Úr glatkistunni – Málþing fimmtudaginn 29. október

Bandalag kvenna í Reykjavík tekur þátt í hátíðarhöldunum í tilefni af 100 ára afmæli kosningaréttar kvenna á Íslandi og stendur fyrir opnu málþingi um handrit úr sögu kvenna fimmtudaginn 29. október kl. 16-17.30 í Háskólanum í Reykjavík. Viðburðurinn er haldinn í samstarfi við Framkvæmdanefnd um 100 ára afmæli kosningaréttar kvenna.

Málþingið er framlag BKR í viðburðadagskrá í tilefni af 100 ára afmælisárs kosningaréttar kvenna á Íslandi og er sprottið úr þjóðarátaki í söfnun skjala kvenna í tilefni afmælisársins, samvinnuverkefnis Landsbókasafns Íslands – Háskólabókasafns, Þjóðskjalasafns Íslands, Borgarskjalasafns Reykjavíkur og héraðsskjalasafna. Erindi fundarins snúa að öflun og úrvinnslu heimilda en saga kvenna hefur fengið litla athygli í sögubókum og sýningum, m.a. vegna þess að minna hefur varðveist af skjölum þeirra en karla.

Skjalasöfn kvenna eru oft af öðru meiði og persónulegri en skjalasöfn karla, á borð við bréf og dagbækur, og veita innsýn í líf einstaklinga og fjölskyldna. Þau fjalla frekar um fjölskylduna, matarsiði, handavinnu, heilsu og tilfinngar, á meðan skjöl karla innihalda oftar skrif um stjórnmál, veðurfar og atvinnu. Varðveitt skjöl kvenna eru merkilegar heimildir sem fylla upp í heildarmynd um líf og sögu Íslendinga.

Fyrirlesarar málþingsins eru Gunnhildur Hrólfsdóttir með erindið Þær þráðinn spunnu: afrek kvenna í aldanna rás, Erla Hulda Halldórsdóttir sem flytur fyrirlesturinn Ógipt vinnukona á sama bæ: um sögu kvenna og spjöld sögunnar, og Alma Ómarsdóttir með erindið Stúlkurnar á Kleppjárnsreykjum: lauslæti og landráð.

Sjá allar nánari upplýsingar á Facebook-síðu málþingsins. Við hvetjum ykkur til þess að mæta og fagna afmælisárinu með þessum frábæru fyrirlesurum!

Úr glatkistunni: Málþing um handrit úr sögu kvenna

 

Kvenfélag Bústaðasóknar styrkir Starfsmenntunarsjóð ungra kvenna

Formaður Kvenfélags Bústaðasóknar, Hólmfríður Ólafsdóttir, afhenti í dag formanni Bandalags kvenna í Reykjavík, Ingibjörgu Rafnar Pétursdóttur, styrk kvenfélagsins til Starfsmenntunarsjóðs ungra kvenna upp á 100 þúsund krónur.

Bandalag kvenna í Reykjavík færir Kvenfélagi Bústaðasóknar bestu þakkir fyrir styrkinn til sjóðsins sem í ár fagnar 20 ára starfsafmæli. Frá upphafi hefur verið úthlutað úr sjóðnum styrkjum að upphæð tæplega 16 milljóna króna til um 140 ungra kvenna sem ekki eiga annan kost á námslánum.

Hólmfríður Ólafsdóttir, formaður Kvenfélags Bústaðakirkju afhentir Ingibjörgu Rafnar Pétursdóttur, formanni BKR styrk kvenfélagsins til Starfsmenntunarsjóðs ungra kvenna

Hólmfríður Ólafsdóttir, formaður Kvenfélags Bústaðakirkju afhentir Ingibjörgu Rafnar Pétursdóttur, formanni BKR styrk kvenfélagsins til Starfsmenntunarsjóðs ungra kvenna

 

Átta styrkir afhentir úr Starfsmenntunarsjóði unga kvenna

Þann 27. ágúst voru afhentir átta styrkir úr Starfsmenntunarsjóði ungra kvenna að heildarupphæð 785.000 kr.

Styrkþegar 2015 ásamt stjórn Starfsmenntunarsjóðins

Styrkþegar 2015 ásamt stjórn Starfsmenntunarsjóðins

Á tuttugu starfsárum hefur sjóðurinn úthlutað 138 styrkjum að fjárhæð samtals að andvirði 15,5 m.kr. Starfandi er fjáröflunarnefnd Starfsmenntunarsjóðsins, einnig gefa aðildarfélög BKR til sjóðsins en mestu munar um velvild og styrki fyrirtækja til sjóðsins, m.a. frá Sorpu og Góða hirðinum.

Nánar um Starfsmenntunarsjóð ungra kvenna hér.

 

99. ársþing BKR og afhending viðurkenninga BKR 2015

99. þing Bandalags kvenna í Reykjavík var haldið laugardaginn 7. mars 2015. Á þinginu var farið í gegnum venjuleg aðalfundarstörf.

Á fundinum afhenti BKR í annað sinn viðurkenningar bandalagsins til aðila sem starfa á áherslusviðum félagsins. BKR telur mikilvægt að vekja athygli á því góða starfi sem unnið er á öllum sviðum samfélagsins.

