjálfboðastarf og tengslanetBandalag kvenna í Reykjavík í samstarfi við Dale Carnegie og Festu – samfélagsábyrgð fyrirtækja, stóð fyrir vinnustofu í dag undir yfirskriftinni “Sjálfboðastarf og tengslanet”.

Vinnustofan var mjög vel sótt og góðar umræður sköpuðust um þátttöku einstaklinga í samfélagsverkefnum og ávinning, hvaða tækifæri eru fyrir hendi, hvaða atriði geta hindrað þátttöku og hvernig megi bregðast við þeim þáttum.

Stjórnendur vinnustofunnar voru Halldóra Proppé frá Dale Carnegie og Ketill B. Magnússon frá Festu – samfélagsábyrgð fyrirtækja og fjölluðu þau um þátttöku í sjálfboðaliðastörfum og ávinninginn af þátttöku – t.d. að efla tengslanetið og læra að virkja það, öðlast nýja reynslu, aukin hamingja og að gefa af sér. Einnig var rætt um borgaralega ábyrgð einstaklinga og þátttöku í samfélagsuppbyggingu og samfélagsábyrgð fyrirtækja.

Þátttakendur vinnustofunnar leystu af hendi einfalt verkefni sem snéri að því hvernig viðkomandi gæti best nýtt krafta sína í samfélagsstörfum og finna út á hvaða vettvangi þeir vildu helst starfa. Æfingin fól m.a. í sér að þátttakendur settu niður á blað þrjá styrkleika sem þeir eru gæddir, þrjú atriði sem viðkomandi hefur gaman að og þrjá málaflokka sem þátttakendur hefðu áhuga á að starfa í tengslum við.

Við þökkum þátttakendum vinnustofunnar kærlega fyrir þátttökuna og hvetjum ykkur til þess að hafa samband við BKR ef einhverjar spurningar kvikna um sjálfboðastörf og þátttöku í samfélagsverkefnum. Netfang BKR er bandalagkvennarvk (hjá) gmail.com og frekari upplýsingar um aðildarfélögin má finna hér: Aðildarfélög BKR

Myndir frá vinnustofunni:

Ókeypis vinnustofa um sjálfboðastörf og tengslanet – samstarfsverkefni BKR, Festu – Samfélagsábyrgð fyrirtækja og Dale Carnegie

Tengslanet og sjálboðastörfBandalag kvenna í Reykjavík stendur fyrir vinnustofunni “Sjálfboðastarf og tengslanet” föstudaginn 4. apríl kl. 13-15 í samstarfi við Dale Carnegie og Festu – Samfélagsábyrgð fyrirtækja.

Að taka þátt í sjálfboðastarfi veitir einstaklingum tækifæri til að vaxa og þroska hæfileika sína. Það opnar líka á tækifæri til að kynnast áhugaverðu fólki auk þess að byggja upp tengsl. Sjálfboðastarf er beggja hagur. Það er gefur fólki meiri lífsfyllingu að leggja sitt að mörkum en jafnframt gefur það möguleika á að stærra tengslaneti.

Með vinnustofunni nærð þú fram sama ávinningi og með annars konar aðgerðum til að stækka tengslanetið og færð auk þess aukna fullnægju af því að vita að þú er að gefa af tíma þínum og orku í þágu góðs málefnis.

Skráðu þig núna og láttu til þín taka!

Ketill B. Magnússon, framkvæmdastjóri Festu – Samfélagsábyrgð fyrirtækja

Hvenær: Föstudaginn 4. apríl kl. 13.00-15.00
Hvar: Ármúla 11, 3. hæð
Fyrir hverja: Þá sem vilja stækka tengslanet sitt með störfum í þágu samfélagsins.
Stjórnendur vinnustofunar: Ketill B. Magnússon, framkvæmdarstjóri Festu og Halldóra Proppé, Dale Carnegie þjálfari.
Verð: Ókeypis

Nánar um viðburðinn og viðtal við formann BKR, framkvæmdastjóra Festu og formann Styrktarfélags krabbameinsveikra barna.

 

 

98. þing BKR, ný stefnuskrá og afhending viðurkenninga

Viðurkenningarhafar 2014 og formaður BKR98. þing Bandalags kvenna í Reykjavík var haldið 8. mars 2014. Á þinginu var farið í gegnum venjuleg aðalfundarstörf. Upplýsingar um breytingar á stjórn og nefndum verða birtar síðar.