Viðurkenninguna KONA ÁRSINS 2015 hlaut Þórdís Elva Þorvaldsdóttir fyrir ómetanlegt hugsjónastarf á sviði jafnréttis, m.a. gegn kynbundnu ofbeldi og klámvæðingu með áherslu á ungt fólk á mótunarárum. Þórdís Elva hefur meðal annars gefið út bókina „Á mannamáli“ auk þess sem hún er höfundur heimildamyndanna „Fáðu Já“ og „Stattu með þér!“ sem ætlaðar eru ungu fólki og eiga það sameiginlegt að spyrna gegn kynferðisofbeldi og klámvæðingu á lausnamiðaðan máta með sjálfsvirðingu og jákvæðni að vopni. Nú hefur hún tekið höndum saman með Vodafone með fyrirlestraröðina „Ber það sem eftir er: Um sexting, hefndarklám og netið“ sem er hugsuð sem fræðsla fyrir foreldra um öryggi barna í stafrænum samskiptum.

Thorvaldsensfélagið hlaut viðurkenninguna KVENFÉLAG ÁRSINS 2015 fyrir ómetanlegt starf í þágu barna í 140 ár. Félagið er elsta kvenfélagið í Reykjavík og fagnar 140 ára afmæli sínu á árinu 2015. Í áraraðir hefur Thorvaldsensfélagið styrkt barnadeildina sem var á Landakoti og síðar á Landspítalanum í Fossvogi til tækjakaupa og annarra hluta er þörf hefur verið á, en eftir að þær voru lagðar niður stofnaði félagið sérstakan sjóð við Barnaspítala Hringsins til styrktar sykursjúkum börnum og unglingum með 10 milljón króna framlagi. Félagið styrkir einnig fjölskyldur veikra barna, unglingastarf, vímuvarnir,verkefni í þágu aldraðra og margs konar landssafnanir. Á síðustu árum hefur Thorvaldsensfélagið m.a. unnið með Heilsuskóla Barnaspítala Hringsins og styrkti þróun á heilsueflandi snjallsímaforriti (appi) í leikjaformi sem er ætlað til þess að hjálpa ungu fólki að bæta heilsu sína með áherslu á mataræði, hreyfingu og geðrækt.

HVATNINGARVIÐURKENNINGU BKR 2015 hlaut Félag fósturforeldra fyrir starf fósturforeldra um land allt í umönnun barna þegar aðstæður leyfa ekki að börn og unglingar dvelji á heimilum sínum, varanlega eða tímabundið. Starf fósturforeldra er mjög falið enda um viðkvæman málaflokk að ræða og aðilar bundnir trúnaði. Eins og gefur að skilja hefur slík opnun á heimili sínu og einkalífi mikil áhrif á líf viðkomandi og tengjast aðilar tilfinningaböndum sem getur reynst erfitt þegar um tímabundna vistun er að ræða. Margar brotalamir eru í kerfinu þegar kemur að málefnum barna og fósturforeldra, m.a. hvað varðar réttindamál og hefur ný stjórn Félags fósturforeldra nú lagt ríkari áherslu á að tryggja réttindi barnanna og fósturforeldra innan þess.

Á meðfylgjandi mynd eru viðurkenningahafar árið 2015 ásamt formanni BKR:

Frá vinstri: Guðbergur G. Birkisson, fyrir hönd Félags fósturforeldra; Þórdís Elva Þorvaldsdóttir; Anna Birna Jensdóttir, fyrir hönd Thorvaldsensfélagsins og Ingibjörg Rafnar Pétursdóttir, formaður BKR.

Frá vinstri: Guðbergur G. Birkisson, fyrir hönd Félags fósturforeldra; Þórdís Elva Þorvaldsdóttir; Anna Birna Jensdóttir, fyrir hönd Thorvaldsensfélagsins og Ingibjörg Rafnar Pétursdóttir, formaður BKR.

Eftirfarandi ályktanir voru samþykktar á þinginu:

BKR fagnar ákvörðun velferðarráðherra að taka stjórnsýslu á sviði félagsþjónustu og barnaverndar til enduskoðunar í samvinnu við helstu hagsmunaaðila. Nefnd á vegum ráðherra hefur verið skipuð og henni ætlað að skila tillögum á þessu sviði fyrir páska. Þá leggur BKR áherslu á að rætt sé við Félag fósturforeldra, sem býr yfir dýrmætri innsýn hvað varðar stöðu og réttindi barna og ungmenna sem þurfa á skjóli að halda utan heimilis síns vegna erfiðra aðstæðna heimafyrir.

Ályktunin var send velferðarráðherra, starfsmönnum velferðarráðuneytisins, formanni nefndar um stjórnsýslu á sviði félagsþjónustu og barnaverndar og öðrum nefndarmönnum, og starfsmönnum og stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga.


Bandalag kvenna í Reykjavík hvetur stjórnvöld til þess að hlúa vel að því umhverfi sem ungum börnum er skapað, bæði innan dagforeldrakerfisins og í leikskólum. Í leikskólum um land allt er sinnt mjög góðu starfi en víða þarf að búa starfsumhverfinu betri skilyrði, m.a. með auknum fjárveitingum. Þá hvetur BKR einnig til þess að stjórnvöld horfi í auknum mæli til hugmynda tengdum samþættingu fjölskyldu- og atvinnulífs og kanni m.a. möguleika til styttingar vinnudagsins. Atvinnulífið þarf að koma betur til móts við börnin og barnafjölskyldur.


BKR leggur áherslu á mikilvægi þess að foreldrar ræði við börn og unglinga um góðar netvenjur og heilbrigð samskipti á samfélagsmiðlum. Í ljósi umræðu undanfarin ár um gróft neteinelti og hefndarklám er mikilvægt að foreldrar kynni sér vefsíður og samskiptaforrit (öpp) sem börn og unglingar notast við í ntímasamfélagi og ræði við þau um orsakir og afleiðlingar myndbirtinga á netinu sem gefa haft mikil áhrif á líf og framtíð barnanna. Þá hvetur BKR foreldra til þess að skoða ábyrgð sína þegar kemur að myndbirtingu af börnum sínum á samfélagsmiðlum og friðhelgi barnanna.


Ársþing BKR fagnar þingsályktunartillögu um stofnun embættis umboðsmanns aldraðra og hvetur til að hún verði samþykkt. Í takt við aukið hlutfall aldraðra af fóllksfölda eykst mikilvægi þess að hafa málsvara til að standa vörð um réttindi og þar með velferð þegar álitamál koma upp.


BKR gerir athugasemd við frumvarp til laga um afnám laga um orlof húsmæðra í ljósi þess að enn hallar á konur í þjóðfélaginu og þá sérstaklega eldri konur og láglaunakonur á öllum aldri, en þetta eru þeir hópar sem nýta sér orlof húsmæðra í Reykjavík. Þessir tveir hópar eiga langt í land hvað varðar jafnrétti í launum. BKR telur því framlagningu lagafrumvarpsins ótímabæra.

Hér má finna umsögn Orlofsnefndar húsmæðra í Reykjavík (nefnd á vegum BKR) um frumvarp til laga um afnám laga um orlof húsmæðra sem send var Alþingi.

 

99. ársþing BKR, laugardaginn 7. mars

99. ársþing BKR verður haldið laugardaginn 7. mars 2015, að Kaffi Nauthól, Nauthólsvegi 106, kl. 10:00 f.h. Húsið opnar kl. 09:30.

Fundarboðið og dagskrárdrög hafa verið send formönnum aðildarfélaganna og nefnda BKR ásamt kjörbréfum sem félögin þurfa að fylla út og senda til skrifstofu BKR fyrir 2. mars n.k. Samkv. 5. gr. í lögum bandalagsins, lið b), hefur hvert aðildarfélag heimild til að senda 3 fulltrúa með atkvæðisrétt á þingið, en áheyrnarfulltrúum er heimil seta á ársþingi BKR með málfrelsi og tillögurétti.

Á þinginu verða afhentar viðurkenningar Bandalags kvenna í Reykjavík: Kona ársins, kvenfélag ársins og hvatningarviðurkenning BKR. 

Að fundi loknum snæðum við hádegisverð saman til heiðurs viðurkenningarhöfum og fögnum starfsárunum 99!

Hádegisverður:
Blandað úrvals-smurbrauð
Eplakaka með þreyttum rjóma

Stjórn BKR

BKR gefur framhaldsskólum í Reykjavík eintak af heimildarmyndinni Miss Representation

Fanney Úlfljótsdóttir, gjaldkeri BKR, afhendir Sigurrós Erlingsdóttur, aðstoðarskólastjóra Menntaskólans við Sund, eintak af heimildarmyndinni Miss Representation

Fanney Úlfljótsdóttir, gjaldkeri BKR, afhendir Sigurrós Erlingsdóttur, aðstoðarskólastjóra Menntaskólans við Sund, eintak af heimildarmyndinni Miss Representation.

Í haust stóð BKR fyrir opnum fundi um konur og fjölmiðla og í tengslum við þann viðburð var ákveðið að gefa öllum framhaldsskólum í Reykjavík eintak af heimildarmyndinni Miss Representation sem gefin var út árið 2011. Myndin fjallar um það hvernig konur eru túlkaðar í fjölmiðlum og vakti útgáfa myndarinnar tímabæra umræðu á heimsvísu um fjarveru kvenna frá valdamiklum stöðum og takmarkanir á birtingamyndum kvenna og stúlkna í fjölmiðlum. Þá undirstrikar efni myndarinnar mikilvægi kennslu í fjölmiðlalæsi fyrir sjálfstraust ungra kvenna og valdeflingu þeirra.

Rannsóknir í Bandaríkjunum sýna að ungt fólk í dag fylgist með fjölmiðlum allt að helming dagsins. Meirihluti efnisins sýnir konur sem hlutgerðar eða sem kyntákn. Slíkar birtingarmyndir hafa langtímaáhrif á bæði ungar konur og menn. Þá sýna rannsóknir hér á landi að konur eru aðeins um þriðjungur þeirra sem birtast í fjölmiðlum auk þess sem birtingarmynd þeirra er á annan veg en karla. Ójöfn umfjöllun um kynin í fjölmiðlum eiga sinn þátt í að skapa og viðhalda kynjaskekkjunni í þjóðfélaginu þar sem staðlaðar kynjaímyndir skipa stóran sess.