Á fundinum var samþykkt ný stefnuskrá fyrir Bandalag kvenna í Reykjavík sem byggir á lögum og reglum BKR, sögu félagsins og þeirri stefnumótun sem hefur verið unnin að undanförnu. Í stefnuskránni er leitast við að skilgreina nánar áherslusvið bandalagsins og sameiginlega framtíðarsýn.

Stefnuskrána má nálgast hér: Stefnuskrá BKR

Nýtt félag,POWERtalk á Íslandi, gekk til liðs við Bandalag kvenna í Reykjavík við mikinn fögnuð og eru aðildarfélög BKR nú sextán talsins. Markmið samtakanna er að gefa einstaklingum hvar sem er í heiminum tækifæri til sjálfsþroska með markvissri þjálfun í tjáskiptum og stjórnun.

Jafnframt afhenti BKR í fyrsta sinn viðurkenningar bandalagsins til aðila sem starfa að áherslusviðum og markmiðum félagsins. BKR telur mikilvægt að vekja athygli á því góða starfi sem unnið er á öllum sviðum samfélagsins.

Viðurkenninguna KONA ÁRSINS 2014 hlaut Herdísi Storgaard fyrir áratuga langa baráttu á sviði slysavarna, og þá sérstaklega barna. Herdís er framkvæmdastjóri Slysavarnahússins og frumkvöðull í slysavörnum barna. Einnig stýrir hún tilraunaverkefni um slysavarnir aldraðra fyrir Reykjavíkurborg.

Kvenfélagið Hringurinn hlaut viðurkenninguna KVENFÉLAG ÁRSINS 2014 fyrir störf í þágu líknar- og mannúðarmála og uppbyggingu Barnaspítala Hringsins. Félagið fagnaði 110 ára afmæli sínu á árinu og veitti af því tilefni Barnaspítala Hringsins 110 milljón króna gjöf sem gerir spítalanum kleift að vera meðal þeirra fremstu í heiminum. Árið 2012 fékk Barnaspítali Hringsins 70 milljón króna gjöf frá kvenfélaginu í tilefni af 70 ára afmæli Barnaspítalasjóðs. Formaður Hringsins, Valgerður Einarsdóttir, tók við viðurkenningunni fyrir hönd kvenfélagsins. Hér má sjá erindi Valgerðar á þinginu: Ávarp Valgerðar Einarsdóttir, formanns Hringsins

HVATNINGARVIÐURKENNINGU BKR 2014 hlaut veftímaritið kritin.is fyrir brautryðjandi starf í umræðu um skólamál. Veftímaritið Krítin var stofnað í maí 2012. Ritstjórar og hugmyndasmiðirnir veftímaritsins eru Edda Kjartansdóttir og Nanna Kristín Christiansen sem tóku við viðurkenningunni á fundinum. Markmið Krítarinnar er að auka faglega umræðu um málefni skóla og auka virðingu fyrir því starfi sem þar fer fram. Hér má sjá ávarp Eddu og Nönnu á þinginu: Ávarp Eddu og Nönnu frá kritin.is

Eftirfarandi ályktanir voru samþykktar á þinginu:

Aðildarfélög Bandalags kvenna í Reykjavík (BKR) skora á stjórnvöld að standa vörð um menntakerfið og og tryggja samfellu í skólastarfi. BKR hvetur til þess að á tímum niðurskurðar sé menntun sett framarlega í forgangsröð og haldi sínum sessi sem ein af grunnstoðum samfélagsins. Nemendur og kennarar þarfnast þess að vinnan sem fram fer í skólum sé metin að verðleikum.

 

Til velferðarráðuneytisins, velferðarnefndar Alþingis og formanna stjórnmálaflokka:

Bandalag kvenna í Reykjavík (BKR) mótmælir þeim mikla niðurskurði sem hefur átt sér stað á grunnheilbrigðisþjónustu. Niðurskurðurinn endurspeglast m.a. í skerðingu á þjónustu í mæðravernd og við fyrirbura, svo og á þjónustu í heilsugæslu , t.d. brjóstaráðgjöf, og slysavörnum barna. Einnig vekur BKR athygli á þeim aðstæðum sem skapast hafa á landsbyggðinni í þjónustu við verðandi mæður og börn.

Stjórn BKR þakkar fyrir góðan fund og við hlökkum til samstarfsins á nýju starfsári!