Við hjá BKR vonumst til þess að eintakið af myndinni nýtist nemendum í útlán á bókasafni og kennurum til kennslu, bæði á sviði fjölmiðlalæsis og birtingarmynda kynjanna sem og ensku. Hugmyndir um hvernig nýta má myndina í kennslu má finna víða á netinu, m.a. á vefnum therepresentationproject.org, en umræðuefnin geta t.d. verið um hvernig fjölmiðlar móta viðhorf og menningu í samfélaginu, hvernig hægt er að bera kennsl á jákvæðar og sterkar konur í fjölmiðlum, og hvernig staðalímyndir kynjanna takmarka bæði stráka og stelpur.

media-lit

Samantekt – Opinn fundur um konur og fjölmiðla

Arnhildur myndFöstudaginn 12. september stóð Bandalag kvenna í Reykjavík (BKR) í samstarfi við MARK (Miðstöð margbreytileika og kynjarannsókna), HÍ námsbraut í blaða- og fréttamennsku og Félag fjölmiðlakvenna fyrir opnum fundi um hlut kvenna í fjölmiðlum. Fundurinn var haldinn í Háskóla Íslands. Þar var til umræðu hvaða starfsumhverfi ríkir inni á fjölmiðlunum, hvort munur sé á efnistökum fjölmiðlakvenna og karla og vægi frétta eftir kyni. Þá var fjallað um leiðir til þess að efla konur til þess að koma fram sem viðmælendur fjölmiðla, byggt á fjölmiðlaverkefni Félags kvenna í atvinnulífinu og að lokum um birtingarmynd kvenna í fjölmiðlum um skilaboð til ungra kvenna í dag.

Fundarstjóri var Sigríður Dögg Auðunsdóttir, fyrrverandi ritstjóri Fréttatímans og stofnandi Inspiral.ly verkefnisins.

Í upphafi fundar ávarpaði Ingibjörg Rafnar Pétursdóttir, formaður BKR, fundargesti og fór yfir aðdraganda fundarins og kynnti samstarfsaðilana. BKR styrkti MA rannsókn um konur í fjölmiðlum árið 2013 og liggja niðurstöður þeirrar rannsóknar nú fyrir en rannsakandinn kemur m.a. inn á starfsumhverfið á RÚV og 365. Arnhildur Hálfdánardóttur var með eitt af 3 erindum fundarins en hér má finna finna ritgerð Arnhildar í heild sinni ásamt fjölmiðlaumfjöllun um niðurstöður hennar.

Arnhildur Hálfdánardóttir var með erindið „Aðengi eða áhugi? Munur á efnistökum og vægi frétta eftir karla og konur“. Markmið rannsóknarinnar var að varpa ljósi á hvort munur væri á efnistökum karla og kvenna og hvort framlag þeirra væri jafn mikils metið. Niðurstöðurnar leiddu í ljós að munur er þar á og að fréttir karla raðast frekar framarlega í fréttatímann en fréttir kvenna. Marktækur munur hafi verið á fjölmiðlinum Stöð 2 og Ríkisútvarpinu. Glærur frá erindi Arnhildar.

Næst tók til máls Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, formaður Félags kvenna í atvinnulífinu, sem kynnti fjölmiðlaverkefni félagsins. Markmið verkefnisins er að auka ásýnd kvenna í fjölmiðlum en niðurstöður mælinga Creditinfo um viðmælendur í fréttum sýna að karlar eru 70% viðmælenda í ljósvakaþáttum og í fréttum á meðan kvenkyns viðmælendur eru 30% á tímabilinu 1. febrúar 2009 til 30. ágúst 2013. Útgangspunktur fjölmiðlaverkefnis FKA er að endurspegla samfélagið og auka ásýnd kvenna í fjölmiðlum, vekja til jákvæðrar vitundar um að konur búa yfir heilmikilli þekkingu og reynslu sem hægt er að nýta í frétta- og þjóðfélagsumræðu. Með fjölbreytni í viðmælendahópi eru fjölmiðlar líklegri til að endurspegla samfélagið. Verkefnið hófst í nóvember 2013 og hefur fengið mjög góð viðbrögð. Því lýkur formlega haustið 2017. Glærur frá erindi Þórdísar Lóu.

Þórdís Lóa

Að lokum fjallaði Hildur Knútsdóttir, rithöfundur, um birtingarmyndir kvenna í fjölmiðlum og þau skilaboð sem hún les sem ung kona. Að hennar mati er efni sem sérstaklega er höfðað til kvenna grundvallað á því að þær eru neytendur og gert er ráð fyrir að þær séu ævinlega að leyta sér að nýjum leiðum til fegrunar og/eða grenningar. Oft sé talað til þeirra í boðhætti og sú mynd sem birtist af „hinni venjulegu íslensku konu“ sé mjög skökk. Mikilvægt sé að fjölmiðlar skoði hvaða birtingarmyndir kvenna þeir sýni og auka þurfi fjölbreytni til þess að endurspegla á réttari máta samfélagið og heilbrigðar fyrirmyndir fyrir bæði ungar konur og menn. Glærur frá erindi Hildar.