 

 

98. þing BKR á alþjóðadegi kvenna, 8. mars 2014

98. þing BKR verður haldið á alþjóðadegi kvenna, laugardaginn 8. mars 2014, að Hótel Reykjavík Natura, Nauthólsvegi 52, kl. 10:00 f.h. Húsið opnar kl. 09:30.

Fundarboðið og dagskrárdrög hafa verið póstlögð til formanna aðildarfélaganna ásamt kjörbréfum sem félögin þurfa að fylla út og senda til skrifstofu BKR fyrir 4. mars n.k. Samkv. 5. gr. í lögum bandalagsins, lið b), hefur hvert aðildarfélag heimild til að senda 3 fulltrúa með atkvæðisrétt á þingið, en áheyrnarfulltrúum er heimil seta á ársþingi BKR með málfrelsi og tillögurétti.

Á þinginu verða afhentar viðurkenningar Bandalags kvenna í Reykjavík: Kona ársins, kvenfélag ársins og hvatningarverðlaun BKR. 

Að fundi loknum snæðum við hádegisverð saman til heiðurs viðurkenningarhöfum og fögnum starfsárunum 98!

Veitingar:
Kaffi, heilsuskot og ferskir niðurskornir ávextir við komu
Hádegisverður:
Kjúklingabringa með svepparisotto og kryddjurtasalati
Kaffi og sætindi eftir mat

Stjórn BKR

Námskeið um fundarsköp og fundarstjórn

BKR býður félagskonum aðildarfélaganna að taka þátt í námskeiði um fundarsköp og fundarstjórn fimmtudaginn 30. janúar kl. 19:30-22:00 í sal Hallveigarstaða, Túngötu 14.

Fjallað verður almennt um lykilatriði í fundarstjórn, og þátttakendur gera verklegar æfingar í fundarritun og fundarstjórn. Námskeiðið ætlað öllum þeim sem hafa áhuga á að kynna sér betur og skerpa á grunnatriðum fundarskapa og ekki síður gott fyrir þá sem vilja fá aukið sjálfstraust í þátttöku á fundum þar sem reglurnar gilda.

Ingibjörg Vigfúsdóttir frá Powertalk International er leiðbeinandi námskeiðsins:

Ingibjorg Vigfusdottir_myndIngibjörg Vigfúsdóttir, er fædd 19. maí árið 1956, í Seljatungu, Gauðverjabæjarhreppi – í Árnessýslu.  Þar  ólst hún upp ásamt foreldrum sínum og bræðrum til 16 ára aldurs.  Hún lauk gagnfræðaprófi frá Gagnfræðaskóla Selfoss og síðar útgerðartækni frá Tækniskóla Íslands.  Hún starfaði hjá útgerðarfyrirtækjum , á Eyrarbakka og síðan hjá Granda í Reykjavík í tvo áratugi.  Nú starfar hún hjá Skiptum, móðurfélagi Símans, og sinnir þar skipulagningu ferðalaga starfsmanna.  Ingibjörg er tvígift og á eina dóttur barna.  Hún les mikið, fer gjarnan í leikhús og á tónleika – þykir gaman að borða og elda mat, ekki síst í góðra vina hópi.  Fer í laxveiðar á sumrin með manni sínum og vildi gjarnan geta notað afganginn af árinu til ferðalaga.

Fyrst og fremst lofum við skemmtilegu kvöldi í góðum félagsskap!

Skráningarfrestur er til 28. janúar – skráning sendist á netfangið: bandalagkvennarvk@gmail.com 

Við vonumst til þess að sjá ykkur sem flestar!

Viltu prófa eitthvað nýtt, efla tengslanetið og láta gott af þér leiða?

Innan BKR eru 15 aðildarfélög sem starfa starfa á breiðum grunni að félags-, líknar- og mannúðarmálum. Verkefni kvenfélaganna eru fjölbreytt og mótast starfsemi og áherslur þeirra af þeim konum sem taka þátt í starfinu hverju sinni.

Kvenfélögin í Reykjavík starfa flest í tengslum við ákveðna málaflokka og/eða ákveðna borgarhluta og eru þannig í einstöku sambandi við nærumhverfi sitt og samfélag. Þannig þekkja þau vel hvar þörf er fyrir aðstoð hverju sinni og hvað má bæta í samfélagi nútímans.

Taktu þátt í skemmtilegu starfi kvenfélaganna og láttu gott af þér leiða!

Hér getur þú skoðað nánari upplýsingar um aðildarfélög BKR, starfsemi og skipulag.