Hildur Knúts

PallborðsumræðurAð lokum voru pallborðsumræður þar sem fyrirlesara tóku þátt ásamt Ingibjörgu Dögg Kjartansdóttur, fyrrverandi aðstoðarritstjóra DV frá Félagi fjölmiðlakvenna; Sigríði Hagalín Björnsdóttur, varafréttastjóra RÚV og Hrund Þórsdóttur, fréttamanni á Stöð 2. Í umræðunum kom fram að fjölmiðlar eru ekki með reglubundna úttekt á viðmælendum sínum eftir kyni (þó svo að einstaka þátttastjórnendur hafi tekið það fyrirkomulag upp, t.d. Landinn) og á RÚV eru úttektir gerðar á kynjahlutfalli viðmælenda af og til. Einnig kom fram að ekki var almenn vitund um ákvæði jafnréttislaga um að fjölmiðlum bæri að skila inn skýrslum þess efnis til yfirvalda.

Almenn ánægja var með fundinn og ítrekað mikilvægi þess að halda umræðunni áfram á lofti.

Myndir frá viðburðinum má nálgast á Facebook síðu BKR

Velferðarráðuneytið veitti styrkt fyrir viðburðinum.

 

Upplýsingasíða fyrir nýjasta aðildarfélag BKR

Vekjum athygli á nýrri upplýsingasíðu hér á bkr.is um nýjasta aðildarfélag Bandalags kvenna í Reykjavík, POWERtalk International á Íslandi sem gekk til liðs við BKR fyrr á þessu ári.

Sjá nánar um þetta öfluga félag hér.

 

Verkefnastyrkir vegna 100 ára afmælis kosningaréttar kvenna

Kosningaréttur kvenna 100Nefnd um 100 ára afmæli kosningaréttar kvenna 2015 auglýsir styrki til verkefna árið 2015. Opnað verður fyrir umsóknir á þessu ári 24. október n.k.

Verkefnin þurfa að tengjast megintilgangi nefndar um 100 ára afmæli kosningaréttar kvenna:

·         að minnast afmælisins

·         að auka jafnréttis- og lýðræðisvitund þjóðarinnar

·         að blása til nýrrar sóknar í jafnréttis- og mannréttindamálum

Við það skal miðað að styrkir úr sjóðnum verði ekki til þess að lækka önnur opinber framlög við verkefnið eða draga úr stuðningi annarra við þau. Úthlutanir verða í tvennu lagi.

Opnað verður fyrir umsóknir á þessu ári 24. október n.k. og þurfa þær að hafa borist fyrir 15. nóvember til að hljóta afgreiðslu. Umsóknir um styrki á næsta ári verða auglýstar síðar og sérstaklega.

Umsóknareyðublöð verða rafræn á vefsíðu afmælis-nefndarinnar,  www.kosningarettur100ara.isVefsíðan verður opnuð 24. október.

Frekari upplýsingar veitir Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir, framkvæmdastjóri nefndar um 100 ára afmæli kosningaréttar kvenna, sími: 5630100, póstfang: arj@kosningarettur100ara.is

Opinn fundur um konur og fjölmiðla

Konur og fjölmiðlarFöstudaginn 12. september kl. 15-17 standa Bandalag kvenna í Reykjavík í samstarfi við MARK (Miðstöð margbreytileika og kynjarannsókna), HÍ námsbraut í blaða- og fréttamennsku og Félag fjölmiðlakvenna fyrir opnum fundi um hlut kvenna í fjölmiðlum. Fundurinn verður haldinn í Háskóla Íslands, Odda, stofu 101.

Velferðarráðuneytið styrkir viðburðinn.

BKR styrkti MA rannsókn um konur í fjölmiðlum árið 2013 og liggja niðurstöður þeirrar rannsóknar nú fyrir en rannsakandinn kemur m.a. inn á starfsumhverfið á RÚV og 365. Arnhildur Hálfdánardóttur verður með eitt af 3 erindum fundarins en hér má sjá umfjöllun um niðurstöður rannsóknar hennar: Umfjöllun mbl.is
Og hér má nálgast ritgerðina í heild sinni.

Dagskrá fundarins: 

  • “Aðgengi eða áhugi? Munur á efnistökum og vægi frétta eftir karla og konur.” Kynning á niðurstöðum MA rannsóknar. Arnhildur Hálfdánardóttir, MA í blaða- og fréttamennsku
  • Kynning á fjölmiðlaverkefni Félags kvenna í atvinnulífinu (FKA), Þórdís Lóa, formaður FKA
  • “Batnandi konum er best að lifa”. Upplifunarfrásögn – hvað lesa ungar konur úr skilaboðum fjölmiðla. Hildur Knútsdóttir, rithöfundur

Pallborð: Fyrirlesarar, Ingibjörg Dögg Kjartansdóttir, fyrrverandi aðstoðarritstjóri DV frá Félagi fjölmiðlakvenna, Sigríður Hagalín Björnsdóttir, varafréttastjóri RÚV og Hrund Þórsdóttir, fréttamaður á Stöð 2.

Fundarstjóri: Sigríður Dögg Auðunsdóttir, fyrrv. ritstjóri Fréttatímans og stofnandi Inspiral.ly.

Léttar veitingar í boði að fundi loknum.

Viðburðurinn á Facebook

Hlökkum til þess að sjá ykkur sem flest!

Viðtal við formann BKR hjá Sirrý á sunnudagsmorgni um börn og nútímasamfélag

Formaður BKR, Ingibjörg Rafnar Pétursdóttir, mætti í viðtal til Sirrýar á Rás 2 þann 1. júní sl. ásamt Kristínu Dýrfjörð, dósend við Háskólann á Akureyri. Umfjöllunarefnið var efni fundarins um börn og nútímasamfélag sem BKR stóð fyrir fundinum í samstarfi við fleiri aðila þann 28. maí 2014.

Umfjöllunin hefst á 129 mínútu.

Sirrý á sunnudagsmorgni

Afhending styrkja úr Starfsmenntunarsjóði ungra kvenna

Afhending styrkja úr Starfsmenntunarsjóði ungra kvenna fer fram í hátíðarsal Hallveigarstaða, Túngötu 14, fimmtudaginn 28. ágúst kl. 17:30.

BKR stofnaði starfsmenntunarsjóð ungra kvenna þann 18. mars 1995. Tilgangur sjóðsins er að hvetja og styðja við bakið á konum, sem ekki eiga kost á námslánum, til að afla sér aukinnar menntunar. Einkum eru þetta ungar einstæðar konur með börn, sem einhverra hluta vegna hafa þurft að hætta námi á sínum tíma.

Nánari upplýsingar um starfsmenntunarsjóð ungra kvenna má finna hér.

Stjórn Starfsmenntunarsjóðs ungra kvenna

Samantekt frá fundi um börn og nútímasamfélag

Bandalag kvenna í Reykjavík (BKR) stóð fyrir opnum fundi um börn og nútímasamfélag á Hótel Reykjavík Natura miðvikudaginn 28. maí 2014. Þar var til umræðu hvaða umhverfi við erum að skapa börnunum okkar, viðverutími barna hjá dagforeldrum og í leikskólum og hugmyndir um styttingu vinnudagsins sem lið í samþættingu atvinnu- og fjölskyldulífs.

MP erindiFundarstjóri var Margrét Pála Ólafsdóttir, höfundur Hjallastefnunnar, og flutti hún jafnframt opnunarávarp. Margrét Pála þakkaði BKR fyrir að taka af skarið með þarfa umfjöllun um börn og það samfélag sem við höfum byggt upp.

Að mati Margrétar Pálu hentar núverandi fyrirkomulag börnum ekki sérstaklega vel og samfélagið er ekki nægilega meðvitað um stöðuna. Margt gott er gert, þó taka mætti umræðuna með jákvæðari hætti. Börn þurfa í auknum mæli tíma foreldranna, næði og frið. Nútímasamfélag gerir miklar kröfur til barna og foreldra, ekki síst vegna aukinnar samkeppni á atvinnumarkaði og kröfur um hærra menntunarstig sem leiðir til þess að samhliða fullu starfi eru foreldrar oft í námi. Auk þessa eru kröfur um metnaðarfullan starfsferil, fallegt heimili, frábært félagslíf og lífsgæði sem fela í sér utanlandsferðir og fleira. Margrét Pála spurði hvað þetta þýði fyrir börnin.

Hið nýja gull Vesturlanda sé tíminn – allir keppast um tímann. Börn sem fá allar heimsins gjafir og efnalega velsæld fá oft minnst af þessari gjöf frá fjölskyldunni; tíma, næði og frið.

„Sparsemi í umönnun ungra barna kann að líta vel út í excel skjali en það er einungis vegna þess að dæmið sé ekki reiknað til enda.“

Að loknu opnunarávarpinu fjallaði Sæunn Kjartansdóttir, sálgreinir og höfundur bókarinnar Árin sem enginn man, um kröfur samfélagsins til ungra barna. Sæunn þakkaði BKR fyrir að opna á mjög svo tímabæra umræðu um börn í nútímasamfélagi en að mati Sæunnar höfum við í langan tíma veigrað okkur við að ræða hlutskipti ungra barna. Ástæður þessa taldi Sæunn vera að við viljum forðast bakslag í jafnréttisbaráttunni, viljum ekki vekja sektarkennd hjá foreldrum og í þriðja lagi viljum við sem minnst vesen. Þetta hefur valdið tregðu til þess að horfa á þarfir barna og að leita nýrra leiða til þess að mæta þeim.

Hún vakti máls á því að samfélagið telji lausnina vera þá að byggja nógu marga leikskóla með sem yngstum börnum, til þess að foreldrarnir geti unnið sem mest og áhyggjulaus sinnt öðrum hugðarefnum.

Sæunn hefur sérstaklega sinnt málefnum yngstu barnanna og fjölskyldum þeirra. Í erindi Sæunnar kom fram að hún hefur efasemdir um ungbarnaleikskóla. Hugmyndin þar að baki sé ekki slæm en við höfum ekki sýnt fram á getu okkar til þess að skapa innan leikskólanna „barnsæmandi“ skilyrði.

Í erindi sínu fjallaði Sæunn um þroska heilans, tilfinningaþroska ungra barna, og mikilvægi tilfinningalegra tengsla og ánægjulegra samskipta við umsjónaraðila. Þá hafi langvarandi aðstæður sem skapa streitu hjá ungum börnum áhrif á ónæmiskerfi þeirra og sé barn í viðvarandi aðstæðum sem veldur hræðslu eða kvíða geti það valdið skorti á einbeitingu og aukinni hættu á streitutengdum sjúkdómum, kvíða og þunglyndi, á seinni aldursskeiðum. Það er streituvaldandi fyrir börn að þeim sé ætlaður meiri þroski en þau standa undir – felur í sér að við gerum til þeirra kröfur sem þau ráða ekki við.

Í samræðum við leikskólakennara undanfarin ár hefur Sæunn orðið vör við þungar áhyggjur þeirra af þróun leikskóla – börnin séu of ung og of mörg, þau dvelja í leikskólunum með of fáu starfsfólki, sem margt hvert vantar fagþekkingu og staldrar stutt við.

Foreldrar og samfélagið þarf að horfast í augu við þá staðreynd að það þarf að sinna börnum og það tekur tíma. Að öllu jöfnu eru foreldrar best til þess fallnir og því mikilvægara að lengja fæðingarorlofið heldur en að fjölga plássum á ungbarnaleikskólum. Einnig þurfa foreldrar að vera meðvitaðir um þarfir barna sinna þegar þau forgangsraða tíma sínum. Það þurfi að gera foreldrum kleift að skoða hvað hentar hverju og einu barni og hvað henti þeim sem fjölskyldu.

„Góðærið fór illa með leikskólann og kreppan gerði það líka“

Kristín Dýrfjörð, dósent við Háskólann á Akureyri, ræddi áhrif ytra umhverfis leikskólans á veruleika barna og hvernig leikskólarnir hafa verið að þróast kerfislega síðustu ár.

Í erindi Kristínar kom fram mat hennar að leikskólar séu góðir fyrir börn ef vel er að honum staðið. M.a. þurfi að huga að fermetrafjölda á barn og fjölda barna á starfsmann. Í umræðum um aðbúnað barna er sjaldan rætt um að láta börnin njóta vafans né séu nauðsynlegar rannsóknir gerðar á umhverfi þeirra og niðurstöður þeirra látnar ráða för.

Kristín benti á að stærsta breytingin inni á leikskólunum á undanförnum árum hafi átt sér stað hjá eins og tveggja ára börnum, en þeim hefur fjölgað mikið og hratt á leikskólum síðastliðin ár. Þá fái leikskólabörn í dag minna pláss í fermetrum talið en fyrir rúmum tveimur áratugum. Húsnæði margra leikskóla hafi ekkert breyst eða stækkað en samt hefur plássunum fjölgað gríðarlega. Eftir að ný lög um leikskóla voru sett árið 2008 er hvorki hámark barnafjölda á starfsmann né lágmarksfjöldi fermetra í gildi á Íslandi. Kristín telur að okkur hefur farið aftur og það á kostnað barnanna. Vinnuaðstæður margra kennara séu í dag óviðunandi og meðal annars hafi dregið úr afleysingum eftir hrun.

Kristín fjallaði um að í dag greiði foreldrar að jafnaði 20% raunkostnaðar og hefur hún talað fyrir hugmyndum um að fyrstu 6 tímar barns í leikskóla séu gerðir gjaldfrjálsir en foreldrar greiði fyrir tímana sem þeir þurfi aukreitis, þe. 7., 8. og 9. tímann.

Ágreiningur um áherslur og leiðir

Gunnar Örn Gunnarsson, framkvæmdastjóri SLFÍ og fulltrúi BSRB í vinnuhópi velferðarráðuneytisins um samræmingu fjölskyldulífs og atvinnu, fjallaði um niðurstöður vinnuhópsins sem skilað var fyrri hluta árs 2013.

Vinnuhópurinn taldi að könnun á hagkvæmni þess að stytta vinnuvikuna félli ekki vel að öðrum verkefnum hópsins. Vinnuhópurinn taldi málið þarfnast sérstakrar rannsóknar og dýpri umræðu á öðrum vettvangi, m.a. vegna þess að stytting vinnuvikunnar tengist kjarasamningum á almennum og opinberum vinnumarkaði. Lagt var til að skipuð yrði sérstök nefnd sem eingöngu hefði það verkefni að fjalla um styttingu vinnuvikunnar. Þessi nefnd hefur ekki enn verið skipuð.

Vaktavinnustéttir, t.d. innan BSRB, lögðu í nýlegum kjarasamningum áherslu á styttingu vinnudagsins en sú hugmynd fékk ekki hljómgrunn. Að loknum samningnum er sú hugmynd hvergi á blaði. Kennarar fárra stétta hafa haft sveigjanlegan vinnutíma, en hafa verið að semja þau réttindi af sér jafnt og þétt.

Gunnar nefndi nokkrar mögulegar leiðir til bóta til að auðvelda samþættingu atvinnu og fjölskyldulífs, þ.á.m. styttingu vinnuvikunnar, sveigjanlegan vinnutíma, breytt viðhorf gagnvart löngum viðverutíma á vinnustað, og mannsæmandi laun fyrir dagvinnu.

Af hverju eiga börnin og leikskólarnir alltaf að koma til móts við atvinnulífið – er ekki kominn tími til að atvinnulífið komi til móts við þarfir barnanna og barnafjölskyldna?

Að loknum voru pallborðsumræður þar sem Hrefna Sigurjónsdóttir, framkvæmdastjóri Heimilis og skóla – landssamtaka foreldra, og Sveinn S. Kjartansson, formaður Félags foreldra leikskólabarna, tóku þátt. Áhersla var lögð á að efla þurfi umræðuna um velferð ungra barna og þann raunveruleika sem ríkir innan leikskólanna.

Áhyggjur voru af lengdum viðverutími barna í leikskólum og fjölgun barna sem eru upp í 9 tíma í leikskóla á dag. Breyta þurfi viðhorfinu að leikskólinn eigi ávallt að koma til móts við þarfir foreldranna og atvinnulífið og að tími sé kominn til þess að atvinnulífið komi til móts við þarfir barna og barnafjölskyldna.

Myndir frá viðburðinum má nálgast á Facebook síðu BKR.

Auglýst eftir umsóknum um styrki til Starfsmenntunarsjóðs ungra kvenna, 2014-2015

Bandalag kvenna í Reykjavík auglýsir eftir umsóknum um styrki til Starfsmenntunarsjóðs ungra kvenna fyrir skólaárið 2014-2015.

Tilgangur sjóðsins er að hvetja og styðja við bakið á ungum konum í Reykjavík, sem ekki eiga kost á námslánum, til að afla sér aukinnar menntunar.

Umsóknareyðublað, úthlutunarreglur og allar nánari upplýsingar má nálgast hér.

Einnig má nálgast umsóknareyðublöð í versluninni Thorvaldsensbasarinn, Austurstræti 4, alla virka daga milli kl. 14:00 og 18:00.

Fyrirspurnir og upplýsingar má senda á netfang bandalagsins: bandalagkvennarvk@gmail.com

Umsóknir um styrki skal senda til Bandalags kvenna í Reykjavík, Túngötu 14, 101 Reykjavík, merktar „Námsstyrkir‟. Umsóknarfrestur er til 19. júní næstkomandi.

Morgunfundur um börn og nútímasamfélag, miðvikudaginn 28. maí

Opinn fundur um börn og nútímasamfélagBKR í samstarfi við velferðarráðuneytið stendur fyrir opnum fundi um börn og nútímasamfélag. Fjallað verður um hvaða umhverfi við erum að skapa börnunum okkar, dagvistunarmál og samþættingu atvinnu- og fjölskyldulífs. Ókeypis aðgangur og allir velkomnir.

Fundurinn er haldinn á Hótel Reykjavík Natura, Þingsal 2 kl. 08.30-10:00. Sjá dagskrá hér fyrir neðan.

Tölur Hagstofunnar sýna að dagvistunartími barna hefur lengst töluvert frá árinu 1998 og hefur fjöldi þeirra barna sem dvelja á leikskólum í 7-10 klst á dag margfaldast frá þeim tíma. Áhugavert er að varpa ljósi á þessa þróun og velta fyrir sér hvaða ástæður liggja að baki, m.a. í samhengi við vinnutíma foreldra og hvaða sveigjanleika fjölskyldum er veitt í atvinnulífinu.

Hefur efnahagshrunið haft áhrif á fjölskyldumynstrið? Nýlegar rannsóknir sýna að ungum konum fannst erfiðara árið 2012 að samræma fjölskyldu- og atvinnulíf í samanburði við árið 2007.

Leikskólar og dagvistun barna tengist nokkrum markmiðum sem þurfa að fara saman, m.a. menntamálum og að auðvelda foreldrum að sinna atvinnu samhliða því að veita börnunum öruggt umhverfi, nálægð og nauðsynlega umönnun. Á Íslandi vinna flestir foreldrar fulla dagvinnu og margir hverjir töluverða yfirvinnu. Spyrja má hvort atvinnulífið veiti foreldrum nauðsynlegt svigrúm til þess að hugsa um fjölskylduna (börn, veika eða aldraða ættingja), þ.e. er lögð fullnægjandi áhersla á samþættingu atvinnu- og fjölskyldulífs í dag? Hvaða hugmyndir eru að baki umræðunni um styttingu vinnudagsins og hverjar voru niðurstöður starfshóps velferðarráðuneytisins um samræmingu fjölskyldulífs og atvinnu sem skilaði greinargerð sinni í apríl 2013?

Dagskrá:

Fundarstjóri: Margrét Pála Ólafsdóttir, höfundur Hjallastefnunnar
08:30Inngangsorð: Börn þurfa betri heim – Margrét Pála Ólafsdóttir, fundarstjóri
08:40 – Kröfur samfélagsins til ungra barna –  Sæunn Kjartansdóttir, sálgreinir, Miðstöð foreldra og barna og höfundur bókarinnar Árin sem enginn man
09:00Áhrif ytra umhverfis leikskólans á veruleika barna innan hans – Kristín Dýrfjörð, dósent við Háskólann á Akureyri
09:20Samræming fjölskyldulífs og atvinnu og stytting vinnudagsins – Gunnar Örn Gunnarsson, framkvæmdastjóri SLFÍ og fulltrúi BSRB í vinnuhópi velferðarráðuneytisins um samræmingu fjölskyldulífs og atvinnu

09:30 – 10:00 – Pallborðsumræður
Í pallborðsumræðunum sitja ásamt fyrirlesurum Hrefna Sigurjónsdóttir, framkvæmdastjóri Heimilis og skóla – Landssamtök foreldra, og Sveinn S. Kjartansson, formaður Félags foreldra leikskólabarna.

Ókeypis aðgangur – kaffi/te og léttar veitingar.

Dagskrá fundarins var undirbúin í samstarfi við Miðstöð foreldra og barna, Heimili og skóli – landssamtök foreldra, Félag dagforeldra, Félag foreldra leikskólabarna og Félag leikskólakennara. Fundurinn er styrktur af velferðarráðuneytinu.

Vonumst til þess að sjá ykkur sem flest!

Viðburðurinn á Facebook